25.9.00

Fullur bensíntankur af peningum


Styrktartónleikar: 

Fullur bensíntankur af peningum - rennur til tryggingafélaga 

„Vegna mikils barlóms og bágborinnar stöðu tryggingafélaga að undanförnu og mikillar hækkunar á iðgjöldum á tryggingum á mótorhjólum ákvað mótorhjólafólk að taka höndum saman og safna fé til handa tryggingafélógunum svo að þau eigi auðveldara með að tryggja mótorhjól," segir Guðmundur Zebitz í stjórn Sniglanna um skemmtun þá sem fimm bifhjólasamtök stóðu fyrir á Ingólfsstorgi í gær. Um 300 manns mættu á skemmtunina þar sem fimm hljómsveitir, allar skipaðar mótorhjólafólki spiluðu og menn gátu látið fé af hendi rakna til styrktar tryggingafélögunum. Tekið  var á móti framlögunum í bensíntank og mun peningunum verða skipt jafnt á milli tryggingafélaganna. „Tankurinn fylltist og var fólk gjafmilt í garð lítilmagnans," segir Guðmundur sem veit þó ekki hversu miklir peningar hafa safnast þar sem saga þarf bensíntankinn í sundur til þess að ná aurunum út en það verður gert í vikunni. -snæ
DV 25.09.2000

Vel heppnaðir tónleikar bifhjólamanna


130 mótorhjól voru saman komin á Ingólfstorgi í gær
og enn fleira fólk, bæði hjólamenn og stuðningsmenn
þeirra.
 Morgunblaðið
Bif­hjóla­menn eru ánægðir með hvernig til tókst með tón­leika þeirra í gær á Ing­ólf­s­torgi. 

"Þeir vöktu mikla at­hygli og við feng­um góð viðbrögð hvarvetna," sagði Víðir Her­manns­son, fé­lagi í stjórn Bif­hjóla­sam­taka lýðveld­is­ins, Snigl­anna, en tón­leik­arn­ir voru haldn­ir til styrkt­ar trygg­inga­fé­lög­un­um. Ekki er búið að telja ágóðann en Víðir seg­ir að það verði gert síðar í dag. 
Á miðviku­dag­inn verður hald­inn fund­ur þar sem ákveðið verður með hvaða hætti trygg­inga­fé­lög­un­um verða af­hent­ir pen­ing­arn­ir.130 mótorhjól voru saman komin á Ingólfstorgi í gær og enn fleira fólk, bæði hjólamenn og stuðningsmenn þeirra. 

Bifhjólamenn ákváðu að halda tónleikana til að vekja athygli á hvernig tryggingamálin standa hjá þeim, en að sögn Víðis greiðir meðal bifhjólakappi um fjögur til fimm hundruð þúsund krónur í tryggingagjald á ári. „Tryggingafélögin halda því fram að kostnaður þeirra við mótorhjólaslys sé tvöfalt hærri en iðgjöldin. Af hverju hækkuðu þeir iðgjöldin þá um 300% í vor? 
Það er allt of mikil hækkun," sagði Víðir. Eftir tónleikana lögðu bifhjólamenn upp í ferðalag. „Við fórum í hópferð til að skoða tryggingahallirnar," sagði Víðir sem segist ekki hafa orðið var við mikinn skort á þeim bæjum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér málið betur geta litið á heimasíðu samtakanna.

24.9.00

Hjálmprýddir, leðurskrýddir riddarar

BIFHJÓLAMENN og -freyjur eru ekki allsendis sátt við þau háu iðgjöld sem lögð eru á fáka þeirra. Hinar leðurklæddu valkyrjur og víkingar veganna hafa því tekið hanskahuldum höndum saman og ákveðið að halda tónleika tilstyrktar tryggingafélögunum. „Sú hugmynd kom
upp að vera með virkar aðgerðir til að vekja athygli á hvernig tryggingamálin standa en meðal bifhjólamaður er að greiða hátt á fimmta hundrað þúsund króna í tryggingar á ári, án tillits til aldurs eða reynslu," segir Víðir
Hermannsson, einn meðlima Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, um tilurð tónleikanna. Hugmyndin er nú orðin að bláköldum veruleika því tónleikarnir verða í dag á Ingólfstorgi og hefjast kl. 14. Hljómsveitirnar sem koma fram eru KFUM and the andskotans, Stimpilhringirnir og Hundslappadrífa en fleiri sveitir og óvæntir gestir gætu einnig átt það til að stíga á stokk. Hljómsveitarmeðlimir eru flestir bifhjólaáhugamenn og stendur því
málefnið hjarta þeirra nærri. Þess má geta að allar sveitirnar gefa vinnu sína í þágu málefnisins. Það er þó ekki aðeins tónlistarflutningurinn eða manngæskan sem ætti að fá fólk til að flykkjast á  Ingólfstorg því einnig verða glæsilegir og afar margvísiegir mótorfákar úr bifhjólaflotanum til sýnis. Breiddin er mikil því íslenskir knapar hrífast af öllum útgáfum hjóla allt frá sófasettum til drullumallara.Ef einhver hváir yfir þessum lýsingum vefst Víði ekki tunga um tönn við að útskýra nafngiftirnar og segir skellihlæjandi: „Sófasett er stórt hjól sem er þægilegt að sitja á og hefur stereó-græjur og síma fest við settið. Drullumallarar eru svo að sjálfsögðu hjól sem eru notuð í drullumallinu, torfæru og þvílíku."
Þeir mótorhljólaklúbbar og -félög sem standa að uppákomunni eru Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, Vélhjólaklúbburinn Vík, MC Fafnir Grindavík og Vélhjólafélag gamlingja.
 Hjólamenn og aðrir áhugamenn um sportið eru hvattir til að fjölmenna og eru allir velkomnir á meðan torgrými leyfir. Þó ekki sé rukkað inn sérstakt aðgangsverð má hafa í huga að um styrktartónleika er að ræða og því tekið við frjálsum framlögum á tónleikasvæðinu.
Allur ágóði af samkomunni rennur að sögn Víðis óskertur til tryggingafélaganna „svo þau eigi auðveldara með að tryggja mótorhjól."
Mbl 24.9.2000


23.9.00

Styrktartónleikar fýrir tryggingafélög

Bifhjólafólk: 

Á morgun, sunnudag, munu bifhjólaáhugamenn og -freyjur halda styrktartónleika til styrktar tryggingafélögum sem tryggja mótorhjól og bíla. „

Vegna mikils barlóms og bágborinnar stöðu tryggingafélaga að undanfórnu og mikillar hækkunar á iðgjöldum á tryggingum á mótorhjólum hefur mótorhjólafólk tekið höndum saman og hyggjumst við safna fé til handa tryggingafélögunum svo þau eigi auðveldara með að tryggja mótorhjól," segir í fréttatilkynningu tónleikanna en að þeim standa Bifhjólasamtök Lýöveldisins, Sniglar, Vélhjólafélag Gamlingja, MC Fafner, Vélhjólaíþróttaklúbburinn VÍK og Óskabörn Óðins. Tónleikarnir eru öllum opnir og eru fulltrúar tryggingafélaganna sérstaklega boðnir velkomnir.

Meðal þeirra hljómsveita sem koma fram eru KFUM and the andskotans, Bjarni Tryggva, Stimpilhringirnir, Hundslappadrífa og Chernobyl.

Einnig verða til sýnis hjól bifhjólamanna á Ingólfstorgi á meðan tónleikarnir vara. „Ætti að vera hægt að sjá hinar ýmsu útgáfur af hjólum, allt frá sófasettum til drullumallara," segir í tilkynningunni. -SMK