8.5.20

Prjónbekkur sem lokaverkefni


Hrannar Ingi smíðaði vagn til að æfa prjón á mótorhjóli sem lokaverkefni í Verkmenntaskólanum.



„Þetta byrjaði á YouTube-myndbandi sem ég sá af Rússum sem voru búnir að smíða svona græju,“ sagði Hrannar Ingi Óttarsson um tilurð þess að hann smíðaði vagn með mótorhjólagrind til prjónæfinga sem lokaverkefni sitt hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Verkstjórinn minn hló bara og sagði að ég væri ruglaður en var samt mjög opinn fyrir þessu og fannst þetta spennandi.“
   Hrannar Ingi fékk svo rennismið með sér í verkefnið og græjan fór smátt og smátt að verða til.     
 Smíðin er þó ekki einföld því að hjólið þarf bókstaflega að keyra í gír á föstu kefli og þarf því mótorhjólið að vera kyrfilega fast ofan á þessu öllu saman, en samt geta risið að framan. Knapinn stjórnar svo risinu með inngjöf og temprar það með afturbremsunni. Græjan hans Hrannars er því mjög góð til að sýna fólki hvað gerist við prjón á kraftmiklu hjóli og hvernig er best að ná stjórn á því aftur.

 Bannað á götum úti 


Samkvæmt nýju umferðarlögunum er bannað að lyfta viljandi framdekki í akstri en þar sem mótorhjólið er kyrrstætt ætti það ekki að koma að sök í þessu tilviki. „Við ætlum að vera með hjólið á svæði Bílaklúbbs Akureyrar í sumar en það er æfingasvæði. Jafnvel sýnum við græjuna á hjóladögum í sumar og kíkjum jafnvel suður. Áður en það er gert þarf samt að setja öryggisbelti á hjólið sem er fest við stýrið svo að óvanir detti ekki af hjólinu,“ sagði Hrannar Ingi sem greinilega vill hafa
græjuna eins örugga og hægt er.
    Hrannar vildi koma á framfæri sérstöku þakklæti fyrir hjálpina sem hann fékk við smíðina hjá vinnufélögunum í Slippnum á Akureyri. Einnig var hann ánægður með að kennari hans skyldi gefa honum grænt ljós á svona verkefni sem ekki allir átta sig á hvað er. Svona græja sést ekki á hverjum degi þótt einhverjir hafi kannski séð svona í útlöndum.
 Hver veit nema við fáum að sjá meira af græjunni hans Hrannars í sumar einhvers staðar á landinu, ef COVID lofar.




Fréttablaðið
bls 20


7.5.20

Nýjungar í rafhjóli frá Kawasaki

Það er ekkert leyndarmál að Kawasaki er að þróa nýtt rafmagnshjól og framleiðandinn hefur nýlega sett á netið myndbönd af hjólinu. 

Þau sýna hjólið í akstri og sundurtekið og gefa meiri hugmynd um hvernig endanleg útgáfa þess verður.
Það sem er athyglisvert er að hjólið virðist búið fjögurra gíra kassa og með keðju í stað beltis sem er algengast í rafhjólum. Skiptingin er líklegast hraðaskipting þar sem að það er engin kúpling.
Hjólið virðist að mestu byggt á grunni Z650-hjólsins en með meiri hlífum eins og sporthjól. Rafmótorinn er neðstur en rafgeymirinn er þar sem vélin er venjulega, og hleðslubúnaður þar sem bensíntankurinn var.
Rafmótorinn er sagður vera 26 hestöfl en engar upplýsingar eru enn þá um tog hans, en það eru tölur sem skipta meira máli í rafmótorum. Hjólið hefur fengið nafnið Endeavor en engar dagsetningar um frumsýningu þess eða hvenær það muni koma á markað eru fyrir hendi.

Fréttablaðið 

6.5.20

Ætla með hjólin sín á sýninguna í Köln


Bikevík er nýtt fyrirtæki í Njarðvík sem sérhæfir sig í breytingum mótorhjóla. Blaðamaður Fréttablaðsins heimsótti það á dögunum til að skoða betur mótorhjólin sem það var um það bil að afhenda, en þau eru flest af BMW-gerð.


Arnar Steinn Sveinbjörnsson varð fyrir svörum. „Við byrjuðum á þessu fyrir um þremur árum síðan en fram að því hafði maður ekki haft tíma til að gera þetta, sem manni finnst svo skemmtilegt. Fyrsta hjólið sem Bikevík breytti var Kawasaki ER500 hjól sem var breytt á tveimur vikum og tókst bara vel,“ segir Arnar. Fljótlega þróaðist áhuginn á að breyta BMW-hjólum vegna áhuga á BMW-bílum og K-hjólin voru einföld að gerð og auðvelt að breyta þeim á ýmsa vegu. Hefur Bikevík breytt þeim meðal annars í Cafe Racer hjól og líka í Scrambler hjól. „Nýjasta BMW-hjólið sem breytt er í Cafe Racer hefur fengið töluverða athygli á heimasíðum sem sérhæfa sig í breyttum mótorhjólum og eins og annar mótorhjólasmiður orðaði það, var gaman að sjá eitthvað nýtt, en það gladdi okkur mikið,“ segir Arnar.

Hafa breytt 10 mótorhjólum 

Blaðamaður Fréttablaðsins fékk að prófa nokkra gripi og kom það á óvart hversu skemmtileg þau voru í akstri og í raun og veru léttari að keyra heldur en hjólin óbreytt. Fyrirtækið er nú búið að breyta 10 mótorhjólum og er meðal annars að klára Ducatimótorhjól sem vakið hefur athygli erlendis. „Einnig erum við að klára Triumph-mótorhjól svo að BMW er ekki lengur það eina sem við gerum þótt vissulega slái hjartað þar,“ segir Arnar. Bikevík áætlar að fara með öll hjólin sem það hefur breytt á Intermot-mótorhjólasýninguna í Köln í október. Eins er á teikniborðinu að breyta nýju Kawasaki-hjóli svo að spennandi verður að sjá hvað kemur næst á götuna frá Bikevík.
Fréttablaðið 

5.5.20

Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu

Hjörtur L. Jónsson og Ólafur í ísakstri.

Hjörtur Jónsson er einn af elstu meðlimum Sniglanna. „Ég er snigill númer 56, kom inn á fyrsta árinu, haustið 1984, og búinn að vera þar síðan. Ég var aðlaður rétt fyrir aldamótin, ’97 minnir mig. Var þá gerður að heiðursfélaga fyrir vel unnin störf fyrir félagið. Ég hef verið mikið í ýmsum viðburðastjórnum, sá um landsmót, sá um tíu ára afmæli Sniglanna, á sínum tíma héldu þeir kvartmílukeppnir og Enduro-keppnir, ég sá um þetta allt saman. Ég hef verið mikið í skipulagningu og viðburðastjórnun af ýmsu tagi og þess háttar.“

   Áhugi Hjartar kviknaði eftir kynni hans af skellinöðrum. „Ég keyrði fyrst skellinöðru ’72, tólf ára gamall. Svo eignast ég skellinöðru ’76 og síðan ’83 hef ég alltaf átt eitt eða fleiri mótorhjól. Þetta var alltaf draumur, maður sá þetta í blöðum og fannst þetta spennandi. En mér er sagt að þegar ég var smágutti, 3-4 ára, þá hafi ég grátið af hræðslu þegar þetta keyrði fram hjá.“
   Er eitthvað sem stendur upp úr eða er sérstaklega eftirminnilegt?
     „Vonda minningin kemur oft fyrst upp í hugann, þegar maður missti fyrsta mótorhjólafélagann í mótorhjólaslysi. Það situr lengst og er erfiðast að vinna í. Af öllum viðburðunum, þá var það ekki beint tengt Sniglunum en þegar mótorhjól á Íslandi áttu aldarafmæli árið 2005 var haldin stór hátíð á Sauðárkróki, Hundrað ára afmæli mótorhjólsins. Ég skipulagði hana og fékk til liðs við mig þrettán mótorhjólaklúbba til að standa að hátíðinni. Það er eitt af því sem gefur mér alltaf gæsahúð vegna þess hvað allt tókst vel, fyrir utan veðrið, það var hundleiðinlegt. Hátíðin fór með eindæmum vel fram og ekki einn einasti maður tekinn með fíkniefni eða brennivín eða fyrir hraðakstur.“ Dregið hefur verulega úr alvarlegum mótorhjólaslysum undanfarinn áratug og nefnir Hjörtur nokkur atriði sem hafa haft áhrif.
„Fyrstu tíu ár Snigla létust fimmtán í mótorhjólaslysum en næstu tíu ár létust aðeins sjö. En það má þakka því að gallarnir eru betri, hjólin betri, með betri bremsum og svoleiðis. Þetta eru alltaf að verða öruggari og öruggari farartæki. Svo er skítakuldi hér, hávaðarok og ausandi rigning og allir mótorhjólamenn eiga svo góða galla þannig að ef þeir fljúga á hausinn þá eru þeir ágætlega varðir.“

Prestur eða morðingi 

   Það ríkir mikil virðing milli mótorhjólamanna. „Mótorhjólamaður er alltaf mótorhjólamaður, þegar ég mæti honum þá veifa ég honum. Það er mikil virðing borin fyrir samherjanum, við heilsum alltaf. Þetta er svona úti um allan heim, þú veist ekkert hvort þú ert að mæta prestinum eða fjöldamorðingjanum.“
  Þá er lífsgleðin áberandi. „Það eru allir glaðir, það er enginn í fýlu. Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu. Mótorhjólafólk laðast hvert að öðru, líkur sækir líkan heim. Það er svo mikil vinátta í þessu samfélagi og samheldni, ef það bilar hjá einum þá hjálpast allir að við að koma honum áfram svo að allir komist heim.“
  Hjörtur hefur líka starfað sem leiðsögumaður. „Hálendi Íslands er stærsta paradísin af þeim öllum. Það er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef verið leiðsögumaður með túristum í fimmtán ár fyrir fyrirtæki sem leigir út hjól. Þekktasti maðurinn er væntanlega gítarleikarinn í Guns N' Roses, Richard Fortus. Við erum vinir á Facebook, ég fékk vinabeiðni og var ekki alveg að kveikja. Þetta eru 150 túristar sem ég er búinn að taka hringinn í kringum landið.“
  Óhætt er að fullyrða að Sniglarnir hafi mótað líf Hjartar sem kynntist konu sinni í samtökunum. „Það var á landshátíð Sniglanna árið 1987 í Húnaveri sem við duttum saman. Við vorum búin að þekkjast lengi. Hún er númer 248.“


Fyrsta ferðin endaði ofan í skurði


Sonur Hjartar, Ólafur Hjartarson, er 23 ára og segja má að hann hafi alist upp innan um mótorhjól.
  „Fjölskyldan hefur alltaf verið í þessu, ég hef aldrei munað eftir öðru. Ég hef örugglega farið á mótorhjól þegar ég verið 2-3 ára en ég keyrði fyrst á sex ára afmælisdaginn minn. Það endaði ofan í skurði og ég fékk ör á kinnina.“
  Ólafur var með eina ósk þegar hann gekk til liðs við Sniglana. „Ég bað sérstaklega um að númerið mitt myndi enda á 56, af því að það er númerið hjá pabba. Það eru 2.400 manns á milli okkar.“
  Móðurafi Ólafs hjólar líka enn reglulega, orðinn 76 ára. „Foreldrar mínir kynntumst í gegnum Sniglana og svo er afi minn líka með hjól, honum datt það í hug þegar hann var sextugur. Hann var á skellinöðru í gamla daga, þroskaðist upp úr því en keypti sér svo Harley.“
   Feðgarnir Hjörtur og Ólafur hafa átt margar gæðastundir á hjólunum. „Ég hjóla allt árið, legg götuhjólinu kannski í nóvember en ég tek þá út torfæruhjólið og þá förum við pabbi að keyra á ís, eins og á Hafravatni og upp í fjöll.“
   Líkt og margir, nefnir Ólafur einnig frelsið sem helsta aðdráttaraflið. „Það er bara frelsið, það tala allir um þetta frelsi og svo er þetta persónulega bara drullugaman.“  


Fréttablaðið 5. MAÍ 2020 

Frelsi, friður og vinátta á vegum úti

Sniglarnir, hagsmunasamtök bifhjólafólks, voru stofnuð árið 1984. Þorgerður Guðmundsdóttir formaður og Vilberg Kjartansson varaformaður segja frelsið heillandi við mótorhjólið og að Sniglarnir séu eins og ein stór fjölskylda

Það er ekki langt síðan Þorgerður byrjaði að hjóla og hefur hún ekki stoppað síðan. „Ég hafði skoðað mótorhjól og hugsað með mér að það væri gaman að prófa. Svo prófaði ég fyrst árið 2013 að vera hnakkaskraut, semsagt sitja aftan á hjá öðrum, og þar kviknaði áhuginn. Ég var það bara einu sinni og þá varð ekki aftur snúið.“
   Þróunin var hröð. „Ég tók prófið 2014 og sama ár gekk ég í Sniglana, og tók að mér að opna húsin og svona. Fyrir tveimur árum gekk ég til liðs við varastjórn og svo fyrir ári tók ég við gjaldkerastöðu og núna í mars tók ég við formannsstöðu.“ 
   Varaformaður Sniglanna, Vilberg Kristinn Kjartansson, segir áhugann hafa kviknað á unglingsárunum. „Ég er búinn að vera í Sniglunum í að verða þrjátíu ár. Þegar ég var unglingur, 12-13 ára, kviknaði áhuginn á skellinöðrum og motorcross-hjólum. Svo kaupi ég fyrsta mótorhjólið sautján ára og hef ekki stoppað síðan.“ 

Létu strax gott af sér leiða 

Vilberg ólst upp í Laugarneshverfinu þar sem nokkrir af fyrstu Sniglunum voru áberandi. „Fyrstu Sniglarnir voru í hverfinu, þessir sem voru alveg í fyrstu númerunum. Þetta var ’81, þá leigðu nokkrir Sniglar saman. Þeir voru á þessum gömlu hjólum og leyfðu okkur stundum að sitja aftan á og keyrðu með okkur um hverfið. Þeir létu strax af sér gott leiða, þó þeir væru með sítt hár, í leðurbuxum og rokkaralega klæddir.“ 
   Blaðamaður spyr þau Þorgerði og Vilberg hvað það sé sem er svona heillandi við mótorhjólin. 
  „Þetta er svo mikið frelsi. Maður hugsar ekki um neitt annað en bara að hjóla og umferðina í kringum sig, þú ert ekkert að hugsa um lífið og tilveruna á hjólinu. Það þarf alveg að hafa einbeitinguna í lagi þannig að það er ekki hægt að hugsa um neitt annað,“ svarar Þorgerður. Vilberg svarar á svipuðum nótum og nefnir einnig frelsið. „Það er bara þessi friður, maður er svo frjáls einhvern veginn, setur bara á sig hjálminn, klæðir sig í gallann og fer af stað. Ég fer yfirleitt út fyrir bæinn, keyri til dæmis til Borgarness eða Grindavíkur. Við ákveðum oft hvert sé haldið með stuttum fyrirvara, keyrum kannski á einhvern áfangastað til að fá okkur hamborgara eða kjötsúpu. Þetta er allt öðruvísi en að sitja í bíl.“

Öryggis- og forvarnarstarf

   Sniglarnir hafa sinnt fjölda verkefna frá stofnun samtakanna og hafa alla tíð lagt sterka áherslu á öryggismál. „Eftir að ég tók prófið og fór út í umferðina á mótorhjóli þá pæli ég miklu meira í því hvort það sé mótorhjól í umferðinni og passa mig miklu betur þegar ég keyri bíl, maður verður miklu meira vakandi í umferðinni,“ segir Þorgerður.
   Vilberg hefur einnig sinnt forvarnarstarfi. „Við Guðrún vinkona mín sem er í Sniglunum byrjuðum í fyrra með forvarnarstarf. Við fórum í skólana og Vinnuskólann í fyrrasumar, vorum að tala við börnin um að nota hjálm á vespunum og vera ekki of mörg saman á vespunni, sýndum þeim myndir og svona en höfum því miður ekki getað gert það núna í ár.“
   Blaðamaður spyr hann hvernig sambandið sé á milli samtakanna og lögreglunnar. „Lögreglan var voðalega ánægð með það sem við vorum að gera í skólunum og við auðvitað vinnum mikið með lögreglunni í okkar starfi. Það er náttúrulega slatti af lögreglumönnum sem eru mótorhjólamenn og það eru einhverjir í Sniglunum en ég hef ekki tölurnar.“

Vilja að fólk líti tvisvar 

  Þá eru hagsmunir bifhjólafólks í forgrunni í starfsemi samtakanna og segir Þorgerður að huga þurfi að mörgu í þeim efnum. „Við sjáum um hagsmuni mótorhjólamanna, förum til dæmis á fundi með samgönguráðherra varðandi umferðina og vegina, að þeir séu í góðu standi en vegirnir eru ekki nógu góðir sums staðar þannig að mótorhjólafólk geti hjólað á þeim. Við höfum líka verið að vinna að tryggingarmálum af því að tryggingarfélögin vilja að við séum með númerin á hjólunum allt árið, það er ekki tekið tillit til þess að við séum ekki að hjóla allt árið svo það er dýrt að taka númerin af hjólunum yfir veturinn.“ Á þessum tíma árs byrja margir að hjóla. „Um miðjan apríl fer fólk að tínast út á göturnar. Sumir hjóla yfir veturinn þegar veður leyfir en flestir fara út fljótlega eftir páska. Svo eru margir sem fara ekkert út fyrr en 1. maí og fara þá í fyrstu hópkeyrsluna, það er fyrsti rúnturinn hjá mörgum og hjá sumum er það eini rúnturinn, eru á þannig hjóli að þeir taka bara þennan eina rúnt og svo fer bara hjólið aftur inn í skúr.“ 
  Brýnt er að ökumenn séu vakandi. „Við viljum enda heima hjá okkur. Alvarleg slys eru sem betur fer ekki algeng en koma fyrir. Það hefur verið fækkun á mótorhjólaslysum undanfarin ár og sérstaklega á slysum sem bifhjólamenn valda. Við viljum að fólk líti tvisvar, það er algengt að fólk segi: ég sá þig ekki.“

Stoltur af að vera í Sniglunum Það er alltaf nóg um að vera hjá Sniglunum. „Við hittumst oft og þá er drukkið kaffi og spjallað. Stundum höfum við verið að baka, eins og í fyrra þá bökuðum við einu sinni í mánuði og vorum með veitingar. Við vorum með súpudag í fyrra og ætlum að reyna að gera eitthvað seinna í sumar, vera kannski með grill eða í eitthvað í staðinn fyrir 1. maí sem datt niður í ár,“ segir Þorgerður.
   Vilberg segist hreykinn af því að vera meðlimur. „Ég er stoltur af því að vera í Sniglunum og finnst frábært að vera partur af þessu, því sem við erum að gera úti í þjóðfélaginu og sinna forvarnarhlutverki. Þetta er sjálf boðaliðavinna en við fáum klapp á bakið. Svo er félagsskapurinn frábær, við erum alls konar, þetta er skemmtilegur hópur. Við erum alltaf að gera eitthvað í Sniglaheimilinu, erum með grill, bjórkvöld, bökum yfir veturinn og græjum og gerum, ég myndi ekki vilja sleppa þessum félagsskap.“ Verkalýðsdagurinn er í miklu uppáhaldi. „1. maí er svolítið eins og maður sé að fara á ættarmót. Þú ert ekki búinn að hitta fullt af fólki, jafnvel í heilt ár. Það er ekki hægt að fara út að hjóla og koma í vondu skapi heim, þetta hreinsar hugann, alveg sama á hvernig hjóli þú ert, þetta er bara æði. Þorgerður tekur undir. „Það eru allir mjög hjálpsamir og ef eitthvað kemur upp hjá einhverjum þá eru allir boðnir og búnir að hjálpa, þetta er bara ein stór fjölskylda.“ 

ENDUM RÚNTINN HEIMA!



4.5.20

Prjónmaskína á Akureyri

Eins og sjá má eru þarna viftur til að hjálpa til við að kæla hjólið.
og öryggisól til að varna því að hjólið fari of langt.
Um þessar mundir eru útskriftir hjá verknámsnemum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Einn þessara nema Hrannar Ingi Óttarsson smíðaði ansi frumlegt útskriftarverkefni.

Eða eins og hann orðaði það :
Lokaverkefnið mitt í stálsmíði klárt. Margra mánaða vinna sem er búin að vera mjög krefjandi enn verulega skemmtileg. Sáttur með útkomuna og nú verð ég eflaust betri að prjóna á mótorhjóli.

Tían Bifhjólaklúbbur óskar Hrannari innlega til hamingju með þetta glæsilega tæki og hlökkum til að fá að prófa á næstu misserum,  en hann lofar að koma á einhverja af okkar viðburðum og leyfa okkur að skoða og prófa..


Hér að neðan er hægt að sjá hve mikil vinna fór í verkið :
















 Stórglæsilegt hjá Hrannari

Hjólaferð Tíunnar 3. maí