20.7.84

Motocross „Rosaleg fíling"

Helgi Schiöth

Fróðir menn hafa sagt að þetta sé næst erfiðasta íþrótt íheimi, einungis ameríski fótboltinn er erfiðari. 

Og hér erum við að tala um motocross.

 Nokkrir ungir Akureyringar hafa lagt stund á þessa erfiðu íþrótt og innan tíðar fá þeir í heimsókn motocrossara frá Reykjavík og þá verðurhaldin hér keppni.

Það var sólbjart síðdegi, í malarkrúsunum við öskuhaugana er mikill hávaði og ryk þyrlast upp eins og þar fari hrossastóð. En raunin er sú, að Helgi Schiöth er að æfa sig í motocross. Félagar hans standa álengdar og spá í aksturinn hjá Helga. Ég heyri ekki betur en þeim líki vel það sem þeir sjá.
   Helgi þenur hjólið, geysist yfir hóla og hæðir, svífur fram af moldarbörðum - líklega skárra að hafa demparana í lagi. Eys grjóti og ryki yfir nærstadda. Svo gefur hann sér tíma til að spjalla við blaðamann, og ég spyr hann fyrst hvort þetta sé gaman? 
  „Rosaleg fíling," segir Helgi. Hann og félagar hans hafa stundað íþróttina í 3 ár, og eiginlega voru þeir brautryðjendur hér fyrir norðan. „Ég hef alltaf haft áhuga á motorhjólum, eignaðist fyrst skellinöðru þegar ég var 13 ára." 
    Ég ympra á því hvort hann hafi þá ekki verið ólöglegur til að byrja með, en Helgi gefur ekkert út á það - glottir út í annað. „Ég lék mér bara í túninu heima." Hjólið sem Helgi er á, er reyndar ekki hans eign. „Ég á Husquarna 430 - það er til sölu. Já, það er góður kraftur í því. Það skiptir mestu að krafturinn í hjólinu sé mikill og góður, og fjöðrunin þarf að vera góð. Og svo hefur mikið að segja hvernig hjólið er í akstri, beygjum og ófærum og því um líku. Og að sjálfsögðu má bilanatíðnin ekki
vera há." 
  - Ertu ekkert hræddur við þetta sport? 
Helgi Schiöth: "Skiptir mestu að
krafturinn sé mikill og góður."
 Myndin KGA
    „Ef maður er vel búinn í galla og aðrar hlífar sem tilheyra, þá minnka líkurnar á slysi mjög mikið. Og maður verður áræðnari, síður hræddur við að fljúga. Já, ég hef sloppið stóráfallalaust - fengið smáskrámur en ekkert alvarlegt." Það eru 7 eða 8 motocross hjól hér í bænum, en í kringum hvert hjól eru 4-5 áhugasamir og virkir strákar. Þeir eru félagar í  bílaklúbbnum, en Helgi segir að þeir hafi áhuga á að stofna sérstakan klúbb ef að fleiri fara að stunda motocrossið. 
   En er það ekki dýrt sport? 
    „Ja, það fer eftir því hversu mikið þú keyrir, hvað þú eyðir miklu í bensín - hjólin eyða töluverðu. Og svo hefur það nokkuð að segja hversu heppinn þú ert með hjólið, hvort það bilar oft," segir Helgi. Þeir félagarnir eru ekki alveg sammála um hversu dýrt sjálft hjólið er, en vilja meina að hægt sé að fá notuð hjól á sæmilegu verði. Laugardaginn 21. verður haldið þarna í malarkrúsunum hjá  öskuhaugunum motocross keppni. Þangað mæta Reykvíkingar til keppni og Akureyringar verða einnig með. Má vænta þess að alls verði keppendur um 20 talsins. Keppt verður í fjórum flokkum, og vænta má skemmtilegrar keppni.
 Þegar ég yfirgef þá motocrossara er Helgi aftur farinn að þyrla upp ryki og hafa hátt.
KGA.
Dagur 1984