27.5.05

Guli fiðringurinn og MT-01




   YKKAR einlægur er einn þeirra u.þ.b. 600 Íslendinga sem fyrstu fimm mánuði ársins 2005 keyptu mótorhjól. Það var gamalt Yamaha XJ600, sem keypt var hjá mótorhjólasölu í Þýskalandi í gegnum netið. Hjólið er árgerð 1994 og var ekið um 37.000 km, en eins og nýtt á að líta og á nýjum dekkjum og vel við haldið. Hingað komið kostaði það nálægt 350.000 kr. og hafa nú bæst við um 1.500 km á vegalengdarmælinn, enda einmuna blíða verið mestallt vorið.

   Undirritaður er búinn að sporta sig allnokkuð á nýja leiktækinu sínu, sem margir kalla í glensi Gula fiðringinn, með greinilegri vísan í fiðring af öðrum og grárri litarhætti. Skrifari er samt engan veginn undir það búinn að rita lærðar greinar um mótorhjól, hvað þá heila reynsluakstursgrein. Til þess er þekkingin á málefninu allt of brotakennd. Þess vegna ber að líta á þessi skrif, sem ekki fjalla um Gula fiðringinn að öðru leyti heldur nýja Yamaha MT-01 ofurhjólið, miklu fremur sem upplifun íturvaxins drengs sem skyndilega kemst í stóran dótakassa og fær að leika sér í honum um stundarsakir.

Þó skal þess getið að Guli fiðringurinn er með 60 hestafla vél og er fremur létt götuhjól og hefur því alla tíð virkað bara nokkuð sprækt í huga drengsins. En svo bauðst honum að prófa þetta gljáandi nýja Yamaha MT-01 frá Arctic Trucks, umboðsaðila Yamaha, og þá upplaukst fyrir honum splunkunýr og spennandi veruleiki.

Spurning um Newtonmetra

     Komið var með hjólið upp að dyrum seinnipart föstudags og drengnum afhentur lykillinn. Hjólið var skoðað í andakt í krók og kima. Sumt kom kunnuglega fyrir sjónir, ekki síst að MT-01 er á tveimur hjólum, en annað var framandlegt, eins og tvö púströr af sverustu gerð alveg upp við sætið, eins og á torfæruhjólum, og keðjan sem er hægra megin á hjólinu. Framlugtin er líka öðruvísi en aðrar framlugtir; blanda af einhvers konar „retro“-hönnun og módernisma. Pústflækjan og stærðin á V2-vélinni er næstum yfirþyrmandi. Og afturdekkið er sömuleiðis af sverustu sort.

    Í svipan rifjaðist upp fréttaflutningur af mótorhjólasýningunni í Tókýó 1999 þegar MT-01 var sýnt sem hugmyndahjól. Þá áttu kannski fæstir von áþví að það yrði nokkurn tíma framleitt, eins furðulegt í uppbyggingu og það var. Heim var það samt komið á númerum og fullum tanki af bensíni. Það er nýbúið að setja MT-01 á markað í Evrópu en nokkru áður í Japan. Hjólið verður hins vegar ekki markaðssett á næstunni í Bandaríkjunum. Þá er gaman að geta þess að Yamaha tók upp allt efni fyrir bæklinga og auglýsingar hér á landi í fyrra og má sjá skínandi skemmtilegar myndir í íslenskri náttúru á www.mt-01.com.

    Sumir höfðu spurt skrifara hvort hann treysti sér til þess að hjóla á þessu aflmikla hjóli. Þá kom strax upp íhugann að hjólið er þó ekki „nema“ 90 hestöfl þegar allt kemur til alls, eins og það hefði í raun og veru eitthvað með málið að gera. Það sem allt snýst um í MT-01 er nefnilega tog og aftur tog, Newtonmetrar á Newtonmetra ofan. Yamaha setti stærstu vélina í sínu vopnabúri í þessa glæsilegu mótorhjólagrind – vél sem notuð hefur verið í hörðustu hippana eins og t.d. Warrior, tæpir 1.700 rúmsentimetrar að slagrými, sem sagt stærri vél en t.d. í VW Golf 1.6 FSI. En, nota bene, hjólið er um 920 kg léttara Golfinn. 

    Það var ekki eftir neinu að bíða. Sólin skein í heiði og kevlar-gallinn hékk óþreyjufullur á herðatré inni í skáp. Setan á hjólinu er þægileg fyrir mann sem kemur af XJ600 og ekki ósvipuð. Lítið mál að stoppa á ljósum. En þegar átti að snúa hjólinu við í þrengslum upp við útidyrnar var það deginum ljósara að hjólið er engin léttavara þrátt fyrir allt. Lyklinum var snúið í svissinum og þrýst á rafstartið. Ætternið leyndi sér ekki í drununum frá vélinni. Þetta er hippahljóð og það finnst fyrir vélinni upp í heiladingul. Grófur víbringur í lausagangi og þrumugnýr í hlustinni. Svo þegar inngjöfinni er skyndilega sleppt sprengir vélin, eins og í gömlum átta gata amerískum kagga. Þvílíkur ruddi! 

    Og svo var brunað af stað út í vorið. Ífyrsta gír og strax kominn á hámarkshraða! Í öðrum gír og á 2.500 snúningum á allt öðrum hraða. Hjólið er að skila mesta átakinu í kringum 3.000 snúninga og hljóðið er þungt og djúpt og hröðunin þegar komið er upp ávenjulegan aksturshraða gríðarleg. Um leið er hjólið auðvelt viðureignar; bara að muna að halda fast í stýrið! Undirritaður treysti sér hraðar í beygjur á þessum mikla grip en Gula fiðringnum, og það þótt hann væri að prófa MT-01 í fyrsta sinn. Breið afturdekkin tryggja mikið veggrip. Það jók líka sjálfstraustið um allan helming að finna hemlunargetuna frá tvöföldum diskabremsunum að framan. En alltaf þrengir sér inn í vitundina vélarhljóðið og titringurinn frá vélinni, sem samt er ekki til óþæginda, miklu frekar til áminningar um allt aflið sem er undir ganglimunum. 

Nýr flokkur í uppsiglingu? 

   Með MT-01 virðist sem Yamaha sé að búa til nýjan flokk mótorhjóla, þar sem allt gengur út á snarpa aksturseiginleika en meira tog en hröðun og spennandi að sjá hvort aðrir framleiðendur feta í sömu fótspor. Þetta er svolítill hlunkur en meðfærilegur að flestu leyti. Spurning er hversu mikið vindhlíf myndi spilla útliti hjólsins, en hún er eiginlega nauðsynleg, að mati skrifara, í þessu voru rokbæli. Eini ókosturinn við MT-01 er verðmiðinn; 1,5 milljónir rúmar. En samt er það kannski fyrirgefanlegt fyrir þá ánægju sem hjólið veitir. Guli fiðringurinn og MT-01 

gugu@mbl.is

Alþjóðleg þolakstursveisla á Klaustri


Stærsta mótorsportkeppni sem nokkurn tímann hefur verið haldin á Íslandi fer fram um helgina. Um er að ræða alþjóðlegt mót í  þolakstri á torfæruhjólum sem haldið er í landi Efri-Víkur við Kirkjubæjarklaustur. Bjarni Bærings fylgdist með undirbúningi
tæplega 400 þátttakenda frá 4 löndum sem stefna á Kirkjubæjarklaustur, þar sem vel á annað þúsund manns mun
eyða helginni í mótorblandaðri sveitasælu.



KJARTAN Kjartansson, kennari á Kirkjubæjarklaustri, átti það frumkvæði fyrir 3 árum að halda 6
klukkutíma þolaksturskeppni í landi Efri-Víkur. Keppnin heppnaðist vel og allir höfðu gaman af. Erlendir keppendur sýndu mótinu mikinn áhuga og mótið fékk umfjöllun í erlendum fjölmiðlum. Síðan þá hefur mótið vaxið með eindæmum og er orðin allra stærsta mótorsportkeppni sem haldin er á Íslandi. Ekki spillir fyrir vexti mótsins að undantekningarlaust leikur veðrið viðkeppendur og  áhorfendur. Kjartan hefur staðið í ströngu síðustu vikur við skipulagningu og undirbúning mótsins. Brautin er lögð í gígóttu graslendi í bland við gljúpan sand og hvasst hraun. Allt gistirými á stóru
svæði í kringum keppnina er uppselt en tjaldsvæði staðarins tekur lengi
 við. Tvennir tónleikar hafa verið skipulagðir um helgina ásamt hinni árlegu grillveislu staðarhaldara.

Sjöfaldur heimsmeistari meðal keppenda

Svíinn og Husqvarna ökumaðurinn Anders Eriksson er svo sannarlega þungaviktarmaður í sportinu. Þessi sænski jaxl á að baki 7 heimsmeistaratitla í þolakstri síðastliðin 10 ár. Hann hefur einnig  orðið Þýskalandsmeistari og sigurvegari í hinni erfiðu argentínsku keppni Enduro del Verano – þrjú ár í röð. Í Svíþjóð hefur hann unnið stærsta þolakstursmót Svíþjóðar sem kallast Novemberkåsan og árið 1999 fékk hann sænsku nafnbótina „Bifhjólamaður ársins“ í öllum flokkum. Anders er í dag á fullu að keppa í heimsmeistaramótinu í þolakstri, lenti í 4.sæti í síðustu keppni sem fram fór á Ítalíu 8. maí og er í þriðja sæti í mótaröðinni. Anders er mættur til Íslands til að keppa og ætlar sér umfram allt að hafa gaman af keppninni en á einnig óneitanlega mikla möguleika á sigri. Það er gífurleg lyftistöng fyrir sportið á Íslandi og heiður fyrir  keppnishaldara að fá Anders til að keppa og verður gaman að sjá Íslendingana berjast við kappann í
þessari 6 klukkustunda glímu.


_______________________________________

Risastór landkynning

SEAN Lawless, ritstjóri hins virta breska tímarits Dirt Bike Rider, kom til landsins sl. þriðjudag og
byrjaði heimsóknina að sjálfsögðu á því að skola af sér ferðarykið í Bláa lóninu. Ástæða Íslandsheimsóknarinnar er sú að verið er að vinna blaðagrein um land og þjóð fyrir Dirt Bike Rider blaðið.
Klausturskeppnin, sem fram fer laugardaginn 28. maí, og fólkið sem hana sækir, eru miðpunktur greinarinnar og segir hann brautina og stemninguna sem þar myndast einstaka. Sean keppir í boði Yamaha á YZ 250 með íslenskum liðsfélaga sínum, Þóri Kristinssyni, en aðspurður segir Sean dagskipunina vera þá eina að ná að klára keppnina í
heilu lagi en kappaksturinn stendur yfir í heilar 6 klukkustundir samfleytt og flestir orðnir örmagna í lok dags eftir allan þann barning sem fylgir akstri torfæruhjóla. Sean hefur notað tímann sem hann hefur haft aflögu fyrir keppnina til að hitta íslenska vini sína sem hann á orðið nokkuð marga frá fyrri heimsóknum sínum til Íslands. Einnig hefur hann verið að skoða landið og fór m.a. í hjólatúr á klifurhjólum (trialshjólum) en grein um slík hjól birtist einmitt á síðum Bíla í síðustu viku. Sean ók nýju GasGas 250cc í boði JHM sport og var farið yfir grjót og klettagil. Sean, sem hefur áratuga reynslu á klifurhjólum, segir aðstæður á Íslandi vera á heimsmælikvarða og hann telur að hún eigi eftir að ná góðri fótfestu hér á komandi árum. Það eru fleiri útlendingar væntanlegir til landsins vegna keppninnar á Klaustri. Ron Lawson, ritstjóri bandaríska tímaritsins Dirt Rider, er væntanlegur og keppir í boði KTM. Spaugilegt hversu nöfn ritstjóranna tveggja eru lík, annars vegar Lawless og hins vegar Lawson, sérstaklega ef maður reynir svo að íslenska eftirnöfn þeirra tveggja. Eitt stærsta nafnið á Klaustri er þó án efa margfaldur meistari, hinn sænski Anders Eriksson og liðsfélagi hans, Bretinn Tony Marshall. Ferð þeirra til landsins er styrkt af Flugleiðum og aka þeir félagar á Husqvarna TC 450. Það er því ljóst að frá því fyrir fjórum árum er 6 tíma þolaksturinn á Klaustri var haldinn í fyrsta skipti hefur keppninni vaxið fiskur um hrygg, keppendum fjölgað, innlendum sem erlendum og ljóst að uppákoma af þessu tagi er mikil lyftistöng fyrir ferðamannaiðnaðinn á svæðinu.
Morgunblaðið 27.5.2005