6.8.05

Gullhjólið er notað á góðviðrisdögum

Sigurður O. Björnsson er stoltur eigandi að Harley Davidson mótorhjóli. Mikil þrautaganga var að koma því til landsins en gullhjólið, eins og strákarnir á Kárahnjúkum kalla gripinn, var alveg þess virði.

„Ég er alveg klár á því að það er ekki til neitt Harley Davidson hjól í líkingu við þetta,“ segir Siggi.
Enda erum við að tala um hundrað ára afmælisútgáfu af Harley Davidson Softail Deuce frá árinu  2003.
„Það var töluvert bras að koma hjólinu hingað. Ég þurfti að kaupa það frá Ameríku,“ segir Siggi.
Hann fór því sjálfur til Ameríku og hlóð hjólið aukahlutum sem ekki eru fáanlegir hérna. Þetta
fyrirkomulag kostaði þó töluverð vandræði. „Reglurnar hjá Harley Davidson í Ameríku eru þannig að þeir selja ekki nokkrum manni nýtt hjól nema að hann hafi amerískt ökuskírteini og lögheimili.
Það sem bjargaði mér í þessu er að ég er amerískur ríkisborgari svo ég gat farið og tekið bílprófið,“ segir Siggi sem bætir við að hjólið sé sérstaklega flott af því að það sé í hundrað ára afmælislitunum
„sterling silver og wild black“. En af hverju gullhjól? „Við vorum að grínast með þetta uppi á Kárahnjúkum þar sem ég vinn, því ég fékk gulllykil með hjólinu því þetta er afmælis útgáfa. Það fengu ekki allir svona lykil nema bara sérstakir viðskiptavinir. Hann kom í öskju og með keðju til að hafa um hálsinn,“ segir Siggi. Hann bætir við að strákarnir hafi dálítið strítt honum á þessu og verið hneykslaðir á því að hann hafi ekki viljað keyra um á hjólinu uppi á Kárahnjúkum. „Það fer ekki  nokkur maður með neitt mótorhjól upp að Kárahnjúkum nema að það sé torfæruhjól. Gullhjólið er líka svo flott að maður notar það ekki nema bara á góðviðrisdögum.“
annat@frettabladid.is

2.7.05

Viðtal við Dagrún Jónsdóttir Mótorhjólakonu 2005

Dagrún Jónsdóttir þekkja flestir mótorhjólamenn sem hjóluðu á síðustu öld... bæði var hún í stjórnum Snigla og í  formaður Vélhjólafélag Gamlingja og þrældugleg við að safna gömlum mótorhjólum og gera upp gamla Harley Davidson.

Okkur var bent á þetta viðtal sem leyndist á netinu hjá Ruv.. njótið

Viðtal við Dagrúnu Jónsdóttir 2005 byrjar á 13:40

21.6.05

Haldið upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Sauðárkróki

Birgir Örn Birgisson
í Brautinni

Á milli 1000-1500 manns í afmælinu

Afhjúpun minnismerkisins var tvímælalaust hápunkur hátíðarinnar," sagði Helga Eyjólfsdóttir, einn skipuleggjenda afmælishátíðarinnar.
Helga var jafnframt eini kvenkyns keppandinn í vélhjólakeppnunum helgarinnar.



Veðursins vegna voru þátttakendur eitthvað færri en vonir stóðu til, en þó er áætlað að á bilinu 1200-1500 manns hafi verið á svæðinu þegar mest var. 

Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið hliðhollir hjólafólkinu skemmti bæði það og aðrir áhugasamir áhorfendur sér vel við að fylgjast með hinum ýmsu vélhjóla keppnum sem fram fóru

víðsvegar um bæinn á laugardeginum. Að mati Helgu stóð afhjúpun minnismerkisins í Varmahlíð á sunnudeginum uppúr öllum dagskrárliðum á hátíðinni, enda tilfinningaþrungin stund fyrir marga,
sérstaklega þá sem hafa misst einhverja nákomna sér í bifhjólaslysum.

Að veðrinu undanskildu voru forsvarsmenn hátíðarinnar mjög ánægðir með hvernig til tókst og höfðu á orði hversu vel hafi verið tekið á móti þeim. Vildu þeir koma á framfæri þökkum til bæði

sveitarstjórnarinnar fyrir framúrskarandi góðar undirtektir og aðstoð við undirbúning hátíðarinnar, þeirra fyrirtækja sem styrktu þá með ýmsum hætti og þá ekki síður til íbúa Skagafjarðar fyrir að taka svo fordómalaust á móti þeim sem raun varð á.





_____________________________________________________________________

Skrúðkeyrsla mótorhjóla vaktitalsverða athygli.

Óhætt er að segja að hestöfl hafi settsvip sinn á þjóðhátíðardagskrá Norðvestlinga þetta árið.  Á Sauðaárkróki tóku vélhjólamenn allsstaðar af landinu virkan þátt í hátíðardagskránni en hún hófst á miklum skrúðakstri vélhjóla af öllum stærðumog gerðum í gegnum bæinn.


Á flæðunum var síðan hefðbundin hátíðardagskrá og skemmtiatriði. Var þar skátatívólí og teimt var undir börnum á eins hestafls ferfættum gæðingum.  Fór llt vel fram þrátt fyrir að veðurguðirnir hefðu mátt vera Skagfirðingum hliðhollari.





Helga Eyjólfsdóttir
og eini kvennkeppandinn

 Feykir 2005







18.6.05

Frábært fjölskyldusport

Inda Björk Alexandersdóttir

Inda Björk Alexandersdóttir var að fá sér nýtt mótorhjól. Hún fékk delluna fyrir þrettán árum og eftir það varð ekki aftur snúið.

„Fyrrverandi sambýlismaður minn átti hjól og ég smitaðist af bakteríunni,“ segir Inda. „Ég var ekki einu sinni með próf þegar áhuginn vaknaði, en ég dreif mig að taka prófið um leið og ég mátti. Þetta er þess eðlis að maður verður auðveldlega húkkaður.“
Fyrsta hjólið sem Inda eignaðist var 100 Kawasaki, árgerð ‘78. „Það var ágætis græja, en þetta sem ég var að fá núna er meiriháttar. Þetta er Triumph Speedmaster, rosalega hippo. Ekki hippalegt,“ útskýrir hún, „meira svona króm. Hippahjólin voru gömlu Goldwingarnir sem voru eins og hálfgerð sófasett.“
  Inda pantaði hjólið upp úr bæklingi og var jafnvel örlítið smeyk um að það væri ekki nógu stórt. „Félagi minn er kominn  með Triumph-umboðið á Íslandi sem er nú virkt á Íslandi í fyrsta skipti í 25 ár. Nú þegar ég er búin að fá það og prófa það er ég alsæl.“
  Inda segist ekki beint geta skilgreint hvað það er sem er svona skemmtilegt við mótorhjólasportið. „Það er bara allt. Maður kemst í beina snertingu við náttúruna þegar maður er á ferð um landið og það er svo gott að vera einn með sjálfum sér. Þetta er bara svo ólýsanlega gaman.“
  Inda á þrjú börn, ellefu ára , fimm ára og eins árs og þessi ellefu ára mjög áhugasamur. „Þetta er sport sem hentar fjölskyldufólki og nú erum við til dæmis á leið á fjölskylduhátíð á Siglufirði með Sniglunum.“
  Inda segir enn örla á fordómum gagnvart mótorhjólafólki og segir brýnt að það breytist. „Það er ekki auðvelt að vera á mótorhjóli í umferðinni, aðallega vegna tillitsleysis og frekju þerra sem eru á bíl. Þetta verður að laga og það gerist ekki nema með áróðri og meiri skilningi.“
Fréttablaðið 18.06.2005

10.6.05

Hliðarvagninn tekur í

Akureyri 

Kraftakarlinn Torfi Ólafsson er mikill áhugamaður um mótorhjól, enda einn af stofnendum Sniglanna og með félagsnúmer 54. Hann fjárfesti nýlega í mótorhjóli frá Bandaríkjunum en um er að ræða 40 ára afmælisútgáfu af Hondu Goldwing 1500, árgerð 1989. Hjólið er með hliðarvagni og vegur alls um 630 kg fyrir utan ökumann „en er mun þyngra með ökumanni,“ eins og Torfi orðaði það sjálfur. Hann sagði að mun erfiðara væri að aka þessu hjóli, þar sem hliðarvagninn tæki hraustlega í en hann hefur þó verið að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum á rúntinn. Hann stefnir svo í lengri ferðir þegar hann hefur náð betri tökum á ökutækinu. Torfi ætlaði upphaflega að kaupa stakan hliðarvagn, þar sem hann á annað mótorhjól, Hondu Goldwing 1200, sem einnig er afmælisútgáfa frá fyrirtækinu. Vagninn einn og sér var hins vegar það dýr að Torfa þótti hagkvæmara að kaupa hjól með vagni.
Morgunblaðið 10.06.2005

8.6.05

Íþrótt allra tómstundahópa


 Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi og forstjóri JHM sport, segir geysilega aukningu hafa verið í hópi þeirra er stunda torfæruakstur á bifhjólum á íslandi. „Ég hugsa að á síðustu þremur árum hafi  hópurinn þre- eða fjór-faldast," segir Jón, en hann telur fjöldann vera á bilinu 1500-2.000 manns.



„Þessi íþrótt höfðar til allra; forstjóra, lögfræðinga og verkamanna, í öllum aldurshópum og af báðum kynjum." JHM sport selur torfæruhjól fyrir börn og fullorðna. Þar fæst t.d. lítið hjól fyrir krakka á aldrinum 4-5 ára sem eru byrjaðir að geta hjólað án hjálpardekkja. Hjólið er eins gíra og getur að hámarki verið ekið á 25 km á klukkustund. Einnig fást mótorkross eða enduro- hjól fyrir krakka sem eru ögn stærri. Jón telur þó skynsamlegast að byrja í sportinu á klifurhjólum. Þeim er hægt að aka yfir nánast hvaða hindrun sem er en slíkur hindrunarakstur verður sífellt vinsælli keppnisíþrótt á meginlandi Evrópu og víða annars staðar.

Torfæruskellinöðrurnar fyrir yngri aldurshópinn eru mjög vel útbúnar. Þær hafa sama útlit og stóru hjólin, eins bretti, tankhlífar, hliðarhlífar, sæti og aukabúnað. Þannig lítur 50 kúbika hjól nánast eins út og 300 kúbika. Öll enduro-hjólin eru skráð götuhjól svo þeim má aka hvar sem er.
„Þetta leysir allan bílastæðavanda í Reykjavík," segir Jón, hreykinn yfir lítilli innanbæjarskellinöðru. „Segjum að fólk fái sér svona græju og aki niður í bæ til vinnu. Þá sparast gríðar legt bílastæðapláss. Fimm svona hjól komast hæglega í hvert bílastæði. Hjólið kostar 238.000, er 50 kúbik og eyðir um þremur lítrum á hundraðið. Það er blátt númer á þessu þannig að hver sem er, sem er með bílpróf, má aka því án sérstaks mótorhjólaprófs. Fólk upplifir hlutina svolítið á annan hátt með þessum ferðamáta.     

Blaðið 8.6.2005
TM125 Hjólið sem er í úrvalsflokki þeirra
torfæruhjóla sem fást á landinu.