28.4.18

Sport sem spornar við öldrun


Mótorhjólaáhuginn hefur fylgt Óla Ársæls í rúma sex áratugi. Fyrsta mótorhjólið keypti hann af
dönskum fjósamanni og verðandi eiginkona hans fékk far heim á öðru mótorhjólinu hans.

Mótorhjólaáhuginn hjá Jóhanni Ólafi Ársælssyni, sem jafnan er kallaður Óli Ársæls, byrjaði mjög snemma og tengist án efa áhuga hans á vélum og tækjum. Hann ólst upp í nálægð við slippinn í Dröfn og vélsmiðju Hafnarfjarðar og fékk oft að fylgja pabba sínum um borð í togara þar sem hann var vélstjóri. Í dag er Óli 76 ára og nýtur lífsins í botn á Yamaha Silverado 1100 sem er afskaplega fallegt og þægilegt hjól fyrir kall á hans aldri eins og hann orðar það sjálfur. „Sem drengurvar mér sagt að pabbi hefði átt mótorhjól sem hann notaði í og úr vinnu og fannst mér það frekar svalt. Hugurinn festist talsvert við þessa hugsun og í skólanum átti ég það til að teikna mótorhjól í kennslubækurnar í stað þess að hlusta vel á kennarann.“ Þegar Óli var 14-15 ára komst hann yfir lítinn bensínmótor sem var sérstaklega ætlaður aftan á reiðhjól. „Þessu kom ég einhvern veginn saman og brunaði um göturnar í Hafnarfirði, en með smá basli þar sem keðjan frá mótornum vildi oft detta af tannhjólinu sem boltað var á teinana í afturgjörðinni. Í framhaldi af þessu ævintýri var fjárfest í KK-50 skellinöðru og þá var maður orðinn maður með mönnum og gat fylgt félögunum sem höfðu eignast svipaðar nöðrur en þetta var á árunum 1956-1958.“

Eiginkonan fékk far

Fyrsta mótorhjól Óla var þýskt NSU Fox 125 CC sem hann keypti af dönskum fjósamanni sem vann
á Vífilsstöðum. „Þetta var afskaplega lipurt og fallegt hjól og ég fór víða á því, m.a. í veiðiferð til Þingvalla með vin minn Gísla Helgason fyrir aftan mig.“ Næsta hjól var öllu stærra, breskt herhjól af gerðinni Panther með stórum mótor þar sem gert var ráð fyrir hliðarvagni. „Nú var orðinn stæll á mínum og notaði ég hjólið talsvert á leið í vinnuna meðan ég var að læra vélvirkjun til að undirbúa mig undir Vélstjóraskólann.“ Á þessu hjóli sótti hann eitt sinn seint um kvöld Sirrý Karls, stúlkuna sem hann var að reyna við á þessum árum og er nú eiginkona hans. „Hún var þá að vinna í sjoppu. Ég kom á rólegri ferð rétt í því sem hún var að tölta af stað og spyr hvort hún vilji þiggja far heim.
Hún þáði boðið en hefði án efa ekki gert það ef hún hefði vitað að hjólið var án hljóðkúts þar sem ég
hafði verið í einhverju viðgerðarstússi með gripinn. Einn rúntur um bæinn með miklum hávaða
kostaði það að þessi prúða mær rauk af hjólinu þegar ég stoppaði heima hjá henni, skellti hurðinni
og talaði ekki við mig næstu tvær vikurnar en þetta jafnaði sig með smá lagni.“


Alvaran tekur við

Eftir að Óli og Sirrý giftu sig tók alvaran við. Þau kláruðu námið, keyptu íbúð og seinna byggðu
þau sér hús. „Á þessum tíma var mótorhjólaáhuginn settur á bið. En það skemmtilega gerist að ég fer
að vinna hjá bílaumboðinu Bílaborg sem þá seldi Mazda-bíla og Yamaha-mótorhjól og þá blossaði
bakterían upp aftur og hefur verið viðvarandi síðan.“ Yamaha-umboðið færðist síðar til Merkúrs hf. þar sem Óli var starfsmaður og hluthafi. „Á þessum árum var mikil vakning í mótorhjólamenningunni hér á landi og áður en varði var maður kominn á fullt aftur. Konan mín elskulega vissi sem var að þessi della færi ekkert úr mér og gaf mér splunkunýtt Yamaha Drag Star 650 þegar ég varð 60 ára en í dag ek ég Yamaha Silverado 1100.“

Æskuvinir leika sér

Félagsskapurinn í kringum mótorhjólin skiptir mjög miklu máli. Á árunum 2000-2004 voru margir af gömlu félögunum hans komnir með stór mótorhjól og allt að gerast, eins og hann orðar það. „Menn höfðu nú bæði tíma og peninga til að setja í þetta draumasport. Áður enn varði hafði myndast hópur manna úr Hafnarfirði og nágrenni sem hittast enn í dag á þriðjudögum kl. 17.30 yfir sumartímann og aka saman 100- 150 km um nærliggjandi sveitir og nágrannabæi ef veður leyfir.“ Félagsskapurinn kallast Dindlarnir, enda eru þeir saklausir eins og litlu lömbin sem dilla dindlunum sínum, segir Óli. Á félagaskránni eru um 35 meðlimir sem eru misvirkir en kjarninn er öflugur. Það felst ótrúlegt frelsi í því að vita að í skúrnum bíði gljáfægður gæðingur, tilbúinn í lengri eða skemmri ferðir, segir Óli. „Við höfum farið víða um landið og margir okkar hafa ekið talsvert erlendis. Það er ótrúlega skemmtilegt að enn skulum við fjórir kunningjarnir leika saman sama leikinn og þegar við vorum 15-16 ára á skellinöðrunum en nú á stórum og öflugum mótorhjólum. Við urðum allir 75 ára á síðasta ári, þ.e. ég, Hjörtur Guðmundsson, Júlíus Bess og Pálmi Sigurðsson. Við erum alveg vissir um að þetta sport sporni við öldrun, eins og sjá má af myndinni hér í greininni.“ Sumarið að nálgast
Það styttist óðfluga í hjólatímabilið en Óli vill þó leyfa hitastiginu að hækka aðeins og leyfa  Vegagerðinni að laga stærstu holurnar eftir erfiðan vetur. „Við munum halda okkur við þriðjudaga og til greina kemur að bæta við morgunferðum þar sem margir af félögunum eru komnir á eftirlaunaaldur og hafa því líka lausan tíma fyrri hluta dags. Þannig að einhvern næstu daga verður sparkað í gang.“

Starri Freyr Jónsson
starri@frettabladid.is

Mótorhjól


Sniglar að skríða í gang

Sniglar, hagsmunasamtök mótorhjólamanna setja aukinn kraft í starfið. Hin árlega 1. maí keyrsla
verður stærri en áður og svo á að gefa út bók, safna liði og sinna öflugri hagsmunagæslu

Sniglar eru hagsmunasamtök bifhjólafólks á Íslandi sem hafa starfað síðan árið 1984 og beita sér fyrir hagsmunamálum bifhjólafólks hvað varðar umferðar öryggi og -reglur. Samtökin vilja nú láta meira að sér kveða en þau hafa gert undanfarin ár, auka sýnileika sinn, fá fleiri meðlimi, sinna  hagsmunagæslu fyrir alla mótorhjólamenn á Íslandi af fullum krafti og styðja við menntun mótorhjólamanna með útgáfu nýrrar kennslu- og handbókar fyrir bæði byrjendur og lengra komna.

Vilja safna liði

 Elías Fells er gjaldkeri samtakanna og tekur þátt í skipulagi hinnar árlegu keyrslu Snigla 1. maí. „Þessi viðburður hefur farið fram áratugum saman, en þarna bjóða Sniglar öllu bifhjólafólki að mæta, hvort sem það er í Sniglum eða ekki,“ segir Elías. „Þátttakendur hafa verið á bilinu frá svona 300 upp í sirka 1.400, þannig að þetta er nokkuð stór viðburður og það er mikill undirbúningur að baki keyrslunni, sem er langstærsti viðburður ársins hjá okkur.
Hugmyndin er sú að við séum aðeins sýnilegri þegar við komum út á vorin. Viðburðurinn vekur alltaf mikla athygli, því við fyllum Laugaveginn af hjólum, og þetta vekur vonandi fólk til vitundar um að við séum að koma út í umferðina svo það verði meira vakandi fyrir að sýna okkur tillitssemi,“ segir Elías.
„Partur af þessu er líka að reyna að fá fleiri félaga inn í samtökin. Það er mjög mikilvægt að reyna að
ná sem flestum bifhjólamönnum inn í samtökin til að þau verði raunverulega eitthvað, en það er
náttúrulega mjög mikilvægt fyrir bifhjólafólk að eiga sér talsmenn þegar kemur að umferðaröryggismálum og fleira,“ segir Elías. „Það hefur ekki gengið nógu vel síðustu ár að fá nýja félaga en nú erum við að spýta í lófana og gera meira og verða sýnilegri, svo fólk sjái að þetta séu virk samtök og sjái sér hag í að vera í Sniglum. Svo er náttúrulega líka bara skemmtilegt að
sameinast og gera eitthvað saman.“

Stærri viðburður en áður

 „Í ár verður viðburðurinn stærri en hann hefur yfirleitt verið. Við keyrum niður Laugaveg, um Lækjargötu sem leið liggur fram hjá Hörpu eftir Sæbraut, upp Ártúnsbrekku alla leið á planið hjá Bauhaus. Þetta er lengra en áður því okkur hefur þótt þetta aðeins of stutt hingað til,“ segir Elías. „Á Bauhaus-planinu verða mótorhjóla umboðin með sýningarbása og þar verður hljómsveit, veitingasala, áhættuökumenn að sýna listir sínar og fleira.
Þetta hefur verið svolítið þannig að menn mæta á planið þar sem keyrslan endar og þar hefur lítið
tekið við, svo fólk staldrar stutt við,“ segir Elías. „En við ætlum að reyna að halda aðeins í hópinn
í ár, gera meira úr þessu en áður og hafa viðburðinn stærri og skemmtilegri. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem hafa áhuga á að vera með til að mæta upp í Bauhaus og taka þátt í þessum hluta
viðburðarins, hvort sem fólk á mótorhjól eða ekki.“

Handbók fyrir byrjendur og lengra komna

Steinmar Gunnarsson er ritari samtakanna og hefur haft yfirumsjón með nýrri hand- og kennslubók sem Sniglar eru að fara að gefa út með Netökuskólanum. „Þetta er bók sem var upprunalega gefin út af NMCU, systursamtökum Sniglanna í Noregi. Bókin er ætluð sem kennslubók fyrir  bifhjólanemendur en gagnast líka alveg ákaflega vel fyrir mótorhjólamenn sem vilja rifja upp hvernig er best að stjórna mótorhjóli á sem öruggastan hátt,“ segir Steinmar. „Við ákváðum, í samstarfi við Netökuskólann, að láta þýða bókina og taka nýjar myndir fyrir hana hér á landi. Nú stendur lokafrágangur á henni yfir og hún verður gefin út fyrir sumarið á netinu. Þar verður hún ókeypis en það verður líka hægt að kaupa prentaða útgáfu. Við vonumst til að þessi bók verði notuð sem handbók og kennslubók við bifhjólakennslu og að mótorhjólafólk um allt land nýti hana sér til framdráttar,“ segir Steinmar. „Þetta er góð handbók og fínt að hafa hana á náttborðinu hjá sér, sama hvaða reynslu maður hefur, því maður getur alltaf lært.“

Vinna með evrópskum hagsmunasamtökum

Steinmar er einnig FEMA-fulltrúi Snigla. „FEMA er Federation of European Motorcycle  associations og hefur aðsetur í Brussel. Fyrir samtökin starfa lobbíistar sem vinna að hagsmunum og
hagsmunagæslu mótorhjólafólks fyrir hönd aðildarsamtaka í Evrópu,“ segir Steinmar. „Hópurinn
berst fyrir því að ekki séu settar íþyngjandi reglur sem bitna eingöngu á mótorhjólafólki, eins og
stjórnvöld í ýmsum löndum hafa reynt. Í gegnum þessi samtök komu Sniglar því til dæmis til
leiðar að það sé hægt að slökkva á ABS-bremsukerfum í torfærumótor hjólum þegar þau eru keyrð í ófærð, en það væri ákaflega vont ef ABS-bremsukerfi væri virkt í slíkum akstri.
Mitt hlutverk er að taka þátt í fundum samtakanna fyrir hönd Snigla og bæði veita Sniglum
upplýsingar um það sem samtökin eru að vinna að og koma séróskum frá Íslandi á framfæri til samtakanna,“ segir Steinmar. „Við eru ánægð með að hafa aðild að þessum samtökum, sem sinna
mikilvægri hagsmunagæslu fyrir mótorhjólafólk, bæði erlendis og hér á Íslandi. Sem einu hagsmunasamtök mótorhjólafólks á Íslandi taka Sniglar það hlutverk mjög alvarlega.“

Vísir 28.4.2018

27.4.18

1.maí hópkeyrsla bifhjólafólks á Akureyri



Kæra bifhjólafólk. Nú fer 1 Maí að renna upp þar sem við öll sameinumst í hópakstri bifhjólafólks.
Er allt bifhjólafólk er velkomið í aksturinn og vonumst við til að sjá sem flesta.

Við byrjum við Mótorhjólasafnið á Akureyri ökum norður Drottningarbraut beygjum austur Strandgötu við Hof svo norður Hjalteyrargötu og svo áfram norður Krossanesbraut. Svo beygjum við upp Hlíðarbraut yfir ljósin hjá Gellunesti áfram Hlíðarbraut þar til við beygjum suður Súluveg og svo áfram Miðhúsabraut, þar til við beygjum norður Þórunnarstræti. Þaðan beygjum við austur Hrafnagilsstræti niður Eyralandsveg framhjá Kirkjunni og förum svo niður Kaupvangsstrætið niður í bæ.
Við munum svo enda ferðalagið með því að aka inn á Bílastæðið hjá Átak og leggja hjólunum á Göngustíg meðfram Flotbryggjunum bak við Hof.



Leggjum hér í lok Hópkeyrslu.


Leggjum hér í lok Hópkeyrslu.






Keyrslan fer af stað kl. 14:00. Sameinuð stöndum vér. Nú eiga allir að mæta sýna sig og sjá aðra.

ATH Við Mótorhjólasafnið verður hægt að kaupa Miða á Landsmót Bifhjólamanna í Forsölu.Einnig veður hægt að kaupa Landsmótsmerki.

Verðum með posann á staðnum...

Einnig á endastöð.

Finnið Siggu...

Kíkið á þessa glósu Varðandi hópkeyrslu á Akureyri.





Á sama tíma verða verkalýðsfélögin með sína kröfugöngu sem endar í Hofi ,,,, Við munum svo vera með í þeim hátíðarhöldum

25.4.18

Það leka inn smá upplýsingar um Landsmót..

Eins og flestir vita þá er Landsmót framundan í sumar, og nú er búið að ráða hljómsveitir til að halda uppi fjörinu..

Tónlist....... á landsmóti... Norðlenskt þema.... Hvanndalsbræður....... Ingvar Valgers ....... Swiss........ Thai boyz.......

Posted by Landsmót Bifhjólamanna 2018 Ketilás Fljótum on 24. apríl 2018

19.4.18

Sumardagurinn Fyrsti

Bifhjólamenn Norðanlands nutu sumardagsins fyrsta með flandri um Norðurlandið á vélfákum

Vorfundur hjá Bifhjólasamtökum Lýðveldissins í Reykjavík

18.4.18

Landsmótsmerkin og Forsala á Landsmót Bifhjólamanna hafin


Landsmótmerkin eru kominn !
Nú er kjörið að ná sér í landsmótsmerki 1000kr stk takmarkað magn í boði. merkið kostar 1000kr.
Í leiðinni er líka hægt að tryggja sér Forsölumiða á Landsmót.
                                                    
Miði á Landsmót 10000kr

Landsmótsmerki 1000kr 
ATH Forsölu er lokið

14.4.18

Styrktaraðilar

Öryggisföt eru vinir hjólamanna
Landsmótnefndin hefur undanfarið verið að reyna að sækja styrki til nokkura valina fyrirtækja varðandi Landsmót, og hefur það gengið ágætlega.

Td. er hægt að kaupa sér auglýsingapláss á Landsmótsplaggatið sem kemur út í lok apríl.

Enn er pláss fyrir nokkur fyrirtæki á plaggatið. og ef einhver fyrirtæki vilja vera með
hafið þá endilega samband í

tian@tian.is og við munum senda nánari lýsingu.


7.4.18

Fréttir af Landsmóti Bifhjólamanna 2018

Landsmótspotturinn
Landsmótsnefnd Tíunnar

Hefur verið dugleg undanfarið að undirbúa landsmót og er þegar búin að ganga frá helstu atriðum sem þurfa að vera á hreinu, eins og skemmtanaleyfum, varðeldsleyfum, og alls konar skriffinsku og öðru sem tengist því flókna verkefni sem það er að halda landsmót.

2.4.18

Munið eftir greiðsluseðlinum

Í ár verður talsvert stórt ár hjá Tíunni þar sem Landsmót Bifhjólamanna er inn á dagskránni ásamt öðrum föstum liðum sem við ætlum að reyna að gera sem veglegasta í ár .

En til að hjálpa til þá er gott að félagsmenn greiði árgjaldið í Tíunna  en það er aðeins 3000kr eða 3150kr  með greiðsluseðli sem kom í heimabanka hjá skráðum félögum í febrúar.

En þar af rennur 1000 kr til Mótorhjólasafns Íslands, en í staðinn getur félagsmaðurinn fengið frítt inn á safnið, þó hann komi oft í heimsókn.