18.5.20

Dýrasta mótorhjól í heimi

Þó að deilt sé um uppruna „Captain America“ „Chopper“ mótorhjólsins úr bíómyndinni Easy Rider frá árinu 1969, sem sagt er vera síðasta mótorhjólið sem til er úr myndinni, þá var hjólið selt á uppboði nú um helgina fyrir 1,35 milljónir Bandaríkjadala, eða jafnvirði 163 milljóna króna. Við bætist uppboðsgjald og endanlegt verð er því 193 milljónir króna.

Hjólið er stórglæsilegt af Harley Davidson gerð og krómað frá toppi til táar. Í myndinni var það leikarinn Peter Fonda sem ók hjólinu. Leikstjóri myndarinnar og annar aðalleikara var Dennis Hopper. Hjólið var í eigu safnarans Michael Eisenberg, en hann keypti það fyrr á þessu ári, eftir að hafa fengið fullvissu fyrir því að um mótorhjól úr myndinni væri að ræða.

Hjólið var sérútbúið af Dan Haggerty, sem lék hlutverk „Grizzly Adams“ í myndinni, en hann útbjó einnig öll fjögur hjólin í myndinni.

Haggerty hafði staðfest við Eisenberg sögur um að þremur af fjórum Easy Rider hjólunum hefði verið stolið og þau seld í parta, áður en myndin var frumsýnd. Haggerty segist hafa smíðað Captain America hjólið úr rústum fjórða hjólsins, sem nærri eyðilagðist þegar lokaatriði myndarinnar var tekið upp.

Eisenberg og uppboðshúsið Profiles in History vísuðu til Haggerty sem aðal heimildar sinnar varðandi uppruna hjólsins, þó svo að Haggerty hafi viðurkennt fyrir LA Times dagblaðinu að hann hefði þá þegar selt og veitt upprunasönnun fyrir öðru „Captain America“ hjóli, mörgum árum fyrr, og útvegað tryggingu til handa eiganda þess að um eina upprunalega „Easy Rider“ Chopperinn væri að ræða.

Fonda, sem var annar handritshöfunda myndarinnar, og teiknaði uppkast að útliti hjólsins, sagði blaðinu að hann væri mjög hugsi yfir fyrri staðfestingu Haggerty, og vonaði að hætt yrði við uppboðið.

„Það er skítalykt af þessu,“ sagði leikarinn í síðustu viku.
Samkvæmt heimildum þá er hjólið nú orðið dýrasta mótorhjól í heimi.


kvikmyndir.is
19. október 2014