14.5.13

Með fjandann í fingrunum


   Ökuþórinn Friðjón Veigar Gunnarsson 



Friðjón Veigar Gunnarsson eða Fíi eins og hann er kallaður af vinum sínum er listamaður af nýju kynslóðinni. Hans pensill er lítil sprautubyssa sem í daglegu tali kallast airbrush út af því að það er ekki til gott íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri. Pappírinn er hins vegar frekar óvenjulegur hverju sinni,
en það eru bílar og mótorhjól og þá venjulega ekki af verri endanum. Friðjón hefur verið að sprauta fyrir þónokkra hérna heima en ekki síður erlendis og hefur farið þónokkrum sinnum á síðustu tveimur árum til Skandinavíu að sprauta. Hann er á leiðinni út aftur næsta föstudag og bílablaðið heyrði aðeins í honum vegna þess.


Vinsæll í verkefni á Vestur-Jótlandi 


„Ég er að fara til Varde sem er á VesturJótlandi að mála flotta bíla og mótorhjól. Þetta hafa mest verið mótorhjólaverkefni en síðast þegar ég var þarna málaði ég górillu aftan á bíl sem tilheyrði vinsælli vefsíðu. Í framhaldinu fer ég á NorðurJótland þar sem ég á að mála bíl og tvö mótorhjól en það er hjá aðila sem ég vann hjá þegar ég bjó þarna úti. Ég er búinn að fara nokkrum sinnum þarna út, fór tvisvar í fyrra og málaði sjö hjól í fyrra skiptið. Í seinna skiptið tók ég þátt í Mosten Raceday en þar vorum við þrír málarar með tjald og vorum að sprauta allan tímann. Ég
tók þátt í keppni í hittifyrra í Kaupmannahöfn sem endaði einmitt með því að ég fékk hringingu frá þeim í Varde um að koma og vinna nokkur verkefni fyrir þá.“ Friðjón Veigar hefur mest lært af sjálfum sér þegar kemur að sprautuninni en hann tók þó eitt námskeið hjá Craig Fraiser þegar hann kom hingað fyrst. Fraiser hefur haldið fjögur námskeið hérlendis, en hann kom hingað fyrst 2008.
„Ég hef haft nóg af krefjandi verkefnum sem hafa neytt mann til að gera prófanir og að kafa ofan í hlutina. Það eru margir sem eru að sprauta bara út af því að þeir hafa gaman af því. Það eru samt ekki
margir sem gefa sig út í þetta hérlendis en þetta er að verða vinsælt eins og tattúið. Þetta er reyndar ekki eins endanlegt og tattúið en ég hef verið að fikta aðeins við það líka. Menn eru að mála allt frá einföldum hauskúpum upp í myndir sem eru eins og ljósmyndir með réttu tækninni. Þú þarft bara að kunna að teikna og skyggja og restin er að læra handbragðið og trikkin.“

Langar í snargeðveikt mótorhjól 

Þegar Friðjón var spurður út í draumaverkefnið var svarið fljótt að koma. „Það væri eitthvert snargeðveikt og risastórt, sérsmíðað mótorhjól sem ég fengi að mála nákvæmlega eins og ég myndi vilja það. Mér finnst mest gaman að vinna með mótorhjólin þótt það væri auðvitað gaman að fá að gera einn Pick-up eða trukk. Mótorhjólin bjóða upp á miklu fínni myndir því maður sér ekki heilu bílana sem eru málaðir eins og hjólin eru máluð. Maður getur opnað flóðgáttir illskunnar á þau ef svo
má segja. Sumir nota litla myndvarpa til að kasta mynd á hjólið til að mála eftir en ég vil heldur gera sem mest fríhendis, það er mikið skemmtilegra,“ segir Friðjón. Hann hefur úr mörgum verkefnum að velja á næstunni hérlendis og er meðal annars að fara að mála vélarhlíf á flottum TransAm. „Ég er að vinna í geðveikum Kaffireiser og einnig skilrúm í kaffihús og var að klára einn mótorhjólahjálm þannig að verkefnin eru fjölbreytt. Annars er ég búinn að vera í fæðingarorlofi í vetur og hef ekki náð að sinna máluninni sem slíkri í nokkra mánuði,“ segir Friðjón sem er með Fésbókarsíðu sem heitir  Fjandinn, airbrush og tattoo.

14.05.2013
njall@mbl.is

13.5.13

Xavier á sigló



Þegar ég keyrði niður aðalgötuna á þriðjudaginn síðasta(semsagt 7. maí) sá ég mótorhjól fyrir utan gistiheimilið Hvanneyri. Það var svolítið sérstakt að sjá mótorhjól á þessum tíma(hjól sem ég vissi að var alveg pottþétt túristahjól).


Sá sem á hjólið heitir Xavier De Somer. Hann er á hringferð um Ísland. Og á mótorhjóli!! Þetta er æðislegt. Mig langar í svona hjól.

Daginn áður en ég hitti hann, semsagt á mánudaginn, sama dag og hann kom til Siglufjarðar var alveg hin sæmilegasta hríð og hin albezta snjóblinda. Þetta er sko alvöru sagði hann. Að vera að djöflast á mótorhjóli svona yfir háveturinn og það á Siglufirði.

Xavier er frá Belgíu og er búin að keyra um fleiri lönd á mótorhjólinu. Hjólið er KTM og er hann alveg í skýjunum með það. Hann sagði að það væri mjög gott í snjó(reyndar hló hann á eftir).

Ég fékk að taka nokkrar myndir hjá honum og svo fékk ég líka leyfi til að setja myndbönd sem hann hefur sett á youtube inn á vefinn hjá okkur. Góða skemmtun.
Myndband.
Reykjavík - Akureyri
http://www.youtube.com/watch?v=V42JI299XWw

Myndband
Ferð sem hann fór í til Marakkó.
http://www.youtube.com/watch?v=9aOoNTrlNDY










http://www.siglo.is/ 2013

11.5.13

Lúta eigin lögmálum

FÁKURINN PRJÓNAR
Hank, vinur Spessa og velgjörðarmaður.
Mótorhjólakappar í Kansas eru viðfangsefni ljósmyndarans Spessa á sýningunni Nafnlaus hestur. Spessi bjó í tæpt ár í Manhattan í Kansas og upplifði af eigin raun þá sérstæðu menningu sem mótorhjólunum fylgir.

Það er mikið um að vera í Frystihúsinu við Hafnarbraut þessa dagana. Þar býr og starfar ljósmyndarinn Spessi, sem á Listahátíð mun sýna í Ljósmyndasafninu myndir sem hann tók af mótorhjólaköppum í Kansas í Bandaríkjunum. Heiðurssess í vinnustofunni skipar veglegt mótorhjól sérsmíðað fyrir Spessa en auk þess eru þar annað mótorhjól, nokkur reiðhjól, staflar af myndum og hundurinn Fidel sem Saga, dóttirin á heimilinu, tilkynnir mér að sé orðinn þrettán ára.
EITT SINN BÆKER–
ÁVALLT BÆKER
Jesse James, mótorhjólasmiður í Salina.
En hvernig vildi það til að fjölskyldan flutti til Kansas í heilt ár? „Við Bergsteinn Björgúlfsson erum að vinna heimildarmynd um mótorhjólamenningu í Bandaríkjunum og þótt ég hafi verið þar töluvert fannst mér einhvern veginn að ég þyrfti að búa þar um tíma til að komast almennilega inn í þetta. Ég lét smíða fyrir mig mótor hjól í Las Vegas 2008 og geymdi það í Memphis, þannig að ég hef verið að fara þangað yfir veturinn og viðra mig aðeins en gat aldrei stoppað nógu lengi. Til þess að fá landvistarleyfi lengur en þrjá mánuði ákváðum við að Áróra konan mín, sem var í listfræði í háskólanum hérna, færi í skiptinám einhvers staðar í BNA. Hún gat ekkert valið hvert hún myndi fara og við urðum dálítið hissa þegar við fengum staðfestingu á að við værum að fara til Kansas. Okkur fannst það samt dálítið spennandi og ákváðum að láta slag standa og drífa okkur. Sem betur fer, því þetta var akkúrat staðurinn sem mig vantaði. Þetta er það sem maður sér fyrir sér þegar maður hugsar um Ameríku.“

Kúrekar á vélfákum


NAFNLAUSI HESTURINN HVÍLDUR
Spessi lét sérsmíða hjólið í Las Vegas
og tók með sér til Kansas. MYND/HENRY
 Ekki hafði fjölskyldan verið lengi á staðnum þegar Spessi fór á stjá og leitaði að mótorhjólaköppum. „Af því að hjólið mitt er sérsmíðað var smá vesen að fá það skráð, það vantar á það stefnuljós og hraðamæli og svona. Þá var mér bent á strák sem byggi í næsta bæ, 40 mílur í burtu. Ég mæti á staðinn, fer inn á kaffihúsið, hitti þar konu og spyr hana um mótorhjólaverkstæði Hanks. Þá kemur í ljós að hann er maðurinn hennar og verkstæðið er bara beint á móti kaffihúsinu. Við náðum strax vel saman, töluðum sama tungumálið, mótorhjólatungumálið, og hann bara tók mig upp á sína arma. Kynnti mig fyrir hinum mótorhjólagæjunum, enda ekki langt fyrir hann að fara til þess. Pabbi hans, sem er að verða sjötugur, er bæker og sömuleiðis allir vinir hans og þeir bara tóku mig inn í grúppuna eins og ekkert væri eðlilegra.“ Hvað er svona sérstakt við þessa menningu? „Þetta er svolítið eins og þjóðflokkur þannig að þetta var eiginlega etnógrafísk rannsókn líka. Það er talið að þetta hafi byrjað upp úr stríðinu þegar hermennirnir sem höfðu barist í seinni heimsstyrjöldinni komu heim og áttu erfitt með að aðlagast venjubundnu lífi. Það eru her hjól úti um allt sem hægt er að fá fyrir lítinn pening og hermennirnir fara að mynda klíkur sem fara um á mótorhjólum dálítið eins og kúrekarnir gerðu í villta vestrinu. Þetta er alveg sama stemningin.“

Snýst um frelsi


KOMINN HEIM Jackie er reyndar
 hermaður, en byssur eru
almenningseign í Kansas
.
 Hvað með lífstílinn sem goðsögnin segir að fylgi mótorhjólaköppunum, er þetta villt líf? „Alls ekki. Í Kansas er þetta bara eðlilegur hluti af tilverunni, ómengað af einhverju hipsterdóti. Þetta eru bara venjulegir menn sem fara um á mótorhjólum. Það er samt auðvitað hluti af menningunni að setja sínar eigin reglur og vera á móti yfirvaldi. Það er arfleifðin frá fyrstu mótorhjólaklíkunum. Þetta snýst um frelsi, það er ekki til meiri frelsistilfinning en að vera á fleygiferð á mótorhjóli eftir veginum, algjörlega sinn eigin herra. Það jafnast ekkert á við það.“ Þótt Spessi sé fluttur heim hefur hann engan veginn sagt skilið við Ameríku. Planið er að hefja tökur á heimildarmyndinni í febrúar á næsta ári og þá ætlar hann að hjóla frá New York til Hollister og rekja sögu mótorhjólamenningarinnar aftur á bak. Áætluð frumsýning er svo 2015. Þangað til er hægt að ylja sér við myndirnar á Ljósmyndasafninu, en sýningin verður opin fram í ágúst




Fréttablaðið 
11.5.2013

3.5.13

Smaladrengir færa Maddömum peningagjöf


Vélhjólafélagið Smaladrengir í Skagafirði og tóku stuttan rúnt um Sauðárkrók á sumardaginn fyrsta og lögðu hjólum sínum við Maddömukot. Samkvæmt heimasíðu drengjanna færðu þeir Maddömunum peningagjöf að upphæð 50.000 kr. og innrammað skjal því til staðfestingar.

„Vil ég sérstaklega þakka þeim sem létu sig hafa það að koma í frekar óskemmtilegu veðri og vera með,“ segir á heimasíðunni en í gengið sem hjólaði um göturnar samanstóð af sjö mótorhjólum og einu fjórhjóli.


Feykir.is  2013

2.5.13

Aðalfundur Tíunnar / Dansiball / Hjólamessa /

Góðan daginn


Við viljum bara minna á að aðalfundur Tíunnar verður haldinn laugardaginn 11. maí næstkomandi á Sportvitanum og hefst fundurinn klukkan 14. Eftir fundinn förum við svo í hópakstur um bæinn og minnum fólk á að hjólin eru komin á götuna.
Í ár er kosið um fjögur sæti í stjórn Tíunnar. Þeir sem hafa áhuga á að starfa í stjórn Tíunnar er bent á að senda inn framboð sitt á tian@tian.is eða hringja í síma 869-3332 (Óli Pálmi). Einungis greiddir meðlimir geta kosið í stjórnarkjörinu, en greiðsluseðlar fyrir félagsgjaldinu hafa verið sendir út og í heimabanka (ætti að koma undir valgreiðslur í heimabankanum).

Á laugardagskvöldinu ætlum við síðan að starta hjólasumrinu með því að skemmta okkur saman á Sportvitanum. Á dagskránni er meðal annars uppistand þar sem Sigurvin Fíllinn Jónsson mun skemmta, og trúbador leikur nokkur vel valin lög. Húsið opnar klukkan 22 og reiknum við með að hefja skemmtunina um hálftíma síðar, eða klukkan 22:30. Miðaverð er kr 1500 sem greiðist við innganginn (við tökum ekki kort).

Hjólamessa verður síðan haldin í Akureyrarkirkju sunnudaginn 26. maí klukkan 11. Mætum á hjólunum (amk þeir sem hafa ekki tekið of hraustlega á því kvöldið áður) og hlustum á skemmtilega tónlist :-)

Góðar stundir

30.4.13

Minnaprófið stækkar

Í sumum tilvikum er Harley Davidson 883
 skráð minna en 47 hestöfl en samkvæmt
hestaflabekksmælingu er það 46,6 hestöfl.
 Taka skal fram að vissara er að skoða
skráningarskírteini í vafatilfellum.

Breytingar á mótorhjólaprófum skv. ESB

Hinn 19. janúar síðastliðinn tók gildi ný reglugerð sem byggist á þriðju ökuréttindalöggjöf Evrópusambandsins. Breytingar þessar eru gerðar til að samræma ökupróf í allri Evrópu til að tryggja frjálsan flutning og akstur milli landa og gerir ökuskírteini úr einu landi ESB eða EES gild í öllum öðrum löndum þess. Breytingarnar eru mestar í flokki mótorhjóla en þar er kominn nýr flokkur sem kallast A2 og tekur hann við af flokki sem hét lítið mótorhjól áður og miðaðist við 34 hestöfl (25 kW).

Hámarksaflið 47 hestöfl 

Hér er rétt að útskýra þennan flokk aðeins betur því að hann veldur talsverðum ruglingi og skoða hvaða hjól falla í þennan nýja flokk, en hann er nú miðaður við 47 hestöfl (35 kW) sem er töluverð breyting. Eins og sjá má af töflunni er hámarksafl mótorhjóla í A2-flokki nú komið í 47 hestöfl en sum mótorhjól má fá með svokölluðu innsigli til að ná niður afli í þetta tiltekna hámark. Þó má ekki samkvæmt löggjöfinni minnka afl hjóls í þessum flokki um meira en helming, þannig að 100 hestafla hjól getur ekki fengið innsigli og farið í 47 hestöfl sem dæmi. Til að átta sig betur á þessu hefur bílablaðið sett saman stuttan lista með hjólum sem falla undir þennan flokk og inniheldur hann einnig hjól sem eru með löglegu innsigli samkvæmt þessum A2-flokki. Aðeins er minnst á þau hjól sem eru annaðhvort seld á Íslandi eða hafa komið hingað á undanförnum árum.

Falla í A2-flokkinn

 Þegar þessar tölur eru skoðaðar er auðvelt að sjá að nokkuð mörg mótorhjól sem áður voru flokkuð sem stór mótorhjól falla í A2-flokkinn. Önnur breyting á réttindaflokkunum er sú að núna má taka réttindi í A2-flokk á hvaða aldri sem er svo lengi sem viðkomandi hefur náð 19 ára aldri. Þetta þýðir að einhver sem telur að hjól eins og ofangreind dugi sér þarf þá ekki að taka full réttindi strax og getur einfaldlega valið að taka þennan flokk fyrst. Mun það eflaust henta mörgum að taka próf í þessum flokki þar sem kennsluhjól í honum geta verið talsvert minni en fyrir full réttindi.
njall@mbl.is
MORGUNBLAÐIÐ
 30.4.2013

23.4.13

HONDA MÓTORHJÓL – GÆÐI OG GOTT VERÐ

Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard


Bernhard í Vatnagörðum 24-26 hefur flutt inn Honda-mótorhjól í hálfa öld. Honda er þekkt fyrir gæðiog góða endingu. Mótorhjólamenning Íslendinga hefur þroskast mikið undanfarin ár.

Í fyrra voru fimmtíu ár síðan Bernhard hóf innflutning á Honda-mótorhjólum og því óhætt að segja að innanhúss sé að finna mikla þekkingu á merkinu. „Við erum með afar breiða línu af Honda-mótorhjólum. Allt frá fimmtíu kúbika torfæruhjólum fyrir sex ára krakka og upp úr,“ segir Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard. Hann segir mótorhjólamenningu Íslendinga hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum. „Þetta hefur breyst úr því að vera helgaráhugamál hjá þröngum hópi í að hjól eru notuð sem alhliða ferðatæki í vinnu, leik og ferðamennsku.“
Hlynur segir vinsælustu hjólin í dag vera ferðahjól. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn eftir hjólum sem eru bæði fyrir malbik og malarvegi og sem komast út fyrir hefðbundna vegi,“ útskýrir hann og bendir á að Bernhard bjóði upp á breiða línu í ferðahjólum enda algengt að pör stundi  hjólaferðamennsku saman og jafnvel heilu fjölskyldurnar líka

Hjól við allra hæfi

Hlynur segir helstu kosti Honda-bifhjólanna vera gæði og gott verð. „Honda er einn stærsti vélaframleiðandi í heimi og gæðin eru því í góðu lagi. Þá leggjum við hjá Bernhard mikinn metnað í að bjóða gott verð og mikið úrval af hjólum,“ upplýsir Hlynur. Hann segir öryggið einnig í fyrirrúmi enda leggi Honda mikið upp úr öryggisbúnaði á mótorhjólin sín. „Þeir voru til dæmis fyrstir til að hanna loftpúða á mótorhjól. Þá eru flestar gerðirnar sem í boði eru fáanlegar með ABS-hemlakerfi,“ segir Hlynur og bætir við að Bernhard sé með hjól við allra hæfi. „Hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna, þá eigum við rétta hjólið.“ Starfsmenn Bernhard búa yfir mikilli reynslu  og aðstoða fólk eftir bestu getu. „Þegar fólk er að kaupa sér hjól reynum við að greina áhugasvið þess og þarfir. Það er misjafnt eftir hverju fólk er að leita og við reynum að benda því í rétta átt hvað varðar stærð og afl.“ Verðið á mótorhjólunum frá Honda þykir gott. „Ný fullvaxin götuhjól er hægt að fá hjá okkur frá 1.099.000 krónum. Svo erum við líka með eldri módel, svokölluð eftirársmótorhjól, á
tilboðsverði og því hægt að gera góð kaup.“

Vespur í stað bíla

Fólk er í meiri mæli farið að nota vespur til að komast á milli staða að sögn Hlyns. „Bæði er þetta skemmtilegur lífsstíll en auk þess er þetta afskaplega praktískur ferðamáti,“ segir hann og nefnir sem dæmi að hægt sé að kaupa hjól sem eyði ekki nema 2,1 lítra á hundraði. „Við erum að selja 125  kúbika vespur og fólk er margt hvert farið að kaupa slík hjól í staðinn fyrir aukabíl á heimilið,“ segir Hlynur en þeir sem kaupa slík hjól eru iðulega fólk sem komið er yfir tvítugt. „Fjölskyldufólk nýtir vespuna oft í staðinn fyrir bíl númer tvö og sparar þannig heilmikið í rekstrarkostnað.“ Bernhard býður upp á vesputilboð um þessar mundir sem hljóðar upp á 569
þúsund krónur. „Þetta hjól, Honda PCX 125, er búið skemmtilegri og umhverfisvænni tækni sem kallast stopp/start tækni  líkt og í tvinnbílum. Þegar þú stoppar hjólið á ljósum drepur það á vélinni  eftir þrjár sekúndur og ræsir sig sjálfkrafa þegar þú gefur í til að fara af stað.“

Aukahlutir, fjármögnun og viðgerðir

 Bernhard býður upp á mikið úrval aukahluta á hjólin sín. Þá hefur fyrirtækið yfir að ráða fullkomnu bifhjólaverkstæði í Vatnagörðunum. Fjármögnun á bifhjólum á ekki að vera vandamál að sögn Hlyns. „Við aðstoðum fólk við það en í dag er hægt að fá tiltölulega háa fjármögnun á hjól,“ útskýrir hann. Þá séu tryggingar á hjól einnig orðnar sanngjarnari í dag en áður. Inntur eftir vinsældum mótorhjóla svarar Hlynur að gríðarleg aukning hafi orðið í mótorhjólasölu fyrir hrun. „Árið 2007 vorum við að selja hátt í fimm hundruð hjól á ári. Eftir hrun dró mikið úr sölunni en við bindum vonir við að þetta sé að breytast og okkur finnst sem áhuginn sé að glæðast á ný.“ Bernhard ehf. frumsýnir 2013 árgerðirnar af Honda-hjólum á sýningunni „allt á hjólum“ í Fífunni 4.-5. maí næstkomandi.
Fréttablaðið
23.4.2013