Hópurinn staddur í Svartaskógi þar sem hitinn var kominn yfir 30 gráður. |
Fern hjón frá Suðurnesjum létu gamlan draum verða að veruleika og ferðuðust 3.800 km á mótorhjólum um Evrópu í lok sumars.
Hjólin sem hópurinn ferðaðist á voru af gerðinni Honda Goldwing og búin öllum aukahlutum eins og GPS, intercom og talstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki ókeypis að fara í svona langa hjólaferð en áætlaður ferðakostnaður var 500.000 kr. á hjónin en inni í þeim kostnaði var allur flutningur, bæði á fólki og hjólum, gisting og morgunmatur. Áætlunin stóðst að mestu leyti þó leiðin hafi lengst um 1.300 km. „Ferðin lengdist aðeins miðað við áætlun. Þegar við sáum eitthvað áhugavert á leiðinni var bara tekinn krókur. Við vorum ekki bundin við eitt né neitt sem var kostur í þessari ferð,“ sagði Þórhallur. „Einnig ákváðum við að vera ekkert merkt neinum klúbbi né auglýsa að við værum frá Íslandi. Við vorum merktir í fyrri ferðinni okkar og þá lentum við í veseni í Danmörku, en þar var mótorhjólaklúbbur sem hélt við værum eitthvað gengi að leita að veseni, en hlógu svo þegar þeir sáu að þetta voru bara nokkrir félagar og alveg meinlausir.“
Undirbúningurinn hófst í febrúarmánuði til að ákveða hvert ætti að fara. Hver og einn kom með tillögu um hvað hann vildi sjá og skoða og var á endanum búinn til hringur sem mældist 2.500 km. Þá þurfti að bóka gistingu með geymslu fyrir hjólin, en það er nauðsynlegt að koma hjólunum í skjól. Gistingin var pöntuð með góðum fyrirvara en þessi tími er háanna tími í ferðmennsku um alla Evrópu. Einnig þurfti að koma hjólunum í flutning og varð Samskip fyrir valinu.