22.5.08

Bifhjólasýning Raftana

   Mótorhjólamenn um allt land lögðu leið sína í íþróttahúsið í Borgarnesi, eða Fjósið eins og það er oft kallað, í þetta skipti ekki til að horfa á körfubolta heldur á bifhjólasýningu Raftanna.


Hin árlega bifhjólasýning Raftanna var haldin síðastliðinn laugardag. Sýningin var haldin í Íþróttahúsinu í Borgarnesi og er þetta sjötta sýningin á sjö árum, þar sem eitt árið var verið að parketleggja íþróttahúsið. Enginn sýningarstjóri er við sýningarnar þar sem allir Raftar sem koma að sýningunni vinna samán að þessu. „Öll árin sem sýningin hefur verið haldin hefur hún verið vel sótt og hafa yfirleitt um 500-600 mans mætt árlega og talið er að jafnvel fleiri hafi mætt á sýninguna nú. Þetta er bara orðið fastur liður hjá mótorhjólamönnum um mestallt land," segir Guðjón Bachmann, formaður Raftanna.

    Húsnæðið of lítið 

Raftarnir sýna nú um 40 hjól og svo hafa vélhjólaumboðin aíltaf komið með sinn skerf af hjólum, vélsleðum eða fjórhjólum en í þetta skiptið komu umboðin bara með hjól og annan búnað tengdan þeim. f ár voru þeir með hjól frá Heiðari Jóhannessyni sem var goðsögn í lifandi lífi meðal vélhjólamanna. „íþróttahúsið er einfaldlega orðið of lítið, ef við viljum halda alvörusýningar verðum við að hafa nægilega stórt húsnæði, við reyndum einu sinni að hafa sýninguna úti en þá týndust allir og það fór bara í vaskinn," sagði Guðjón

Smitast frá foreldrum

Raftarnir voru stofnaðir árið 2001 af 32 vélhjólamönnum í Borgarfirði. Og í dag eru um 90 meðlimir í hópnum og eru allir mjög virkir. „Hópurinn er bara ein stór fjölskylda," segir Guðjón. Ekki getur maður orðið meðlimur Raftanna fyrr en við 17 ára aldur en flestir meðlimir Raftanna eiga börn og  taka þau með sér á öll mót og annað sem Raftarnir halda. Krökkunum, sem eiga hjól og eru ekki með aldur til að vera í Röftunum, er velkomið að sýna hjólin sín enda var mikið af hjólum frá verðandi Röftum.

Hjólið látið hanga 


Á stórum Harley Davidson mótum í Bandaríkjunum hefur það verið siður að festa japanskt mótorhjól í krana svo er olían látin leka úr því og það ræst. Hjólið svo híft upp og látið bræða úr sér. Eftir að hjólið hefur brætt úr sér er það látið síga niður og þá er það barið til óbóta með hafnaboltakylfum. Raftarnir ætla ekki að taka upp þennan sið en á sýningunni nú létu þeir mótorhjól hanga í krana á Shell-planinu í Borgarnesi, sem blasti við þegar maður kom inn í bæinn.
Hugmyndina átti Helgi Sigurvin Kristjánsson, eigandi HSK krana, sem útvegaði kranann og einniger hann Raftur og á mótorhjólið sem var látið hanga.
Dagblaðið Vísir
22.05.2008 

14.5.08

Þægileg keyrsla

Regla Harley Davidson-aðdáenda er að selja aldrei fyrsta hjólið sem þeir eignast. Björn Leifsson kallar slík hjól monthjól og nýtur þess að sitja fákinn á góðviðrisdögum eins og sífellt stærri hópur Íslendinga. Þar á meðal eru hjónin Oliver Pálmason og Nanna Guðbergsdóttir sem ferðast saman á mótorhjólum. Vala Georgsdóttir fræddist um lífsstíl þessara töffara.

Harley Davidson er eitt helsta lífsstílsmerki í heiminum. Ímynd Harley Davidson-mótorhjólanna tengist þannig sterkt heimi kvikmyndanna. Enda hefur kvikmyndastjarnan James Dean á sér ímynd sem einn frægasti Harley Davidson mótorhjólatöffari allra tíma.
   „Ég kalla þetta monthjól,“ segir Björn Leifsson í World Class, sem átt hefur Harley Davidson-mótorhjól um tíma. Þetta er fyrst og fremst skemmtun,“ segir hann. En hjólið notar hann helst á góðviðrisdögum og þá til og frá vinnu. 
   „Því er ekki hægt að neita að Harley Davidsonmótorhjólunum fylgir ákveðið snobb,“ viðurkennir Björn. „En fyrsta Harley Davidson-mótorhjólið sitt verður maður víst alltaf að eiga, heyrði ég einu sinni, og kaupa sér bara annað hjól.“
   Hjónin Oliver Pálmason og Nanna Guðbergsdóttir segja að hjólamennskan sé sameiginlegt áhugamál þeirra. Þau hafa ferðast saman víða um Evrópu á mótorhjólum. En þegar þau fara í lengri ferðir eru þau alltaf saman á einu hjóli. Líkt og Björn eiga þau Harley Davidson-mótorhjól sem þau hafa mjög gaman af. „Þetta eru glæsikerrur sem þægilegt er að keyra, enda eru þau afskaplega falleg,“ segir Nanna og Oliver bætir við „að það að ferðast um á mótorhjóli sé lífsstíll sem veitir gríðarlegt frelsi“.
„Harley Davidson-hjólin eru ekki hönnuð fyrir mikinn hraða heldur þægilega keyrslu,“ bendir Oliver á. Hér heima er helst farið í stuttar ferðir á suðvesturhorninu og vinsælt er að fara Þingvallahringinn í góðu veðri.
   Þegar Oliver og Nanna bjuggu í München í Þýskalandi um nokkurra ára skeið var stutt að fara yfir til Ítalíu. Þau hafa því þrætt saman marga strand- og fjallvegi bæði á Suður- og Norður-Ítalíu. Uppáhaldsstaðurinn þeirra á Ítalíu er Amalfi-skaginn, sem er um 100 km suður af Napolí. „Þegar ferðast er á mótorhjóli á milli strandbæja á Ítalíu í 30 stiga hita, keyrandi á 50-70 km hraða og með vindinn í fangið erum við heldur betur upptekin af líðandi stund.“
   „Þeir sem velja að keyra um á Harley Davidson-mótorhjóli eru ekki að sækjast eftir neinu adrenalínkikki,“ segir Nanna. „Þessi ferðamáti er einstakur fyrir það hve komist er í nána snertingu við mannlífið og náttúruna. Þegar ferðast er á mótor hjóli er að vísu hægt að fara hratt yfir, en best væri að segja að komið sé víða við,“ segir Oliver.
   Þessi lífsstíll, að þeysast um á mótorhjólum, nýtur aukinna vinsælda og er ekki lengur bundinn við ákveðinn aldur né kyn. Björn, Oliver og Nanna eru sammála um að vaxandi áhugi fólks á hjólamennsku eigi sínar skýringar. Aldur er vissulega hugarástand, enda er fólk líklega almennt orðið meðvitaðra um það að huga meira að sjálfu sér en áður. Ímynd mótorhjólatöffarans tekur því stanslausum breytingum líkt og annað í síbreytilegum heimi hugmynda og lífsviðhorfa. 
 

3.5.08

Ofursvalur Spessi á Harley

Hugsanlega kemur það einhverjum á óvart en einn fremsti ljósmyndari landsins er jafnframt forfallinn mótorhjólamaður


„Þetta er eins og að vera kúreki. Frelsi. Að vera „on the road“ er staður og stund þar sem þú ert
ósnertanlegur. Hjólar með vindinn í andlitið … lyktin af ökrunum, nálægðin við malbikið.
    Það er náttúrlega engin skynsemi að vera á mótorhjóli,“ segir ljósmyndarinn Spessi og gefst upp á að lýsa því hvaða tilfinning fylgi því að vera á mótorhjóli.
  Þeir eru að skríða út á malbikið með vorinu mótorhjólamennirnir. Og einnig margir sem menn tengja ekki við mótorhjól. Spessi er einn þeirra. Ofursvalur á breyttu hjóli, Cooper, en það kallast hjól sem eru með langa gaffla.  Spessi segist hafa átt skellinöðru sem unglingur en svo tók alvara lífsins við eins og gengur.
    Um þrítugt fékk Spessi sér Kawasaki 650, og ári síðar Yamaha sem líktist Harley Davidson. Sem var alltaf draumurinn. Svo var mótorhjólamennskan lögð á hilluna.
„Svo liðu fimmtán ár og ég var fenginn til að gera auglýsingu fyrir SS pylsur. Þar áttu að vera mótorhjólatöffarar og ég fór að leita á gömlum slóðum. Fann nokkra fúlskeggjaða Harleykarla. Tveimur dögum síðar fór ég í umboðið og keypti mér Harley, og hef átt þrjá síðan.
   “ Fyrst keypti hann sér Dyna Lowrider og seinna Night Train en á því hjóli fór hann vítt og  breitt, meðal annars til Noregs á stórt mótorhjólamót. „Svo í lok sumars 2006 svínaði maður fyrir mig og ég inn í hliðina á honum,“ segir Spessi og vandar sofandi sauðum í umferðinni ekki kveðjurnar. Eftir tryggingastapp fékk hann peninga út úr slysinu, keypti nýja grind á hjólið og lét sérsmíða gaffla í Svíþjóð. Þá var hjólið orðið eins og Spessi vildi hafa það.
    Þegar blaðamaður bendir Spessa, sem er í Harley Davidson-klúbbnum og ritstýrir að auki tímariti samtakanna, á að oft séu mótorhjólamenn ekki til fyrirmyndar í umferðinni með því að skjótast milli akreina segir Spessi sitthvað, „racer“-hjól og svo „Harley“: „Racer er adrenalíngræja en Harley er endorfín. Þetta er eins og að vera annars vegar á spítti og hins vegar á heróíni. Allt önnur stemning –
held ég,“ segir Spessi sem hefur látið úða listaverk á bensíntank hjóls síns. „Venus úr málverki
eftir Botticelli. Engar hauskúpur á mínu hjóli heldur ástin og stemningin.
   “ Spessi bendir á að hjól sitt megi skoða á sýningunni Bílar og sport í Fífunni um helgina. Sjálfur er hann svo á leið til Mekka mótorhjólamannsins, sem eru Bandaríkin. Nánar tiltekið liggur leiðin til Sturges í South Dakota. Sturges er 6.500 manna bær og á fimm dögum koma þangað hálf milljón manna á Harley Davidson. Bærinn stækkar í um tuttugu kílómetra radíus.”
Fréttablaðið 3.mai 2008
 jakob@frettabladid.is