28.4.18

Mótorhjól


Sniglar að skríða í gang

Sniglar, hagsmunasamtök mótorhjólamanna setja aukinn kraft í starfið. Hin árlega 1. maí keyrsla
verður stærri en áður og svo á að gefa út bók, safna liði og sinna öflugri hagsmunagæslu

Sniglar eru hagsmunasamtök bifhjólafólks á Íslandi sem hafa starfað síðan árið 1984 og beita sér fyrir hagsmunamálum bifhjólafólks hvað varðar umferðar öryggi og -reglur. Samtökin vilja nú láta meira að sér kveða en þau hafa gert undanfarin ár, auka sýnileika sinn, fá fleiri meðlimi, sinna  hagsmunagæslu fyrir alla mótorhjólamenn á Íslandi af fullum krafti og styðja við menntun mótorhjólamanna með útgáfu nýrrar kennslu- og handbókar fyrir bæði byrjendur og lengra komna.

Vilja safna liði

 Elías Fells er gjaldkeri samtakanna og tekur þátt í skipulagi hinnar árlegu keyrslu Snigla 1. maí. „Þessi viðburður hefur farið fram áratugum saman, en þarna bjóða Sniglar öllu bifhjólafólki að mæta, hvort sem það er í Sniglum eða ekki,“ segir Elías. „Þátttakendur hafa verið á bilinu frá svona 300 upp í sirka 1.400, þannig að þetta er nokkuð stór viðburður og það er mikill undirbúningur að baki keyrslunni, sem er langstærsti viðburður ársins hjá okkur.
Hugmyndin er sú að við séum aðeins sýnilegri þegar við komum út á vorin. Viðburðurinn vekur alltaf mikla athygli, því við fyllum Laugaveginn af hjólum, og þetta vekur vonandi fólk til vitundar um að við séum að koma út í umferðina svo það verði meira vakandi fyrir að sýna okkur tillitssemi,“ segir Elías.
„Partur af þessu er líka að reyna að fá fleiri félaga inn í samtökin. Það er mjög mikilvægt að reyna að
ná sem flestum bifhjólamönnum inn í samtökin til að þau verði raunverulega eitthvað, en það er
náttúrulega mjög mikilvægt fyrir bifhjólafólk að eiga sér talsmenn þegar kemur að umferðaröryggismálum og fleira,“ segir Elías. „Það hefur ekki gengið nógu vel síðustu ár að fá nýja félaga en nú erum við að spýta í lófana og gera meira og verða sýnilegri, svo fólk sjái að þetta séu virk samtök og sjái sér hag í að vera í Sniglum. Svo er náttúrulega líka bara skemmtilegt að
sameinast og gera eitthvað saman.“

Stærri viðburður en áður

 „Í ár verður viðburðurinn stærri en hann hefur yfirleitt verið. Við keyrum niður Laugaveg, um Lækjargötu sem leið liggur fram hjá Hörpu eftir Sæbraut, upp Ártúnsbrekku alla leið á planið hjá Bauhaus. Þetta er lengra en áður því okkur hefur þótt þetta aðeins of stutt hingað til,“ segir Elías. „Á Bauhaus-planinu verða mótorhjóla umboðin með sýningarbása og þar verður hljómsveit, veitingasala, áhættuökumenn að sýna listir sínar og fleira.
Þetta hefur verið svolítið þannig að menn mæta á planið þar sem keyrslan endar og þar hefur lítið
tekið við, svo fólk staldrar stutt við,“ segir Elías. „En við ætlum að reyna að halda aðeins í hópinn
í ár, gera meira úr þessu en áður og hafa viðburðinn stærri og skemmtilegri. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem hafa áhuga á að vera með til að mæta upp í Bauhaus og taka þátt í þessum hluta
viðburðarins, hvort sem fólk á mótorhjól eða ekki.“

Handbók fyrir byrjendur og lengra komna

Steinmar Gunnarsson er ritari samtakanna og hefur haft yfirumsjón með nýrri hand- og kennslubók sem Sniglar eru að fara að gefa út með Netökuskólanum. „Þetta er bók sem var upprunalega gefin út af NMCU, systursamtökum Sniglanna í Noregi. Bókin er ætluð sem kennslubók fyrir  bifhjólanemendur en gagnast líka alveg ákaflega vel fyrir mótorhjólamenn sem vilja rifja upp hvernig er best að stjórna mótorhjóli á sem öruggastan hátt,“ segir Steinmar. „Við ákváðum, í samstarfi við Netökuskólann, að láta þýða bókina og taka nýjar myndir fyrir hana hér á landi. Nú stendur lokafrágangur á henni yfir og hún verður gefin út fyrir sumarið á netinu. Þar verður hún ókeypis en það verður líka hægt að kaupa prentaða útgáfu. Við vonumst til að þessi bók verði notuð sem handbók og kennslubók við bifhjólakennslu og að mótorhjólafólk um allt land nýti hana sér til framdráttar,“ segir Steinmar. „Þetta er góð handbók og fínt að hafa hana á náttborðinu hjá sér, sama hvaða reynslu maður hefur, því maður getur alltaf lært.“

Vinna með evrópskum hagsmunasamtökum

Steinmar er einnig FEMA-fulltrúi Snigla. „FEMA er Federation of European Motorcycle  associations og hefur aðsetur í Brussel. Fyrir samtökin starfa lobbíistar sem vinna að hagsmunum og
hagsmunagæslu mótorhjólafólks fyrir hönd aðildarsamtaka í Evrópu,“ segir Steinmar. „Hópurinn
berst fyrir því að ekki séu settar íþyngjandi reglur sem bitna eingöngu á mótorhjólafólki, eins og
stjórnvöld í ýmsum löndum hafa reynt. Í gegnum þessi samtök komu Sniglar því til dæmis til
leiðar að það sé hægt að slökkva á ABS-bremsukerfum í torfærumótor hjólum þegar þau eru keyrð í ófærð, en það væri ákaflega vont ef ABS-bremsukerfi væri virkt í slíkum akstri.
Mitt hlutverk er að taka þátt í fundum samtakanna fyrir hönd Snigla og bæði veita Sniglum
upplýsingar um það sem samtökin eru að vinna að og koma séróskum frá Íslandi á framfæri til samtakanna,“ segir Steinmar. „Við eru ánægð með að hafa aðild að þessum samtökum, sem sinna
mikilvægri hagsmunagæslu fyrir mótorhjólafólk, bæði erlendis og hér á Íslandi. Sem einu hagsmunasamtök mótorhjólafólks á Íslandi taka Sniglar það hlutverk mjög alvarlega.“

Vísir 28.4.2018