26.1.06

Fékk mótorhjóladelluna frá mömmu og pabba

 Ég vissi það nú alltaf að ég myndi á endanum fara út í mótorhjólin,“ segir Birna María Björnsdóttir athafnakona. Áhugamál hennar eru mörg og má til að byrja með nefna útivist, sem hún stundar af krafti árið um kring, auk þess sem hún ekur um á mótorhjóli þegar veður leyfir. Hún hefur líka stundað köfun og fallhlífarstökk sér til dægrastyttingar. „Foreldrar mínir eru báðir í mótorhjólunum, bróðir minn og kærastan hans líka sem og foreldrar hennar. Í kringum mig eru samtals um tíu til fimmtán manns með þennan mótorhjólaáhuga. Ég hef þess vegna ekkert langt að sækja áhugann.“ Birna hjólar um á Honda Shadow, 1100 kúbika. „Þetta er svokallaður hippi,“ segir hún, „glæsilegur fákur, sem þægilegt er að „krúsa“ um á á götunum. Hipparnir eru fyrst og fremst lífsstíll – ekki tæki til að slá hraðamet. Þeir eru gæjalegir með miklu krómi og glansandi tönkum.“

 Lét drauminn rætast í fyrra 

Þó að Birna sé ekki mjög gömul, rétt rúmlega þrítug, hefur hún gengið með það í maganum lengi að fá sér mótorhjól en það er ekkert langt síðan hún lét drauminn rætast og fékk sér eitt slíkt. „Síðastliðið vor fékk ég tækifæri og greip það. Mig vantaði eiginlega bara eitthvað að gera og skellti mér í prófið. Notaði svo hvert færi sem gafst síðasta sumar til að „krúsa“ um göturnar.“ Þar sem Birna er svo nýbyrjuð í sportinu hefur hún mest hjólað í nágrenni borgarinnar, en hún stefnir á lengri ferðalög um landið næsta sumar. „Foreldrar mínir hafa hins farið út til Flórída á vegum Harley  Davidson-klúbbsins á Íslandi og hjólað þar. Í sumar ætla þau að hjóla um í Skandinavíu. Ég á þetta eftir, er eiginlega ennþá bara sunnudags- og „í góðuveðri-hjólari“.“

Jafnréttið í nýrri mynd?

Mótorhjólaeign landsmanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og þeim fjölgar stöðugt sem stunda það að hjóla, að sögn Birnu. „Það hefur aukist mikið að konur taki prófið. Bæði eru það ungar konur og jafnvel fullorðnar sem hafa í mörg ár setið aftan á hjá manninum sínum en eru núna búnar að taka prófið og vilja fá að hjóla sjálfar.“ Kannski er jafnréttisbaráttan að skila sér þar á óvæntan hátt. „Það sem maður fær út úr því að hjóla er kannski spenna og töffaraskapur í senn,“ segir Birna skelmislega.

Lærði neðansjávarljósmyndun í Miami 

Nú eru hjólin og útivistin aðaláhugamál Birnu en ekki er langt síðan köfunin var mál málanna. „Ég bjó í Bandaríkjunum í mörg ár og þegar ég bjó í Miami lærði ég köfun og stundaði hana mikið allan veturinn,“ segir Birna María. „Ég fór m.a. í stórkostlega ferð til Bonaire, sem kölluð er Paradís kafaranna.“ Bonaire er eyja í Karíbahafinu, rétt hjá Venesúela. „Þar kafaði ég um tíma og lærði m.a. að taka neðansjávarljósmyndir og hitti fyrir ótrúlegar lífverur, t.d. sæhesta, risaskötur og sæslöngur. Ég hef ekki enn lagt fyrir mig köfun hér
heima á Fróni en það
kemur sjálfsagt að því einhvern tímann. Í dag uni ég mér þó hvergi betur en á fjöllum í íslenskri náttúru eða á nýbónuðu hjólinu í góðum gír,“ segir hin hressa Birna María að lokum.
Eftir Sigrúnu Ásmundar
sia@mbl.is
Morgunblaðið 27.01.2006