24.5.16

Með dellu fyrir kaffireiserum


Ólafur Róbert Magnússon, eða Óli Bruni eins og margir kalla hann, hefur gert upp ófá hjólin í gegnum tíðina. Hann hefur sérstakt dálæti á breskum kaffireiserum. Í dag á hann átta hjól ásamt konu sinni en saman ferðast þau á mótorhjólum bæði innan lands og utan.


Mótorhjóladellan hefur fylgt Óla frá tólf ára aldri. „Þá sátum við Haukur Richardsson, besti vinur
minn, yfir mótorhjólablöðum á borð við Cycle World. Við keyptum síðan sína Hondu 50 hvor árið
1966, þá fimmtán ára gamlir, og dellan hefur bara versnað síðan þá,“ segir Óli glettinn.

Yfir 40 hjól 

Fljótlega létu þeir félagar sér ekki nægja að hjóla um á hjólunum heldur fóru að fikta, breyta og bæta og þeir hafa ekki hætt því. Áhugamálið var sett á pásu meðan Óli kom upp börnum en dellan hvarf þó aldrei. „Frá árinu 1987 má segja að ég hafi alltaf haft einhver hjól að gera upp,“ segir Óli sem hefur átt yfir fjörutíu hjól í heildina.

11.5.16

Á þriðja þúsund gestir á bíla- og mótorhjólasýningu

 Fornbílafjelag Borgarfjarðar og Bifhjólafjélagið Raftarnir héldu sameiginlega stórsýningu í Brákarey á laugardaginn. Þetta er í þriðja skipti sem félögin sameinast um sýningarhaldið, en fimmtán ár eru síðan Raftar héldu fyrstu sýningu sína í Borgarnesi, en eitt ár féll úr á þeim tíma þannig að sýningar þeirra eru nú orðnar fjórtán. Fornbílafjelagið er yngri félagsskapur og á sér því ekki eins langa sögu, en er engu að síður fjölmennur og sífellt vaxandi hópur áhugafólks um eldri bíla. Frítt var á sýninguna og kunnu gestir og gangandi vel að meta það.

Að sögn Höllu Magnúsdóttur formanns Raftanna gekk sýningarhaldið og dagurinn í það heila tekið eins vel og kostur var. Ræst hafi úr veðrinu þegar líða tók á morguninn, tekið hafi að lygna á veginum við Hafnarfjall, en hvassviðri er afar óæskilur fylgifiskur svona sýningarhalds. 
Halla áætlar að á þriðja þúsund gestir hafi mætt á svæðið. „Það gekk vel og allir sem ég hef rætt við voru ánægðir. Fjölmargir gestaklúbbar komu með hjól og bíla, sem og einstaklingar sem sýndu ökutæki sín. Auk þess kynntu umboðs- og söluaðilar ýmsar vörur og Golfklúbbur Borgarness og Skotfélag Vesturlands starfsemi sína, en þessi félög hafa bæði æfingaaðstöðu í gamla sláturhúsinu eins og við og Fornbílafjelagið. Svo um kvöldið þegar gestir voru farnir grilluðum félagsmenn í báðum félögunum saman í nýju félagsaðstöðu okkar Raftanna. 
Dagurinn var því góður og við erum alsæl,“ segir Halla. Sömu sögu höfðu félagar í Fornbílafjélaginu að segja sem blaðamaður ræddi við. Létt var yfir mannskapnum og ánægja með hversu margir gestir lögðu leið sína í Brákarey á laugardaginn.
Blaðamaður kýs að láta myndirnar tala sínu máli. Hann er ekki nægjanlega vel að sér í bílategundum og árgerðum til að leggja út í þá vegferð að gefa öllum farartækjum á sýningunni nöfn og kennitölur þannig að hnökralaust yrði.

Skessuhorn 
11.05.2016