12.6.08

Mótorhjólamessa var eftirtektarverð

Mótorhjólamessa í samstarfi þjóðkirkjusafnaða og Hvítasunnukirkjunnar var haldin í Digraneskirkju að kvöldi annars dags hvítasunnu.
 Flestir mótorhjólaklúbbar áttu fulltrúa í messunni með þátttöku sinni. Messunni stjórnuðu prestarnir sr. Gunnar Sigurjónsson, Snigill og IFMR, sr. Íris Kristjánsdóttir, Snigill og Skutla og Jón Þór Eyjólfsson aðstoðarprestur Fíladelfíu, Snigill og Trúboði.
Tónlistarmaðurinn Þorvaldur Halldórsson sá um tónlistina ásamt Meme-group sem er gospelkór unglingastarfsins í Digraneskirkju.
Leðurklæðnaður og annar öryggisbúnaður á mótorhjólum
var viðeigandi messuklæðnaður. Tilgangurinn var m.a. að minna á þær hættur sem fylgja akstri mótorhjóla og hvetja allt mótorhjólafólk til aðgætni í umferðinni í sumar.
Kópavogsblaðið júní 2008

3.6.08

Mótorkross er ekki bara fyrir stráka


Alls ekki eina stelpan í sportinu


Mótorkross nýtur sívaxandi vinsælda á Íslandi en nokkur sértilbúin svæði má finna til þeirrar iðkunar í nágrenni við Reykjavík. Það kemur skemmtilega á óvart að aukningin hefur ekki síst átt sér stað í hópi kvenna.

Hin 25 ára gamla Sigríður Garðarsdóttir starfar sem rekstrarstjóri tískuverslananna Fókus og Smash. En þegar vinnudegi lýkur skiptir hún heldur betur um gír, hendir sér í leðurgallann og heldur út fyrir bæinn til að sinna áhugamálinu: mótorkrossi.

 „Ég fékk áhuga á mótorkrossinu í fyrrasumar en ég kynntist þessu í gegnum kærastann minn,“ segir Sigríður en hún telur að flestar stelpurnar í sportinu hafi kynnst því með svipuðum hætti. „Ef það er ekki kærastinn þá er það yfirleitt einhver úr fjölskyldunni, t.d. foreldri.“ Auðvitað séu þó undantekningar á þessari reglu, en hvernig sem áhuginn kviknar þá hefur stelpunum í hópnum fjölgað töluvert upp á síðkastið, sérstaklega síðustu tvö ár. Þá séu starfandi þó nokkrir stelpuklúbbar en hún tilheyri reyndar engum slíkum.

Reddar sér alveg

Eins og við er að búast fylgir krossurunum eitthvert viðhald en Sigríður segir það ekkert sem hún ráði ekki við. „Það kemur fyrir að maður detti og það brotni hlutir, gírinn eða eitthvað slíkt. Maður reynir náttúrulega að laga það sem maður getur sjálfur, það þýðir ekkert annað! En núna er ég búin að vera ein að þessu í um það bil tvo mánuði og mér tekst yfirleitt að redda mér. Svo eru allir tilbúnir til að hjálpa manni og ég hef þegið það með þetta erfiðasta.“

Þarf ekki að vera hættulegt

Sigríður segir að það sé ekkert mál að samræma sportið og vinnuna og segist ekki eiga í vanda með skítarendur undir nöglum né marbletti. „Ef ég er mikið á hausnum þá er ég oft marin en það sést þá ekki og er allt falið af fötunum,“ segir hún og þvertekur fyrir að þessi íþrótt sé hættuleg. „Maður er mjög vel varinn á höfði og líkama – sé maður með réttan búnað og keyrir eftir getu þá ætti maður ekki að vera í mikilli hættu. En ef þú ert til dæmis að taka einhver stökk eða eitthvað sem þú kannt ekki þá geturðu lent í vondum málum.“ Að lokum segir Sigríður okkur að þótt hún geti stundað krossið á veturna sé sumarið tíminn og nú nýti hún allar frístundir í sportið. „Ég reyni að fara eins oft og ég get, helst á hverjum degi, og ætla mér að taka þátt í keppnum í sumar, þó svo að ég sé ekkert þrusugóð. Það er bara svo gaman að taka þátt og svo er félagsskapurinn líka frábær.“ 


Eftir Hauk Johnson haukurj@24stundir.is

2.6.08

Á mótorhjóli síðan 1950

HILMAR LÚTHERSSON: SNIGILL NÚMER EITT OG Á NÓG EFTIR

„Ég byrjaði þegar ég var tólf ára, árið 1950,“ segir Hilmar Lúthersson, snigill númer 1. Nú þegar sumarið er komið eru mótorhjól æ algengari sjón á vegum landsins. Hilmar man tímana tvenna enda tæp 60 ár síðan hann eignaðist sitt fyrsta mótorhjól. „Þá voru bara breskar skellinöðrur, níutíu kúbika, tvígengis og gíralausar. Þú þurftir ekki próf á þær fyrr en þær voru orðnar 100 kúbik, þá voru þær hestafl samkvæmt viðmiðum þess tíma,“ segir Hilmar sem eignaðist sitt fyrsta stóra mótorhjól um sextán ára aldurinn. „Það var Ariel 500, ´46 módelið,“ segir Hilmar sem hefur eignast slíkt hjól aftur. „Ég átti þetta hjól í tvö ár en svo tóku við bílar og kvennafar og síðar fjölskyldulíf. Ég byrjaði svo aftur í þessu 43 ára,“ segir Hilmar og bendir á að mikið hefur breyst síðan þá. „Þá þótti ég vera gamall kall, svona hálfgert viðundur. Nú er annað hvert hjól einhver loftpressa og á henni karl um sextugt sem er að byrja í sportinu,“ segir Hilmar.

Hilmar segir mótorhjólaæðið í rénun sökum efnahagsástandsins. Sjálfur á hann þó mörg mótorhjól. „Ég er búinn að eiga um hundrað mótorhjól í gegnum tíðina og búinn að gera upp tugi,“ segir Hilmar. Hann segist hafa prófað vel flestar tegundir hjóla. „Ég er til dæmis búinn að prufa Harley, og það eru ekki  mótorhjól. Þau eru bara eitthvað sem þú átt að eiga inni í skúr. Öll hin hjólin eru mikið framar í hönnun og öllu,“ segir Hilmar en viðurkennir að Harley-hjólin hafi skánað eftir að „Kaninn hætti að vera með puttana í þessu öllu“ og framleiðsla hjólanna dreifðist um heiminn. „Þeir sem ekki hafa vit á mótorhjólum segja „vá!“ þegar þeir sjá Harley.“
  Síðan Hilmar byrjaði aftur hefur mótorhjólum fjölgað umtalsvert og tillitssemi ökumanna bifreiða er meiri en hún var, en þó verða mótorhjólamenn alltaf að vera með puttann á bremsunni. Hvað aksturslag mótorhjólamanna sjálfra varðar segir hann: „Það er ekkert verra í dag en það var í gamla daga. Þá var auðveldara að þekkja lögguna úti á vegi og menn höfðu því nægan tíma til að hægja niður. Það gat stundum verið gaman að bruna austur fyrir fjall því þar var malbikað alla leið,“ segir hann. 
 Hilmar segir að það séu til tvær flokkar af mótorhjólamönnum, þeir sem eru búnir að detta, og þeir sem eiga það eftir. Hann komst í seinni flokkinn árið 2004 þegar hross hljóp í veg fyrir hann og hann datt og brákaði nokkur rif. Hann er þó hvergi nærri hættur þótt hann fylli 70 ár í ágúst.
 soli@frettabladid.is