5.5.20

Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu

Hjörtur L. Jónsson og Ólafur í ísakstri.

Hjörtur Jónsson er einn af elstu meðlimum Sniglanna. „Ég er snigill númer 56, kom inn á fyrsta árinu, haustið 1984, og búinn að vera þar síðan. Ég var aðlaður rétt fyrir aldamótin, ’97 minnir mig. Var þá gerður að heiðursfélaga fyrir vel unnin störf fyrir félagið. Ég hef verið mikið í ýmsum viðburðastjórnum, sá um landsmót, sá um tíu ára afmæli Sniglanna, á sínum tíma héldu þeir kvartmílukeppnir og Enduro-keppnir, ég sá um þetta allt saman. Ég hef verið mikið í skipulagningu og viðburðastjórnun af ýmsu tagi og þess háttar.“

   Áhugi Hjartar kviknaði eftir kynni hans af skellinöðrum. „Ég keyrði fyrst skellinöðru ’72, tólf ára gamall. Svo eignast ég skellinöðru ’76 og síðan ’83 hef ég alltaf átt eitt eða fleiri mótorhjól. Þetta var alltaf draumur, maður sá þetta í blöðum og fannst þetta spennandi. En mér er sagt að þegar ég var smágutti, 3-4 ára, þá hafi ég grátið af hræðslu þegar þetta keyrði fram hjá.“
   Er eitthvað sem stendur upp úr eða er sérstaklega eftirminnilegt?
     „Vonda minningin kemur oft fyrst upp í hugann, þegar maður missti fyrsta mótorhjólafélagann í mótorhjólaslysi. Það situr lengst og er erfiðast að vinna í. Af öllum viðburðunum, þá var það ekki beint tengt Sniglunum en þegar mótorhjól á Íslandi áttu aldarafmæli árið 2005 var haldin stór hátíð á Sauðárkróki, Hundrað ára afmæli mótorhjólsins. Ég skipulagði hana og fékk til liðs við mig þrettán mótorhjólaklúbba til að standa að hátíðinni. Það er eitt af því sem gefur mér alltaf gæsahúð vegna þess hvað allt tókst vel, fyrir utan veðrið, það var hundleiðinlegt. Hátíðin fór með eindæmum vel fram og ekki einn einasti maður tekinn með fíkniefni eða brennivín eða fyrir hraðakstur.“ Dregið hefur verulega úr alvarlegum mótorhjólaslysum undanfarinn áratug og nefnir Hjörtur nokkur atriði sem hafa haft áhrif.
„Fyrstu tíu ár Snigla létust fimmtán í mótorhjólaslysum en næstu tíu ár létust aðeins sjö. En það má þakka því að gallarnir eru betri, hjólin betri, með betri bremsum og svoleiðis. Þetta eru alltaf að verða öruggari og öruggari farartæki. Svo er skítakuldi hér, hávaðarok og ausandi rigning og allir mótorhjólamenn eiga svo góða galla þannig að ef þeir fljúga á hausinn þá eru þeir ágætlega varðir.“

Prestur eða morðingi 

   Það ríkir mikil virðing milli mótorhjólamanna. „Mótorhjólamaður er alltaf mótorhjólamaður, þegar ég mæti honum þá veifa ég honum. Það er mikil virðing borin fyrir samherjanum, við heilsum alltaf. Þetta er svona úti um allan heim, þú veist ekkert hvort þú ert að mæta prestinum eða fjöldamorðingjanum.“
  Þá er lífsgleðin áberandi. „Það eru allir glaðir, það er enginn í fýlu. Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu. Mótorhjólafólk laðast hvert að öðru, líkur sækir líkan heim. Það er svo mikil vinátta í þessu samfélagi og samheldni, ef það bilar hjá einum þá hjálpast allir að við að koma honum áfram svo að allir komist heim.“
  Hjörtur hefur líka starfað sem leiðsögumaður. „Hálendi Íslands er stærsta paradísin af þeim öllum. Það er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef verið leiðsögumaður með túristum í fimmtán ár fyrir fyrirtæki sem leigir út hjól. Þekktasti maðurinn er væntanlega gítarleikarinn í Guns N' Roses, Richard Fortus. Við erum vinir á Facebook, ég fékk vinabeiðni og var ekki alveg að kveikja. Þetta eru 150 túristar sem ég er búinn að taka hringinn í kringum landið.“
  Óhætt er að fullyrða að Sniglarnir hafi mótað líf Hjartar sem kynntist konu sinni í samtökunum. „Það var á landshátíð Sniglanna árið 1987 í Húnaveri sem við duttum saman. Við vorum búin að þekkjast lengi. Hún er númer 248.“


Fyrsta ferðin endaði ofan í skurði


Sonur Hjartar, Ólafur Hjartarson, er 23 ára og segja má að hann hafi alist upp innan um mótorhjól.
  „Fjölskyldan hefur alltaf verið í þessu, ég hef aldrei munað eftir öðru. Ég hef örugglega farið á mótorhjól þegar ég verið 2-3 ára en ég keyrði fyrst á sex ára afmælisdaginn minn. Það endaði ofan í skurði og ég fékk ör á kinnina.“
  Ólafur var með eina ósk þegar hann gekk til liðs við Sniglana. „Ég bað sérstaklega um að númerið mitt myndi enda á 56, af því að það er númerið hjá pabba. Það eru 2.400 manns á milli okkar.“
  Móðurafi Ólafs hjólar líka enn reglulega, orðinn 76 ára. „Foreldrar mínir kynntumst í gegnum Sniglana og svo er afi minn líka með hjól, honum datt það í hug þegar hann var sextugur. Hann var á skellinöðru í gamla daga, þroskaðist upp úr því en keypti sér svo Harley.“
   Feðgarnir Hjörtur og Ólafur hafa átt margar gæðastundir á hjólunum. „Ég hjóla allt árið, legg götuhjólinu kannski í nóvember en ég tek þá út torfæruhjólið og þá förum við pabbi að keyra á ís, eins og á Hafravatni og upp í fjöll.“
   Líkt og margir, nefnir Ólafur einnig frelsið sem helsta aðdráttaraflið. „Það er bara frelsið, það tala allir um þetta frelsi og svo er þetta persónulega bara drullugaman.“  


Fréttablaðið 5. MAÍ 2020 

Frelsi, friður og vinátta á vegum úti

Sniglarnir, hagsmunasamtök bifhjólafólks, voru stofnuð árið 1984. Þorgerður Guðmundsdóttir formaður og Vilberg Kjartansson varaformaður segja frelsið heillandi við mótorhjólið og að Sniglarnir séu eins og ein stór fjölskylda

Það er ekki langt síðan Þorgerður byrjaði að hjóla og hefur hún ekki stoppað síðan. „Ég hafði skoðað mótorhjól og hugsað með mér að það væri gaman að prófa. Svo prófaði ég fyrst árið 2013 að vera hnakkaskraut, semsagt sitja aftan á hjá öðrum, og þar kviknaði áhuginn. Ég var það bara einu sinni og þá varð ekki aftur snúið.“
   Þróunin var hröð. „Ég tók prófið 2014 og sama ár gekk ég í Sniglana, og tók að mér að opna húsin og svona. Fyrir tveimur árum gekk ég til liðs við varastjórn og svo fyrir ári tók ég við gjaldkerastöðu og núna í mars tók ég við formannsstöðu.“ 
   Varaformaður Sniglanna, Vilberg Kristinn Kjartansson, segir áhugann hafa kviknað á unglingsárunum. „Ég er búinn að vera í Sniglunum í að verða þrjátíu ár. Þegar ég var unglingur, 12-13 ára, kviknaði áhuginn á skellinöðrum og motorcross-hjólum. Svo kaupi ég fyrsta mótorhjólið sautján ára og hef ekki stoppað síðan.“ 

Létu strax gott af sér leiða 

Vilberg ólst upp í Laugarneshverfinu þar sem nokkrir af fyrstu Sniglunum voru áberandi. „Fyrstu Sniglarnir voru í hverfinu, þessir sem voru alveg í fyrstu númerunum. Þetta var ’81, þá leigðu nokkrir Sniglar saman. Þeir voru á þessum gömlu hjólum og leyfðu okkur stundum að sitja aftan á og keyrðu með okkur um hverfið. Þeir létu strax af sér gott leiða, þó þeir væru með sítt hár, í leðurbuxum og rokkaralega klæddir.“ 
   Blaðamaður spyr þau Þorgerði og Vilberg hvað það sé sem er svona heillandi við mótorhjólin. 
  „Þetta er svo mikið frelsi. Maður hugsar ekki um neitt annað en bara að hjóla og umferðina í kringum sig, þú ert ekkert að hugsa um lífið og tilveruna á hjólinu. Það þarf alveg að hafa einbeitinguna í lagi þannig að það er ekki hægt að hugsa um neitt annað,“ svarar Þorgerður. Vilberg svarar á svipuðum nótum og nefnir einnig frelsið. „Það er bara þessi friður, maður er svo frjáls einhvern veginn, setur bara á sig hjálminn, klæðir sig í gallann og fer af stað. Ég fer yfirleitt út fyrir bæinn, keyri til dæmis til Borgarness eða Grindavíkur. Við ákveðum oft hvert sé haldið með stuttum fyrirvara, keyrum kannski á einhvern áfangastað til að fá okkur hamborgara eða kjötsúpu. Þetta er allt öðruvísi en að sitja í bíl.“

Öryggis- og forvarnarstarf

   Sniglarnir hafa sinnt fjölda verkefna frá stofnun samtakanna og hafa alla tíð lagt sterka áherslu á öryggismál. „Eftir að ég tók prófið og fór út í umferðina á mótorhjóli þá pæli ég miklu meira í því hvort það sé mótorhjól í umferðinni og passa mig miklu betur þegar ég keyri bíl, maður verður miklu meira vakandi í umferðinni,“ segir Þorgerður.
   Vilberg hefur einnig sinnt forvarnarstarfi. „Við Guðrún vinkona mín sem er í Sniglunum byrjuðum í fyrra með forvarnarstarf. Við fórum í skólana og Vinnuskólann í fyrrasumar, vorum að tala við börnin um að nota hjálm á vespunum og vera ekki of mörg saman á vespunni, sýndum þeim myndir og svona en höfum því miður ekki getað gert það núna í ár.“
   Blaðamaður spyr hann hvernig sambandið sé á milli samtakanna og lögreglunnar. „Lögreglan var voðalega ánægð með það sem við vorum að gera í skólunum og við auðvitað vinnum mikið með lögreglunni í okkar starfi. Það er náttúrulega slatti af lögreglumönnum sem eru mótorhjólamenn og það eru einhverjir í Sniglunum en ég hef ekki tölurnar.“

Vilja að fólk líti tvisvar 

  Þá eru hagsmunir bifhjólafólks í forgrunni í starfsemi samtakanna og segir Þorgerður að huga þurfi að mörgu í þeim efnum. „Við sjáum um hagsmuni mótorhjólamanna, förum til dæmis á fundi með samgönguráðherra varðandi umferðina og vegina, að þeir séu í góðu standi en vegirnir eru ekki nógu góðir sums staðar þannig að mótorhjólafólk geti hjólað á þeim. Við höfum líka verið að vinna að tryggingarmálum af því að tryggingarfélögin vilja að við séum með númerin á hjólunum allt árið, það er ekki tekið tillit til þess að við séum ekki að hjóla allt árið svo það er dýrt að taka númerin af hjólunum yfir veturinn.“ Á þessum tíma árs byrja margir að hjóla. „Um miðjan apríl fer fólk að tínast út á göturnar. Sumir hjóla yfir veturinn þegar veður leyfir en flestir fara út fljótlega eftir páska. Svo eru margir sem fara ekkert út fyrr en 1. maí og fara þá í fyrstu hópkeyrsluna, það er fyrsti rúnturinn hjá mörgum og hjá sumum er það eini rúnturinn, eru á þannig hjóli að þeir taka bara þennan eina rúnt og svo fer bara hjólið aftur inn í skúr.“ 
  Brýnt er að ökumenn séu vakandi. „Við viljum enda heima hjá okkur. Alvarleg slys eru sem betur fer ekki algeng en koma fyrir. Það hefur verið fækkun á mótorhjólaslysum undanfarin ár og sérstaklega á slysum sem bifhjólamenn valda. Við viljum að fólk líti tvisvar, það er algengt að fólk segi: ég sá þig ekki.“

Stoltur af að vera í Sniglunum Það er alltaf nóg um að vera hjá Sniglunum. „Við hittumst oft og þá er drukkið kaffi og spjallað. Stundum höfum við verið að baka, eins og í fyrra þá bökuðum við einu sinni í mánuði og vorum með veitingar. Við vorum með súpudag í fyrra og ætlum að reyna að gera eitthvað seinna í sumar, vera kannski með grill eða í eitthvað í staðinn fyrir 1. maí sem datt niður í ár,“ segir Þorgerður.
   Vilberg segist hreykinn af því að vera meðlimur. „Ég er stoltur af því að vera í Sniglunum og finnst frábært að vera partur af þessu, því sem við erum að gera úti í þjóðfélaginu og sinna forvarnarhlutverki. Þetta er sjálf boðaliðavinna en við fáum klapp á bakið. Svo er félagsskapurinn frábær, við erum alls konar, þetta er skemmtilegur hópur. Við erum alltaf að gera eitthvað í Sniglaheimilinu, erum með grill, bjórkvöld, bökum yfir veturinn og græjum og gerum, ég myndi ekki vilja sleppa þessum félagsskap.“ Verkalýðsdagurinn er í miklu uppáhaldi. „1. maí er svolítið eins og maður sé að fara á ættarmót. Þú ert ekki búinn að hitta fullt af fólki, jafnvel í heilt ár. Það er ekki hægt að fara út að hjóla og koma í vondu skapi heim, þetta hreinsar hugann, alveg sama á hvernig hjóli þú ert, þetta er bara æði. Þorgerður tekur undir. „Það eru allir mjög hjálpsamir og ef eitthvað kemur upp hjá einhverjum þá eru allir boðnir og búnir að hjálpa, þetta er bara ein stór fjölskylda.“ 

ENDUM RÚNTINN HEIMA!



4.5.20

Prjónmaskína á Akureyri

Eins og sjá má eru þarna viftur til að hjálpa til við að kæla hjólið.
og öryggisól til að varna því að hjólið fari of langt.
Um þessar mundir eru útskriftir hjá verknámsnemum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Einn þessara nema Hrannar Ingi Óttarsson smíðaði ansi frumlegt útskriftarverkefni.

Eða eins og hann orðaði það :
Lokaverkefnið mitt í stálsmíði klárt. Margra mánaða vinna sem er búin að vera mjög krefjandi enn verulega skemmtileg. Sáttur með útkomuna og nú verð ég eflaust betri að prjóna á mótorhjóli.

Tían Bifhjólaklúbbur óskar Hrannari innlega til hamingju með þetta glæsilega tæki og hlökkum til að fá að prófa á næstu misserum,  en hann lofar að koma á einhverja af okkar viðburðum og leyfa okkur að skoða og prófa..


Hér að neðan er hægt að sjá hve mikil vinna fór í verkið :
















 Stórglæsilegt hjá Hrannari

Hjólaferð Tíunnar 3. maí

3.5.20

Slysið í Eyjafirði

Kastaðist af mótór­hjóli þegar sendi­bif­reið var ekið í veg fyrir það Ökumaður mótorhjólsins var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Akureyri.

Um hádegið barst lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning um umferðarslys við Þórustaði í Eyjafjarðarsveit þar sem sendibifreið og mótorhjól höfðu lent saman.

Ökumaður mótorhjólsins var sagður hafa kastast af hjólinu talsverða vegalengd eftir að sendibifreiðinni hafði verið ekið í veg fyrir mótorhjólið, er segir í tilkynningu á Facebook-síðu embættisins.

Einn maður er sagður hafa verið í sendibifreiðinni og kenndi hann ekki til eymsla eftir áreksturinn, að sögn lögreglu.

Ökumaður mótorhjólsins var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Akureyri. Hinn slasaði er sagður hafa verið með meðvitund er hann var fluttur á sjúkrahúsið en ekki er vitað frekar um líðan hans að svo stöddu.
Sunnudagur 3. maí 2020

1.5.20

Royal Enfield mótorhjól

Royal Enfield mótorhjólin eiga sér 119 ára langa sögu, þar af 57 síðustu árin í Indlandi. 

Í framleiðslunni hefur lengstum verið haldið fast í gamlar hefðir. Það er eiginlega fyrst nú sem talsvert róttækar breytingar eru að eiga sér stað. Nýjar vélar eru komnar til skjalanna í stað gömlu steyptu og þungu vélanna sem hafa verið nánast eins síðust 60 árin. Þær nýju eru bæði eru hljóðlátari auk þess að eyða og menga mun minna en þær gömlu.
Nýju vélarnar eru enn sem fyrr aðeins eins strokks og enn eru þær að rúmtaki annars vegar 350 rúmsm og hins vegar 500 rúmsm. Afl þeirrar síðarnefndu er tæplega 30 hö.  sem kannski þykir ekki mikið. En Royal Enfield hjólin hafa aldrei verið og eru engin tryllitæki. Í byggingu þeirra er öll áherslan á einfaldleika, notagildi og mikla endingu.
Royal Enfield mótorhjólin hafa allt frá því að framleiðslan fluttist til Indlands frá Bretlandi fyrir 57 árum, átt tryggan heimamarkað á Indlandi þrátt fyrir harða samkeppni við japönsk mótorhjól og á seinni árum kínversk.  Sala hjólanna var jöfn og hægt vaxandi þar til nýju vélarnar komu til sögunnar 2010. Þá tók hún 40% stökk upp á við og fór í 74.600 mótorhjól árið 2011. Í framhaldinu er nú unnið að miklum endurbótum og endurnýjun í meginverksmiðjunni í Chennai en að þeim loknum verður hægt að auka framleiðsluna um helming.
Royal Enfield hjólin hafa síðan framleiðslan fluttist frá Bretlandi til Indlands, verið fyrst og fremst framleidd fyrir heimamarkaðinn. Lítilsháttar útflutningur hefur átt sér stað til Evrópu og Bandaríkjanna og fáein Royal Enfield hjól eru meira að segja skráð hér á landi. Á síðasta ári voru seldust einungis 3.200 hjól til annarra landa, en með vaxandi framleiðslu er ætlunin að efla útflutninginn og byggja upp sölu- og þjónustunet í Malasíu og á Filippseyjum og í Þýskalandi og Frakklandi.
04.12.2012

30.4.20

Engin 1. Mai keyrsla

Frá örófi hjóla þá hefur 1.maí hópkeyrslan verið fastur hluti af tilveru mótorhjólamanna í Reykjavík og á Akureyri.  Sniglar eru ætíð með risa keyrslu í Reykjavík þar sem hjólafjöldinn hefur verið stundum á annað þúsund.
Og hér á Akureyri hefur Tían séð um hópkeyrslur fyrir norðanmenn.

Covid 19 setur strik í reikninginn. 
Frekar kuldalegur 1 maí 2020 á
Norðurlandi samkv Veðurspá

Nú verða engar hópkeyrslur á 1 maí. Og sýnist manni að veðurguðirnir hafi hvort sem er ekki verið okkur hliðhollir þetta árið hér fyrir norðan því veðurspáin er frekar kuldaleg.

Vonandi losnar þjóðin flótlega úr þessum höftum og við getum  haldið Hjóladaga og Landsmót óáreitt fyrir vírusnum ógeðfelda.




Landmannalaugaferð Snigla 1992

Landmannalaugar 92


Föstudaginn 4. september var farin hin árlega baðferð snigla í Landmannalaugar.

Þeir sem fóru voru : Heiddi, Bjöggi Plóder, Einar hestur, Mæja stykki, Stjáni sýra (með vindilinn í kjaftinum) , Dóri dráttur, Arnar standbæ og Hlöðver á jeppa og einnig einhverjar konur á litlum japönskum bíl með slappa kúplíngu.



Þegar lagt var af stað úr bænum var klukkan um 19 og var stoppað fyrst hjá Arnari standbæ á Selfossi, en hann sagðist ekki koma fyrr en daginn eftir vegna anna. Þegar lagt var af stað frá Selfossi var klukkan farin að ganga 21 og var ekið all greitt að Vegamótum og tekið bensín. Um kl 22 var ekið upp að vegamótum Landmannaleiðar og hófst nú akstur í léttara lagi. Sem svo oft áður voru Bjöggi og Einar fremstir og þegar þeir voru búnir að purra u.þ.b. 10 km inn á Landmannaleið vildu þeir ekki trúa því sem fyrir ökuljós bar, því það ver nefnilega snjór og hálka, við þetta æstust þeir verulega og óku bara enn hraðar og stoppuðu ekki fyrr en þeir höfðu farið yfir fyrstu lækjarsprænuna, á eftir þeim voru Hjörtur , Mæja og Röggi en það vantaði Heidda og Steina. 
Það sem hráði var að Haraldur Heidda líkaði ílla aksturmáti eiganda síns og tók upp á því að reyna að flýta för þeirra félaga með því að starta stanslaust í hinni mestu óþökk eiganda síns og aftengdi Heiddi þá startarann og hélt inn í hríðina. 
 Þegar Heiddi og Steini voru komnir til hinna var haldið aftur af stað og nú var hálkan orðin all veruleg en enn var ekið áfram og nú á enn meiri ferð en áður og mátti sjá þriggja stafa tölur af og til á mælaborðinu þarna í hálkunni. Þennan aksturmáta líkaði Hallanum hans Heidda svo vel að afturendinn vildi ólmur taka framúr þeim fremri og endaði það með því að Heiddi fékk ótímabært sandbað.


Þegar komið var upp í Landmannalaugar var þar enginn snjór, en það var ákveðið að vera í skálanum í þetta sinn, en þegar við vorum að koma okkur fyrir inn í skálanum fréttum við af Stjána sýru, Ofurbaldri og Dóra drátt ,plús ljósku sem væru á leiðinni og færu þau sér hægt ( sennilega vegna þess að Stjáni hefur viljað halda glóðinni logandi í vindlinum).


Mest alla nóttina Notuðu Sniglar til að skola af sér sand og skít með sandi og skít í laugunum fram eftir morgni.


Daginn eftir átti að fara út að purra, en vegna slyddu og snjókomu var beðið til fimm um daginn með að fara út, en í millitíðinni kom Jón Páll á krossara er hann hafði fest kaup á daginn áður. Um fimm leytið gerði hins vegar hið besta veður og var farið út að purra um stund, en einna skemmtilegast var að leika sér í ánum eins og svo oft áður. Þegar líða tók á kvöldið byrjaði veðrið að vesna og þá kom Arnar standbæ og ungfrú Noregur. 
 Síðar um kvöldið gerði dæmigerða íslenska stórhríð með hávaða roki og var það hin mesta skemmtun að sjá túrhestana vera að koma inn í skálann eins og snjókalla með hálfniðurtekin tjöld og brotin í þokkabót. 
   Við þetta æstumst við Steini upp og ákváðum að fara í bæinn í þessu veðri og þar með búa til okkar eigin ævintýri. Eftir að hafa fundið hjólin í snjónum og klætt okkur vel var haldið af stað rúmlega 12 á miðnætti. Það var u.þ.b. 10 sm jafnfallinn snjór þegar við lögðum í hann en eftir um 5km akstur var snjórinn farinn að ná vel upp á mótor og var orðið vont að aka á veginum ( sem þarna er að mestu niðurgrafinn og fullur af snjó) svo við ókum mikið utanvegar, en eftir um 30 mín akstur sáum við ljós á bíl og var þar á ferð Skúli Gauta á svarta gamla bandwagon og var hann nýbúinn að snúa við vegna ófærðar fyrir þennan eðalvagn. Stoppuðum við litla stund hjá Skúla og þáðum þær veitingar sem voru í boði og héldum síðan áfram og átti nú ekki að stopp í bráð, en ég hef þótt líkegur til að detta og líklega datt ég enda Líklegur, en hjólið var líklega í lagi og var því haldið áfram og ekki stoppa fyrr en á Vegamótum.  Síðan var haldið á Selfoss og komið þangað rúmlega þrjú og fengum við okkur kaffi hjá tugtanum á Selfossi og héldum við svo heim til okkar kerlinga sem biðu okkar með heitt rúmið.


Að öðrum Sniglum er það að frétta að þeir fóru af stað um og eftir hádegi og var enn hin mesti snjór (svo mikill að japanski bíllinn sem Bryndís Plóder ók var að fara Sigölduleið). 

Allir komu þeir aftur eins og segir í kvæðinu og fóru allir á hausinn og það allt upp í þrisvar sinnum nema Einar hestur og Arnar standbæ ( það gæti orðið erfitt að slá þetta met). Af litla japanska bílnum hennar Bryndísar er það að frétta að hún fór Sigölduleið sem var mun snjólettari og fylgdi Jón Páll henni, en sökum kvennsemi sinnar og löngunar til að komast inn í bílinn þá flýtti hann sér að bræða úr hjólinu svo hann kæmist inn í bílinn (gamla trixið er að segjast vera bensínlaus Jón Páll).
Jón Páll flýtti sér svo mikið inn í bílinn að hann vissi ekki hvar hann var, og fór svo að hann fann ekki hjólið þegar hann hugðist sækja það seinna.

Líklegur og fl..........
Sniglafréttir 92








Yfir 100 ára gömul ferðasaga.

 Formáli
Heimildamaður Sniglafrétta hafði tal af manni nokkrum sem áræðanlega er einn af elstu núlifandi manna er ferðast hefur á mótorhjóli. 

Hann heitir Óli Ísaksson og 91 árs. (núna 2020 væri hann 122 ára)

Það var haustið 1916 að ég fór að vinna hjá H.D umboðinu þá 18 ára.
Vorði eftir (2017) komu fyrstu HARLEY hjólin til landsins, og ég fór strax að prufa þessa nýju fáka og líkaði bara vel.
Þá voru auglýsingar lítið þekktar og voru því starfsmennirnir látnir aka um bæinn og sýna þessa mótorhesta.
Það var um mitt sumar að ég fékk hjól lánað til að skreppa á Eyrarbakka (þar ólst ég upp).
Ég tók daginn frekar snemma lagði af stað frá Reykjavík upp úr
 kl 8:00 og ók sem leið lá  í hlykkjum og skrykkjum að Kolviðarhóli (Kolviðarhóll er rétt neðan við Skíðaskálann í Hveradölum) Þar var veitingaskáli í gamla daga og var þar stoppað og drukkið kaffi.
Þvi næst var heiðin grýtt og hlykkjótt og skrambi erfið yfir að fara.  Næst var stoppað í Hveragerði fyrir kaffi og flatkökur.
Þá var bara láglendið eftir og þegar ég kom á Eyrarbakka var ég búinn að vera tæpa fjóra klukkutíma á leiðinni og þótti það OFSAAKSTUR.
Ég hef heyrt að menn fari þessa leið á 30 mínutum , er það satt ?..
Óli

P.S.
Þegar Óli fór að vinna á skrifstofu H.D. þurfti hann að sjálfsöögðu að vera í klæðskerasaumuðum jakkafötum og kostuðu þau 29 kr. En Óli átti bara 9 krónur og tók því víxil upp á 2x10 krónur í tvo mánuði.
    Árið 1917 þurftu menn að vera 21. árs til að taka ökupróf og var óli því próflaus í þessari ferð.
1919 tók svo Óli ökupróf og keyrir ennþá bíl og er ökuskirteinið hans nr. 86.........

Viðtalið tók Hjörtur Líklegur  no. 56
Sniglafréttir 1989




29.4.20

Viðtal við Óskar á Skagaströnd



Óskar í frægum Kögurjakka sem hann á.

Viðtalið

 Maður er nefndur Óskar  Þór Kristinnsson á Skagaströnd.
Góður drengur, höfðingi heim að sækja þó hann búi ekki í skíðaskála, og búinn að vera viðloðandi mótormerar síðan ég var í sandkassanum. 
Svo vildi svo einkennilega til hér einn dag eigi fyrir svo all löngu að ég fékk móral yfir því að hafa ekki hugsað um málgagnið okkar í nokkra mánuði og greið því gæsina þ.e. Óskar morgun nokkurn eldsnemma eftir hádegi þegar hann var staddur á námskeiði í slæpingshætti í Rokkbælinu.  Þegar viðtalið hefst er hann nýbúinn að fá 8,5 í einkunn fyrir að sofa frameftir.


Sp, Óskar hvenær byrjaðir þú að hjóla og af hverju?

Ég byrjaði "68 keypti mér 450 Hondu, fjórgegnis sem var stærsta hjólið þá, 750 Hondan kom ekki fyrr en "79. Ég veit ekki hvers vegna , mig langaði bara í hjól en ekki bíl. Svo var líka maður heima á 250 Jamma þannig að ég vissi að hjól voru til,  maður sá hann stundum æða um allann bæ á blöðrunni í hvínandi botni, hávaðinn ærandi og tvígegnisbrælan hékk yfir götunum í marga daga á eftir.

Svo lá maður líka í playboy og þar voru gömlu bretarnir auglýstir, 
Triumph undir tré, menn með derhúfur, Sólarlagið og dama aftaná. Þetta fyrirtæki mitt þótti mjög furðulegt og ekki batnaði það þegar ég ætlaði að sleppa þvi að taka bílpróf, ætlaði bara að taka próf á hjólið, ég held að fólk hafi álitið að ég væri ekki með öllum mjalla. Líka vegna þess að maðurinn á 250 Jammanum var eitthvað upp á kant við bæjarbúa, hávaði ,hraðkstur , lögga og læti.

Ég hef hinsvegar alveg losnað við það enda hef ég ekkert gaman af því að keyra eins og brjálæðingur innanbæjar við ég bara rúnta í rólegheitunum, sýna mig og sjá aðra. 
Þegar það hellist yfir mig löngun til að keyra hratt þá fer ég bara út fyrir bæinn enda nóg af góðum vegum. Í dag er bara skrepp að fara til Akureyrar eða suður að hitta aðra mótorhjólamenn.

Annars hjóla ég mest einn, hef alltaf gert. Það var reyndar á tímabili maður á Triumph Tiger sem ég hjólaði með en annars voru engin hjól í nágrenninu. Ég vissi af einhverjum hjólum á Akureyri en þekkti það lið lítið, það var líka svo mikið mál að fara á milli.


Bús og bílar

Síðan seldi ég hjólið "72 og hellti mér út í bús og stóra bíla. Var alveg á kafi í því í nokkur ár. 
Þá þurfti líka að vinna fyrir hlutunum engin lán eða neitt. Ef mann langaði í stærri og flottari bíl, meira brennivín eða eitthvað þá þurfti maður að eiga fyrir því. Ég fékk mér ekki hjól aftur fyrr en "78 það var Kawasaki Z1000,  það fór til Akureyrar, Heiddi keypti hann. Næst komu 6 sílindrarnir CBX Hondan 1979 og 1300 Kawinn "81 ég vildi eiga stærsta 6 sílindra hjólið og á henn reyndar enn. 1987 kom svo plast tímabilið hjá mér CBR 1000 Honda til þess að fara hratt á, og núna Harleyinn á leiðinni, hann á að koma fyrir jól. 
Sumum finnst þetta reyndar vera svolítið skrítið að velta fyrir sér hvað ég ætla að gera við 3 hjól, ég geti varla verið á mikið fleiri en einu í einu. Mér finnst bara að maður þurfi að eiga til skiptana og eftir að ég hætti að eyða peningum í brennivín þá eyði ég bara í hjól í staðinn, maður man þó allavegana eftir þeim daginn eftir.

Sniglarnir


1984 fékk ég kort að sunnan. Það var dagsett 1. apríl , daginn sem sniglarnir voru stofnaðir formlega. Þetta var semsagt tilkynning um að verið væri að stofna Bifhjólasamtök og mér var boðið að vera með.
Mér fannst hugmyndin ekkert vitlaus svo ég kíldi á það, maður vissi líka að það voru svona félög um allan heim og því ekki hér. Reyndar er ég hálf ragur við félög en þetta var svo dásamlega laust í reipunum og leggur litlar kvaðir a mann. 
Maður leysir það bara af hendi sem maður er beðinn um, Redda eldivið fyrir landsmót og svoleiðis. En ef ég á að vera hreinskilinn þá er bara 50% af Sniglum sem ég hef engann áhuga á að þekkja. 
Ég þori ekki að fara hærra í prósentum, en það sem eftir er , hversu lítil prósenta sem er , það fólk vil ég alls ekki missa. Reyndar er þetta allt í mótun ennþá. Það voru engar inntökureglur í upphafi, hver sem vildi gat gengið í Sniglana en nú fer ekki hver sem er inno, og ef farið væri að lögum þá mætti strika helminginn út, þá sem ekki borga félagsgjöldin. Það er óréttlátt að þeir sem ekki borgi fái Sniglafréttir og bifblíu alveg eins og hinir sem borga.


Framtíðin


Það er skrítið hvernig þetta hefur breyst. Það má eiginlega segja að núna sé önnur kynslóð frá stríðlokum og hún á upphaf sitt í Eyjum þó núna sé allt dottið niður þar miðað við hvernig það var.

Og núna seinustu 2 árin hefur breiddin í hjólunum aukist alveg svakalega. Áður voru bara mótorhjól en núna eru plasthjól, chopperar og sófasett í löngum röðum.
Fyrir 2-3 árum var bara einn og einn sévitringur með ákveðna línu en nú eru það tvær línur. Hippalínan og tannkremstúbudeildin og mér sýnist sífellt fleiri vera færa sig í Easy Rider hópinn, kannski radarhræðsla eða þá að menn vaxa bara upp í þetta. Ég segi fyrir mig, ég gæti ekki bara átt Easy rider græju, ég yrði að hafa racerana líka. Ég sé fyrir mér 3 mismunandi deildir í framtíðinni. Reisarann og þá á ég við 100 súkkurnar og svoleiðis hjól sem ómögulegt er að keyra undir 150 km. hraða vegna þessa að það er svo leiðinlegt, Easy Rider deildina sem hangir í mannhæðar háu stýri og ætlar að fjúka af hjólinu ef farið er upp fyrir 80, og svo eldri borgara deildin á sófasettunum með steriógræjunum, litasjónvarpi, farangusrými fyrir 5 manna fjölskyldu.

Svo verður lausaliðið sem allaf er að fá sér hjól öðru hvoru en missir áhugann um leið og það fer að rigna og verður pínulítið kallt. Það verður líklega einhver ákveðinn kjarni sem fer á milli deilda, þó það hafi ímugust á hverri annari, því sannir mótorhjólamenn eru og verða alveg dásamlega skemmtilegt fólk.

Sniglafréttir 1988.
Mynd stolið frá Drullusokkum.

24.4.20

Grein úr Sniglafréttum 1993


Nú var það um vorið, nánar tiltekið í maí 1968 að ég fékk vinnu í vegagerð austur á Hornafirði sem var hið besta mál. Það var bara eitt, ég var búinn að fá mér mótorhjól, mitt fyrsta, ég ný orðinn 17 ára og það kom ekki til greina að ég færi austur nema ég og hjólið færu sem eitt.


Hjólið var BSA Super Rocket árg: 1958. Til að lýsa hjólinu aðeins þá kom það frá U.S.A með Íslending sem var að læra flugvirkjun.  Hann var búinn að vera að keppa á hjólinu í Bandaríkjunum þar sem hann bjó.  Hjólið var 650cc með heitum ásum, ventlar jafn stórir út og inn. Búið að porta heddið og setja í það léttar undirlyftustangir. Á þessum tíma var ég ný búinn að setja í það Close Gear Ratio gírkassa. Nú útblásturspípur voru beint afturúr þ.e.a.s. með miðju hjólinu og á þeim voru megahpone kútar (tómir). Hjólið var létt og í útgáfu scramblers típu. Þetta var A10 (The Hjólið!)


Hjólið leit mjög vel út og var í topp standi, keypt á 25.000 þúsund kall.  Ég man eftir því að það var rosa peningur því ég var búinn að safna mér fyrir þessu í langann tíma, alveg frá því að ég fékk mér Hondu skellinöðru nýja hjá Gunnari Bernburg 15 ára og er það eini japaninn sem ég hef átt, en auðvitað hef ég ekið þeim síðan. Mér fannst ég hafa unnið í happadrætti þegar ég eignaðist bretann því margir voru um það.

Jæja austur fórum við, hjólið með gömlu Esjunni, en ég með DC3. Ég fylgdist vel með þegar hjólið var híft um borð og var á nálum að stroffurnar skyldu slitna þegar hjólið var í u.þ.b. 20 metra hæð á leiðinni um borð. Ekki vissi ég að hver stroffa þyldi 4-5 tonna átak. Þær voru að vísu tvær, allur er varinn góður í svona málum og fleirum.

Nú austur var ég kominn þegar hjólið loksins kom og fylgdist vel með þegar hjólið kom frá borði. Mikill léttir var þegar hjólið snerti jörð og ég sestur á það. Í gang og allir hafnarkallarnir horfðu agndofa á þetta. Ég mjög stoltur og átti heiminn þegar ég er að leggja af stað þegar einhver á Volvo Amason kom að og horfði mikið á, en spurði svo hvort þetta væri skellinaðra?  Þegar ég áttaði mig á því að enginn þarna vissi hvað Mótorhjól væri ! sem ég vissi fyrirfram þar sem ég var búinn að vera fyrir austan áður.  Nú var búinn að jafna mig á þessari fáfræði þegar hann spurði mig hvort ég væri til í að taka spyrnu upp almannaskarð einhverntíma?  Ég fór að hlæja en var orðlaus og móðgaður þegar ég áttaði mig á að þetta var full alvara hjá honum.
Málið var bara einfaldlega það að ég sat á kraftmesta mótorhjólinu á Íslandi og þótt viðar væri leitað í þá daga . Ég var marg búinn að sanna það í keppnum í Reykjavík og nágrenni.  Það væri hægt að skrifa sér grein um þá atburði sem margir muna eftir sem voru mótorhjólamenn í þá daga.  Ég sagði honum að nefna tíma þegar honum hentaði, en ég heyrði aldrei minnst á þetta framar frá honum.
Ætli það stafi ekki út frá því þegar hann sá mig keyra burtu frá honum, því hjólið var á frekar grófum dekkjum og við á malarbryggju.

H dagurinn

Eins og sumir vita rann upp þessi frægi H dagur þ.e 26 maí, þegar umferðinni var beint frá vinstri vegarhelmingi yfir á þann hægri.  Nú það var sunnudagur og ég í fríi, æðislega gott veður.
Ákveðið var á stundinni þegar ég vaknaði að fara inn í sveit sem kallað var þ.e.a.s. Suðursveit sem er u.þ.b. 55km akstur.  Nú skellti ég mér í gallabuxurnar mínar því ekkert var leðrið til og gallajakka. Hanska átti ég og hjálm. Nú mikið var búið að kynna og tala um H daginn í útvarpi og átti að vera sérstök gæsla víða um land svo landinn lenti ekki í vandræðum að koma dráttarvélinni eða druslunni yfir á hægri kant án þess að fara út af eða framan á næsta farartæki.   Í fyrsta kikki fór A10 hjólið í gang eins og venjulega og sólin skein. Brunað var á stað og keyrt um Nesjasveit, æðislegt kikk. Síðan komið á Mýrarnar og allt gekk eins og í sögu, einn og einn fugl flaug í burtu þegar ég nálgaðist þótt þeir væru ekki á veginum því ekki þurfti ég flautuna. Eina sem ég heyrði var þetta fallega hljóð í hjólinu, þetta var unaðslegt.

Rússajeppi fyrir á Veginum

Ég sé rykmökk fyrir framan mig af ökutæki. Nálgast óðum og er kominn í rassgatið á honum um leið. Sé í gegnum rykmökkinn að um er að ræða jeppabifreið og það Rússajeppi.   Það þarf ekki að orðlengja það meir ég vill komast fram úr.    Hann lullar á 60 km hraða, en ég sossum vissi að hann kæmist ekki hraðar en 80-90 km hraða á Rússanum. Ég er fast fyrir aftan hann og vill komast fram úr og þegar ég geri tilraun til þess beyjir hann fyrir mig. Svona gekk þetta aftur og aftur. Ég varð að slá af því ég var að missa andann í rykmekki.  Ég var að hugsa hvaða helvítis vitleysingur er þetta væri þar sem ég var búinn að taka eftir því að hann var búinn að sjá mig í hliðarspeglum jeppanns. Ég horfði beint í andlitið á honum og vildi komast framúr. Við vorum að nálgast Suðursveitina og ég vissi af brú sem við vorum að koma að.  Þar ætlaði ég fram úr með góðu eða íllu hvað sem það kostaði, þó brúin væri þröng.
 Inn á brúnna fórum við og ég fast í rassgatinu á honum. Enginn möguleiki var að fara fram úr á brúnni því hún var mjög þröng en soundið í hjólinu var það gott að það bergmálaði á brúnni en ég sá möguleika um leið og við færum af brúnni.  Smá breikkun var við endann á brúarinnar og ég var staðráðinn í að sýna Hornfirðingnum ,með fullri virðingu fyrir Daða og öðru mótorhjólamönnum núna fyrir austan hvað mótorhjól væri.   Um leið og Rússinn fór af brúnni þrykkti ég niður og þröngvaði mér upp að Rússanum.
Ég man eftir hljóðinu sem myndaðist þegar ég var við hliðina á jeppanum og klettabelti á hina hlið.  Nú í stuttu máli gróf ég skurð um einhverja tugi metra þegar ég fór fram úr og heyrði þegar grjótið ringdi yfir Rússann, því allt var ekið á möl.  Áfram hélt ég þó nokkurn spöl er ég leit aftur fyrir mig hálf brosandi yfir hvernig ég tók helvítið, en tók eftir að hann (Rússinn) bætti frekar við ef hægt væri að segja svo.  Hélt ég mínu striki og sá hann ekkert meir, því í mínum huga var ég búinn að.....
" Láta þá vita hvað mótorhjól er ".


Krassið


Renndi ég frekar létt í góða veðrinu í Suðursveitinni og naut lífsins. Ég þekkti leiðina vel því eg hafði verið áður á þessum slóðum, en ekki á mótorhjóli.  Vissi ég af brú sem ég var að nálgast og var það við Smyrlabjargará og einnig að það væri nokkuð hátt upp á brúnna svo ég hugsaði að keyra hjólið nokkuð greitt yfir, því brúin var stutt.    Flaug ég yfir hana með stæl, þó ég segi sjálfur frá og inn í beyju sem var út úr brúnni. Áður en ég vissi af, þá var rétt framundan mér skurður í veginum sem hafðu myndast í leysingum fyrr, þar sem ringt hafði mikið nokkra daga á undan.   Ósjálfrátt án þess að reyna að bremsa niður þá ætlaði ég að fara yfir þar sem undirmeðvitundin sagði mér að bremsa ekki.  Svo það var látið vaða og fór ég tæplega alla leið, þá meina ég tæplega sem ekki var nóg því afturdekkið kom við bakkann á móti og höggið var það mikið að hjólið fór upp í loftið.  Þó svo ég hafi ekki séð hjólið í loftinu nema óljóst þar sem ég var þar líka, þá endaði það u.þ.b. 30-40 metrum utan vega vinstra megin en ég á svipuðum slóðum hægra megin við veginn.
Ég var á kafi í mýri eitt drullu stykki og gallabuxurnar rifnar og blóð lak niður læri.  Stóð ég upp þar sem ég varð sem fyrst að athuga með hjólið, og sá að það lá í mýrafeni í drullu og var tiltöku lítið skemmt við fyrstu sýn.  Málið var að koma hjólinu upp á veg en brettið hafði gengið niður í afturdekk svo ég tók á til að losa það, sem tókst. Ýtti ég svo hjólinu upp á veg, hvernig sem ég fór að því en það var greinilegt að einhver hjálpaði mér með það því það var þungt í drullunni.  A10 hjólið mitt var lítið skemmt við fyrstu sýn og tékkaði ég á smurolíu til að athuga hvort hún hefði lekið af, en svo reyndist ekki vera né bensín. á fór ég að athuga með sjálfan mig bölvandi yfir þessum klaufaskap og ætlaði úr vettlingunum sem gekk eðlilega fyrir sig á vinstri en ekki á þeirri hægri.  Það var eins og hann væri límdur á hægri hendi, en ég togaði og úr hanskanum fór ég.  Ég starði á lófann eitt augnablik og sá að litli putti lá í lófanum,  úr lið greinilega og beint út í loftið brotinn  " djöfullinn sjálfur hugsaði ég með mér en fann ekkert til "  Kippti í puttann og hann í lið sársaukalaust og horfði ég á hann meðan hann hreyfði sig eðlilega og hugsaði ekkert meira um það á þessu augnabliki.

Gripinn glóðvolgur

 Á hjólið var ég sestur og hugsaði með mér að fara upp að Smyrlabjargarbæ þar sem ég þekkti fólkið þar.  Eitt kikk og Beesan var í gangi eins og ekkert hefði í skorist.  Um leið og ég ætla af stað þá kemur þessi Rússajeppi,  fer út fyrir skorninginn í veginum og leggur beint fyrir framan mig og viti menn þar komi tveir lögreglumenn út úr Rússanum. 

Það er ekki að sökum að spyrja þeir byrja að hella sér yfir mig og segja að ég hafi greinilega keyrt eins og brjálæðingur á minnstakosti 90 km hraða, en ég vildi nú ekki samþykkja það og sagði þeim að þeir hlytu að vita að skellinaðra kæmist ekki á þennan ógnarhraða.  Viðurkenndi ég að hafa farið í
70 km hraða en ég vissi að 60 km hámarkshraði var leyfilegur en ég hefði bara steingleymt að það væri H dagur. 
   Spurðu þeir mig hvort ég væri slasaður en ég sagði svo ekki vera. Létu þeir gott heita en skrifuðu mig niður og var ég nokkrum mánuðum síðar kallaður fyrir sýslumann út af þessum akstri mínum og hann vissi það betur en ég að skellinaðra kæmist ekki á þennan hraða sem stóð í skýrslu lögreglu og taldi það einhvern misskilning og lét málið niður falla, sem ég var í sjálfu sér sáttur við!  Sýslumaðurinn var á sjötugsaldri og hinn besti kall.
   Nú er ég kom á Smyrlabjargir þá var það fyrsta sem ég heyrði í útvarpinu að ungur mótorhjólamaður hafði verið tekinn austur í Suðursveit en annars gengi umferðin nokkuð vel. 
Ég var þá alveg að drepast úr kvölum í puttanum er deyfingin hafði alveg farið úr, einnig lærum og öxl.  Keyrður út á Höfn til læknis. 
Eftir skamma stund var ég búinn að ná í hjólið og hjólaði mikið um austurland með góðum árangri.  En það kom aldrei til að mér væri boðið í spyrnu aftur.

Haukur Richardsson
f. 1.des 1950
d. 24. maí 2012
Með bestu kveðju til allra Hjólamanna,
Félagi í Vélhjólafélagi Gamlingja
og Trident & Rocker3 Owners Club
Haukur Richardsson
Snigill nr: 573
 Sniglafréttir 8. tbl nóv des 1993