17.9.03
Á Matchless árgerð 1946 yfir hálendið (2003)
EINN góðan laugardag í ágúst síðastliðnum, reyndar svolítið blautan,ráku vegfarendur um Kjöl upp stór augu, því það sem fyrir augu þeirra bar var óvenjuleg sjón: Farkostur eins ferðalangsins var 57 ára gamalt mótorhjól, nánar tiltekið Matchless G 80, árgerð 1946. Ökumaðurinn,
Leðjuslagur í Húsmúla
Einar Sigurðarson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í enduro
LOKAUMFERÐ Íslandsmeistaramótsins í enduro fór fram nú um helgina í hringiðu haustlægðanna, sem gerði keppendum ekki auðvelt fyrir.
Svíinn Morgan Carlsson, sem m.a. keppti í motocross-keppninni á Álfsnesi þar sem hann lenti í öðru sæti, sagði að þetta væru erfiðustu aðstæður sem hann hefði kynnst í enduro. Þessar erfiðu aðstæður leiddu þó ekki af sér óvænta útkomu í stigaröðun efstu manna til Íslandsmeistaratitils.
Einar Sigurðarson (KTM) ók jafnt og örugglega og sigraði í fyrri umferð, Haukur Þorsteinsson (Yamaha) hefur bætt sig með hverri keppninni og lenti í öðru sæti og Viggó Örn Viggósson (TM), fyrrum Íslandsmeistari, lenti í þriðja sæti. Viggó Örn náði þó að bæta stöðu sína í seinni umferð og sýndi meistaratakta þar sem hann flaug yfir urð, grjót og leðju, og sigraði Einar með 6,70 mínútna mun. Þessi frábæra frammistaða Viggós dugði þó ekki til að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn frá Einari og lenti hann í öðru sæti en Haukur Þorsteinsson í því þriðja.
Lokaumferð B-deildar Íslandsmeistaramótsins fór einnig fram á sama stað. Þar var búist við að meiri afföll yrðu á keppendum en rúmlega þeirra keppenda náði að ljúka keppni. Með misjöfnum uppákomum þó, þar sem margir sátu fastir saman í leðju víðs vegar um brautinna. Þór Þorsteinsson (Suzuki), sem ekki hafði keppt í enduro fyrr í sumar, gerði sér lítið fyrir og sigraði en í öðru sæti varð Jóhann Guðjónsson (KTM) og dugði það honum til Íslandsmeistaratitils í ár.
Þótt veðrið hafi sett strik í reikninginn urðu fjölmargir áhorfendur ekki vonsviknir. Bæði var keppnin æsispennandi og auk þess mikið fyrir augað þar
sem keppendur börðust um í leðjunni. Þá gátu áhorfendur sjálfir tekið þátt í
atganginum og hjálpað til við að losa hjól og menn úr mýrarleðjunni.
Morgunblaðið 2003
12.9.03
Íslandsmótið í þolakstri:
AKSTURSÍÞRÓTTIR Lokakeppnin í þolakstri (Enduro) fer fram á laugardag. Keppt verður á um 10
kílómetra langri braut á og við gömlu túnin í landi Kolviðarhóls. Í Meistaradeild Íslandsmótsins
verður keppt í tveimur umferðum sem hvor um sig stendur yfir í 90 mínútur. Keppendur fá klukkustundar hlé milli umferða en fyrri umferðin hefst um klukkan 10 en sú seinni um klukkan 14.30.
Keppni í Baldursdeild, móti þeirra sem vilja keppa sér til ánægju, hefst laust fyrir klukkan 13.
Einar Sigurðarson hefur forystu í Meistaradeildinni með 370 stig en Viggó Viggósson hefur 327 stig. Einar og Viggó eru þeir einu sem hafa orðið Íslandsmeistarar í þolakstri síðan keppni um þann titil hófst árið 1998.
Í keppni liða er KTM Racing team efst, Honda Neonsmiðjan er í öðru sæti og Keppnislið JHM Sport í því þriðja. ■
10.9.03
Ágrip af sögu JAWA-mótorhjólsins tékkneska
| Jawa CZ 356, 175 cc, árgerð 1957. Dæmigert Jawa -mótorhjól frá 6. áratug síðustu aldar. |
JAWA? Hvað er nú það?
Árið 1929 hóf Tékkinn Frantisek Janecek að smíða mótorhjól. Fyrstu hjólin voru með eins cylindra, 500 cm³ fjórgengis mótor með toppventlum. Janecek hafði samvinnu við þýsku mótorhjólaverksmiðjurnar Wanderer og kom fyrrnefndur mótor frá þeirri verksmiðju. Þar var líka komið nafnið á framleiðsluna; JA, fyrstu tveir stafirnir í nafni Janeceks og WA, fyrstu tveir stafirnir í nafni Wanderer verksmiðjunnar - JAWA! Næstu árin var þetta hjól framleitt og einnig hjól með 750 cm³ mótor, ætlað fyrir hliðarvagna.
Fljótlega upp úr 1930 hóf Janecek að gera tilraunir með hjól með eins cylindra tvígengismótor. Hann hóf samstarf við Bretann G.W. Patchett, frægan mótorhjólahönnuð og mótorcrosskappa, sem kom til Tékkóslóvakíu með 175 cm³ tvígengismótor. Frantisek Janecek hóf að framleiða hjól með þessum mótor og urðu þau fljótlega langvinsælustu hjólin í Tékkóslóvakíu. Um þetta leyti hætti líka JAWA-verksmiðjan að framleiða stóru hjólin; 500 og 750 cm³. Framleiddi þó í nokkur ár á eftir hjól með 350 cm³ tvígengisvél og síðan fjórgengisvél.
Einnig framleiddi verksmiðjan létt hjól, JAWA Robot, með 98 cm³ eins cylinders tvígengismótor. Á þessu hjóli voru mótorblokkin og gírkassinn sambyggð, en það var algjör nýlunda á þessum tíma, en er alþekkt núna. Hámarkshraði þessa hjóls var 65 km/klst og það vó ekki nema 49 kíló.
JAWA Pérák
Öll mótorhjól frá JAWA-verksmiðjunni voru á þessum tíma með sama litnum; kirsuberjarauð og var liturinn oft bara kallaður Jawarautt.
Framleiðsla JAWA stöðvaðist í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar. Þjóðverjar höfðu nýverið ráðist inn í Tékkóslóvakíu og verksmiðjan var látin framleiða flugvélamótora og ýmis farartæki fyrir þýska herinn. Nýjustu JAWA-frumgerðunum hafði verið komið undan rétt áður en nasistarnir komu og allt til ársins 1944 voru gerðar í skúmaskotum, (m.a. í hlöðum út til sveita), tilraunir með ný hjól og aðallega það hjól sem strax eftir stríðið varð einhver þekktasta framleiðsla verksmiðjunnar: JAWA Pérák, hjól með eins cylinders 250 cm³ tvígengismótor, stimpilþvermál 65 mm, slaglengd 75 mm. Mótorinn og gírkassinn, fjögurra gíra voru í einni blokk. Nýlunda þótti sjálfvirk kúpling. Handkúplingin var aðeins notuð þegar ekið var af stað; ekki þurfti að kúpla þegar skipt var milli gíra. Útbúnaður þessi hefur verið á JAWA-mótorhjólunum allt til þessa dags.
Árið 1948 hófst líka framleiðsla á hjólum sem voru með sömu grind og Pérák-hjólin, en með tveggja cylindra vél. Sá mótor hefur sífellt verið endurbættur og á undirritaður einmitt hjól með nýjustu gerð hans.
Nauðsynlegt var á þessum stríðstímum að geta prufukeyrt mótorana. Hjólin voru máluð í stríðslitum og límd á þau þýsk DKW- eða BMW-merki. Ótrúlegt var hvað Tékkunum tókst að halda þessum tilraunum leyndum. Þó náðu nasistarnir einum aðalmanni JAWA og skutu hann að loknum árangurslausum yfirheyrslum. Að stríðinu loknu var fátt um ný mótorhjól í Evrópu og strax árið 1946 komu fyrstu JAWA 250 Pérák-hjólin á markaðinn og urðu strax mjög vinsæl.
Um 1948 voru JAWA-verksmiðjurnar - eins og nærri má geta þjóðnýttar - og JAWA-mótorhjól urðu ein af mikilvægustu útflutningsvörum Tékkóslóvakíu. Þáverandi ráðamenn þjóðarinnar höfðu vit á að hrófla ekki við verksmiðjunum. Einnig voru gerðar tilraunir með fjórgengismótora og framleitt 500 cm³ hjól frá 1952 til 1958. Svo voru líka á markaðinum 125 og 175 cm³ hjól. Til að fara fljótt yfir sögu er rétt að benda á heimasíðuna www.jawamania.cz , en þar má sjá mjög gott yfirlit yfir framleiðslu JAWA mótorhjólanna allt til þessa dags. Árum saman framleiddu JAWA-verksmiðjurnar líka hjól með nafninu CZ. Á meðal þeirra voru víðfræg Enduro-hjól og krossarar og margir sigrar unnir á þeim tækjum.
Við þær breytingar sem urðu þegar austurblokkin hrundi skapaðist talsverð óvissa varðandi JAWA-verksmiðjurnar - JAWA Moto. Samkvæmt einum ágætum JAWA-manni breskum, var ekki vitað á tímabili, hver ætti verksmiðjurnar! Þær eru - eins og lengst af hefur verið - í borginni Tynec nad Sásavou, 35 km fyrir sunnan Prag. Verksmiðjan framleiðir í dag margar gerðir mótorhjóla, léttra hjóla og skellinaðra. Má þar nefna fimm gerðir af hjólum með 350 cm³ vél, tvær 50 cm³, önnur þeirra fjórgengis, eina 100 cm³ fjórgengis og tvær gerðir með 125 cm³ einnig fjórgengis. Nýjasta framleiðslan er hjól með 650 cm³ fjórgengis Rotax Bombardier-mótor. Verksmiðjan, JAWA Moto í Tynec nad Sásavou er um þessar mundir að fullkomna heimasíðu sína og bíður JAWA áhugafólk spennt eftir henni.
JAWA-umboð á Íslandi
Samkeppnin við japönsku hjólin hefur verið hörð, en forráðamenn JAWA Moto eru bjartsýnir og tékkneskur iðnaður var alla tíð víðfrægur - þegar hann fékk að blómsra í eðlilegu umhverfi. Má í því sambandi minna á uppgang Skoda-bílanna, sem ekki er síður að þakka tékkneskum tæknimönnum en Volkswagen. Sagt er að starfsmaður hjá Skoda hafi sagt, þegar Volkswagen tok við rekstrinum: "Loksins fengum við almennilegt efni til að vinna úr." Eru ekki einmitt tékkneskar Skoda-túrbínur í einhverjum raforkuverum hér á landi? Þess má geta að í Tékklandi er líka önnur JAWA verksmiðja - JAWA Divisov. Sú framleiðir eingöngu speed-hjól.
Í öllum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og mörgum S-Ameríkulöndum (undirritaður fékk netpóst frá einum JAWA-manni í Brasilíu um daginn!) eru JAWA-klúbbar. Ef til vill er full ástæða til að stofna klúbb hér á landi. Fræðast má um allt þetta nánar með því einfaldlega að slá inn á leitarvef orðin JAWAmotorcycles. Síðast þegar ég prófaði þetta, komu upp 4.980 staðir til að skoða.
Nýlega varð til umboð fyrir JAWA á Íslandi. Umboðsmaður er Jens R Kane, Grenibyggð 23, 270 Mosfellsbæ. Þjónustuverkstæði er SPINDILL á Ártúnshöfða.
Undirritaður er félagi í JAWA & CZ Owners Club of Great Britain and Eire og hefur oft sótt þangað góð ráð. Klúbbur sá heldur í júní á næsta ári upp á 50 ára afmælið. Læt ég nú þessari lauslegu samantekt lokið að sinni, en þeim, sem áhuga hafa á að kynna sér málið betur, er velkomið að hafa samband við undirritaðan á netfangið
oligyda@simnet.is.
10. september 2003
1.9.03
Á íslenskri krá í Flórída
| Björn Viggósson og Hallveig Björnsdóttir |
Harley Davidson
Það var nú hrein tilviljun að við fórum í þessa ferð,“ segir Björn Viggósson, framkvæmdastjóri Kerfisþróunar, þegar hann er spurður um mótorhjólaferð sem hann og eiginkona hans, Hallveig Björnsdóttir, fóru í fyrir skömmu. „Ég var í bílnum að hlusta á útvarpið þegar ég heyrði auglýstan kynningarfund í Harley Davidson búðinni varðandi Harley Davdison mótorhjólaferð til Bandaríkjanna. Ég fór á fundinn og skráði okkur í ferðina sem SBK í Keflavík skipulagði." Tilefni ferðarinnar var 100 ára afmæli Harley Davidson og áætluð heimsókn á Bikefest í Daytona Beach, en þar er tvisvar á ári haldin hátíð mótorhjólafólks. „Í þetta sinn voru þarna um 100.000 mótorhjól og 300.000 manns samankomin og allskonar hjól þó mest bæri á Harley Davidson,“ segir Björn. „Ég á sjálfur Hondu Shadow sem er álíka stórt og Harley Davidson hjólin en við leigðum okkur öll HD hjól þarna úti.“| Hópurinn tilbúinn til brottfarar. /Myndir: Björn Viggósson |
Furðuhjól
Með sælubros á vör
Björn segir ferðina hafa verið einstaklega vel heppnaða og telur víst að slikar ferðir verði farnar áfram, líkt og golfferðir og skíðaferðir. Fararstjórar voru þeir Hafsteinn Emilsson hjólaáhugamaður og hvatamaður að ferðinni og Einar Steinþórsson frá SBK ferðaskrifstofunni í Keflavík. „Það eru margir með þetta áhugamál og ekki vafamál að þeir munu grípa fegins hendi að fara í heimsókn til Mekka Harley Davidson,“ segir Björn að lokum.
23.8.03
Mótorhjólaæði hjá ‘68-kynslóðinni
Mótorhjólaeign landsmanna hefur aukist gífurlega á síðustu fjórum árum en slysatíðni minnkað um 30% á sama tíma,“ segir Ísleifur Þorbjörnsson hjá Yamaha á Íslandi og bætir við að helsta aukningin sé hjá körlum yfir 50 ára, sem er hin svokallaða ‘68-kynslóð, en þessir karlar hafa verið að rjúka til umboðanna og kaupa sér mótorhjól undanfarin ár.
Í sama streng taka þau hjá Harley Davidson umboðinu á Íslandi þótt þau telji kúnnahóp sinn vera meira á milli fertugs og fimmtugs. Þau vilja samt ekki skrifa mótorhjólaáhuga karla á þessum aldri á gráa fiðringinn, enda viðkvæmt mál það, heldur benda þau á að margir þessara manna hafa látið sig dreyma um að eignast mótorhjól í áraraðir. Það sem kemur á óvart við þetta hér á landi er að séu tölurnar bornar saman við Bandaríkin kemur í ljós að mótorhjólaæði ‘68- kynslóðarinnar er síst minna en hér, en þar eykst slysatíðnin hjá körlum á þessum aldri. Talað er um að slys af völdum karla yfir 50 ára sem eru á mótorhjóli hafi aukist um 24% á tæpum 10 árum. Á Íslandi vonast fólk til þess að það gerist ekki á næstu árum og umboðin benda á að karlar á þessum aldri fari með hjólin sín eins og postulín. ■
23.8.2003
6.8.03
Hraðbrautarkeppni á Neistaflugi
NORÐFIRÐINGAR stóðu fyrir hátíðinni Neistaflugi um síðustu helgi. Líkt og í fyrra var hraðbrautarkeppni fyrir torfæruhjól meðal dagskrárliða og fór þar fram magnað mót. Hraðbrautarkeppni fyrir torfæruhjól, „Speedway“, fer þannig fram að ekið er í hringi eftir sléttri, hringlaga braut á malarvelli.
Til þess að gera brautina meira krefjandi var einn stökkpallur settur á annan af beinum köflum brautarinnar.
Keppt var í milliriðlum og úrslitariðlum, 4 hringir í hverri glímu. Á miklum hraða verða víðar beygjurnar flughálar og miklu máli skiptir að halda rásfestu í framdekkinu og ná góðu gripi í afturdekkið til að skjótast út úr beygjunum.Keppnin vakti verðskuldaða athygli bæjarbúa sem og gesta Neistaflugshátíðarinnar sem flykktust á malarvöll Norðfirðinga til að fylgjast með keppninni.
Úrslit:
1. Bjarni Bærings.
2. Hjálmar Jónsson.
3. Tómas Kárason.
Morgunblaðið 6 ágúst 2003


