Á milli Sultartangalóns og Hrauneyjavegar vinna nokkur mótorhjólafélög að því að græða upp örfoka land og endurheimta forna birkiskóga. Í dag verður farið í hina árlega landgræðsluferð.
Vorið 2009 hóf Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir landgræðsluverkefni undir heitinu Hekluskógar. Tveimur árum síðar gengu fjögur mótorhjólafélög til viðbótar til liðs við verkefnið og hafa þau nú farið á hverju ári í landgræðsluferð þar sem sexhjól í eigu Gísla Einarssonar hefur reynst afar vel.
Árlegur viðburður
Gísli, sem er meðlimur Slóðavina, er einn þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu frá upphafi. „Ég er búinn að vera með nánast frá upphafi,“ segir hann. „Þetta er árlegur viðburður og er samvinnuverkefni nokkurra mótorhjólaklúbba, þar á meðal Slóðavina sem er ekki bara mótorhjólahópur, heldur ferðaklúbbur á mótorhjólum, fjórhjólum og beltahjólum og fleira. Hinir klúbbarnir sem eru með okkur eru allt mótorhjólaklúbbar.“
Hin félögin sem koma að verkefninu eru BMW klúbburinn á Íslandi, Skutlur, Harley Owners Group Iceland og Gaflarar í Hafnarfirði. Hvert félag fyrir sig vinnur á 25 hektara svæði (500x500) og ber þar á áburð og gróðursetur trjáplöntur ár hvert. Að auki vinna Slóðavinir á 80 hektara svæði á Vaðöldu og Endurvinnslan hf. vinnur á 40 hektara svæði, samhliða mótorhjólafélögunum.
Við fengum úthlutað og byrjuðum á svæði sem heitir Vaðalda, sem er upphækkað svæði út frá lóninu hjá virkjuninni á Sultartanga. Svo breyttist það þegar við ákváðum að fá sérstakt svæði við þjóðveginn, sem er svona ca 5 kílómetrar að lengd og 500 metrar á breidd,“ skýrir Gísli frá.
„Þar erum við að vinna að því að búa til skóg sem við ræktum með höndunum, með það fyrir augum að þetta gæti hugsanlega orðið einhvers konar mótorhjólakeyrslusvæði í framtíðinni, ef það er hægt að gera einhverjar skemmtilegar brautir þarna.“ Skógurinn sem félögin vinna að því að græða er í daglegu tali nefndur Mótorhjólaskógurinn.
Alls er uppgræðslusvæðið tæplega 300 hektarar. Ýmsir aðilar hafa styrkt verkefnið, en stærsta styrkinn veitir N1 árlega, þar sem fyrirtækið lánar Slóðavinum vörubíl með krana til að flytja áburðinn og hífa sekkina í vegkantinn við reiti hvers félags.
Kærkomin hjálparhella
„Ég kem alltaf með sexhjól á svæðið, sem er fjórhjól með palli, og það hjálpar okkur að dreifa áburði, það munar miklu að geta dreift áburði til að örva vöxtinn. Það er orðið fastur punktur í þessu og auðveldar alla vinnu.“
Ábyrgðin er mikil. „Ég þarf alltaf að halda því gangandi til að vera öruggur að geta mætt með það, það er orðið fimmtán ára gamalt. Það virkar mjög vel í áburðardreifingu því það getur einn verið að keyra og einn setið aftan á pallinum og kastað áburðinum, svo getur maður líka borið í þau sem eru að kasta úr fötum eða skjólum og eru kannski búin að labba langt frá sekknum, þá getur maður skotist til þeirra með áburð.“
Þá þarf líka að fara gætilega. „Það er alltaf að verða vandasamara að keyra á svæðinu, því það eru alltaf að koma fleiri plöntur, maður verður að passa sig á að keyra ekki á litlu trén.“
Blaðamaður spyr Gísla hvort sexhjólið sé hálfgerð þungamiðja verkefnisins. „Það mætti kannski segja að það sé lykilþátttakandi í þessu verkefni.“
Í dag verður farið af stað í landgræðsluferðina og lagt verður af stað frá Olís Norðlingaholti klukkan 8.45 og 9.00.
Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook undir „Mótorhjólaskógurinn“.
Fréttablaðið
23. MAÍ 2020