26.1.06

Fékk mótorhjóladelluna frá mömmu og pabba

 Ég vissi það nú alltaf að ég myndi á endanum fara út í mótorhjólin,“ segir Birna María Björnsdóttir athafnakona. Áhugamál hennar eru mörg og má til að byrja með nefna útivist, sem hún stundar af krafti árið um kring, auk þess sem hún ekur um á mótorhjóli þegar veður leyfir. Hún hefur líka stundað köfun og fallhlífarstökk sér til dægrastyttingar. „Foreldrar mínir eru báðir í mótorhjólunum, bróðir minn og kærastan hans líka sem og foreldrar hennar. Í kringum mig eru samtals um tíu til fimmtán manns með þennan mótorhjólaáhuga. Ég hef þess vegna ekkert langt að sækja áhugann.“ Birna hjólar um á Honda Shadow, 1100 kúbika. „Þetta er svokallaður hippi,“ segir hún, „glæsilegur fákur, sem þægilegt er að „krúsa“ um á á götunum. Hipparnir eru fyrst og fremst lífsstíll – ekki tæki til að slá hraðamet. Þeir eru gæjalegir með miklu krómi og glansandi tönkum.“

 Lét drauminn rætast í fyrra 

Þó að Birna sé ekki mjög gömul, rétt rúmlega þrítug, hefur hún gengið með það í maganum lengi að fá sér mótorhjól en það er ekkert langt síðan hún lét drauminn rætast og fékk sér eitt slíkt. „Síðastliðið vor fékk ég tækifæri og greip það. Mig vantaði eiginlega bara eitthvað að gera og skellti mér í prófið. Notaði svo hvert færi sem gafst síðasta sumar til að „krúsa“ um göturnar.“ Þar sem Birna er svo nýbyrjuð í sportinu hefur hún mest hjólað í nágrenni borgarinnar, en hún stefnir á lengri ferðalög um landið næsta sumar. „Foreldrar mínir hafa hins farið út til Flórída á vegum Harley  Davidson-klúbbsins á Íslandi og hjólað þar. Í sumar ætla þau að hjóla um í Skandinavíu. Ég á þetta eftir, er eiginlega ennþá bara sunnudags- og „í góðuveðri-hjólari“.“

Jafnréttið í nýrri mynd?

Mótorhjólaeign landsmanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og þeim fjölgar stöðugt sem stunda það að hjóla, að sögn Birnu. „Það hefur aukist mikið að konur taki prófið. Bæði eru það ungar konur og jafnvel fullorðnar sem hafa í mörg ár setið aftan á hjá manninum sínum en eru núna búnar að taka prófið og vilja fá að hjóla sjálfar.“ Kannski er jafnréttisbaráttan að skila sér þar á óvæntan hátt. „Það sem maður fær út úr því að hjóla er kannski spenna og töffaraskapur í senn,“ segir Birna skelmislega.

Lærði neðansjávarljósmyndun í Miami 

Nú eru hjólin og útivistin aðaláhugamál Birnu en ekki er langt síðan köfunin var mál málanna. „Ég bjó í Bandaríkjunum í mörg ár og þegar ég bjó í Miami lærði ég köfun og stundaði hana mikið allan veturinn,“ segir Birna María. „Ég fór m.a. í stórkostlega ferð til Bonaire, sem kölluð er Paradís kafaranna.“ Bonaire er eyja í Karíbahafinu, rétt hjá Venesúela. „Þar kafaði ég um tíma og lærði m.a. að taka neðansjávarljósmyndir og hitti fyrir ótrúlegar lífverur, t.d. sæhesta, risaskötur og sæslöngur. Ég hef ekki enn lagt fyrir mig köfun hér
heima á Fróni en það
kemur sjálfsagt að því einhvern tímann. Í dag uni ég mér þó hvergi betur en á fjöllum í íslenskri náttúru eða á nýbónuðu hjólinu í góðum gír,“ segir hin hressa Birna María að lokum.
Eftir Sigrúnu Ásmundar
sia@mbl.is
Morgunblaðið 27.01.2006

12.1.06

Upplifun erlends mótorhjólafólks á Íslandi

Eftir Viðar Jökul Björnsson

Ágrip
Mótorhjól eru ákveðinn fararmáti sem getur boðið upp á spennu og flæði adrenalíns.
Mótorhjólið getur líka verið tákn frelsis í hugum þeirra sem aka þeim og geta boðið
ökumanni sínum þann möguleika að skynja umhverfi sitt fullkomlega. Getur verið að
hjólið bjóði því erlenda mótorhjólafólki sem kemur hingað til landsins, þrátt fyrir
hverfult veður og oft óhentug akstursskilyrði, upp á annars konar upplifun á rými? Er
hér annars konar ferðamaður á ferðinni?
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mótorhjólaferðamenn
geti verið dæmi um hinn nýja ferðamann, harðgerðari ferðamann sem sækist eftir
nálægð við náttúruna og vill kynnast landinu á einstakan hátt en það tekst með aðstoð
mótorhjólsins, líkamans og skynfæranna. Mótorhjólafólk er tilbúið að láta ýmislegt
ganga yfir sig, svo sem vont veður eða torfærur í leit sinni að einstakri upplifun og
hinu ósvikna. Mótorhjólið gefur fólki þá tilfinningu að það sé nær náttúrunni en
farþegar í „búri“, en það segja margir mótorhjólamenn þegar þeir tala um bílinn.

Ritgerðin í heild



21.12.05

Á vélhjóli í jöklaferðir 2005


Jöklaferðir hafa á undanförnum árum verið vinsælar meðal jeppa-, skíða- og göngufólks. Færri stunda slíkar ferðir á vélhjólum en þeir eru þó til. Sveinn Birgisson er einn af þeim.

„Ég er búinn að vera að hjóla í 12 ár með hléum. Keypti skellinöðru þegar ég var 15 ára,“ segir Sveinn. „Það sem heillar mig við hjólin er hraðinn, góður félagsskapur, útiveran og snertingin við náttúruna.“
   Sveinn segist reyna að fara í tvö góð ferðalög hvert sumar á hjólinu en á veturna er stefnt á jöklana. En hvað er það sem heillar við jöklana og af hverju að fara þangað á mótorhjóli af öllum farartækjum? „Af sömu ástæðu og maður fer á vélsleða. Það er ómögulegt að láta græjurnar standa inni, það þarf að vera hægt að nota þetta yfir veturinn líka. Að komast á jökul er alltaf sérstakt, allt öðruvísi en að vera í Bláfjöllum til dæmis. Þeir toga alltaf í mann. Ef veðrið er gott er útsýnið og hreinleikinn svo mikilfenglegt að maður fær hálfgert víðáttubrjálæði. Maður veit líka að það komast ekki allir þangað. Þetta er ekki eins og að kaupa flugmiða til London,“ segir Sveinn með virðingarvotti í röddinni. Hann hefur líka reynslu af jeppa-, vélsleða- og gönguferðum á jökla svo það kemur kannski ekki á óvart að hann sæki þangað líka á vélhjóli.
   Jöklaferðir á vélhjólum eru ekki ýkja frábrugðnar vélsleðaferðum. Aðalatriðið er að vera vel klæddur og varinn. Maður finnur mikið fyrir veðrinu og snörpum hreyfingum. Hraðinn er meiri en í jeppaferðum og oft gefast fleiri tækifæri til að stökkva og leika sér. „Fyrir utan hlýjan fatnað þurfa allar hlífar að vera til staðar. Nýrnabelti og brynja eru skilyrði. Maður þarf líka enduro- eða krossaraskó, hjálm auðvitað og svo er alltaf að færast í vöxt að vera með hálskraga sem öryggisbúnað. Hvað hjólið varðar er gott að vera á ísdekkjum. Þau eru með nöglum sem eru mitt á milli nagla í bíldekkjum og nagla í sleðabeltum. Svo er mjög gott að vera með ískross ádrepara. Þá er snúra frá ádreparanum bundin í úlnlið ökumannsins. Ef hann dettur af hjólinu drepst á mótornum og hjólið skaðar engan,“ segir Sveinn og bætir við að gullna reglan um jöklaferðir eigi líka við ef maður stundar þær á vélhjóli: „Það er bannað að slasa sig.“
   Spurður um hvort vélhjólatímabilið sé ekki búið þennan veturinn svarar Sveinn: „Nei, nei, það er rétt að byrja. Hjólið mitt er á númerum og verður það fram undir páska alla vega.
Fréttblaðið 21.12.2005

15.12.05

JÓLAHJÓL

DÆGURLAGIР

Það var í gömlu góðu árdaga Sniglanna sem þetta klassíska jólalag kom í heiminn. Mótorhjólatöffarinn og leikarinn Skúli Gautason á heiðurinn af lagi og texta.

 „Ég átti afmæli og það var veisla heima hjá mér,“ svarar Skúli aðspurður hvernig lagið varð til. Þá leigði hann hús ásamt Þormari Þorkelssyni, öðrum mótorhjólatöffara, á Görðum við Ægisíðu.
„Þar var hálfgert félagsheimili fyrir mótorhjólabullur og oft gestkvæmt og glatt á hjalla,“ segir Skúli. Hann rifjar síðan upp það sem fór fram í örlagaríku afmælisveislunni.

 Börn og mótorhjól 

„Við vorum eitthvað að velta fyrir okkur hvernig hugsunarhátturinn hefði verið hjá mótorhjólatöffurunum þegar þeir voru börn, um hvað þeir voru að hugsa. Flestir voru á því að hafa átt draum að fá mótorhjól í jólagjöf. Svo fóru af stað vangaveltur um það hvort hann væri ekki svolítið áberandi pakkinn og hvort það væri eitthvað hægt að fela þann pakka því að jólagjafir eiga að koma á óvart, ekki satt?“ Upp úr þessum umræðum og vangaveltum spratt svo lagið „Jóla-hjól“ og þar sem þetta var afmælisveislan hans Skúla var honum gefið það loforð í afmælisgjöf að lagið skyldi koma út á plötu. Hann og Þormar mæta daginn eftir upp í stúdíó Mjöt til að taka upp tvö lög, þar á meðal lagið um jólahjólið. „Þetta var glamrað á kassagítar og við bara rauluðum þetta inn,“ segir Skúli.

Milljón dollara hugmynd

Ætlunin var að gera lítinn 45 snúninga vínil og fóru þeir með upptökurnar upp í plötupressuna Alfa sem þá var suður í Hafnarfirði.
 „Þá voru þeir í plötupressuninni í miðju jólaplötuflóðinu og voru einungis í því að pressa stóru 33 snúninga plöturnar. Til að koma okkar plötu inn hefði þurft að afgreiða allar stóru plöturnar fyrst og það var of mikið mál.“
 Á endanum varð platan þeirra á stærð við 33 snúninga plötu en spilanlegi hlutinn aftur á móti aðeins á stærð við 45 snúninga plötu. Meira en helmingur plötunnar var sem sagt auður. „Síðan gáfu þeir okkur hvítt umslag utan um og við Þormar handskreyttum þessi hvítu umslög eftir óskum hvers viðskiptavinar og seldum þetta bara úti á götu. Við sögðum auðvitað ekki frá því að auða svæðið á plötunni væri út af þessum vandræðum í plötupressunni heldur létum við í veðri vaka að þetta væri alveg sérhannað. Þetta væri svona handfang þannig að maður gæti alveg gripið um plötuna með fitugum fingrum án þess að það kæmi niður á hljómgæðunum. Alveg milljón dollara hugmynd. Við prentuðum plötuna í einhverjum fimm hundruð eintökum sem seldust upp þessi jól.“

Morgunblaðið 15.12.2005

27.10.05

Með bensín í blóðinu

Tryggvi Sigurðsson
 Það fæðast sumir með bensín í blóðinu og það er með það eins og svo margt annað í lífinu, þetta leggst í ættir og er Tryggvi Sigurðsson talandi dæmi um það. Hann er þriðji ættliðurinn sem haldinn er bíladellu á háu stigi og ekki er hann minni áhuginn á mótorhjólum. Bílaeignin endurspeglar þennan áhuga, hún er ekki mæld í jeppum heldur bílum og mótorhjólum sem eiga sér sögu og hafa sál og djásnin eru Ford Mustang 68 og Harley Davidsson mótorhjól. Tryggvi er Eyjamaður í húð og hár, sonur Sigurðar Tryggvasonar og afinn er Tryggvi Gunnarsson oft kenndur við Hornið og sjálfur segist Tryggvi tilheyra Hornaflokknum. Tryggvi er vélstjóri á Frá VE en hann á sér annað áhugamál sem eru skip og bátar. Það er ekki margt sem hann veit ekki um báta sem einhvern tíma hafa verið gerðir út frá Vestmannaeyjum, hann á mjög gott myndasafn af bátum og síðast en ekki síst smíðar hann líkön af skipum og bátum af ótrúlegri nákvæmni þar sem nostrað er við hvert smáatriði.
Þetta áhugamál er efni í stórt og mikið viðtal en nú ætlunin að halda sig við bíla og mótorhjól. Tryggvi tekst allur á loft þegar hann er spurður um Mustanginn og hann hellir tölulegum staðreyndum yfir blaðamann sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. „Þetta er Ford Mustang árgerð 1968, Fastback
Ford Mustang Fastback 1968
sem mér fínnst skipta miklu máli. Vélin er V8, 302 rúmsentimetrar og gæti verið um 250 hestöfl. Bíll og vél er upprunalegt og hann er m.a.s. á upprunnalegum felgum," segir Tryggvi um þennan dýrðar bíl. Tryggvi er búinn að eiga Mustanginn í tvö ár, en hann var ekki einn um hituna. „Eg var búinn að bíða lengi eftir honum og þeir slógust um hann bíladellukarlarnir. Fyrri eigandi býr á Skagaströnd og þar stóð bíllinn inni í bílskúr nema á tyllidögum, var bara notaður spari. Það er búið að keyra hann 58.000 mílur sem er ekki mikið á tæplega 40 árum." Tryggvi segir að Mustanginn hafi verið í þessu standi þegar hann keypti hann en var nýsprautaður þegar hann var fluttur inn árið 1990. „Eg keypti hann á milljón á borðið sem eru eðlileg afföll af heimilisbílnum á tveimur árum." Tryggvi segir að Ford Mustang hafi alla tíð verið draumabíllinn enda mjög vinsæll þegar hann var að alast upp. „Þegar ég var peyi átti Silli Þórarins flottan Mustang og þegar ég fékk bílpróf 17 ára fékk ég að keyra hann og það var mikil upplifun fyrir ungan svein." En Tryggvi er ekki sá eini sem er haldinn þessum kvilla ef kvilla skyldi kalla. „Það hefur alltaf verið bíladella í Hornaflokknum," segir hann og vísar til þess að fjölskyldan hafi löngum verið kennd við Hornið. „Maður ólst upp við þetta, afi Tryggvi  Gunnarsson eða Labbi á Horninu eins og hann var oft kallaður var bæði með bíla- og mótorhjóladellu, pabbi, Siggi Labba, hélt uppi merki afa í þessum efnum og við bræður mínir eru líka bíladellukarlar. Addi Steini er flottur á því, keyrir um á Porche og sá yngsti er verri en við Addi Steini til samans," sagði Tryggvi.
Þá er komið að mótorhjólunum og þar er ekki komið að tómum kofunum því Tryggvi á fjögur mótorhjól og það elsta er frá árinu 1946. „Mótorhjólin tóku allan minn tíma og pening þegar ég var ungur það tók maður í arf frá bæði pabba og afa. Þar var Hornaflokkurinn enn og aftur á ferðinni. Það er rétt að ég á fjögur mótorhjól í dag en að sjálfsögðu byrjaði maður á skellinöðru."
Tryggvi segir að þetta með mótorhjólin hafi verið svolítið í bylgjum og enn hefur hann ekki fjárfest í draumahjólinu en hann getur ekki kvartað. „Draumamótorhjólið er að sjálfsögðu Harley Davidsson V Road en það er það dýrt að ég get ekki réttlætt það fyrir sjálfum mér að eiga slíkan dýrgrip. En maður verður að eiga einn Harley og ég á Harley Davidsson Sportster 1200, árgerð 2000. Svo á ég tvö Hondahjól, CB-750 af árgerðum 1975 og 1976 sem eru sams konar hjól og ég átti og þegar þú varst að elta mig," sagði Tryggvi hlæjandi og vísaði til fyrri starfa blaðamanns í lögreglunni.
„Fjórða hjólið er Matchless 500 árgerð 1946 sem ég gerði upp. Ég gaf það nú eiginlega syni mínum og hann notar það sem stofustáss. Hann fékk líka hjá mér skellinöðru sem ég gerði upp. Hún er af gerðinni Honda Dax, árgerð 1971 og var upphaflega 50 rúmsentimetrar en er í dag 85 og enginn má vita það."
 Áttu þér annan draumabíl en Mustang? „Mig hefur lengi langað í jafnaldra minn, Chevrolet Bel Air 1957. Annars hef ég aldrei verið með einhverja einstefnu í bílategundunum, hef verið blessunarlega laus við það. Benz er vandaðasti bíllinn, en samt er það nú svo að hver bíll hefur sín einkenni eða öllu heldur karakter."
Er bíladella eitthvað sem eldist afmönnum? „Ég veit það ekki, sjálfur ætla ég að halda þessu áfram á meðan það gefur mér einhverja ánægju. Það sem háir mér er lítill tími því það fer mikill tími í bátasmíðina, svo er það fjölskyldan og sjómennskan og svo er ég  með dellu fyrir bátum og skipum í fullri stærð og á mikið myndasafn og þekki sögu flestra í
Eyjaflotanum. Til að slappa af frá þessu öllu saman finnst mér best að stíga á mótorhjól og taka einn hring. Eg þekki ekkert sem er eins afslappandi," sagði Tryggvi að lokum.

Eyjafréttir 27.10.2005

11.10.05

Vélhjólasport vaxandi íþrótt

Fjölskyldufyrirtækið JHM sport hefur verið við Stórhöfða 35 í eitt ár. Áður var það í kjallara í heimahúsi en er nú stærra og fjölbreyttara. Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi fyrirtækisins hefur verið viðriðinn vélhjólabransann frá því árið 1970 og nú hafa orðið kynslóðaskipti þar sem börnin hans eru komin á fullt í sportið. Dóttir hans, Klara Jónsdóttir, vinnur í JHM sport auk þess sem hún er sjálf á fullu í sportinu. „Ég var alltaf á litlu hjóli þegar ég var lítil og hætti svo í smá tíma. Núna er ég byrjuð á fullu. Þetta er ótrúlega gaman, það skemmtilegasta sem ég geri," segir Klara. Mikil aukning hefur orðið á vélhjólasporti undanfarin ár og eru fjölskyldur farnar að stunda þetta saman. Sportið hefur verið landlægt síðan fyrir 1970. Fyrst voru það aðallega karlar sem stunduðu vélhjólasport en konur hafa sótt í sig veðrið undanfarin ár og eru farnar að keppa í vélhjólasporti, þ.e. mótorkrossi og Enduro. I motorkrossi er keppt á tilbúnum brautum en í enduro á vegslóðum. Þá eru hjólin skráð,
með ljósi og annað slíkt. Á þeim hjólum má keyra innan bæjarmarka en á mótorkross hjólunum má einungis vera á lokuðum svæðum. Þess má geta að sonur Jóns Hafsteins er núverandi íslandsmeistari  í enduro. Búnaður skiptir öllu máli þegar byrja skal í þessu fjöruga sporti. Nauðsynlegt er að hafa hjálm, hanska og brynju sem fer annað hvort innan undir eða yfir utanyfirflíkina. í JHM sport er hægt að fá allt í tengslum við vélhjólasportið auk þess sem þar vinnur fagfólk sem veitir persónulega ráðgjöf.
Blaðið 11.10.2005
http://timarit.is/

23.8.05

Þingmaður í leðri Geysist um á mótorfák

Þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson hefur endurnýjað kynni sín við Kawasaki-mótorhjól sem hann fór á um stóran hluta Noregs um miðbik síðasta áratugar. Hann rann af stað á mótorhjólinu frá heimili sínu á Akranesi í gær og framundan voru einhverjir torförnustu þjóðvegir landsins á leiðinni til Ísafjarðar.
„Ég er búinn að eiga þetta hjól í tíu ár," sagði Magnús Þór, skömmu fyrir brottför í gær, og hugurinn hvarf aftur til Norður Noregs á 10. áratugnum. „Ég hef farið nokkrum sinnum um allan Noreg og allar Færeyjar. Ég hef nú lent í mörgum svaðilförum á þessu hjóli. Ég var á því í mörg ár, bjó í Noregi og ferðaðist á því með tjald og svefnpoka. Upp á síðkastið hef ég bara verið að eignast börn og svona og er fyrst núna að draga hjólið fram aftur," segir hann.
Erindi Magnúsar Þórs á Ísafirði var fundur Vestnorræna ráðsins sem hófst þar í gær. Er þar um að ræða vettvang þar sem ísland er stórveldi við hlið Færeyja og Grænlands. Íbúar Vestfjarða geta átt von á að fá að berja þingmanninn augum næstu daga, þar sem hann geysist um héraðið, leðurklæddur á mótorfák. „Ég ætla að fara um Vestfirðina næstu daga og hitta fólk. Og gera úttekt á vegakerfinu, þannig að maður viti hvað maður er að tala um á Alþingi. Ég fer um sunnanverða firðina, ég er ættaður þaðan," segir hann. Og hjólið er ekki á leiðinni inn í bílskúr á næstunni.
Magnús Þór hefur í hyggju að nota það í vetur Það er rosalega gott að vera á mótorhjóli, sérstaklega Reykjavík, þar sem umferðarþunginn er orðinn gríðarlegur.  Ef maður er á mótorhjóli fer maður fyrstur af stað á hverjum ljósum. Jafnvel í mestu umferðarhnútum. Þess fyrir utan fær maður allt aðra tilfinningu fyrir landinu á mótorhjóli en í bíl."
DV 23.08.2005