Gátu lækkað iðgjöldin á „hippunum“ (úr stærri grein)
Mikil mótorhjóladella magnaðist upp á Íslandi í góðærinu og margir létu langráðan draum rætast um að kaupa sér mótorfák. Þessi mikla fjölgun mótorhjólaökumanna skapaði þrýsting á og svigrúm fyrir tryggingafélögin að bjóða hagkvæmari tryggingar en lengi vel höfðu bifhjólatryggingar þótt sérdeilis dýrar.
Einar segir ekki hægt að greina að dregið hafi úr mótorhjólaáhuganum en TM endurskoðaði fyrir nokkrum árum hjá sér bifhjólatryggingar með það að markmiði að meta áhættu af meiri nákvæmni og skila viðskiptavinum sanngjarnara verði. Útkoman var mjög áhugaverð:
„Við gátum t.d. lækkað iðgjöldin á „hippunum“ svokölluðu enda leiddu tölur okkar í ljós að á þeirri gerð hjóla var slysahættan minni. Hins vegar kom skýrt í ljós að breytinga var þörf á iðgjöldum mótorkross-hjóla þar sem slysahættan er mikil enda hjólin til þess gerð að skoppa og spana um keppnisbrautir og malarhauga.“
Dýrar tryggingar á bifhjólum segir Einar að komi til vegna þess að hvert slys á hjóli geti verið mjög kostnaðarsamt. „Ef ökumaður bifhjóls lendir í byltu og brýtur t.d. viðbein eða ökkla hleypur slysakostnaðurinn á milljónum króna. Ef ársiðgjöldin eru t.d. 60.000 kr. þá sést að það þarf stóran hóp iðgjaldagreiðenda til að standa undir tjóninu og örfá slys til viðbótar geta orðið til þess að þessi titekni tryggingaflokkur er rekinn með miklu tapi.“
Morgunblaðið 8.10.2013
https://www.mbl.is/bill/domar/2013/10/08/abyrgur_akstur_skilar_ser_i_laegri_idgjoldum/