20.7.08

Opna Mótorhjólasafn á Akureyri

Föðurbróðir minn lést í mótorhjólaslysi fyrir tveimur árum síðan, en þá hafði hann ætlað sér að opna mótorhjólasafn og var komin með 22 hjól.
 Við ákváðum því að taka við kyndlinum og opna safn í minningu hans,“ segir Jóhann Freyr Jónsson, safnstjóri á mótorhjólasafni sem reist verður til minningar um Akureyringinn Heiðar Jóhannsson. 

Safnið verður á safnasvæðinu sunnan við Iðnaðarsafnið á Krókeyri og verður alls um 800 fermetrar að stærð.

„Fjölskylda og vinir Heiðars hafa stofnað sjálfseignarstofunun um bygginguna og reksturinn, en
stefnt er að því að framkvæmdum við fyrsta áfanga verði lokið næsta sumar.
 Auk þeirra hjóla sem Heiðar átti hefur safnið fengið mörg að gjöf og á nú orðið um 50 mótorhjól sem munu vera
til sýnis,“ útskýrir Jóhann Freyr. „

Safnið verður án efa skemmtileg viðbót við safnaflóruna í
Eyjafirði, en ekki síður heimildageymsla um sögu mótorhjóla sem er stór hluti samgöngusögu
Íslands,“ segir Jóhann. 
Geinin í HQ-PDF

19.7.08

Fyrsta skóflustungan af safninu

Fyrsta skóflustunga að Mótorhjólasafni Íslands var tekin 19.júlí 2008.

Á myndinni eru 9.karlmenn en 10.skóflur.
 Ein af þeim er fyrir Heidda (heitinn) sú er Jón Dan heldur í.

Talið frá vinstri  :   Sigurjón P Stefánsson, Gunnar Rúnarsson, Jóhann Freyr Jónsson, Jón Dan Jóhannsson, Rúnar Hafberg Jóhannsson, Guðmundur Jóhannsson, Axel Stefánsson, Stefán Finnbogason og Kristján Þór Júlíusson. 


16.7.08

Vélfákar á safn

*800 fermetra mótorhjólasafni komið upp á Akureyri *Safnið reist til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson

„VIÐ tökum fyrstu skóflustunguna að safninu á laugardaginn kl. 12 og ef allt gengur eftir verður fyrsti hluti safnsins tilbúinn eftir ár,“ segir Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri mótorhjólasafns sem er í bígerð á Akureyri. Safnhúsið verður reist í fjórum áföngum og verður um 800 fermetrar að stærð þegar það er tilbúið.

Á safninu verða um 50 bifhjól og þar verður hægt að sjá í máli, munum og myndum yfir 100 ára sögu mótorhjóla hér á landi. Elsta hjólið á safninu er frá árinu 1928, af gerðinni Triumph og var gefið af Jóni Dan Jóhannssyni, föður Jóhanns Freys safnstjóra: „Þetta hjól er enn í góðu standi og er þar með elsta gangfæra mótorhjólið á Íslandi.“

Af öðrum hjólum á safninu má nefna tvö fyrstu lögreglumótorhjólin sem notuð voru á Akureyri. Munirnir á safninu munu koma víðsvegar að af landinu, og hafa margir bifhjólamenn gefið muni.

Safnið verður reist til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson föðurbróður Jóhanns Freys, sem lést í mótorhjólaslysi fyrir 2 árum. „Hann var mikill karakter,“ segir Jóhann. „Heiðar hafði lengi dreymt um að koma upp safninu og var byrjaður að safna hjólum í það. Við, vinir hans og fjölskylda, viljum minnast hans með því að taka við kyndlinum og koma safninu upp.“

Um helgina verða haldnir Hjóladagar á Akureyri og á föstudagskvöld verða sérstakir söfnunartónleikar til styrktar safninu í Sjallanum.
Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson
hsb@mbl.is
16. júlí 2008