5.7.16

Náði 400 km hraða á mótorhjóli

Þau eru ekki mörg mótorhjólin sem ná 400 km hraða, en Kawasaki Ninja H2R er ekkert venjulegt mótorhjól og kostar svo mikið sem 50.000 dollara, eða eitthvað á sjöundu milljón króna.
Þannig hjóli ók Tyrkinn Kenan Sofuoglu fyrir stuttu og kom því á 400 hraða og það á um það bil 26 sekúndum og er sá stutti tími einn og sér hreint með ólíkindum. Þetta gerði hann ekki á akstursbraut, heldur á Izmit Bay-brúnni í Tyrklandi, en hún er með einstaklega slétt yfirborð og heppileg til hraðaksturs. Brúnni var lokað á meðan á þessum magnaða akstri Sofuoglu stóð, en hann var skipulagður af Kawasaki-fyrirtækinu.

Með afl á við sportbíl 

Kawasaki Ninja H2R er 300 hestöfl og ekki löglegt á almennum vegum, heldur ætlað að glíma við keppnisbrautir. Það er hins vegar Kawasaki Ninja H2 hjólið, með ekkert R í endann og er það 200  hestöfl og ætti það afl að duga flestum. Kawasaki hafði veitt Kenan Sofuoglu þær upplýsingar að Kawasaki Ninja H2R hjólið væri með uppgefinn hámarkshraða upp á 380 km/klst. en það væri engu að síður draumur margra hjá fyrirtækinu að hægt væri að koma því í 400 km hraða. Það sannaði Kenan Sofuoglu og á nú fyrir vikið hraðaheimsmet á mótorhjóli.
Fréttablaðið 05.07.2016

30.6.16

Landsmót bifhjólamanna sett á Iðavöllum í kvöld


Bifhjólaklúbburinn Goðar eru gestgjafar Landsmóts bifhjólamanna í ár. Það er að þessu sinni haldið á Iðavöllum á Fljótsdalshéraði, svæði sem til þessa hefur verið þekktara er fyrir ferfætta fáka en vélfáka.


Landsmótið er haldið árlega og var þar til fyrir nokkrum árum í umsjón Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins. Undanfarin ár hafa hins vegar landssamtökin samið við klúbba víða um land um að halda mótið.

Fyrir um ári var haft samband við Goðana og segir Hjörtur Óli Ævarsson, formaður klúbbsins, að undirbúningur hafi staðið yfir í allan vetur. „Hann hefur gengið vel. Þeir einu sem við höfum ekki náð að semja við eru veðurguðirnir.“

Vonast er eftir um 200 manns á Iðavelli. Tónleikar verða í boði kvöldin þrjú en hið landsfræga Sniglaband spilar annað kvöld. Á laugardag verða síðan heimabönd, Nefndin leikur fyrir dans en á undan henni rokksveitirnar MurMur og Oni.

Tækifærið er nýtt til að kynna fjórðunginn fyrir mótorhjólafólki og á föstudag og laugardag er gert ráð fyrir akstri um Austurland. Hjörtur Óli segir fyrirhugað að fara um firðina og upp að Kárahnjúkum.

Mótið hefur tvisvar verið haldið á Austurlandi áður eftir því sem næst verður komist, í Végarði í Fljótsdal og Atlavík, en síðan eru liðin mörg ár.

Gestir koma ýmist á hjólum eða bílum, ýmist með hjólin í eftirdragi eða bara á bílnum til að taka þátt í ánægjunni. Þeir koma víða að, til dæmis komu tveir Færeyingar með Norrænu í morgun gagngert til að mæta á mótið.

Víða erlendis eru samkomur mótorhjólafólks kenndar við óspektir en Hjörtur Óli segir landsmótið með þeim friðsamari sem tök eru á. „Mótið var árum saman haldið í Húnaveri og lögregluþjónar á Blönduósi vildu helst vera á vakt þá helgi. Það fer allt svo friðsamlega fram.“


Austurfrett.is
Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: 
.