18.6.92

2500 hestöfl undir 20 rassa

Gljáfægð mótorhjól ásamt eigendum sínum og nokkrum fallegum 
stelpum í Herjólfsdal í góða veðrinu síðasta laugardag.
(Litmynd: Jón Helgason)

Mörgum stendur ógn af þeim þegar þeir þeysa um göturnar, klæddir kolsvörtum leðurbúningum, með hjálma á hausnum svo ómögulegt er að þekkja þá. 


Sumir kalla þá riddara götunnar, nafngift sem flestir þeirra eru sennilega nokkuð ánægðir með. Þegar sól fer að hækka á lofti skríða þeir úr hýðinu einn af öðrum og þegar hún brýst í gegnum skýin heyrist gnýrinn um alla eyju þegar þeir, í stórum hópum, geysast um bæinn á gljáfægðum fákunum.
   Mörgum bæjarbúum finnst mótorhjólamenn fyrirferðamiklir og stundum með réttu því oft vilja þeir gleyma sér og gefa hraðatakmörkum langt nef. Er kannski engin furða þegar tekið tekið er tillit til þess að þeir eru með upp í 140 hestöfl á milli lappanna.
FRÉTTIR fengu 20 manna hóp vélhjólakappa til að stilla sér upp inn í Herjólfsdal um síðustu helgi.
 Samanlögð hestaflatala þeirra er nálægt 2500hestöflum, sem þykir ágætis vélarorka í meðal skuttogarara. En þetta er ekki nema hluti af hjólunum í bænum því þeir segja að þau nálgist 60 og er heildarverðmæti þeirra um 50 milljónir króna með tilheyrandi búnaði.

Eyjafréttir 
18.06.1992