Sniglarnir, hagsmunasamtök bifhjólafólks, voru stofnuð árið 1984. Þorgerður Guðmundsdóttir formaður og Vilberg Kjartansson varaformaður segja frelsið heillandi við mótorhjólið og að Sniglarnir séu eins og ein stór fjölskylda
Það er ekki langt síðan Þorgerður
byrjaði að hjóla og hefur hún ekki
stoppað síðan. „Ég hafði skoðað
mótorhjól og hugsað með mér
að það væri gaman að prófa. Svo
prófaði ég fyrst árið 2013 að vera
hnakkaskraut, semsagt sitja aftan
á hjá öðrum, og þar kviknaði
áhuginn. Ég var það bara einu
sinni og þá varð ekki aftur snúið.“
Þróunin var hröð. „Ég tók prófið
2014 og sama ár gekk ég í Sniglana,
og tók að mér að opna húsin og
svona. Fyrir tveimur árum gekk ég
til liðs við varastjórn og svo fyrir
ári tók ég við gjaldkerastöðu og
núna í mars tók ég við formannsstöðu.“
Varaformaður Sniglanna, Vilberg Kristinn Kjartansson, segir
áhugann hafa kviknað á unglingsárunum. „Ég er búinn að vera
í Sniglunum í að verða þrjátíu ár.
Þegar ég var unglingur, 12-13 ára,
kviknaði áhuginn á skellinöðrum
og motorcross-hjólum.
Svo kaupi ég fyrsta mótorhjólið
sautján ára og hef ekki stoppað
síðan.“
Létu strax gott af sér leiða
Vilberg ólst upp í Laugarneshverfinu þar sem nokkrir af fyrstu
Sniglunum voru áberandi. „Fyrstu
Sniglarnir voru í hverfinu, þessir
sem voru alveg í fyrstu númerunum. Þetta var ’81, þá leigðu
nokkrir Sniglar saman. Þeir voru
á þessum gömlu hjólum og leyfðu
okkur stundum að sitja aftan á og
keyrðu með okkur um hverfið.
Þeir létu strax af sér gott leiða, þó
þeir væru með sítt hár, í leðurbuxum og rokkaralega klæddir.“
Blaðamaður spyr þau Þorgerði
og Vilberg hvað það sé sem er
svona heillandi við mótorhjólin.
„Þetta er svo mikið frelsi. Maður
hugsar ekki um neitt annað en
bara að hjóla og umferðina í kringum sig, þú ert ekkert að hugsa um
lífið og tilveruna á hjólinu. Það
þarf alveg að hafa einbeitinguna
í lagi þannig að það er ekki hægt
að hugsa um neitt annað,“ svarar
Þorgerður.
Vilberg svarar á svipuðum
nótum og nefnir einnig frelsið.
„Það er bara þessi friður, maður er
svo frjáls einhvern veginn, setur
bara á sig hjálminn, klæðir sig í
gallann og fer af stað. Ég fer yfirleitt út fyrir bæinn, keyri til dæmis
til Borgarness eða Grindavíkur.
Við ákveðum oft hvert sé haldið
með stuttum fyrirvara, keyrum
kannski á einhvern áfangastað til
að fá okkur hamborgara eða kjötsúpu. Þetta er allt öðruvísi en að
sitja í bíl.“
Öryggis- og forvarnarstarf
Sniglarnir hafa sinnt fjölda verkefna frá stofnun samtakanna og
hafa alla tíð lagt sterka áherslu á
öryggismál. „Eftir að ég tók prófið
og fór út í umferðina á mótorhjóli
þá pæli ég miklu meira í því hvort
það sé mótorhjól í umferðinni
og passa mig miklu betur þegar
ég keyri bíl, maður verður miklu
meira vakandi í umferðinni,“ segir
Þorgerður.
Vilberg hefur einnig sinnt forvarnarstarfi. „Við Guðrún vinkona
mín sem er í Sniglunum byrjuðum
í fyrra með forvarnarstarf. Við
fórum í skólana og Vinnuskólann
í fyrrasumar, vorum að tala við
börnin um að nota hjálm á vespunum og vera ekki of mörg saman
á vespunni, sýndum þeim myndir
og svona en höfum því miður ekki
getað gert það núna í ár.“
Blaðamaður spyr hann hvernig
sambandið sé á milli samtakanna
og lögreglunnar. „Lögreglan
var voðalega ánægð með það
sem við vorum að gera í skólunum og við auðvitað vinnum
mikið með lögreglunni í okkar
starfi. Það er náttúrulega slatti
af lögreglumönnum sem eru
mótorhjólamenn og það eru einhverjir í Sniglunum en ég hef ekki
tölurnar.“
Vilja að fólk líti tvisvar
Þá eru hagsmunir bifhjólafólks í
forgrunni í starfsemi samtakanna
og segir Þorgerður að huga þurfi
að mörgu í þeim efnum. „Við
sjáum um hagsmuni mótorhjólamanna, förum til dæmis á fundi
með samgönguráðherra varðandi
umferðina og vegina, að þeir séu
í góðu standi en vegirnir eru ekki
nógu góðir sums staðar þannig að
mótorhjólafólk geti hjólað á þeim.
Við höfum líka verið að vinna að
tryggingarmálum af því að tryggingarfélögin vilja að við séum með
númerin á hjólunum allt árið, það
er ekki tekið tillit til þess að við
séum ekki að hjóla allt árið svo
það er dýrt að taka númerin af
hjólunum yfir veturinn.“
Á þessum tíma árs byrja margir
að hjóla. „Um miðjan apríl fer
fólk að tínast út á göturnar. Sumir
hjóla yfir veturinn þegar veður
leyfir en flestir fara út fljótlega
eftir páska. Svo eru margir sem
fara ekkert út fyrr en 1. maí og fara
þá í fyrstu hópkeyrsluna, það er
fyrsti rúnturinn hjá mörgum og
hjá sumum er það eini rúnturinn,
eru á þannig hjóli að þeir taka bara þennan eina rúnt og svo fer bara
hjólið aftur inn í skúr.“
Brýnt er að ökumenn séu
vakandi. „Við viljum enda heima
hjá okkur. Alvarleg slys eru sem
betur fer ekki algeng en koma fyrir.
Það hefur verið fækkun á mótorhjólaslysum undanfarin ár og
sérstaklega á slysum sem bifhjólamenn valda. Við viljum að fólk líti
tvisvar, það er algengt að fólk segi:
ég sá þig ekki.“
Stoltur af að vera í Sniglunum
Það er alltaf nóg um að vera hjá
Sniglunum. „Við hittumst oft og
þá er drukkið kaffi og spjallað.
Stundum höfum við verið að baka,
eins og í fyrra þá bökuðum við
einu sinni í mánuði og vorum með
veitingar. Við vorum með súpudag í fyrra og ætlum að reyna að
gera eitthvað seinna í sumar, vera
kannski með grill eða í eitthvað í
staðinn fyrir 1. maí sem datt niður
í ár,“ segir Þorgerður.
Vilberg segist hreykinn af því
að vera meðlimur. „Ég er stoltur af
því að vera í Sniglunum og finnst
frábært að vera partur af þessu, því
sem við erum að gera úti í þjóðfélaginu og sinna forvarnarhlutverki. Þetta er sjálf boðaliðavinna
en við fáum klapp á bakið. Svo er
félagsskapurinn frábær, við erum
alls konar, þetta er skemmtilegur
hópur. Við erum alltaf að gera eitthvað í Sniglaheimilinu, erum
með grill, bjórkvöld, bökum yfir
veturinn og græjum og gerum, ég
myndi ekki vilja sleppa þessum
félagsskap.“
Verkalýðsdagurinn er í miklu
uppáhaldi. „1. maí er svolítið eins
og maður sé að fara á ættarmót. Þú
ert ekki búinn að hitta fullt af fólki,
jafnvel í heilt ár. Það er ekki hægt
að fara út að hjóla og koma í vondu
skapi heim, þetta hreinsar hugann,
alveg sama á hvernig hjóli þú ert,
þetta er bara æði.
Þorgerður tekur undir. „Það eru
allir mjög hjálpsamir og ef eitthvað
kemur upp hjá einhverjum þá eru
allir boðnir og búnir að hjálpa,
þetta er bara ein stór fjölskylda.“
ENDUM RÚNTINN HEIMA!