20.8.90

Á að banna notkun bifhjóla?


Lesandi góður. Það er kunnara en frá þurfi að segja að umferðin á íslandi er sá þáttur þjóðlífsins sem krefst árlega mestra mannfórna. Umferðin tekur líka mikinn toll í slysum, stórum og smáum, hjá okkur íslendingum. Átakanlegt er að horfa upp á það hversu stór hluti af þessum alvarlegu umferðarslysum tengist notkun bifhjóla. Nú nýverið gat að lesa í fjölmiðlum að þýsk hjón hefðu misst stjórn á bifhjóli sínu og ekið út af, ekki urðu alvarleg slys í það skipti. Nokkru áður gat að lesa í fjölmiðlum að ungur maður hefði slasast mikið á bifhjóli við Kerlingarfjöll. Ekki er langt um liðið síðan tveir ungir menn létust í bifhjólaslysi í Ölfusi. Einn lögreglumaður hefur látist á íslandi við skyldustörf, það var fyrir mörgum árum, hann var á bifhjóli og lenti í umferðarslysi. Og þannig má áfram telja.

Bifhjólaslysin

Saga bifhjólsins á íslandi er afskaplega ljót, vegna hinnar gríðarlegu slysatíðni á þeim. Þegar horft er til þess hversu lítið bifhjól eru notuð hér á landi og hinna mörgu og alvarlegu slysa sem af þeim hafa hlotist hlýtur að vakna sú spurning hvernig við skuli bregðast. Verst er þó að hugsa til þess að fórnarlömb bifhjólaslysanna eru langmest ungt fólk.
Flest bifhjólaslys eru hræðileg á að horfa fyrir þá sem eru svo óheppnir að þurfa að verða vitni að slíku, miklu ljótari en bifreiðaslys. Ástæðan er sú að við bifhjólaslys kastast bifhjólamenn iðulega af hjólunum sínum og fljúga langar leiðir í loftinu áður en þeir koma niður, ef þeir eru þá svo heppnir að lenda ekki á einhverju í loftköstunum. Ökumenn bifhjóla og farþegar þeirra eru ekki bundnir við hjólin og kastast af þeim, jafnvel við smávægilega árekstra. Einu öryggistækin, sem eitthvað kveður. að, og hægt er að nota á bifhjólum, eru hjálmar. Það hefur sýnt sig að það er bara ekki nóg. Að verða vitni að ljótu bifhjólaslysi er lífsreynsla fyrir hvern mann sem aldrei gleymist.
Það er hálfhjákátlegt að skylda notkun bílbelta í bifreiðum, en leyfa notkun bifhjóla. Menn sem lenda í slysi á bifhjólum eru alltaf í verulega meiri slysahættu en menn í bifreiðum, þó ekki séu notuð bílbelti.
Aðstæður til bifhjólaaksturs eru sjálfsagt óvíða verri en hér á landi. Veðrátta, myrkur, hálka á vetrum, ástand vega, tillitsleysi bifreiðastjóra og glannaskapur margra bifhjólamanna eru sennilega helstu ástæður hinna tíðu bifhjólaslysa.

Leiktæki fullorðinna

Bifhjólin eru í flestum tilfellum aðeins leiktæki fyrir fullorðna, leiktæki til að leika sér á í umferðinni. Bifhjól eru ákaflega hættuleg leiktæki, sérstaklega þeim sem ferðast á þeim. En í umferðinni á fullorðið fólk bara ekki að leika sér, það er megurinn málsins. Vilji fullorðið fólk leika sér einhvers staðar á bifhjólum á það að gerast á vernduðu æfingasvæði, fjarri annarri umferð, líkt og gert er með kvartmílubifreiðar og torfærubifreiðar.
Bifhjól í nútímaþjóðfélagi þjóna engum nytsamlegum tilgangi. Meira að segja lögreglan gæti vel komist af án þeirra, og löggæslan í landinu yrði ekkert lakari þótt löreglan hætti að nota bifhjól.
Það hefur oft verið haft á orði að saga þyrluflugs á íslandi sé með endemum ljót, en þyrlur eru samt sem áður bráðnaynleg björgunartæki sem hafa bjargað fjölda manns, mun fleiri mannslífum en notkun þeirra hefur kostað. Bifhjólin hafa kostað okkur ófá mannslífin, að ógleymdum öllum þeim sem hafa örkumlast meira eða minna við notkun þeirra, og af þeim er engin ávinningur, hvorki fjárhagslegur né öðruvísi.

Hnefaleikar, byssur og bifhjól 

Við íslendingar sýndum þann manndóm af okkur að banna hnefaleika á íslandi. Það efast enginn um það í dag að slíkt bann hafi ekki verið af hinu góða. Við íslendingar bönnuöum almenna notkun og meðferð skotvopna fyrir um þrjátiu árum. Það efast enginn um það í dag að það bann sé af hinu góða. Ef við íslendingar hefðum bannað notkun bifhjóla í umferðinni af svipuðum ástæðum og við bönnuðum hnefaleika og almenna meðferð skotvopna á sínum tima hefðu mun færri látist i umferðinni á síðastliðnum árum og alvarleg umferðarslys hefðu orðið verulega færri en raun bar vitni. 

Lesandi góður. Einfaldasta, öruggasta og ódýrasta leiðin til að fækka alvarlegum umferðarslysum er að banna notkun bifhjóla í almennri umferð á íslandi. Það ættum við að gera af þeirri einföldu ástæðu að sagan hefur sýnt okkur að þau henta ekki til notkunar hér á landi. 

Brynjólfur Jónsson 
DV 20.08.1990


Tengd frétt   Bifhjól á ekki að banna

Tengd frétt  Mótorhjól hentug farartæki

18.7.90

Íslandsmet mótorhjólakappa

Talsverður fjöldi keppenda ók í mótorhjólakvartmílu Sniglanna á fostudagskvöldið, en þá fór fram keppni sem gilti til íslandsmeistara. Karl Gunnlaugsson setti nýtt íslandsmet í flokki 750 cc mótorhjóla, ók kvartmíluna á 11,01 sekúndum, en keppnin skiptist í fjóra flokka.

Hlöðver Gunnarsson á Suzuki 1100 GSXR vann öflugasta flokkinn, en hann er núverandi íslandsmeistari í þeim flokki. Kona hans, Bryndís Guðjónsdóttir, tók þátt í keppninni á Honda
750 og vann kvennaflokkinn í þessari frumraun á brautinni. Lögreglumaður frá Keflavík, Gunnar Rúnarsson, gerði sér lítið fyrir og vann tvo flokka í keppninni. Hann ók fyrst Kawazaki 600 og vann flokkaverðlaunin og skipti svo yfír á stærri Kawazaki hjól og vann verðlaun í flokki þess.
Karl Gunnlaugsson kórónaði svo skemmtilega keppni með því að setja íslandsmet á Suzuki hjóli sínu og vann sigur í 750 fiokknum eftir harða keppni. Hann prjónaði svo út brautina í sýningaratriði eftir keppni ásamt Jóni B. Björnssyni, en þeir óku á afturdekkinu alla brautina, samtals 400 metra. Mældist Jón Björn á 181 km hraða á afturdekkinu í endamarkinu.
http://timarit.is