3.7.03

Landsmót Snigla í Njálsbúð 2003

EPLIÐ OG EIKIN
Sniglarnir hugsa um ungviðið og kenna því á unga aldri
rétta  hegðun í umferðinni, og ást á vélhjólum, að sjálfsögðu.

Árlegt landsmót Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, verður haldið í Njálsbúð um helgina, það nítjánda í röðinni en Sniglarnir verða tvítugir á næsta ári.

 Á svæðinu verða hljómsveitir, leikir, matur og allt sem tilheyrir alísherjar útihátíð. 

Hljómsveitirnar Fjandakornið og Moonboots leika. Á laugardeginum er aðalleikjahátíðin en þá er meðal annars keppt í hinum fræga Snigli. Í Sniglinum reyna keppendur eðli málsins samkvæmt að keyra eins hægt og mögulegt er 16 metra án þess að drepa niður fæti til stuðnings. Þetta er sem sagt alvöru snigl og sá sem vinnur hlýtur nafnbótina Snigill ársins. Um kvöldið verða svo elduð læri ofan í landsmótsgesti, sem vænst er að verði um 350 talsins. Inn á mótið kostar 4500 fyrir félaga í Sniglunum en 6000 fyrir aðra. 

Lands-mót Sniglanna er lokað mót fyrir mótorhjólafólk og er skilyrði að hafa annaðhvort áhuga á mótorhjólum eða mótorhjólafólki, nema hvort tveggja sé. Þekkist gestír ekki í hliðinu verða þeir því að gera grein fyrir sér til að eiga möguleika á að komast inn á svæðið og sakar þá ekki að eiga tengsl inn á svæðið. 

Eða eins og Sniglarnir segja: Þetta er eins og ættarmót, þú kemur ekki úr einhverri allt annarri ætt í veisluna.

2.7.03

Ducati er Ferrari hjólanna

Það hefur bæst við í flóruna hjá mótorhjólaunnendum hér á landi því nú er í fyrsta sinn komið umboð fyrir hin margfrægu Ducati-vélhjól. Það er fyrirtækið Dælur ehf. sem valdist sem umboðsaðili. Guðjón Guðmundsson ræddi við Hjalta Þorsteinsson, innkaupastjóra hjá Dælum, sem hafði veg og vanda af því að ná umboðinu hingað til lands.
DÆLUR ehf. er þekkt fyrirtæki á sínu sviði og var upprunalega stofnað 1899 af Gísla J. Johnsen í Vestmannaeyjum og bar þá nafn stofnandans. Fyrirtækið skipti síðan um eigendur árið 1960. 1986 var fyrirtækinu skipt upp og sérstakt fyrirtæki stofnað um dæludeildina sem fékk heitið Dælur. Faðir Hjalta, Þorsteinn Hjaltason, starfaði hjá Dælum sem óx og dafnaði og eignaðist fjölskylda hans síðan fyrirtækið.

"Við byggjum fyrirtækið á þessum gamla grunni, þ.e.a.s. góðri þjónustu, vera aðgengilegir og þjóna vel okkar viðskiptavinum," segir Hjalti.

Í mars á þessu ári breyttist eignaraðild fyrirtækisins aftur. Þorsteinn Hjaltason og Jónína Arndal drógu sig út úr því og inn komu þrír nýir eigendur ásamt Hjalta, þeir Gunnar Björnsson, Kristófer Þorgrímsson og Eiríkur Hans Sigurðsson. Fyrirtækið var á Fiskislóð vestur á Granda en flutti nú nýverið í Bæjarlind 1-3.

Eins og nafnið bendir til sérhæfir fyrirtækið sig í sölu og þjónustu á dælum til sjávarútvegs, sumarbústaða og til fleiri nota. En nú hefur bæst við ný deild sem er Ducati-hjólin.

Stútfullur af súrefni"

Þetta kom þannig til að Eiríkur Hans Sigurðsson, nýi framkvæmdastjórinn okkar, er vélhjólaáhugamaður til margra ára. Hann kemur alltaf til vinnu sinnar á góðviðrisdögum á mótorhjóli og ég sá bara hvað maðurinn var lifandi. Hvað hann var stútfullur af súrefni, gleði og áhuga fyrir því að takast á við daginn. Ég sá að þetta var eitthvað sem ég yrði að skoða betur. En ég vissi að þótt það ætti að verða mér til lífs þá kunni ég ekki á mótorhjól. Ég dreif mig í bóklegt nám og síðan verklegt og svo fór ég að velta fyrir mér hvers konar mótorhjól ég ætti að fá mér. Ég fór að skoða tímarit og sá þá alltaf sama merkið - ofsalega falleg hjól, frábæra hönnun - hjól sem stóðu út úr í þessum blöðum. Þetta var Ducati. Ég komst að því að Ducati er ekki með umboðsmenn á Íslandi. Ég skrifaði þeim bréf og sagði þeim að við værum að leita eftir nýju umboði til að breikka okkar vörulínur. Þeir svöruðu til baka og kváðust lítast vel á þetta. Þeir báðu okkur um markaðsáætlun til þriggja ára og frekari upplýsingar um markaðinn og Ísland," segir Hjalti.

Hann fór umsvifalaust í gagnaöflun af ýmiss konar tagi. Hann skoðaði innflutning á mótorhjólum til Íslands sem er töluverður og síðan bjó hann til söluáætlun fyrir Ducati.

"Þeim leist vel á þetta og síðan lá leið okkar til Bologna í höfuðstöðvar Ducati. Við skoðuðum verksmiðjuna og sáum vörulínuna og safnið. Sonur Eiríks, Hrólfur, er mótorhjólamaður og þegar hann gekk inn á safnið sáum við geðshræringuna sem hann komst í. Ég uppgötvaði að það var svipað fyrir Hrólf að koma inn á þetta safn og fyrir mig þegar ég, Elvis-aðdáandinn, kom í Graceland í Memphis á sínum tíma."

Ducati er lífsstíll


Á hverju ári er haldin Ducati-helgi á Ítalíu þar sem koma saman um 10.000 hjól. "Ducati framleiðir mögnuðustu keppnishjól í heimi og á þeim hefur Superbike- keppnin unnist oftar en á nokkru öðru hjóli. Það er mál manna Ducati sé Ferrari mótorhjólanna. Fyrirtækið er með mest vaxandi markaðshlutdeild í heiminum. Þeim nægir að selja tíu hjól á Íslandi bara til þess að bæta Íslandi inn á kortið. Þeir segja að tilvalið sé að selja ferðahjól og meðfærileg götuhjól á Íslandi. Nú eru þeir líka komnir með nýtt hjól sem heitir Multistrada, sem er eiginlega hjól fyrir allar aðstæður. Við sáum strax að þetta væri gullegg og við viljum gera okkar til að kynna hjólin fyrir Íslendingum," segir Hjalti.

Hann bendir á að mörg ljón séu á veginum fyrir innflutningi á mótorhjólum til Íslands. Greiða þurfi há flutningsgjöld og 30% vörugjöld auk 25% virðisaukaskatts af hjólunum.

"Hjólin eru dýr þegar þau eru loksins komin til Íslands. Við fórum yfir þetta með Ítölunum og þeir vilja hjálpa okkur til að geta boðið upp á gott verð í byrjun. Besta auglýsingin fyrir okkur er sú að einhver kaupi Ducati-hjól og sjáist á því í Reykjavík eða úti á landi."

Hjalti er stórhuga og hefur ýmislegt á prjónunum. "Við ætlum að stofna eigendaklúbb Ducati á Íslandi og hjóla einu sinni í viku. Á næsta ári ætlum við að flytja hjólin til Ítalíu og taka þátt í Ducati-helginni. Auk þess ætlum við í ökuskóla hjá Ducati, bæði fyrir götuhjól og keppnishjól, til að gera okkur að betri ökumönnum. Við gerum þetta af áhuga og ástríðu, eins og kjörorðið er hjá Ducati."

Morgunblaðið
2. júlí 2003