8.9.10

Ferðast á fornum fararskjóta


  •  Færeyingur á ferð um landið á 65 ára mótorhjóli
Færeyingurinn Finn Jespersen hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur gömlum mótorhjólum. Þegar hann frétti af því að vinur hans, Hjörtur Jónasson frá Selfossi, hefði keyrt yfir Kjöl á Matchless-mótorhjóli árgerð 1946 fyrir nokkrum árum ákvað Finn að halda á vit ævintýranna á Íslandi á einu þriggja fornhjóla sinna af Nimbus-gerð. Síðastliðna viku hefur Finn því ferðast um landið á 65 ára gömlu mótorhjóli, smíðuðu við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
 Finn á þrjú Nimbus-hjól en hin hjólin tvö sem hann skildi eftir heima í Færeyjum voru smíðuð árin 1936 og 1939 þannig að hjólið sem hann ferðast á í sumar er unglambið í safninu. Finn hefur í mörg ár starfað fyrir Samskip í Kollafirði í Færeyjum þannig að það þarf ekki að koma blaðamanni á óvart hversu góða íslensku hann talar. „Ég hef gaman af því að tala við áhafnirnar. Íslenska og færeyska eru eiginlega sama málið,“ segir hann á kjarnyrtri íslensku. 
Finn kom til landsins á þriðjudag fyrir viku með Norrænu og keyrði frá Seyðisfirði til Vopnafjarðar, kom við í Reykjahlíð við Mývatn og heimsótti Húsavík og Akureyri. Þá var hann í Reykjavík og á Selfossi fyrir helgina auk þess að aka Kjölinn sem var aðaltakmark ferðarinnar. Tók sú ferð tíu tíma. Allt í allt segist hann hafa farið um tvö þúsund kílómetra á hjólinu góða. 

Gömul hjól smíðuð til að endast 

Er ekkert mál að ferðast slíkar vegalengdir á hálfsjötugu mótorhjóli? „Nei, nei, það skiptir engu máli,“ segir Finn glaður í bragði.  „Maður tekur því bara rólega og fer ekki á meira en 60-70 kílómetra hraða. Hjólið er í góðu lagi ennþá!“ Nimbus-hjólin þurfa ekki mikið viðhald að sögn Finns. „Það þarf bara að skipta um olíu við og við,“ segir hann. Hann hefur átt hjólið sem hann ferðast á um landið í sex ár og segir öll hjólin sín þrjú vera eins og ný. „Öll gömul mótorhjól voru vel byggð og til þess að endast. Það er ekki eins og í dag þar sem ný mótorhjól duga kannski í tíu ár og ekki mikið meira en það,“ segir Finn. 
Á ferð sinni um landið fannst Finn mest til sundlauganna koma. „Það er ótrúlegt að sjá þrjátíu stiga heitt vatn úti undir beru lofti. Svo þótti mér merkilegt að sjá öskuna úr gosinu í vor á Akureyri. Í Færeyjum sáum við líka ösku en ekki svona mikla,“ segir Finn sem heldur heim á leið í kvöld með Norrönu. 
Morgunblaðið 08.09.2010Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is

30.7.10

BJÖRGÓLFUR THOR Á MÓTORHJÓLAHÁTÍÐ




Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mikla mótorhjólahátíð sem haldin var í bænum Sturgis í miðríkjum Bandaríkjanna í fyrra. Myndir frá hátíðinni sýna Björgólf afslappaðan í góðra vina hópi og þeysandi um á Indian-mótorhjóli. Tveir starfsmenn Björgólfs, Orri Hauksson og Sigurður Ólafsson, voru með í för. Björgólfur Thor á hlut í mótorhjólaframleiðandanum Indian og hafa Orri og Sigurður unnið þar fyrir hann.


Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mótorhjólahátíð í Sturgis í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum í ágúst í fyrra. Þetta sýnir ljósmyndasyrpa af fjárfestinum sem DV hefur undir höndum. Myndasyrpan sýnir Björgólf Thor í áður óþekktu ljósi, klæddan í þægileg hversdagsföt, með alls kyns skartgripi og skraut á sér auk þess sem hann sést liggjandi í tjaldi með sælusvip. Björgólfur virðist því vera töluvert alþýðlegri en almennt hefur verið talið. Með Björgólfi Thor í för voru tveir af starfsmönnum hans sem hafa unnið fyrir hönd fjárfestisins í tengslum við eignarhlut hans í bandaríska mótorhjólafyrirtækinu Indian. Starfsmennirnir heita Orri Hauksson, sem er fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og stjórnarformaður Skjás eins, og Sigurður Ólafsson, sem lengi hefur unnið fyrir Björgólf Thor. Björgólfur keypti á sínum tíma hlut í Indian-fyrirtækinu sem er með höfuðstöðvar í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Mótorhjólafyrirtækið er að mestu í eigu breska verðbréfafyrirtækisins Stellican Limited sem er með höfuðstöðvar í London. Indian framleiðir lúxusmótorhjól. Afar líklegt verður að teljast að ferð þeirra félaga til Bandaríkjanna, sem og vera þeirra í Sturgis, tengist að einhverju leyti eignarhlut Björgólfs Thors í Indian-mótorhjólaframleiðandanum. Á einni myndinni sjást þeir sitja í tjaldi sem merkt er Indianhjólunum og virðist óþekktur maður í Indian-bol vera að útskýra eitthvað fyrir þeim. Björgólfur er hugsi á myndinni og skartar stígvélum sem virðast vera úr forláta skinni.


Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum.

Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum. Á einni þeirra er fjárfestirinn skælbrosandi eins og honum finnist ekkert betra í þessum heimi en að þeysa um á mótorfák. Aftan á hjólinu á báðum myndunum er Orri Hauksson sem er ekki síður ánægður á annarri myndinni. Myndirnar eru táknrænar fyrir samband yfir- og undirmanns; Björgólfur er við stjórnvölinn en Orri flýtur með og lætur að stjórn. Björgólfur undir stýri, fúlskeggjaður, grófur og karlmannlegur á meðan


Orri situr fyrir aftan Björgólf Thor og heldur sér í bílstjórann, töluvert nettari, sléttari og fínlegri. En áhugaverðasta myndin er þó sennilega myndin af Björgólfi í tjaldinu þar sem hann liggur og lygnir aftur augunum með sælusvip á andlitinu. Flestir hefðu líklega haldið að Björgólfur Thor gisti aldrei í tjaldi heldur aðeins á fínum hótelum með herbergisþjónustu og handklæðahitara. En honum virðist líka það vel að kúldrast á vindsæng á jörðinni undir þunnum tjaldhimni í raka eða stækju. Orri er við hlið hans sem fyrr. Maður gæti jafnvel séð Björgólf fyrir sér á þjóðhátíð í Eyjum, í gamalli hettupeysu og pollagalla með brúsa fullan af blandi og sprútti um hálsinn, syngjandi trallalla í brekkusöngnum með Árna Johnsen eða Róbert Marshall. Hann virðist svo mannlegur á myndunum. Þar liggur sennilega fréttagildi þeirra: Björgólfur gistir í tjaldi.  

DV 2010