21.10.99

Með tengdapabba á mótorhjóli

Þeir hafa sama tónlistarsmekk og eiga sömu áhugamál. Og eiga saman mótorhjól, Gunnar og Gestur Einar hjóla á Kawasaki


„Aldur er afstæður í mótorhjólamenningu og það er enginn of gamall til þess að eignast hjól," segir Gunnar Sverrisson, Ijósmyndari Fróða á Akureyri. Nú í sumar lét hann gamlan draum rætast og
keypti sér mótorhjól, en það gerði hann í félagi við tengdaföður sinn, Gest Einar Jónasson, útvarpsmann á Akureyri. Gamall draumur Gests var einnig að eignast hjól. „Alla stráka dreymir um að eignast mótorhjól, mig dreymdi um skellinöðru þegar ég var strákur en hætti síðan við að kaupa hana þegar ég mátti. En draumurinn bjó alltaf í brjóstinu," segir Gestur.

Skemmtilegt hippamórorhjól


Um tuttugu ár skilja þá Gunnar og Gest að í aldri. Gunnar er tæplega þrítugur og Gestur verður fimmtugur að ári. „Við erum góðir vinir. Við höfum sama tónlistarsmekkinn og þar er ég að tala um
lög eins og ég spila gjarnan í þættinum Með grátt í vöngum og eigum einnig sameiginleg áhugamál, eins og mótorhjól," segir Gestur. Þeir félagar fóru á liðnu vori saman í mótorhjólapróf hjá Kristni Erni Jónssyni, ökukennara á Akureyri, sem er æskuvinur Gests, og segir Gestur að á námskeiðinu hafi hann ekki einasta lært á mótorhjól, heldur hafi hann einnig lært umferðarreglurnar uppá nýtt. Og sé fyrir vikið líklega betri bílstjóri en hann var.
Mótorhjólið sem þeir Gunnar og Gestur keyptu sér er af gerðinni Kawasaki 454 og er með 450 rúmsentimetra mótor. „Þetta er skemmtilegt hippamórtorhjól, með háu stýri og maður situr beinn
í baki á því. Þetta finnast mér miklu skemmtilegri hjól en keppnishjólin, sem maður situr boginn á og er alltaf að reyna að þenja sem hraðast. Þetta er hæfilega kraftmikið hjól, en hver veit nema að við fáum okkur seinna Harley Davidsson," segir Gunnar.

Frelsið er í núinu


„Mér finnst afar gaman að fara út að hjóla," bætir Gunnar við, „enda eru aðstæður til þess góðar hér fyrir norðan. Skemmtilegast þótti mér hinsvegar að hjóla þegar ég var með unnustu minni, Höllu Báru, í Tosca-héruðum ítalíu nú í sumar. Þar leigðum við okkur hjól og fórum víða um, á  stuttbuxunum í þrjátíu stiga hita. Við þessar aðstæður skilur maður svo vel hvað þetta er stórkostlegur ferðamáti og frelsið mikið." Gestur tekur undir orð Gunnars um frelsið. „Ég er sjálfur einkaflugmaður og mér finnst þetta að sumu leyti ekki ósvipað. Á mótorhjólinu getur maður farið út fyrir alfaraleiðir og eins á flugvélinni. Maður hjólar eða flýgur þangað sem maður ætlar sér."

Kærkominn sumarauki


Blíðviðri hefur verið ríkjandi á Norðurlandi að undanförnu og það er mótorhjólamönnum sem og öðrum afar kærkomið. Gunnar og Gestur hafa notað þetta tækifæri og hafa víða hjólað, meðal annars um götur Akureyrarbæjar og suður um Eyjafjarðarsveit. „Það er Ijúft að geta leikið sér á mótorhjólinu nú seinnipartinn í október. En síðan kemur vetur, hjólið fer inn í skúr og verður ekki tekið út aftur fyrr en í maí næsta vor. Eg er strax farinn að hlakka til þess," segir Gunnar Sverrisson.
-SBS.
Dagur 21.10.1999

16.10.99

Endurfæddir mótorhjólamenn

 Hvað er nú það? Er það einhver sértrúarflokkur? Nei, ekki er það nú alveg.
 Endurfæddir mótorhjólamenn eru þeir sem áttu hjól fyrir mörgum árum, eignuðust síðan börn og buru og úti var ævintýri - alveg þangað til fuglarnir voru flognir úr hreiðrinu. Núna eiga þeir allt i einu pening og tíma til að leika sér með. Þá er hægt að láta drauminn rætast sem blundað hafði í þeim allan tímann - að fá sér mótorhjól og byrja að purra aftur. Með fjölgun þessa hóps innan mótorhjólafjölskyldunnar hafa umræður kviknað um hvort hann sé valdur að fleiri slysum en aðrir. Samkæmt nýjustu tölum frá Bretlandi er svo ekki. Það eru 35% minni líkur, miðað við ekna kílómetra, að þú lendir í slysi ef þú ert endurfæddur mótorhjólamaður og 25% minni líkur miðað við árið í heild. Þeir eru líka í minni hættu á að missa hjólin sín á hliðina eða slasa sig og gera síður kröfu á tryggingafélagið. Samkvæmt bresku könnuninni er endurfæddur mótorhjólamaður um 38 ára gamall, styttra en 12 mánuðir eru síðan hann byrjaði aftur að hjóla og minni hætta er á að þeir verði stoppaðir af lögreglunni.

Prófið hvorki fugl né fiskur áður fyrr

Skyldi það sama nú eiga við hér á íslandi? Fyrr í sumar var það í umræðunni að þessi hópur væri nokkuð tjónfrekur og Bifhjólasamtök lýðveldisins bentu á það. í Bretlandi eru þeir endurfæddu  duglegir við að taka framhaldsnámskeið og hafa um það bil 20% þeirra farið í gegnum slíkt. Fyrir það fá þeir lika lækkun á sínum iðgjöldum enda hafa kannanir sýnt að þeir sem fara á þessi námskeið séu í mun minni hættu að lenda i slysum en aðrir. Margir fengu í raun enga kennslu og fengu mótorhjólaprófið gefins með bílprófinu á meðan réttindalöggjöfm var þannig. Þangað til fyrir nokkrum árum var mótorhjólaprófið þannig að viðkomandi tók 1-2 tíma hjá ökukennara og fór svo í
próf sem hvorki var fugl né fiskur. Reyndar hefur mikil breyting orðið á síðustu árum og prófin orðið mun erfiðari og krefjandi. Við fengum nokkra endurfædda mótorhjólamenn í viðtal og spurðum þá  um þeirra reynslu af sportinu og hvað hafi orðið þess valdandi að þeir komu að því aftur.

Tók sér frí í aldarfjórðung 

Óðinn Gunnarsson járnsmiður: „Ég tók prófið 1972 en hafði þá verið á skellinöðrum síðan 1961. Fyrsta stóra hjólið var gamalt BSA en fyrsta alvöruhjólið var Triumph 500 Daytona sem ég notaði mikið. Ég þvældist um allt á þessu bjóli, fór Vestfirði og þá yfir Steingrimsfjarðarheiði sem þá var bara varðaður vegarslóði. Við fórum mikið saman, ég og Gústi (Ágúst Hálfdánarson í Glertækni). Eitt sinn ætluðum við í ævintýraferð upp á hálendi og lögðum af stað á mánudegi. Við fórum upp að
Illakamb og höfðum hugsað okkur að gista í gamalli rútu þar, sem notuð var sem gangnakofi. Um nóttina gerði svo ausandi rigningu þannig að allar ár fylltust og við vorum veðurtepptir fram á laugardag, þegar við náðum að komast yfir Skyndidalsá. Ég hætti svo að hjóla um það leyti sem fyrsti strákurinn fæddist 1976. Hann tók nú upp á því að kaupa sér mótorhjól í fyrravor og ég fór að stelast út á því. Svo vissi ég ekki fyrr en konan mín, Auður Hallgrímsdóttir, keypti handa mér hjól í 50 ára afmælisgjöf. í sumar fór ég í styttri ferðalög með börnin en ég nota hvert tækifæri til að skreppa á hjólinu og fer oft á því í vinnuna. Draumurinn er að fara á næsta ári í langa reisu með konuna en hún er að hugsa um að taka próf líka."

Lærði hjá Sigga Palestínu


Þorsteinn Hjaltason Bljáfjallastjóri: „Ég lærði að hjóla hjá Sigga Palestínu en þurfti aldrei að taka próf. í þá daga fékk maður mótorhjólaprófið með bílprófinu. Ég tók öll þau próf sem hægt var að taka og meðal annars ökukennarapróf. Ég kenndi þá líka á mótorhjól og notaði við það Dodge Vipon með hátalarakerfi til að segja þeim fyrir. Ég vann lika á verkstæði lögreglunnar í Reykjavík frá 1957-68 og stalst oft til að prufukeyra hjólin meir en ég þurfti. Draumurinn um að kaupa hjól blundaði alltaf í mér og um haustið 1997 spurði Jón Hjartarson í Húsgagnahöllinni mig hvort ég kæmi með honum hringinn ef hann keypti sér hjól. Ég játaði því og hann keypti hjólið en ég hafði hugsað mér að fá gamalt Harley Davidson lögregluhjól hjá vini mínum. Þegar ég fór að hugsa málið var eiginlegra sniðugra að kaupa það en hann vildi ekki selja þannig að ég keypti mér þetta Suzukihjól. Svona til að rifja upp kunnáttuna fórum við Jón með keilur á planið hjá honum og æfðum okkur. Við konan fórum meðal annars hringinn á því í sumar og maður hefur svo sem skroppið á því öðru hvoru. Einu sinni þurfti ég að bregða mér búðarferð til Akureyrar svo að ég fór á hjólinu. Hluti af sportinu er líka að hugsa um hjólið og þrífa það en til þess að geta það þarf líka að keyra það og skíta það út.
Draumurinn er svo að fara erlendis á því ef að konan kemur með."
-NG 
DV
16.10.1999