24.5.20

Rúntað og ræktað upp land

Á milli Sultartangalóns og Hrauneyjavegar vinna nokkur mótorhjólafélög að því að græða upp örfoka land og endurheimta forna birkiskóga. Í dag verður farið í hina árlega landgræðsluferð.


Vorið 2009 hóf Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir landgræðsluverkefni undir heitinu Hekluskógar. Tveimur árum síðar gengu fjögur mótorhjólafélög til viðbótar til liðs við verkefnið og hafa þau nú farið á hverju ári í landgræðsluferð þar sem sexhjól í eigu Gísla Einarssonar hefur reynst afar vel.


Árlegur viðburður



Gísli, sem er meðlimur Slóðavina, er einn þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu frá upphafi. „Ég er búinn að vera með nánast frá upphafi,“ segir hann. „Þetta er árlegur viðburður og er samvinnuverkefni nokkurra mótorhjólaklúbba, þar á meðal Slóðavina sem er ekki bara mótorhjólahópur, heldur ferðaklúbbur á mótorhjólum, fjórhjólum og beltahjólum og fleira. Hinir klúbbarnir sem eru með okkur eru allt mótorhjólaklúbbar.“
   Hin félögin sem koma að verkefninu eru BMW klúbburinn á Íslandi, Skutlur, Harley Owners Group Iceland og Gaflarar í Hafnarfirði. Hvert félag fyrir sig vinnur á 25 hektara svæði (500x500) og ber þar á áburð og gróðursetur trjáplöntur ár hvert. Að auki vinna Slóðavinir á 80 hektara svæði á Vaðöldu og Endurvinnslan hf. vinnur á 40 hektara svæði, samhliða mótorhjólafélögunum.
Við fengum úthlutað og byrjuðum á svæði sem heitir Vaðalda, sem er upphækkað svæði út frá lóninu hjá virkjuninni á Sultartanga. Svo breyttist það þegar við ákváðum að fá sérstakt svæði við þjóðveginn, sem er svona ca 5 kílómetrar að lengd og 500 metrar á breidd,“ skýrir Gísli frá.
   „Þar erum við að vinna að því að búa til skóg sem við ræktum með höndunum, með það fyrir augum að þetta gæti hugsanlega orðið einhvers konar mótorhjólakeyrslusvæði í framtíðinni, ef það er hægt að gera einhverjar skemmtilegar brautir þarna.“ Skógurinn sem félögin vinna að því að græða er í daglegu tali nefndur Mótorhjólaskógurinn.
   Alls er uppgræðslusvæðið tæplega 300 hektarar. Ýmsir aðilar hafa styrkt verkefnið, en stærsta styrkinn veitir N1 árlega, þar sem fyrirtækið lánar Slóðavinum vörubíl með krana til að flytja áburðinn og hífa sekkina í vegkantinn við reiti hvers félags.

Kærkomin hjálparhella 


„Ég kem alltaf með sexhjól á svæðið, sem er fjórhjól með palli, og það hjálpar okkur að dreifa áburði, það munar miklu að geta dreift áburði til að örva vöxtinn. Það er orðið fastur punktur í þessu og auðveldar alla vinnu.“
    Ábyrgðin er mikil. „Ég þarf alltaf að halda því gangandi til að vera öruggur að geta mætt með það, það er orðið fimmtán ára gamalt. Það virkar mjög vel í áburðardreifingu því það getur einn verið að keyra og einn setið aftan á pallinum og kastað áburðinum, svo getur maður líka borið í þau sem eru að kasta úr fötum eða skjólum og eru kannski búin að labba langt frá sekknum, þá getur maður skotist til þeirra með áburð.“
   Þá þarf líka að fara gætilega. „Það er alltaf að verða vandasamara að keyra á svæðinu, því það eru alltaf að koma fleiri plöntur, maður verður að passa sig á að keyra ekki á litlu trén.“
   Blaðamaður spyr Gísla hvort sexhjólið sé hálfgerð þungamiðja verkefnisins. „Það mætti kannski segja að það sé lykilþátttakandi í þessu verkefni.“
   Í dag verður farið af stað í landgræðsluferðina og lagt verður af stað frá Olís Norðlingaholti klukkan 8.45 og 9.00.

  Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook undir „Mótorhjólaskógurinn“.

Fréttablaðið 
23. MAÍ 2020 

Allir vinna – nema mótorhjól

Fær ekki endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerðar á mótor­hjóli eins og eigendur bíla fá gegnum átakið „Allir vinna“


Benedikt Bjarnason er einn þeirra sem notar mótorhjólið sitt daglega eins og flestir nota bíla sína. Hann reyndi að fá endurgreidda viðgerð á mótorhjóli sínu í vikunni gegnum átakið „allir vinna“ en fékk höfnun hjá Ríkisskattstjóra. „Þetta snýst ekki um að fá endurgreiddar þessar 8.000 krónur fyrir mig til eða frá. Þetta snýst miklu frekar um að þarna er verið að útiloka hóp og þá einnig alla þá sem gera við mótorhjól frá þessari leið stjórnvalda,“ sagði Benedikt.
Benedikt hringdi í Ríkisskattstjóra og fékk þau svör að þetta næði ekki til mótorhjóla. „Ég hlýt að hafa misskilið allt saman. Ég þurfti greinilega ekkert að læra umferðarlögin. Ég tilheyri ekki umferðinni,“ sagði Benedikt í stöðufærslu sinni á Facebook. Benedikt notar mótorhjól sitt til og frá vinnu og er það í raun og veru hans eina farartæki. „Ég nota mótorhjólið sem mitt eina ökutæki í allavega átta mánuði á ári á hverjum degi. Við fjölskyldan erum þess vegna bara með einn bíl og ég fæ því far hjá konunni yfir vetrarmánuðina.“ Benedikt var ekki alveg sáttur við þessi svör og vildi gjarnan heyra rökin.
Blaðamaður Fréttablaðsins hafði samband við Ríkisskattstjóra og fékk þau svör að verið væri að vinna eftir orðalagi breytingartillögu laga um virðisaukaskatt, en þar stendur: „Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðis­auka­skatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að skattinum barst erindið.“ Starfsmaður Ríkisskattstjóra sagði að verið væri að vinna eftir orðalagi greinarinnar sem alltaf er túlkað þröngt, og þar sem aðeins er talað um bíla í greininni fæst ekki endurgreiðsla fyrir mótorhjól.
Að mati Benedikts ættu lögin að ná til allra skráðra ökutækja til einkanota en ekki bara fólksbifreiða. „Var einhver nefndarmaður smeykur um að ég myndi umturna hjólinu mínu á kostnað skattborgara? Hvað ef ég á Skoda Favorit og læt sprauta hann í kanadísku fánalitunum? Sprautun á fólksbíl virðist vera í lagi, en ekki ef ég læt laga bilaða leiðslu frá rafgeymi í mótorhjólinu,“ sagði Benedikt að lokum.
Fréttablaðið
Fimmtudagur 21. maí 2020

21.5.20

Fjölskylduhátíð Tíunnar. Hópkeyrsla - Grill í Kjarnaskógi.

Ertu klár Laugardaginn 06.Júní því við ætlum að byrja daginn á sameiginlegri hópkeyrslu kl: 13:00 og skellum okkur svo í grill inn í Kjarnaskógi með fjölskyldunni. 14:30 


Vitinn Mathús ætlar að grilla dýrindis hamborgara og kjúklingaspjót fyrir okkur.

 Svona berð þú þig að: Skráir þig í grillið fyrir 04 júní í síma 6611060 :) 

Ef þú ert ekki búin að greiða félagsgjaldið í Bifhjólaklúbb Norðuramst Tían Þá mundi ég drífa mig í því.
Frítt er fyrir greidda félagsmenn Tíunnar og fjölskyldur þeirra.
Aðrir greiða 1500 kr fyrir grillið 

Hafðu félagskirteinið við hendina



20.5.20

Umferðin, holóttu vegirnir og hætturnar



ÖRYGGI – HEILSA – UMHVERFI


Nú er að koma betur í ljós þær miklu skemmdir á vegakerfinu eftir síðasta vetur og væntanlega dylst það engum að aldrei hafa vegir komið svona illa undan vetri. Það er kannski í grófara lagi að segja að allir vegir séu meira og minna ónýtir, en það er einfaldlega ekki fjarri lagi.

Það er sama hvert ekið er, alls staðar holur, ójöfnur og miklar skemmdir á vegum og af þessum sökum þarf að fara sérstaklega varlega.

Aldrei önnur eins sala á reiðhjólum


Aldrei hefur önnur eins sala verið á nýjum reiðhjólum og það sem af er ári, nánast allar reiðhjólabúðir hafa selt nú þegar öll hjól sín og beðið er eftir nýjum sendingum. Um síðustu áramót breyttust aðeins umferðarreglur og nú má ekki taka fram úr reiðhjóli nema að vera í 1,5 metra fjarlægð frá hjólinu við framúraksturinn.
jólinu við framúraksturinn. Hjólreiðafólk sem hjólar á þjóðvegum þar sem ætlast er til þess að þessi nýju lög séu virt verða að koma á móts við bílaumferðina og hjóla ekki hlið við hlið, sérstaklega ekki þar sem komið er að blindhæð eða blindhorn er á vegi og líka þegar hvít óbrotin lína er á miðjum veginum. Flest hjólreiðafólk er til fyrirmyndar í umferðinni, hjólar í áberandi klæðnaði, með blikkandi ljós framan og aftan, en það má gera betur. Best væri ef sú vinna kæmi innan frá sem fræðsla frá hjólreiðamanni til hjólreiðamanns.

Mótorhjólafólk er að átta sig á nauðsyn þess að vera sýnilegt


Fáir vita það að hönnun blindhornsvara í bílum er tilkomin vegna neikvæðrar greina í mótorhjólablöðum um ákveðna tegund bíla sem voru samkvæmt skoðanakönnun hættulegastir mótorhjólamönnum í umferðinni vegna þess að þeir skiptu um akrein án þess að gæta nægilega að sér og úr var slys eða banaslys. Fyrir fjörutíu árum þegar ég var að byrja minn mótorhjólaferil var það nánast óskrifuð lög að klæðast öllu svörtu, en með árunum hafa mótorhjólamenn lært af biturri reynslu að vera í sýnileikafatnaði við akstur bifhjóla, það skilur á milli lífs og dauða. Það sem var „töff“ er nú „púkó“ og nú má sjá heilu flokka mótorhjólafólks ferðast um í gulum vestum við aksturinn.

Gul blikkandi ljós í umferð


Í síðustu viku var ég að keyra um Landeyjar og sá þar nokkra bændur í vorverkum á dráttarvélum út á þjóðvegum, var ánægður með að flestir voru með gul blikkandi ljós á hægfara dráttarvélunum. Það minnti mig á að fyrir nokkru las ég ástralska reglugerð um gul blikkandi varúðarljós á ökutækjum, en sú reglugerð fannst mér nokkuð áhugaverð lesning. Þar sagði m.a.:   Blikkandi ljós í umferð má vera blikkandi ef ökutæki ekur á lægri hraða en almennur umferðarhraði er. 
Blikkljós á að slökkva sé ekið á sama hraða og önnur umferð.
Gul blikkandi ljós má nota ef hæð er óvenjuleg, breidd meiri en almenn breidd ökutækja, eða ekið með hættulegan farm. Ef verið er að vinna í vegkanti með gul blikkandi ljós má aldrei keyra framhjá þeim hraðar en á um 40 km hraða. Svona ítarleg lesning um gul blikkljós er ekki til hér á landi, eina sem segir er að þau skuli vera gul, en nánast allir hér á landi eru með appelsínugul ljós.

Smá aukalesning um þjófnað


Þjófnaður á ýmsum eigum fólks hefur verið viðvarandi vandamál í nokkur ár og sjaldgæft er að maður lesi fregnir af þýfi sem finnst. Því miður virðist eins og að þjófnaðarmálum sé að fjölga.
Á stuttu tímabili hef ég lesið um óæskilegar heimsóknir á sveitabýli þar sem verkfærum, reiðhjólum, bíl og fjórhjóli var stolið. Eitt besta ráðið er að koma upp myndavélakerfi og læsa vel húsum, hjólum og öðru sem fólk veit að hætta sé að vera stolið. Til eru lásar sem gefa frá sér skerandi hátíðnitón í 90–110 db. Svona lás hefur gagnast mér vel við að fæla frá óboðna gesti.

Bændablaðið | Miðvikudagur 20. maí 2020 

18.5.20

Fundir við Hof

Dýrasta mótorhjól í heimi

Þó að deilt sé um uppruna „Captain America“ „Chopper“ mótorhjólsins úr bíómyndinni Easy Rider frá árinu 1969, sem sagt er vera síðasta mótorhjólið sem til er úr myndinni, þá var hjólið selt á uppboði nú um helgina fyrir 1,35 milljónir Bandaríkjadala, eða jafnvirði 163 milljóna króna. Við bætist uppboðsgjald og endanlegt verð er því 193 milljónir króna.

Hjólið er stórglæsilegt af Harley Davidson gerð og krómað frá toppi til táar. Í myndinni var það leikarinn Peter Fonda sem ók hjólinu. Leikstjóri myndarinnar og annar aðalleikara var Dennis Hopper. Hjólið var í eigu safnarans Michael Eisenberg, en hann keypti það fyrr á þessu ári, eftir að hafa fengið fullvissu fyrir því að um mótorhjól úr myndinni væri að ræða.

Hjólið var sérútbúið af Dan Haggerty, sem lék hlutverk „Grizzly Adams“ í myndinni, en hann útbjó einnig öll fjögur hjólin í myndinni.

Haggerty hafði staðfest við Eisenberg sögur um að þremur af fjórum Easy Rider hjólunum hefði verið stolið og þau seld í parta, áður en myndin var frumsýnd. Haggerty segist hafa smíðað Captain America hjólið úr rústum fjórða hjólsins, sem nærri eyðilagðist þegar lokaatriði myndarinnar var tekið upp.

Eisenberg og uppboðshúsið Profiles in History vísuðu til Haggerty sem aðal heimildar sinnar varðandi uppruna hjólsins, þó svo að Haggerty hafi viðurkennt fyrir LA Times dagblaðinu að hann hefði þá þegar selt og veitt upprunasönnun fyrir öðru „Captain America“ hjóli, mörgum árum fyrr, og útvegað tryggingu til handa eiganda þess að um eina upprunalega „Easy Rider“ Chopperinn væri að ræða.

Fonda, sem var annar handritshöfunda myndarinnar, og teiknaði uppkast að útliti hjólsins, sagði blaðinu að hann væri mjög hugsi yfir fyrri staðfestingu Haggerty, og vonaði að hætt yrði við uppboðið.

„Það er skítalykt af þessu,“ sagði leikarinn í síðustu viku.
Samkvæmt heimildum þá er hjólið nú orðið dýrasta mótorhjól í heimi.


kvikmyndir.is
19. október 2014

15.5.20

Afmælisdagur Heidda #10

Formaður Tíunnar Sigríður Þrastardóttir fór í dag og lagði blóm á leiði Heidda.



Tían var stofnuð í nafni Heidda en hann var NR 10 í Sniglunum  og ber klúbburinn nafn Tíunnar þess vegna.


Rúnar F samdi þetta flotta lag um frænda sinn.