23.7.15

SÝNING UM KONUR OG MÓTORHJÓL

ÁHUGAMÁLIÐ Jónína Baldursdóttir er duglegað hjóla
 og hefur átt þátt 
í að skipuleggja nokkrar ferðir á
vegum Tíunnar, 
Bifhjólaklúbbs Norðuramts, og er
nýkjörin 
stjórnarmeðlimur þar.  MYND/EINKASAFN
MÓTORHJÓLASAFN
Myndir af konum á mótorhjólum, sögubúta og ýmsa muni sem minna á tengsl kvenna og mótorhjóla má finna á sýningu sem stendur yfir í Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri í sumar.

Þessi sýning kom þannig til að stjórn Mótorhjólasafnsins óskaði eftir því að konuklúbbarnir á Akureyri tækju að sér að búa til sýningu í tilefni af hundrað ára kosningaafmæli kvenna,“ segir Ragnhildur Arna Hjartardóttir sem heldur utan um sýninguna Konur og mótorhjól, sem var opnuð í Mótorhjólasafni Íslands þann 14. júní og stendur til 30. ágúst.
Ekki reyndist þrautalaust að safna saman munum og upplýsingum fyrir slíka sýningu enda hefur saga íslenskra mótorhjólakvenna ekki verið skráð. „Við hóuðum saman hópi af konum og vorum sex í nefnd. Við vorum með lítið fé á milli handanna en biðluðum til mótorhjólakvenna um allt land að senda okkur myndir,  upplýsingar og muni,“ segir Ragnhildur.
 Á sýningunni er að finna fjöldann allan af myndum en einnig ýmsar upplýsingar, sögur og muni. „Við komumst að því með góðri hjálp að fyrsta konan sem átti mótorhjól á Íslandi var Helga Níelsdóttir ljósmóðir árið 1939.
Hún notaði það til að aka til vinnu, en gafst reyndar fljótt upp á því þar sem þungt var að vera á því og af því að vegir voru að mestu malarvegir þurfti hún iðulega að skipta um alklæðnað eftir hverja ferð vegna ryks og drullu. Síðan er vitað um aðra konu rétt eftir stríð sem var á hjóli sem hún fékk hjá hernum. Lítið er vitað um fleiri konur fyrr en stelpur fóru að vera á skellinöðrum á áttunda áratugnum og síðan þegar konur fóru að sjást meira á hjólum á níunda áratugnum,“ upplýsir Ragnhildur. Hún segir þróunina hraðari upp á síðkastið. „Konur á öllum aldri eru farnar að láta gamlan draum rætast og taka mótorhjólapróf sem er frábært.“

Litlar tölulegar upplýsingar eru til um konur og mótorhjól. „Við vitum þó að frá 1980 hafa 2.930 konur verið skráðar eigendur þungra bifhjóla.“ Við erum með myndir og brot úr sögu, mótorhjól og klúbbatengdan fatnað. Svo erum við með konur í mótorhjólalögreglunni. Guðrún
Jack var svo dásamleg að lána okkur hluta af fatnaði og myndir af sér og upplýsingar. Sýningin Konur og mótorhjól er opin alla daga frá kl. 10 til 17.
20.7.15

Inga Birna keppir í Suður-Afríku

Myndina tók Árni Sæberg og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Inga Birna Erlingsdóttir, lögreglumaður í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið valin í 10 manna úrtak fyrir fyrsta alþjóðlega kvennalið GS bikars BMW, en keppt er á R 1200 GS mótorhjólum frá BMW. 

Fram undan er sex daga undankeppni, sem haldin verður í Suður-Afríku í september, en að henni lokinni verða valdar þrjár konur til þátttöku í aðalkeppninni í Taílandi á næsta ári. Mikið mun reyna á hæfni, þol og samvinnu keppenda, sem spreyta sig í ýmsum þrautum á meðan keppninni stendur.  Þátttökuliðin koma víða að, en 2016 verða konur með í fyrsta sinn og þá í alþjóðlega liðinu sem áður var nefnt.

Þess má geta að Inga Birna var valin úr hópi 119 kvenna frá 28 löndum, sem allar sóttust eftir að taka þátt í keppninni. Það eitt og sér er mikill heiður fyrir hana og svo gæti hún hæglega komist í þriggja manna keppnisliðið sem mætir til leiks í Taílandi á næsta ári. Samstarfsfélagar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu óska Ingu Birnu til hamingju með að hafa komist í 10 manna úrtakið og óska henni góðs gengis í undankeppninni í Suður-Afríku.
20.6.2015

8.7.15

Landsmót bifhjólafólks haldið í Eyjum um síðustu helgi: (2015)

Framvarðasveitin: Tryggvi Sig, Hjalti Hávarðar,
Jenni, Óskar og Steini Tótu.

Hópakstur á 90 hjólum og nokkur hundruð hestöflum... 

Dansað og djammað í Herjólfsdal :: Allt fór vel fram, segja Drullusokkar sem stóðu að mótinu

Þau voru mörg hestöflin sem saman voru komin í Herjólfsdal þar sem bifhjólafólk á Íslandi hélt landsmót. Alls voru um 200 manns mótinu og um 90 hjól sem vöktu mikla athygli þegar þau fóru um Heimaey í einni röð á laugardaginn. „Það vorum við í Drullusokkunum, bifhjólasamtökum  Vestmannaeyja, sem héldum mótið að þessu sinni,“ sagði Gunnar Adólfsson, Darri í Bragganum, þegar Eyjafréttir ræddu við hann að mótinu loknu. Var hann mjög ánægður með hvernig til tókst. „Hér áður voru það Sniglarnir sem sáu um landsmótið en undanfarin ár eru það minni
klúbbarnir sem taka að sér að halda það. Nú var komið að okkur og tókst bara vel.“
 Gist var í Herjólfsdal og fengu þau þjóðhátíðartjald ÍBV til afnota.
Darri segir að dagskráin hafi byrjað á föstudaginn á þrautakeppnum á hjólunum. Um kvöldið var slegið í dýrindis fiskisúpu og Jarl kom og tók nokkur lög við mikla ánægju gesta. Á eftir var ball með Sniglabandinu í tjaldinu og var dansinn stiginn fram á nótt. „Á laugardaginn fórum við hópakstur um bæinn og suður á eyju og voru 90 hjól í hópnum. Á eftir var spyrnukeppni á skellinöðrum í kringum tjörnina sem vakti mikla athygli og ekki síður kátínu. Á eftir grilluðum við lambakjöt sem rann ljúflega niður. Þá var komið að þætti Bjartmars Guðlaugssonar sem skemmti í heilan klukkutíma. Fór hann á kostum og hefur sjaldan verið betri.  Sniglabandið lék svo á ballinu sem stóð til klukkan fjögur. Þar með lauk velheppnuðu landsmóti og ég heyrði ekki annað en að gestir væru ánægðir með hvernig til tókst,“ sagði Darri.

Ómar Garðarsson
omar@eyjafrettir.is

https://timarit.is