19.9.08

Sjálfbærar samgöngur í sjónmáli 2008

ORKUGJAFAR framtíðar í umferðinni og farartæki knúin þeim eru efst á baugi samgönguráðstefnunnar Driving Sustainability ’08 sem sett var á Hilton Reykjavík Nordicahótelinu í gær.
Ráðstefnan er helsti viðburður Samgönguviku Reykjavíkurborgar og skipulögð af Framtíðarorku ehf. Gestgjafar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Fyrirlesarar eru margir af fremstu sérfræðingum á sviði nýrrar tækni á samgöngusviðinu og frumkvöðlar í sjálfbærri orkunýtingu. Þá eru sýnd vistvæn ökutæki af ýmsu tagi á ráðstefnunni.

Tilraunastofan Ísland 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt opnunarræðu ráðstefnunnar í gærmorgun. Hann sagði að ekki væri langur tími til stefnu að leggja nýjan grundvöll að samgöngum því hefðbundnir orkugjafar, gas og olía, væru að ganga til þurrðar. Ólafur kvaðst vera þeirrar skoðunar að Ísland gæti bæði gegnt hlutverki tilraunastofu og samkomustaðar um orkugjafa framtíðar. Hér mætti stefna saman fólki hvaðanæva úr heiminum til að miðla af og deila með öðrum þekkingu á nýrri tækni. Hann hvatti erlenda gesti ráðstefnunnar til að nýta sér Ísland því mikilvægt væri að sýna í verki að hin nýja samgöngutækni sé nothæf.

Ótæmd orka undir iljunum 

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, benti á að olía, kol og gas væru enn ráðandi orkugjafar þrátt fyrir tækniframfarir. Þekktar lindir jarðefnaeldsneytis tryggja aðeins 40-50 ára notkun eins og hún er í dag. Efnahagslegar ástæður eru ekki síður mikilvægar og hátt olíuverð mun eitt og sér knýja leitina að nýjum orkugjöfum, að mati Sigurjóns. Kjarnorkan er skammtímalausn en framtíðin er í endurnýjanlegum orkugjöfum. Sigurjón vakti athygli á þeirri gríðarlegu orku sem er við fætur manna. Ekki þarf nema örlítið brot af hitaorku jarðskorpunnar til að fullnægja orkuþörf mannkyns.

Sannkallað sólarflug

 Dr. Bertrand Piccard hélt innblásið erindi um að finna nýjar leiðir að lausnum á aðsteðjandi vanda. Piccard öðlaðist heimsfrægð þegar hann flaug fyrstur manna í kringum jörðina í loftbelg. Hann sagðist hafa lofað sér því þá að vera ekki háður eldsneyti í næstu hnattferð. Nú stjórnar hann verkefni um hnattflug á flugvél knúinni sólarorku sem getur verið á lofti jafnt nótt sem dag (www.solarimpulse.com). Stefnt er að tilraunaflugi á frumgerð flugvélarinnar á næsta ári og flugi kringum jörðina einu eða tveimur árum síðar.
Piccard sagði að mannkynið mundi ekki komast af á 21. öld nema það tæki upp nýja endurnýjanlega orkugjafa. Það yrði hvorki einfalt né auðvelt og því fylgi bæði áhætta og áskorun.

Örar framfarir

 Piet Steel, aðstoðarforstjóri evrópskra málefna hjá Toyota-bílaframleiðandanum í Evrópu, gerði m.a. grein fyrir því markmiði Toyota að smíða hinn „fullkomna umhverfisbíl“ og ýmsum leiðum að því marki. Blendings- eða tvinnbíllinn Toyota Prius hefur notið mikillar velgengni og eins blendingsbílar frá Lexus. Steel taldi að blendingstæknin væri besta tæknin í umferðinni nú. Sala Prius hefur vaxið jafnt og þétt og stefnir Toyota að því að selja milljón slíkra bíla á ári snemma á næsta áratug þessarar aldar. Á næsta ári er væntanleg ný kynslóð Prius og tengiltvinnútgáfa, sem hægt verður að hlaða með því að stinga bílnum í samband við rafmagn, er væntanleg. Þá er einnig í undirbúningi að búa bílana fullkomnari rafhlöðum en nú eru í þeim.
 Í gær var einnig fjallað um framfarir í smíði rafgeyma í rafbíla og tvinnbíla, rafvæðingu bílaflotans í Danmörku og lífeldsneyti þar í landi, hönnun afkastamikilla rafknúinna ökutækja, notkun tengiltvinnbíla í norrænum löndum, þróun í átt að farartækjum sem ekki losa kolefni og dagskránni lauk með pallborðsumræðum um hreina tækni, rafmagn og kerfisbreytingu í samgöngukerfinu.
 Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, mun slíta orkuráðstefnunni síðdegis í dag
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Morgunblaðið
19.9.2008

13.8.08

Vetnisvæddi mótorhjólið


Sveinn Hrafns­son, starfsmaður hjá Air Atlanta í London, hef­ur vakið at­hygli í ensk­um fjöl­miðlum fyr­ir vetn­istilraun sem hann gerði á sínu eig­in Harley Dav­idson-mótor­hjóli í þágu orku­sparnaðar hjá fyr­ir­tæk­inu. Hann byggði á hug­mynd frá seinna stríði en þekkt er að Spitfire- og Mu­stang-herflug­vél­ar voru bún­ar vetn­is-/​bens­ín­mótor til að spara bens­ínið og fækka áfyll­ing­um.

Hjá Air Atlanta hef­ur farið fram umræða um hvernig megi spara eldsneytið á flutn­inga­bíla fyr­ir­tæk­is­ins sem dag­lega aka um 300 km.

Brá Sveinn á það ráð að prófa vetn­is­hug­mynd­ina og notaði Har­ley­inn sem til­rauna­dýr. „Ég var mjög ánægður með út­kom­una, hjólið brenn­ir bens­ín­inu mun bet­ur fyr­ir vikið og auk þess er það kraft­meira,“ seg­ir hann.  

MBL. 2008
 https://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/08/13/vetnisvaeddi_motorhjolid/

Vetn­i­svæddi mótor­hjólið

Sveinn Hrafns­son, starfsmaður hjá Air Atlanta í London, hef­ur vakið at­hygli í ensk­um fjöl­miðlum fyr­ir vetn­istilraun sem hann gerði á sínu eig­in Harley Dav­idson-mótor­hjóli í þágu orku­sparnaðar hjá fyr­ir­tæk­inu. Hann byggði á hug­mynd frá seinna stríði en þekkt er að Spitfire- og Mu­stang-herflug­vél­ar voru bún­ar vetn­is-/​bens­ín­mótor til að spara bens­ínið og fækka áfyll­ing­um.

Hjá Air Atlanta hef­ur farið fram umræða um hvernig megi spara eldsneytið á flutn­inga­bíla fyr­ir­tæk­is­ins sem dag­lega aka um 300 km.

Brá Sveinn á það ráð að prófa vetn­is­hug­mynd­ina og notaði Har­ley­inn sem til­rauna­dýr. „Ég var mjög ánægður með út­kom­una, hjólið brenn­ir bens­ín­inu mun bet­ur fyr­ir vikið og auk þess er það kraft­meira,“ seg­ir hann.

Morg­un­blaðið | 13.8.2008 |

2.8.08

Góður fyrir útilegugræjurnar

Dagrún Jónsdóttir hefur verið leiðtogi í Vélhjólafjelagi gamlingja í hátt í tíu ár. Hún býr á
Odds parti í Þykkvabæ og er titluð mótorhjólabóndi í símaskránni.

Dagrún á fjögur mótorhjól, þar af þrjú Harley Davidson, en hjólið sem hún sést oftast á er Triumph P 160 sem er 750 kúbik og með hliðarvagni. „Þetta er aðalhjólið mitt,“ segir hún og sýnir það. „Mér finnst svo gott að ferðast á því og hef þvælst um allt land á því. Ég er búin að eiga það síðan 2001 en átti hliðarvagninn fyrir. Hann var á öðru hjóli og ég færði hann yfir.“
Auðvelt er að sjá Dagrúnu fyrir sér skutlast í „kaupfélagið“ á hjólinu og flytja varninginn heim í vagninum. Hún segir þá mynd hárrétta. „Vagninn er einmitt ástæða þess að ég nota þetta hjól mest. Hann er svo góður undir farangur, passar til dæmis rosa vel fyrir útilegugræjurnar og bjórinn,“ segir hún hlæjandi en kveðst líka geta tekið farþega í hann. Dagrún flutti austur í Þykkvabæ fyrir tveimur árum. Þar hefur hún komið sér upp hjólaverkstæði ásamt vini sínum og svo er hún með mótorhjólatengda ferðaþjónustu eins og hún orðar það. „Ég er búin að útbúa tjaldstæði með klósettum og get tekið á móti litlum hópum vélhjólafólks,“ útskýrir hún. En er hún með braut sem hægt er að spæna á? „Bara fyrir krakka,“ svarar hún. „Svo er fjaran auðvitað endalaus braut.“
   Hvernig skyldu svo nágrannarnir taka því að fá mótorhjólagengi yfir sig? „Heyrðu, þegar það fréttist að ég væri að flytja í Þykkvabæinn varð ég vör við mikinn skjálfta. Nú væru Hells Angels bara að taka yfir plássið. En svo hafa íbúarnir verið mér mjög vinsamlegir og ég veit ekki annað en þeir séu bara hrifnir af því sem ég er að gera.“
     -Eitt í lokin. Ræktar þú kartöflur? „Nei, ég labba bara í næstu hús og kaupi þær þvegnar og tilbúnar í pottinn!“
gun@frettabladid.is

1.8.08

Myndræn svaðilför


 Starfsmenn mótorhjólaleigunnar Biking Viking eru nýkomnir af hálendinu þar sem þeir hjóluðu um í góðviðrinu ásamt ástralska mótorhjólakappanum Simon Pavey. 


Sá er helst þekktur fyrir að vera þjálfari Ewan McGregor og Charley Boorman fyrir Long Way Round og að hafa tekið þátt í Race to Dakar með þeim síðarnefnda.
Tilefni ferðarinnar upp á íslenska hálendið var myndaöflun fyrir bók sem útgáfufyrirtækið Haynes gefur út um ævintýraferðir á mótorhjólum, en myndir frá Íslandi munu bera uppi bókina. Margir þekkja Haynes-bækurnar sem fjalla um viðhald bifreiða og mótorhjóla. Íslenski ljósmyndarinn Þorvaldur Örn Kristmundsson var fenginn til verksins.

Simon Pavey er 41 árs gamall en hann var aðeins 14 ára þegar hann tók þátt í sinni fyrstu motocross keppni í Appin í Ástralíu þar sem hann er fæddur og uppalinn. Ári seinna vann hann sínu fyrstu keppni þar og síðan þá hefur hann tekið þátt í fjölda keppna. Meðal annars París Dakar-rallinu sex sinnum, sem hann hefur klárað fjórum sinnum. Simon hefur nýlega lokið þátttöku í Transorientale-rallinu sem byrjaði í Sankti Pétursborg og endaði Beijing í Kína.

BMW horfir til Íslands

Biking Viking-mótorhjólaleigan er að færa út kvíarnar og ætlar í samstarf við World of BMW sem Simon er meðal annars aðili að í gegnum ferðahjólaskóla sinn. Að sögn Eyþórs Örlygssonar, framkvæmdastjóra Biking Viking, er útlit fyrir að hægt verði að bjóða upp á ferðir víða um heim á BMW mótorhjólum á næstunni og er ferð til Marokkó í burðarliðnum í vetur.
„„World of BMW“ er að skipuleggja ferðir til Íslands á næsta ári og sjáum við fram á mikið og gott samstarf við þá á næstu árum,“ segir Eyþór en ferðir þeirra til Íslands verða kynntar á NEC mótorhjólasýningunni í Birmingham í nóvember. „Ferðin með þremenningana var hreint út sagt frábær og fórum við með þá víða um suðvesturhálendið, meðal annars upp í Krakatinda, yfir Heklu og Markarfljót og meðfram Svörtufjöllum niður á Dómadalsleið. Sögðu þeir ferðina eina þá albestu sem þeir höfðu nokkru sinni farið á mótorhjólum og hafa þeir þó allir farið víða. Hrósuðu þeir helst landslaginu og þeim fjölbreytileika í akstri við erfiðar aðstæður sem landið býður upp á.“
1. ágúst 2008 | Bílablað | 

20.7.08

Opna Mótorhjólasafn á Akureyri

Föðurbróðir minn lést í mótorhjólaslysi fyrir tveimur árum síðan, en þá hafði hann ætlað sér að opna mótorhjólasafn og var komin með 22 hjól.
 Við ákváðum því að taka við kyndlinum og opna safn í minningu hans,“ segir Jóhann Freyr Jónsson, safnstjóri á mótorhjólasafni sem reist verður til minningar um Akureyringinn Heiðar Jóhannsson. 

Safnið verður á safnasvæðinu sunnan við Iðnaðarsafnið á Krókeyri og verður alls um 800 fermetrar að stærð.

„Fjölskylda og vinir Heiðars hafa stofnað sjálfseignarstofunun um bygginguna og reksturinn, en
stefnt er að því að framkvæmdum við fyrsta áfanga verði lokið næsta sumar.
 Auk þeirra hjóla sem Heiðar átti hefur safnið fengið mörg að gjöf og á nú orðið um 50 mótorhjól sem munu vera
til sýnis,“ útskýrir Jóhann Freyr. „

Safnið verður án efa skemmtileg viðbót við safnaflóruna í
Eyjafirði, en ekki síður heimildageymsla um sögu mótorhjóla sem er stór hluti samgöngusögu
Íslands,“ segir Jóhann. 
Geinin í HQ-PDF

19.7.08

Fyrsta skóflustungan af safninu

Fyrsta skóflustunga að Mótorhjólasafni Íslands var tekin 19.júlí 2008.

Á myndinni eru 9.karlmenn en 10.skóflur.
 Ein af þeim er fyrir Heidda (heitinn) sú er Jón Dan heldur í.

Talið frá vinstri  :   Sigurjón P Stefánsson, Gunnar Rúnarsson, Jóhann Freyr Jónsson, Jón Dan Jóhannsson, Rúnar Hafberg Jóhannsson, Guðmundur Jóhannsson, Axel Stefánsson, Stefán Finnbogason og Kristján Þór Júlíusson.