2.5.09

Öll fjölskyldan á mótorhjólum


Hjónin Sigurlaug Jónasdóttir og Torfi Hjálmarsson búa við þann lúxus að þurfa aldrei að glíma við unglingana sína um það hvað eigi að geraí sumarfríinu. Öll fjölskyldan er á kafi í mótorsporti og þegar frítími gefst eru allir sammála um hvernig er best að eyða honum:
Á hjólunum úti í sveit.

Um það leyti er vinir systkinanna á Kambsvegi 32 voru að læra að hjóla án hjálpardekkjanna voru
þau farin að bruna um á litlu mótorhjóli. Öll hafa þau lært taktana á sömu litlu Hondunni sem var
keypt fyrir elsta drenginn þegar hann var fimm ára. Þá var áhugi hans reyndar kviknaður fyrir löngu. „Torfi var búinn að kaupa sér fyrsta hjólið þegar Freyr var tveggja ára. Á þeim tíma bjuggum við á Ítalíu þar sem mótorhjól eru á hverju götuhorni. Freyr skreið upp á hvert einasta hjól sem hann sá og fékk að prófa,“ segir mótorhjólamamman Sigurlaug. Þann titil ber hún vel, enda er hún enginn eftirbátur annarra fjölskyldumeðlima þegar kemur að hjólunum. Á sumrin sést hún bruna um götur Reykjavíkur á Ducati-götuhjóli og hún er stuðningsmaður sonar síns númer eitt þegar hann er að  keppa í mótorkrossi. Eiginmaðurinn á heimilinu er sennilega sá forfallnasti af þeim öllum og á bæði götu- og torfæruhjól af öllum toga.

 Keppir á alþjóðamótum 

Áhugi Freys á mótorhjólum hefur síst minnkað með árunum og í dag eiga þau hug hans allan. Hann keppir í mótorkrossi fyrir Kawasaki-liðið og Bílanaust er stuðningsaðili þess. Hann hefur  hampað Íslandsmeistaratitli tvisvar og keppt á alþjóðamótum. Freyr segir mótorkrossið, sem fer fram í stuttri hringlaga braut með stökkpöllum og kröppum beygjum, bæði ótrúlega  skemmtilegt og reyna verulega á úthald og styrk. „Þetta er svolítið „hardcore“, maður fær drullu upp í sig og getur ekki andað í tuttugu mínútur á meðan maður er að klára brautina.“ Blaðamanni finnst lýsingin hljóma heldur ógnvekjandi. Þegar Freyr lýsir því hvernig þrjátíu manns mætast í einni beygju á ógnarhraða segir mamman: „Það er sko langmest spennandi!“ Það er ekki á henni að heyra að hún óttist um krakkana sína í brautunum. „Þau eru svo vel varin, með hálskraga, nýrnabelti og allan mögulegan búnað. Það er ekki startað nema allt sé örugglega í lagi. En æsingurinn verður samt stundum svo yfirþyrmandi að ég verð örmagna af spennu. Þá þarf ég skyndilega að sýsla eitthvað annað, eins og að hella upp á kaffi.”

Endúró frekar en mótorkross

Systurnar Sigrún og Sólveig, fjórtán og tíu ára, eru fullar stolts yfir afrekum bróður síns. Þær eru þó
líka á kafi í sportinu og eiga báðar sín eigin hjól. „Mér finnst endúró langskemmtilegast,“ segir Sigrún. Það snýst um að keyra á löngum og þröngum slóðum sem lagðir eru í náttúrulegu umhverfi. „Mér finnst nefnilega skemmtilegra að keyra í náttúrunni en á brautum. Og ég hef heldur engan sérstakan áhuga á að keppa.“ Yngri systur hennar, Sólveigu, finnst hvort tveggja jafn skemmtilegt. Henni finnst gaman að keyra í brautum og er að melta það með sjálfri sér að keppa þegar hún verður
eldri. Og hún verður ekkert bara að keppa við stráka, enda margar stelpur farnar að stunda sportið.
„Í dag eru um þrjátíu stelpur að keppa. Sumar þeirra eru orðnar svo góðar að maður sér ekki mun á þeim og strákunum,“ segir Sigurlaug. Þegar fjölskyldan byrjaði í mótor sportinu voru ekki margir
sem deildu áhuga hennar. Í dag hefur það heldur betur breyst og hjóla nú í kringum þrjú þúsund
manns í frístundum. Í takt við aukinn fjölda iðkenda hefur aðstaðan snarbatnað og er fjölda góðra
brauta að finna víða um land.

Besta fjölskyldusportið

Sumir foreldrar súpa hveljur við tilhugsunina um barnið sitt keyrandi um á mótorhjóli. En ekki þau
Sigurlaug og Torfi, sem segja mótorkrossið með betra fjölskyldusporti sem völ er á. „Þessu fylgja svo margir góðir kostir. Við erum til dæmis saman langflestar helgar á sumrin, keyrum um landið og leitum uppi gamla slóða eftir bændur og búalið,“ segir Sigurlaug og bætir við að að sjálfsögðu sé þess gætt að fara aldrei utan vega þar sem ekki má hjóla. „Verslunarmannahelgin er ekkert vandamál hjá okkar unglingum, við höfum eytt þeirri helgi saman á mótorkrossmótum alla þeirra ævi.“
Systkinin eru öll staðráðin í því að þegar þau eignast sjálf sína eigin fjölskyldu verði mótorkrossið áfram þeirra fjölskyldusport. „Ég myndi miklu frekar setja barnið mitt á mótorhjól, þar sem það er vel varið og fylgst með því, heldur en að hleypa því út á götu í Reykjavík á hjólinu sínu með ekkert nema hjálm á hausnum,“ segir Freyr að lokum, áður en hann rýkur út á æfingu. - hhs
Fréttablaðið 20.05.2009