Zen og viðhald vélhjóla er sú metsölubók sem oftast var hafnað af forlögum áður en hún loks kom út. 121 sinnum reyndi höfundur hennar, Robert M. Pirsig, og loks í 122. skiptið fékk hann jákvætt svar.
Zen og Viðhald vélhjóla var gefin út í Bandaríkjunum árið 1974 og hefur hún verið þýdd á yfir 160 tungumál síðan. Þegar Sigurður Páll Sigurðsson spurði föður sinn, Sigurð A. Magnússon, rithöfund og þýðanda, hvers vegna bókin hefði aldrei verið þýdd yfir á íslensku var fátt um svör.
„Ég var staðráðinn í að gefa bókina út hérlendis hvað sem það kostaði,“ segir Sigurður Páll. „Án þess að tala við Eddu eða annað forlag réð ég pabba í vinnu við að þýða hana, en það var ekki erfitt að sannfæra hann þar sem honum þótti bókin ein merkilegasta bók síðustu fjörutíu ára.“
Bókin fjallar um feðga og góðvini þeirra á mótorhjólaferðalagi frá Miðvesturríkjum Bandaríkjanna vestur til San Francisco. Faðirinn er sögumaðurinn og á meðan á ferðalaginu stendur reynir hann að ná sambandi við einfarann son sinn, oft á klaufalegan hátt.Á sama tíma veltir sögumaðurinn fyrir sér hugtakinu gæðum og fléttar heimspekilegar vangaveltur þýskra miðaldaheimspekinga, grískra heimspekinga, taóista og kristinna fræðimanna inn í ferðasöguna.
„Höfundurinn er í tvöfaldri leit. Annars vegar að hinni sönnu Ameríku æsku sinnar, sem hann leitar að gegnum mótorhjólið á kræklóttum hliðarvegum, og hins vegar að raungæðum. Ég verð að segja að þegar maður er búinn að lesa bókina lítur maður lífsgæði öðrum augum.“
Sjálfur er Sigurður Páll mótorhjólamaður og líkt og faðirinn í bókinni er Sigurður A. mikill fræðimaður. Vaknar þá spurningin hvort samskipti feðganna í bókinni endurspegli á einhvern hátt samband Sigurðar og Sigurðar. „Það er ekkert leyndarmál að faðir minn var ekki drauma föðurímyndin og samskipti okkar voru stirð á fyrri árum. Nú náum við hins vegar vel saman svo það má segja að bókin lýsi ágætlega okkar samskiptum,“ segir Sigurður Páll. „Mér fannst alltaf ótrúlegt að þessi bók hefði ekki komið út fyrr, en þá var mér bent á að þessi bók hefði bara beðið eftir okkur feðgunum. Þetta er bara karma.“ tryggvi@frettabladid.is