4.1.21

Hringfarinn

Þvert yfir Ameríku

Íslenskir heimildarþættir um ferðalög hjónanna Kristjáns Gíslasonar og Ásdísar Rósu Baldursdóttur. Kristján sem fór hringinn í kringum jörðina á mótorhjóli snýr aftur á hjólið og í þetta sinn er Ásdís Rósa konan hans með í för. Í tilefni af 40 ára brúðkaupsafmæli þeirra ferðuðust þau þvert yfir Bandaríkin um 18 fylki á fimm vikum. Á ferðalaginu upplifðu þau stórkostlega náttúru, sögufræga staði og fjölbreytta flóru mannfólksins. Á leiðinni tóku þau fjölda ljósmynda, myndbanda og héldu nákvæma dagbók sem hér er veitt innsýn í. 

Bif­hjóla­fólk þarf að hugsa fyr­ir tvo

Verk­leg mótor­hjóla­kennsla fer yf­ir­leitt ekki af stað fyrr en í byrj­un sum­ars enda þarf að vera til­tölu­lega hlýtt úti ef nem­end­um á ekki að verða kalt við kennsl­una. Þetta seg­ir Grét­ar Viðars­son, öku­kenn­ari hjá Ekli.


„Hinn dæmi­gerði nem­andi sem kem­ur til mín til að læra á mótor­hjól er karl­kyns og í kring­um þrítugt en hóp­ur­inn er samt mjög fjöl­breytt­ur, nem­end­ur á öll­um aldri og tölu­vert af kon­um en elsti mótor­hjóla­nem­andi minn var orðinn hálf­sjö­tug­ur.“

Bók­lega og verk­lega námið er ekki svo dýrt og áætl­ar Grét­ar að hjá þeim öku­skól­um sem bjóða upp á bif­hjóla­kennslu sé heild­ar­kostnaður nem­enda í kring­um 150.000 kr. Námið er mis­langt eft­ir því hvers kon­ar öku­rétt­indi nem­end­ur hafa þegar öðlast og geta t.d. þeir sem hafa bíl­próf sleppt hluta af bók­lega nám­inu.

Bif­hjóla­rétt­ind­um er skipt í nokkra flokka: „Til að aka létt­um bif­hjól­um í flokki 1 þarf ekki að ljúka sér­stöku öku­námi og aðeins gerð krafa um að ökumaður sé orðinn 13 ára,“ seg­ir Grét­ar en í flokk 1 falla vél­knú­in öku­tæki á tveim­ur eða þrem­ur hjól­um sem ná að há­marki 25 km/​klst. hraða.

Næst kem­ur flokk­ur AM sem leyf­ir akst­ur mótor­hjóla með allt að 50 cc vél og há­marks­hraða allt að 45 km/​klst. „Til að fá AM-rétt­indi þarf fólk að hafa náð 15 ára aldri, taka 12 kennslu­stund­ir af bók­legu námi, 8 verk­leg­ar kennslu­stund­ir og þreyta próf,“ út­skýr­ir Grét­ar en þeir sem ljúka venju­legu bíl­prófi fá einnig AM-rétt­indi án frek­ari þjálf­un­ar eða prófa.

Rétt­indi til að aka stærri bif­hjól­um skipt­ast í þrjá flokka: A1, A2 og A. Hverj­um flokki fylgja viss ald­urs­skil­yrði og tak­mark­an­ir á því hversu afl­miklu mótor­hjóli má aka. Bók­lega námið fyr­ir flokka A2 og A er 24 stund­ir en nem­end­ur með B-öku­rétt­indi fá 12 stund­ir metn­ar. Fyr­ir A1-rétt­indi þarf að ljúka 5 klst. af verk­legri kennslu en 11 stund­um fyr­ir A2- og A-rétt­indi en hægt er að fá 5 stund­ir metn­ar ef nem­andi hef­ur þegar fengið A1-rétt­indi.

Lág­marks­ald­ur fyr­ir A1-rétt­indi er 17 ár og fyr­ir A2-skír­teinið er miðað við 19 ára ald­urslág­mark. Loks þurfa nem­end­ur að vera orðnir 24 ára til að fá A-skír­teini. „Und­an­tekn­ing frá þessu er að ökumaður sem hef­ur verið með A2-skír­teini í tvö ár get­ur tekið próf til að fá A-skír­teini þó hann hafi ekki náð 24 ára aldri,“ út­skýr­ir Grét­ar.

A1-flokk­ur nær yfir mótor­hjól með slag­rými allt að 125 cc, A2-flokk­ur miðar við afl allt að 35 kw og allt að 0,2 kw/​kg en hand­höf­um A-skír­tein­is er frjálst að aka eins kröft­ugu hjóli og þeim sýn­ist.

Sýni mikla aðgát


Það er ekki að ástæðulausu að mótor­hjóla­rétt­indi skipt­ast í ólíka flokka og að öku­menn verði að ná viss­um aldri til að fá að aka afl­mestu mótor­hjól­un­um. Kraft­mikið mótor­hjól kall­ar jú á vissa fimi og líka ákveðinn þroska enda get­ur glanni og gúmmítöffari á mótor­hjóli bæði slasað sjálf­an sig og aðra. Að því sögðu þá þykir Grét­ari það leiðin­leg mýta að mótor­hjól þyki hættu­leg far­ar­tæki. „Bif­hjól verður ekki hættu­legt fyrr en því er ekið óvar­lega og ekki í sam­ræmi við aðstæður. Það er und­ir öku­mann­in­um sjálf­um komið hversu hættu­lega eða ör­ugg­lega hann ekur.“

Bif­hjóla­menn þurfa að temja sér sér­staka aðgát og seg­ir Grét­ar oft sagt að öku­menn mótor­hjóla verði að hugsa fyr­ir tvo: bæði fyr­ir sig og fyr­ir aðra veg­far­end­ur. „Mun­ur­inn á því að aka mótor­hjóli og bíl er að ökumaður mótor­hjóls er óvar­inn í árekstri. Því miður vill það ger­ast að aðrir öku­menn sjá ekki aðvíf­andi mótor­hól eða van­meta fjar­lægð og hraða hjóls­ins og t.d. aka í veg fyr­ir mótor­hjólið á gatna­mót­um. „Á mótor­hjóli þarf fólk að temja sér að vera stöðugt á varðbergi og meðvitað um hvar vara­sam­ar aðstæður gætu skap­ast.“

Að því sögðu þá er ekki neitt sér­stak­lega erfitt að læra að aka mótor­hjóli og seg­ir Grét­ar að nem­end­ur þurfi yf­ir­leitt ekki fleiri verk­lega tíma en lög kveða á um. „Það sem helst er verið að þjálfa í verk­legu tím­un­um er að stjórn­un hjóls­ins verði ósjálfráð svo ökumaður þurfi ekki að hafa hug­ann sér­stak­lega við það að skipta um gír með fæt­in­um eða gefa inn og bremsa með hönd­un­um.“

Kennsla og próf­taka fara fram á mótor­hjóli öku­skól­ans og hægt að fá lánaðan hlífðarbúnað. „Það er samt æski­legt að nem­end­ur hafi a.m.k. fjár­fest í eig­in hjálmi og við hefj­um ekki æf­inga­tíma öðru­vísi en að nem­andinn sé klædd­ur í al­menni­leg­an hlífðarfatnað frá toppi til táar,“ seg­ir Grét­ar.


Mbl.is
1.7.2020

31.12.20

Tíuvefurinn óskar ykkur gleðilegs árs

 


Vefstjóri Tíuvefsins óskar ykkur gleðilegs árs og þakkir fyrir liðið.


Tvöhundruð fimmtíu og fimm greinar setti ég inn á Tíuvefinn í ár sem er reyndar ekki alveg rétt því það var bara fyrir árið 2020.   
Heimsóknir á vefsíðuna eru komnar yfir 150 þúsund og eru þær mun fleiri á facebookvefnum.

Ég reyndar gerði miklu meira en það því ég setti helling af greinum inn á hin árin aftur í tíman á vefnum. Mikið til stolið efni frá fortíðinni en eitthvað annað með.

Ég vona að þið hafið haft gaman af greinunum eins og ég hafði gaman af því að safna þeim. 

Njótið nýja ársins 
Kv Víðir #527
  Þríhjólin sem Bandaríkin bönnuðu.

Honda ATC in the air
Hver man ekki eftir Honda og Kawasaki þríhjólunum sem streymdu til landsins áður en fjórhjólabyltingin kom.

Já skemmtileg tæki en þau voru nú frekar í valtari kantinum.... og margir fóru ekki heilir frá þeim.

Tvö stk. af Hondu gerð eru inn á Mótorhjólasafni tilbúin til uppgerðar spurningin er bara hefur einhver áhuga á að gera svona upp? 


Auglýsingar á heimasíðu Tíunnar 2021


 Nú er árið liðið og þá byrjar nýtt auglýsingaár hjá okkur.
Tían hefur undanfarin ár selt auglýsingar á Tíusíðuna www.tian.is gegn vægu gjaldi og eitt ár í senn.

Ef þið hafið áhuga á að auglýsa á tíuvefnum þá hafið endilega samband við vefstjóra í tian@tian.is


Við höfum undanfarið haft trygga auglýsendur KTM og JHM-Sport , Nitró , Kalda og fleiri, en við getum bætt við nokkrum hólfum. 

Gjaldið er mjög hóflegt fyrir árið og  er síðan með yfir 150 þúsund heimsóknir á síðustu þremur árum ,, og er það bara brot af þeim heimsóknum sem Facebooksíðan okkar fær ásamt instagram og Twitter...

Tían er sennilega einn virkasti Mótorhjólaklúbbur landsins og er sennilega með flottasta félagsheimili á norðurlöndunum og víðar, þ.e. Mótorhjólasafn Íslands. sem geymir hátt í hundrað stórkosleg mótorhjól.

Landsmót Bifhjólamanna verður haldið í sumar í Húnaveri og meðlimir klúbbsins eru að halda mótið.

 Svo auglýsendur endilega hafið samband tian@tian.is

kv Vefstjóri

Frá Torginu á Akureyri

30.12.20

Ísland of lítið fyrir mótorhjólið (2014)


 HÚN ER NÝKOMIN ÚR ÞJÁLFUNARBÚÐUM ALÞJÓÐAMÓTORHJÓLASAMBANDSINS, SÉRSTÖKUM STAÐ TIL ÞESS AÐ EFLA KONUR TIL AÐ KEPPA Í ALÞJÓÐLEGUM MÓTORHJÓLAKEPPNUM. HÚN STEFNIR Á AÐ MÓTORHJÓLAKEPPNI Á SPÁNI Í SUMAR. KARLAR OG KONUR KEPPA SAMAN Á JAFNRÆÐISGRUNDVELLI.

Ég var um fimm ára gömul þegar ég byrjaði að hjóla, á reiðhjóli,“ segir Nína K. Björnsdóttir og brosir. „Ég fór strax að stökkva í gryfjum og þau voru ófá skiptin sem pabbi þurfti að sjóða saman hjólið mitt. Síðar fékk ég BMX-hjól og hjólaði aðallega með strákunum, það voru ekkert voðalega margar stelpur sem voru á þeirri tegund af hjólum en ég var bara orðin sjúk í allt sem tengdist hjólum sem krakki.“ Nína var svo 15 ára þegar hún komst í tæri við skellinöðru. „Fyrst hjólaði ég bara á nöðrunni sem þáverandi kærastinn minn átti, en fljótlega keypti ég mér mína eigin. Stuttu seinna var kominn tími á bifhjólaprófið og þá fékk maður strax réttindi á stórt hjól, hvaða mótorhjól sem er, en það er ekki svo núna.“
   Hún segir aðspurð að það hafi ekki verið svo margar stelpur í þessu. „Ég þekktir engar. Ég er ekki þessi félagslynda týpa og sótti ekki í hinn dæmigerða mótorhjólafélagsskap eins og Sniglana, ég var bara í þessu á mínum forsendum með vinum mínum í Garðabæ.“

Æfir sig til að verða betri ökumaður

Nína segir erfitt að lýsa því hvað sé svona heillandi við mótorhjólasportið. „Það er að sumu leyti hraðinn, en hér heima er hámarkshraðinn svo lágur að það er afar lítill hluti af sportinu. En það er gott að vera einn með sjálfum sér og útiveran skorar hátt. Það er til dæmis frábært þegar illa liggur á manni að setja hjálminn á hausinn og fara út að hjóla.“
   Mótorhjólakonan segir aðstöðuleysið gera það að verkum að mjög erfitt sé að stunda sportið hérlendis. „Hér eru til dæmis engar lokaðar brautir sambærilegar við þessar erlendis, þar sem hægt er að æfa sig og ná betri árangri sem ökumaður og jafnvel æfa sig undir erlendar alþjóðlegar keppnir.“ Í kjölfar stofnunar götuhjóladeildar Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar árið 2007 varð skammvinn breyting þar á. „Tvær helgar það sumar fékkst leyfi til að loka Rauðhelluhverfinu, sem þá var bara malbikaður vegur og nokkrir ljósastaurar, og búa til akstursbraut. Það var frábært veður og fullt af fólki sem mætti og æðisleg stemning. En því miður dugði sælan aðeins þær tvær helgar því í framhaldinu hélt uppbygging iðnaðarhverfisins áfram.
   Ég var í stjórn deildarinnar í nokkur ár þrátt fyrir að þekkja engan í upphafi, en kynntist fullt af góðu fólki sem hefur þennan sama áhuga á akstursíþróttum á mótorhjólum. Í dag er notað akstursíþróttasvæði félagsins (gamla rallýkrossbrautin) sem er lítill hringur sem hægt er að æfa sig á. Því má eiginlega líkja við tækniæfingar. Þar hittist hópur mótorhjólafólks tvisvar í viku yfir sumarið. Æfingarnar hjálpa manni, eins og ég hef áður sagt, að verða betri og öruggari ökumaður, einmitt vegna þess að þarna getur maður lent í óvæntum aðstæðum eins og úti í umferðinni en við miklu öruggari aðstæður. Við erum ekki stór þrýstihópur, en þessi svæði eru alveg nauðsynleg, þ.e. að það þarf að vera til gott æfingasvæði til að bæta færni. Þetta svæði mætti nýta í svo margt, t.d. í kennslu í akstri bíla, mótorhjóla og fleiri ökutækja. Þar sem fólk getur bætt kunnáttu sína í öruggu umhverfi, með eða án leiðsagnar, án þess að leggja annað fólk eða umhverfi sitt í hættu.

Hjólar á kappaksturbraut á Spáni

Það kom að því að Ísland yrði of lítið fyrir Nínu og mótorhjólið. „Ég eyði öllum mínum peningum og tíma í mótorhjól,“ segir þessi 37 ára gamla móðir. „Ég keypti mér fyrir nokkrum árum í félagi við annan mótorhjól sem er geymt á Almeria á Spáni og þangað fer ég a.m.k. tvisvar á ári og keyri á lokuðum brautum.“ Nína er einmitt nýkomin frá Almeria en nú tók hún þátt í þjálfunarbúðum Alþjóðamótorhjólaráðsins, á hennar heimavelli. „Ég fékk þar BMW S1000RR-hjól, þriggja milljóna króna hjól,“ segir hún og brosir og gefur í skyn að það hafi ekki verið neitt slor. „Þetta var 4 km braut. Við mættum klukkan níu á morgnana og hjóluðum til fjögur með kennara en bæði á undan og eftir var líkamsrækt.“ Það hefur nú ekki verið neitt mál fyrir Nínu en hún er margfaldur Íslandsmeistari í handknattleik. „Ég sá það í þessum þjálfunarbúðum að ég var alveg á pari við þær sem voru hálfatvinnumenn.

    Mig langar því mikið að reyna mig í keppnum erlendis en það kostar fé og ég verð því að leita eftir styrkjum. Þetta eru yfirleitt ekki kynjaskiptar keppnir, það keppa konur og karlar saman á jafnræðisgrundvelli, þetta er bara spurning um hversu góður ökumaður þú ert. Ég er núna um páskana að fara til Almeria á Spáni og keppa í fyrsta sinn, þar eru aðallega Bretar og Hollendingar í keppninni, og hlakka til að sjá hvar ég stend. Ég stefni ekki á atvinnumennsku, en ég veit ég get bætt mig helling og stefni á að keppa oftar en einu sinni áður en ég verð of gömul. Ég veit að ég á talsvert inni og vona að ég geti sagt barnabörnunum mínum frá ferlinum þegar þar að kemur,“ segir hún og brosir.
   Hún viðurkennir að kappakstursumhverfið sé almennt ekkert sérlega kvenvænt. „Það eru tiltölulega fáar konur að hjóla á svona keppnisbrautum, þar er alltaf talað um allt í karlkyni og karlmenn eiga það til ýmist að verða mjög fúlir eða hissa þegar þeir sjá að stelpa stakk þá af.“ Hún segir samt að almennt hafi konum sem keyra mótorhjól fjölgað mjög. „Þær eru farnar að stunda þetta sport, oft með makanum. Hjón njóta þess að fara út að hjóla saman.“
   Ertu áhættufíkill? „Nei, þetta er allt undir góðri stjórn,“ segir hún Nína, sem þeysist hratt um á mótorfák. 


Morgunblaðið 16.3.2014
Unnur H. Jóhannsdóttir
uhj@simnet.is

29.12.20

Æili sé gaman að vera lögga ? (1990)

 


Tæplega tvö þúsund manns heimsóttu lögregluna á Akureyri á lögregludeginum sem haldinn var á sunnudag. 

Þrjátíu starfandi lögreglumenn tóku á móti forvitnum gestum og fræddu þá um starfsemina, en tækjabúnaður lögreglunnar var til sýnis í sérstöku tjaldi við stöðina. Þeir lögreglumenn sem ekki voru á vakt gáfu vinnu sína. Öll börn sem þess óskuðu fengu að bregða sér á bak mótorhjóli lögreglunnar þar sem tekin var af þeim mynd, en lögreglumaðurinn sem annaðist myndatökuna stóð í ströngu; tók alls um fjögur hundruð myndir. Þá fengu börnin einnig lögreglumerki sem þau nældu í barminn.

Morgunblaðið 16 okt 1990