18.6.92

2500 hestöfl undir 20 rassa

Gljáfægð mótorhjól ásamt eigendum sínum og nokkrum fallegum 
stelpum í Herjólfsdal í góða veðrinu síðasta laugardag.
(Litmynd: Jón Helgason)

Mörgum stendur ógn af þeim þegar þeir þeysa um göturnar, klæddir kolsvörtum leðurbúningum, með hjálma á hausnum svo ómögulegt er að þekkja þá. 


Sumir kalla þá riddara götunnar, nafngift sem flestir þeirra eru sennilega nokkuð ánægðir með. Þegar sól fer að hækka á lofti skríða þeir úr hýðinu einn af öðrum og þegar hún brýst í gegnum skýin heyrist gnýrinn um alla eyju þegar þeir, í stórum hópum, geysast um bæinn á gljáfægðum fákunum.
   Mörgum bæjarbúum finnst mótorhjólamenn fyrirferðamiklir og stundum með réttu því oft vilja þeir gleyma sér og gefa hraðatakmörkum langt nef. Er kannski engin furða þegar tekið tekið er tillit til þess að þeir eru með upp í 140 hestöfl á milli lappanna.
FRÉTTIR fengu 20 manna hóp vélhjólakappa til að stilla sér upp inn í Herjólfsdal um síðustu helgi.
 Samanlögð hestaflatala þeirra er nálægt 2500hestöflum, sem þykir ágætis vélarorka í meðal skuttogarara. En þetta er ekki nema hluti af hjólunum í bænum því þeir segja að þau nálgist 60 og er heildarverðmæti þeirra um 50 milljónir króna með tilheyrandi búnaði.

Eyjafréttir 
18.06.1992

30.5.92

Íslensk bifhjólamenning á enn hærra plan

 Mótorhjól í Perlunni

Meiri háttar mótorhjólasýning stendur yfir þessa dagana í Perlunni.
Sýnd eru 59 mótorhjól í eigu einstaklinga, stofnana og fyrirtækja en þar að auki sýna 10 innflutnings og þjónustufyrirtæki fyrir mótorhjól og mótorhjólatengdar vörur. 11. fyrirtækið er gosdrykkjaframleiðandi og hefur ekki mótorhjólavörur nema óbeint en tekur samt þátt í sýningunni. - Það eru Flækjufætur sem standa fyrir sýningunni sem þeir segjast í sýningarskrá vonast til að lyfti bifhjólamenningu á Íslandi á enn hærra plan.


Merkileg hjól, gömul og ný 


Meðal þeirra gripa sem þarna eru til sýnis eru tvö Harley Davidson hjól lögreglunnar í Reykjavík, HD 1200 Duoglide frá 1958 sem nú telst til fornhjóla og nýjasta Harley Davidson hjólið hennar, HD Electra Glide 1990. Af öðrum hjólum sem yðar einlægum, algjörum sauð í mótorhjólafræðum, þykja forvitnileg má nefna Honda 1500 Goldwing '88 og Nimbus 750 '51, svo og Husquarna Novolette HVA 40 '58.
Í sambandi við sýninguna fer svo fram margháttuð og áhugaverð dagskrá. Til að mynda var við opnunina komið á staðinn með 7 ára gamalt Suzuki GSX-R 750 í frumpörtum. Þetta hjól ætlar sérfræðingur í súkkuviðgerðum að gera upp meðan sýningin stendur og hjóla burtu á því nýuppgerðu í lokin. Sýndar verða kvikmyndir og Litskyggnur frá-mótorhjólaviðburðum og Haukur Halldórsson listmálari sýnir myndir „sem tengjast mótorum og mótorhjólamenningu", eins og segir í sýningarskrá.

Ýmsar uppákomur í dag

 Á morgun, sunnudag, er svo lokadagur sýningarinnar og þá verða ýmsar uppákomur og lifandi tónlist þar til sýningunni lýkur með hópreið á mótorhjólum frá Perlunni um Kópavog að Hard-Rock í Kringlunni, þar sem sýningunni lýkur formlega með afhendingu verðlauna og viðurkenninga.
S.H.H. 
DV
30.5.1992