30.3.85

BIFHJÓLASAMTÖK LÝÐVELDISINS ERU EINS ÁRS UM HELGINA (1985)
Keðjur, hnúajárn og hauskúpur? Helvískir englar? Skyldu þeir ekki sóma sér vel í Altamont? Eða Mad Max: a fuel-injected suicide machine? 


Öðru nær! Í Bifhjólasamtökum lýðveldisins eru eintóm snöfurmenni, kurteisir piltar.
Ein undirdeild samtakanna heitir Regla hanskans og hefur það að markmiði að taka upp hanskann fyrir gamlar konur; hjálpa þeim yfir ógreiðfærar umferðargötur, aðstoða þær við útréttingar og svo framvegis. (Svo er líka til Blóðuga gúmmíöxin. Enginn virðist vita almennilega til hvers hún er.)
Þeir sitja nokkrir saman kringum borð í húsi við Ægisíðuna og drekka kaffi. Það er leðurlykt þarna inni því þeir eru leðurklæddir frá hvirfli til ilja og hjálmarnir bíða frammi. Flestir eru milli tvítugs og þrítugs; þeir elstu virðast komnir undir fertugt og þeir yngstu .. . eru yngri. Reyndar er aldurstakmark í Bifhjólasamtökunum sautján ár og eins gott að framvísa ökuskírteini. „Það er til þess að losna við skellinöðrugæjana, ha ha ha," hlæja þeir og eru búnir að steingleyma eigin æsku. (Eða muna þeir hana kannski alltof vel?) Leðrið sem þeir klæðast er svart eins og náttmyrkrið en á vinstri öxl bera þeir mynd af vinalegum snigli. Bifhjólasamtök lýðveldisins er nefnilega bara undirtitill hópsins. Réttu nafni vilja þeir heita Sniglar.

Áramótin eru fyrsta apríl „Sniglar? 

Á mörg hundruð kúbika mótorhjólum?" „Já. Það var ekkert smáræðis mál að velja nafn. Fyrstu fundirnir fóru alveg í það. Sumir vildu eitthvert töff nafn eins og í útlöndum: Svarta höndin, Black Shadow, svoleiðis rugl.  En það varð ofan á að velja nafn sem hvorki minnti á hraða né ofbeldi og það varð líka að vera góð og gild íslenska.  Einn okkar fór í orðabók og kom með heila bunu af nöfnum: Yggdrasill, Sleipnir, Ásmegir, Mjölnir; við vorum ekki ánægðir með þau. Bifhjólaáhugamenn í Reykjavík og nágrenni, skammstafað BARON? Nei, ekki dugði það. Einhverjum datt í hug nafnið ROTA, sem mun þýða hjól á latínu, en það mæltist ekki vel fyrir. Loksins vorum við komnir alveg í þrot. Þá stundi einhver upp: Eigum við ekki bara að heita Sniglar? Við hentum þetta á lofti, dauðfegnir, og síðan höfum við heitið Sniglar." Sniglarnir eru eins árs nú um helgina og halda upp á það með pompi og pústi. Óttaslegnir Lesendur: látið ykkur ekki bregða þó drunur berist að utan eða svartklæddur hópur skjóti upp kollinum i afturrúðunni; það eru bara Sniglanir að fagna afmæli sínu. Reyndar kalla þeir þetta áramótagleði og ætla að miða áramótin við fyrsta apríl héðan í frá.

Súper-Lúlli átti hugmyndina  

Hvers vegna, spyr ég, var talið nauðsynlegt að stofna svona klúbb?
„Við eram samtök, ekki klúbbur," árétta þeir. „En það var Súper-Lúlli sem á heiðurinn af  hugmyndinni. Hann setti auglýsingu í blöðin í fyrra og þá fórum við að rotta okkur saman. Tilgangurinn var einfaldlega sá að skapa samstöðu og félagsanda meðal þeirra sem eiga stór mótorhjól. Fólk hafði vægast sagt lítið álit á okkur; það ályktaði sem svo að allir sem klæddust svörtu leðri og keyrðu mótorhjól væru annaðhvort hálfvitar eða ofbeldismenn, nema hvort tveggja  væri. En sannleikurinn er sá að í Bifhjólasamtökunum eru alls konar menn, nema helst ofbeldisseggir og hálfvitar... " Þeir segja mér að nú séu rösklega eitt hundrað félagar skráðir i Bifhjólasamtökin,  eitthvað um áttatíu hafi borgað félagsgjöldin og mjög virkir félagar séu kannski þrjátiu fjörutíu. Og þeim eigi eftir að fjölga með vorinu. Og þeir segja mér líka að þeir viti um marga sem enn hafi ekki haft hugrekki til þess að nálgast Sniglana.

Varúlfar nútímans?

„Það eru til menn á miðjurn aldri og í toppstöðum í þjóðfélaginu sem eiga upptjúnuð mótorhjól úti i bílskúr þó þeir þori ekki fyrir sitt litla lif að kannast við það. Svo fara þeir á stúfana þegar kvölda  tekur, laumast í leðurgallann og út í skúr, opna hurðina og svipast um, æða svo út í myrkrið þegar þeir eru vissir um aö enginn sjái , til. Loka ekki á eftir sér til þess aö geta brunað beint inn í skjól eftir  túrinn." Hver veit nema þarna séu komnir varúlfar nútímans. En þeir Sniglar  segja mér að viðkvæði flestra sé hið sama þegar mótorhjól berast í tal: ,,Æ, eruð þið ekki vaxnir upp úr þessu enn?" Og svo hristir fólk höfuðið af vorkunnsemi. „En málið er að maður vex ekkert upp úr þessu. Maður hittir  stundum gamla karla sem eru löngu hættir að keyra og þeir draga mann út í skúr til sín og þar stendur gljáfægt og pússað Harley Davidson '28. Svo stara þeir á það með ósvikna ást í svipnum. Þetta er nefnilega alls ekki hver önnur della, þetta er lífsmáti sem margir öfunda okkur af inn við beinið."

. . . einn á hjóli upp um óbyggt land 

Lífsmáti; þeir stinga upp á orðinu frelsi. Það var óhjákvæmilegt, býst ég við. „Hefurðu prófað að keyra einn á hjóli upp um óbyggt land eða eftir eyðilegri strönd? Það er ekki það sama og aö sitja inni í bíl; þú ert einn úti í rigningu, roki og ryki og það ver þig ekkert nema leðurgallinn. Og krafturinn í hjólinu." Þeir keyra þó ekki alltaf einir. Bifhjólasamtök lýðveldisins  halda uppi öflugu félagslífi; gefa út blað, skipuleggja hópferðir um hverja helgi
og útilegur á sumrin, hittast vikulega í Sundakaffi milli klukkan niu og tíu á fimmtudagskvöldum. Þeir eiga sér fastmótuð lög — „en farðu ekki að birta þau, þau eru svo venjuleg" — og jafnvel sinn eigin rekstrarhagfræðing — „en í guðs bænum taktu fram að ég er ekki menntaður í hagfræði, ég er
bara gjaldkeri samtakanna eftir að Þormar var rekinn fyrir óreiðu í bókhaldi." Sniglarnir hafa margt á prjónunum og það er hugur í leðurgöllunum á Ægisíðunni.

 Krónprinsar íslenska vitundariðnaðarins?

„Stefnan er auðvitað framboð," segir Snigill númer 13, ljóshærður piltur sem hefur reynt fyrir sér sem  ljósmyndafyrirsæta. Þeir hinir flýta sér að taka fram að það hafi alls ekki verið á vegum Bifhjólasamtakanna og Snigill no. 13 brosir alúðlega. En að öðru leyti láta Bifhjólasamtökin sér
fátt mannlegt óviðkomandi. „Það er nú meðal annars tilgangur samtakanna að veita hæfileikum félaganna útrás. Og innan þeirra eru miklir hæfileikamenn á flestum sviðum."
Þeir ætla að reyna fyrir sér í útgáfumálum alls konar, hafa áhuga á videoframleiðslu og útvarpsrekstri. Ef eitthvað verður úr framkvæmdum hafa Stuðmenn líkleg a eignast verðuga keppinauta um nafnbótina Konungar íslenska vitundariðnaðarins. Og Sniglarnir hafa meira að segja þegar gefið út plötu. „Við fréttum af því á fimmtudegi að rekstrarhagfræðingurinn væri að fara úr landi næsta laugardag. Þá datt okkur í hug að gaman gæti veriö að gefa út plötu og láta hann svo sjá um
að fá hana skorna i útlöndum. Daginn eftir fórum við í stúdíó og tókum upp plötuna á mettíma, fimm klukkustundum. Við vildum aðallega kynnast því hvernig væri að gefa út plötu og það var alveg ágætt. Við viljum lika gjaman fara svona að hlutunum; vera ekkert aö velta þeim of mikið fyrir
okkur heldur framkvæma í staðinn."

 Plata þeirra vinsæl  í Grindavík 

Vissulega hefur lítið farið fyrir plötunni, „en við erum vinsælir í Grindavík. Eg held að við höfum selt hér um bil öllu frystihúsinu eintak af henni. Og einn veit ég um sem býr í stigagangi með þremur gömlum konum. Hann seldi þeim svona tiu stykki." Sniglunum fannst reyndar svo gaman að gefa út plötu að þeir hafa nú stofnað sérstaka Lagavalsnefnd sem á að undirbúa frekari afrek á þessum vettvangi, semja lög og texta og taka þau upp. Hvenær? Kannski þegar rekstrarhagfræðingurinn fer næst til útlanda. En alténd einhvern tíma. „Og stefnan er auðvitað framboð," endurtekur Númer 13 blíðlega.
-IJ.   30.3.1985


20.7.84

Motocross „Rosaleg fíling"

Helgi Schiöth

Fróðir menn hafa sagt að þetta sé næst erfiðasta íþrótt íheimi, einungis ameríski fótboltinn er erfiðari. 

Og hér erum við að tala um motocross.

 Nokkrir ungir Akureyringar hafa lagt stund á þessa erfiðu íþrótt og innan tíðar fá þeir í heimsókn motocrossara frá Reykjavík og þá verðurhaldin hér keppni.

Það var sólbjart síðdegi, í malarkrúsunum við öskuhaugana er mikill hávaði og ryk þyrlast upp eins og þar fari hrossastóð. En raunin er sú, að Helgi Schiöth er að æfa sig í motocross. Félagar hans standa álengdar og spá í aksturinn hjá Helga. Ég heyri ekki betur en þeim líki vel það sem þeir sjá.
   Helgi þenur hjólið, geysist yfir hóla og hæðir, svífur fram af moldarbörðum - líklega skárra að hafa demparana í lagi. Eys grjóti og ryki yfir nærstadda. Svo gefur hann sér tíma til að spjalla við blaðamann, og ég spyr hann fyrst hvort þetta sé gaman? 
  „Rosaleg fíling," segir Helgi. Hann og félagar hans hafa stundað íþróttina í 3 ár, og eiginlega voru þeir brautryðjendur hér fyrir norðan. „Ég hef alltaf haft áhuga á motorhjólum, eignaðist fyrst skellinöðru þegar ég var 13 ára." 
    Ég ympra á því hvort hann hafi þá ekki verið ólöglegur til að byrja með, en Helgi gefur ekkert út á það - glottir út í annað. „Ég lék mér bara í túninu heima." Hjólið sem Helgi er á, er reyndar ekki hans eign. „Ég á Husquarna 430 - það er til sölu. Já, það er góður kraftur í því. Það skiptir mestu að krafturinn í hjólinu sé mikill og góður, og fjöðrunin þarf að vera góð. Og svo hefur mikið að segja hvernig hjólið er í akstri, beygjum og ófærum og því um líku. Og að sjálfsögðu má bilanatíðnin ekki
vera há." 
  - Ertu ekkert hræddur við þetta sport? 
Helgi Schiöth: "Skiptir mestu að
krafturinn sé mikill og góður."
 Myndin KGA
    „Ef maður er vel búinn í galla og aðrar hlífar sem tilheyra, þá minnka líkurnar á slysi mjög mikið. Og maður verður áræðnari, síður hræddur við að fljúga. Já, ég hef sloppið stóráfallalaust - fengið smáskrámur en ekkert alvarlegt." Það eru 7 eða 8 motocross hjól hér í bænum, en í kringum hvert hjól eru 4-5 áhugasamir og virkir strákar. Þeir eru félagar í  bílaklúbbnum, en Helgi segir að þeir hafi áhuga á að stofna sérstakan klúbb ef að fleiri fara að stunda motocrossið. 
   En er það ekki dýrt sport? 
    „Ja, það fer eftir því hversu mikið þú keyrir, hvað þú eyðir miklu í bensín - hjólin eyða töluverðu. Og svo hefur það nokkuð að segja hversu heppinn þú ert með hjólið, hvort það bilar oft," segir Helgi. Þeir félagarnir eru ekki alveg sammála um hversu dýrt sjálft hjólið er, en vilja meina að hægt sé að fá notuð hjól á sæmilegu verði. Laugardaginn 21. verður haldið þarna í malarkrúsunum hjá  öskuhaugunum motocross keppni. Þangað mæta Reykvíkingar til keppni og Akureyringar verða einnig með. Má vænta þess að alls verði keppendur um 20 talsins. Keppt verður í fjórum flokkum, og vænta má skemmtilegrar keppni.
 Þegar ég yfirgef þá motocrossara er Helgi aftur farinn að þyrla upp ryki og hafa hátt.
KGA.
Dagur 1984