21.7.09

Hjóladagar

Um helgina fara fram hjóladagar á Akureyri þar sem mótorhjólamenn víðast hvar af landinu koma saman og gera sér dagamun. Þetta er fjórða árið sem hátíðin fer fram og er hún haldin á vegum Mótorhjólasafns Íslands. Hátíðin verður sett annað kvöld, föstudag, þar sem m.a. verður grillað og haldnir styrktartónleikar í Sjallanum. 
„Þessi hátíð er fyrir alla bæjarbúa," segir Jóhann Freyr Jónsson, safnstjóri hjá Mótorhjólasafni Íslands. „Við verðum á plani ÚA á laugardeginum þar sem verður ýmislegt í boði, m.a. hoppuskastalar fyrir börnin, kaffisala og allskonar grín og glens. Svo verða væntanlega einhverjir hjólatúrar inn á milli."

Jóhann segist ekki vita hversu von sé á mörgum gestum í ár sökum slæmrar veðurspár fyrir helgina. „Þetta var vel sótt í fyrra en er svolítið óráðið núna vegna þess að veðurspáin er ekkert alltof hagstæð fyrir okkur." Dagskránni lýkur svo með hátíðarkvöldverði í Sjallanum að kvöld laugardags þar sem Sniglabandið leikur fyrir dansi fram eftir nóttu.