28.4.18

Sport sem spornar við öldrun


Mótorhjólaáhuginn hefur fylgt Óla Ársæls í rúma sex áratugi. Fyrsta mótorhjólið keypti hann af
dönskum fjósamanni og verðandi eiginkona hans fékk far heim á öðru mótorhjólinu hans.

Mótorhjólaáhuginn hjá Jóhanni Ólafi Ársælssyni, sem jafnan er kallaður Óli Ársæls, byrjaði mjög snemma og tengist án efa áhuga hans á vélum og tækjum. Hann ólst upp í nálægð við slippinn í Dröfn og vélsmiðju Hafnarfjarðar og fékk oft að fylgja pabba sínum um borð í togara þar sem hann var vélstjóri. Í dag er Óli 76 ára og nýtur lífsins í botn á Yamaha Silverado 1100 sem er afskaplega fallegt og þægilegt hjól fyrir kall á hans aldri eins og hann orðar það sjálfur. „Sem drengurvar mér sagt að pabbi hefði átt mótorhjól sem hann notaði í og úr vinnu og fannst mér það frekar svalt. Hugurinn festist talsvert við þessa hugsun og í skólanum átti ég það til að teikna mótorhjól í kennslubækurnar í stað þess að hlusta vel á kennarann.“ Þegar Óli var 14-15 ára komst hann yfir lítinn bensínmótor sem var sérstaklega ætlaður aftan á reiðhjól. „Þessu kom ég einhvern veginn saman og brunaði um göturnar í Hafnarfirði, en með smá basli þar sem keðjan frá mótornum vildi oft detta af tannhjólinu sem boltað var á teinana í afturgjörðinni. Í framhaldi af þessu ævintýri var fjárfest í KK-50 skellinöðru og þá var maður orðinn maður með mönnum og gat fylgt félögunum sem höfðu eignast svipaðar nöðrur en þetta var á árunum 1956-1958.“

Eiginkonan fékk far

Fyrsta mótorhjól Óla var þýskt NSU Fox 125 CC sem hann keypti af dönskum fjósamanni sem vann
á Vífilsstöðum. „Þetta var afskaplega lipurt og fallegt hjól og ég fór víða á því, m.a. í veiðiferð til Þingvalla með vin minn Gísla Helgason fyrir aftan mig.“ Næsta hjól var öllu stærra, breskt herhjól af gerðinni Panther með stórum mótor þar sem gert var ráð fyrir hliðarvagni. „Nú var orðinn stæll á mínum og notaði ég hjólið talsvert á leið í vinnuna meðan ég var að læra vélvirkjun til að undirbúa mig undir Vélstjóraskólann.“ Á þessu hjóli sótti hann eitt sinn seint um kvöld Sirrý Karls, stúlkuna sem hann var að reyna við á þessum árum og er nú eiginkona hans. „Hún var þá að vinna í sjoppu. Ég kom á rólegri ferð rétt í því sem hún var að tölta af stað og spyr hvort hún vilji þiggja far heim.
Hún þáði boðið en hefði án efa ekki gert það ef hún hefði vitað að hjólið var án hljóðkúts þar sem ég
hafði verið í einhverju viðgerðarstússi með gripinn. Einn rúntur um bæinn með miklum hávaða
kostaði það að þessi prúða mær rauk af hjólinu þegar ég stoppaði heima hjá henni, skellti hurðinni
og talaði ekki við mig næstu tvær vikurnar en þetta jafnaði sig með smá lagni.“


Alvaran tekur við

Eftir að Óli og Sirrý giftu sig tók alvaran við. Þau kláruðu námið, keyptu íbúð og seinna byggðu
þau sér hús. „Á þessum tíma var mótorhjólaáhuginn settur á bið. En það skemmtilega gerist að ég fer
að vinna hjá bílaumboðinu Bílaborg sem þá seldi Mazda-bíla og Yamaha-mótorhjól og þá blossaði
bakterían upp aftur og hefur verið viðvarandi síðan.“ Yamaha-umboðið færðist síðar til Merkúrs hf. þar sem Óli var starfsmaður og hluthafi. „Á þessum árum var mikil vakning í mótorhjólamenningunni hér á landi og áður en varði var maður kominn á fullt aftur. Konan mín elskulega vissi sem var að þessi della færi ekkert úr mér og gaf mér splunkunýtt Yamaha Drag Star 650 þegar ég varð 60 ára en í dag ek ég Yamaha Silverado 1100.“

Æskuvinir leika sér

Félagsskapurinn í kringum mótorhjólin skiptir mjög miklu máli. Á árunum 2000-2004 voru margir af gömlu félögunum hans komnir með stór mótorhjól og allt að gerast, eins og hann orðar það. „Menn höfðu nú bæði tíma og peninga til að setja í þetta draumasport. Áður enn varði hafði myndast hópur manna úr Hafnarfirði og nágrenni sem hittast enn í dag á þriðjudögum kl. 17.30 yfir sumartímann og aka saman 100- 150 km um nærliggjandi sveitir og nágrannabæi ef veður leyfir.“ Félagsskapurinn kallast Dindlarnir, enda eru þeir saklausir eins og litlu lömbin sem dilla dindlunum sínum, segir Óli. Á félagaskránni eru um 35 meðlimir sem eru misvirkir en kjarninn er öflugur. Það felst ótrúlegt frelsi í því að vita að í skúrnum bíði gljáfægður gæðingur, tilbúinn í lengri eða skemmri ferðir, segir Óli. „Við höfum farið víða um landið og margir okkar hafa ekið talsvert erlendis. Það er ótrúlega skemmtilegt að enn skulum við fjórir kunningjarnir leika saman sama leikinn og þegar við vorum 15-16 ára á skellinöðrunum en nú á stórum og öflugum mótorhjólum. Við urðum allir 75 ára á síðasta ári, þ.e. ég, Hjörtur Guðmundsson, Júlíus Bess og Pálmi Sigurðsson. Við erum alveg vissir um að þetta sport sporni við öldrun, eins og sjá má af myndinni hér í greininni.“ Sumarið að nálgast
Það styttist óðfluga í hjólatímabilið en Óli vill þó leyfa hitastiginu að hækka aðeins og leyfa  Vegagerðinni að laga stærstu holurnar eftir erfiðan vetur. „Við munum halda okkur við þriðjudaga og til greina kemur að bæta við morgunferðum þar sem margir af félögunum eru komnir á eftirlaunaaldur og hafa því líka lausan tíma fyrri hluta dags. Þannig að einhvern næstu daga verður sparkað í gang.“

Starri Freyr Jónsson
starri@frettabladid.is