29.2.12

Varð ástfanginn af fyrsta hjólinu sextán ára

 

Jón Ásgeir Hreinsson hefur hafið útgáfu mótorhjólatímarits

Þetta er ákveðinn kúltúr sem tengist svokölluðum kaffi-racerum og strætisrökkum, eins og við köllum Street Tracker á íslensku,“ segir Jón Ásgeir Hreinsson sem hafið hefur útgáfu mótorhjólatímaritsins Kickstart. „Á þessum hjólum er það ekki endilega aflið sem skiptir máli heldur útlitið og „performansinn“. Þarna eru menn á 400 til 600 kúbika hjólum í staðinn fyrir 1.000 til 1.200 kúbika. Svo er stíllinn í kringum þessi hjól mjög skemmtilegur. Rockabilly tengist þessu mikið og þetta er svona pínu afturhvarf til fortíðar en samt gert á fallegri máta en gert var á sjöunda áratugnum þegar þessi stíll varð vinsæll. Þetta er kúltúr sem lítið hefur farið fyrir hér heima en maður hefur fylgst meðerlendis og mig langaði að kynna betur.“
Fyrsta tölublað Kickstart er komið út, 74 blaðsíður af fjölbreyttu efni sem tengist hjólunum. „Þetta verða þrjú blöð á ári,“segir Jón Ásgeir " í febrúar, júní og október. júníblaðið kemur út 16. júní og verður með léttu „patríót“- þema.“
Jón Ásgeir segist alltaf hafa verið með hjóladellu en hann hafi hins vegar ekki haft efni á því að kaupa sér hjól fyrr en um fimmtugt. „Mótorar og mótorhjól hafa alltaf heillað mig. Fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af sá ég sextán ára gamall. Það var Harley Davidson Sporter og þegar ég varð fimmtugur keypti ég mér þannig hjól. Það er nefnilega oft þannig að menn eru að láta gamlan draum rætast um miðjan aldur þegar þeir loksins hafa fjárráð til að leyfa sér það.“
Snýst allt lífið meira og minna um mótorhjól? „Nei, nei, ekki alveg. Ég er grafískur hönnuður og sit við tölvu alla daga, endalaust að reyna að finna  upp á einhverju nýju og fara ótroðnar slóðir, en með mótorhjólinu heima í skúr kemst maður í hálfgerða hugleiðslu. Þar er mekanismi sem einungis er hægt að setja saman á einn veg, annars virkar hann ekki. Það er svakaleg hvíld.“
Þessi hugleiðing Jóns Ásgeirs leiðir óhjákvæmilega hugann að hinni frægu bók Zen and the Art of Motorcycle Maintenance en hann segist þó aldrei hafa lesið hana enda sé hún drepleiðinleg. „Hins vegar er önnur bók, sem ég fjalla einmitt um í Kickstart, Jupiter‘s Travels eftir Ted Simon sem lýsir frábærlega vel hugarástandinu sem maður kemst í. Þetta er pínulítið eins og að vera á hestbaki, nema hvað þú ræður algjörlega för. Það er alveg á hreinu að hjólið tekur ekki af þér völdin.“
Meðal annars efnis í Kickstart má nefna ferðasögu fjögurra félaga sem fóru á mótorhjólum frá Berlín til Prag og aftur til baka. „Þetta var óskaplega skemmtilegt ferðalag og pottþétt að maður á eftir að  gera þetta aftur,“ segir Jón Ásgeir. „Þetta var dálítill riddarafílingur. Það fara fjórir karlar af stað á hjólunum sínum og eiga heiminn. Í næsta blaði verður líka ferðasaga þar sem Árni Jónsson, sem
býr í Kaliforníu, lýsir ferðalagi sem hann fór um Argentínu.“
 Meðal annars efnis í blaðinu má nefna ítarlegar kynningar á kaffi-racerum og strætisrökkum, viðtöl við tónlistarmanninn Smutty Smiff og myndlistarmanninn Erling T. V. Klingenberg og fleira og fleira. Hægt er að gerast áskrifandi á heimasíðunni kickstart.is eða kaupa blaðið í Kickstart, Vesturgötu 12 í Reykjavík eða í Mótorhjólasafninu á Akureyri. 
fridrikab@frettabladid.is

Fréttblaðið
29.02.2012

28.2.12

Konur á Mótorhjólum

Áhugi kvenna á mótorhjólaakstri hefur aukist mikið hér á landi. Konurnar eru á öllum aldri og margar þeirra hittast reglulega yfir sumartímann og hjóla saman um landið. Starfsemi klúbbanna er þó virk allt árið þar sem konurnar hittast einu sinni í mánuði og sumar oftar.
Tvö félög mótorhjólakvenna eru starfandi í Reykjavík, Skutlurnar og Harley Davidson skvísurnar sem flestar eru eiginkonur karla í Harley Davidson klúbbnum. Þær kalla sig Mafíu Dóru frænku eða MDF. 
Skutlurnar hafa verið starfandi frá árinu 2005 en félagið var stofnað af Ásthildi Einarsdóttur. 36 konur eru skráðar í félagið.
Konur eru einnig virkar á landsbyggðinni, á Akureyri og í Keflavík.
Á síðasta ári opnaði mótorhjólasafn á Akureyri. Hugmyndin með safninu er að varðveita 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja eignast mótorhjól að hlífðarfatnaður er nauðsynlegur öllum þeim sem ferðast um á bifhjóli. Samkvæmt vef Umferðarstofu þarf hlífðarfatnaðurinn að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem draga úr höggi og alvarlegum meiðslum. Stígvél fyrir mótorhjólaakstur þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Hlífðarbúnaður skal vera merktur samkvæmt stöðlum um öryggi.
Fréttablaðið 28.02.2012

16.2.12

Spólað og slett á strigann

Slettur Listamaðurinn gefur hjólinu inn í
galleríinu og lætir liti vaða á strigann.
Hann málaði með nokkrum litum

 Spólað og slett á strigann

Erling Klingenberg tengir tvenns konar gamla þráhyggju á sýningu sinni í Kling & bang galleríi.   Notaði öflugt mótorhjól í stað pensils  

„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur“


Þessa dagana stendur yfir sýning Erlings T.V. Klingenberg myndlistarmanns í Kling & bang galleríi á Hverfisgötu 42.
Á sýningunni eru málverk eftir Erling sem óhætt er að segja að máluð séu af miklum krafti – enda vélhjóli beitt við verkið. „Það er ekki að ástæðulausu að ég kalla sýninguna Kraftmikil kúnst,“ segir Erling. Annars vegar sýnir hann málverk þar sem litnum var spólað upp á strigann, og
hinsvegar verk þar sem vélhjól spólaði á máluðum flötum. „Undirtitill sýningarinnar er síðan „Þráhyggja – frumleiki“ og í sýningunni birtist tvenns konar þráhyggja sem hefur fylgt mér lengi. Annars vegar eru það mótorhjól og hins vegar listin. Eldri bróðir minn keppti mikið á mótorhjólum og ég fékk oft að fara með honum, og hreifst af þessum heimi. Þrettán ára eignaðist ég síðan mitt fyrsta mótorhjól.“

Vissi ekki hvað myndi gerast

 Erling hefur á liðnum árum getið sér orð fyrir frumlega nálgun í myndlistinni, oft æði íróníska, og hefur í því ferli beitt ýmsum miðlum. „Ég útskrifaðist samt úr málaradeild í Myndlista- og handíðaskólanum,“ segir hann og það útskýrir ef til vill efnisvalið á þessari sýningu, málningu og striga. „Með tímanum hvarf ég frá málverkinu en þessi tvenns konar þráhyggja mætist þó núna, málverkið og mótorhjólið.“
Spólað Ungur vélhjólakappi aðstoðaði Erling
 við spólverkin í Kling & bang, þar sem spólandi
 hjólið reif upp nokkur litalög og teiknaði á gólfið
.
 Við gerð verkanna á sýningunni notaði Erling hjólið sem áhald og lætur það líka standa í salnum. „Í stað pensils eða spaða notaði ég þetta verkfæri. Ég vissi ekki fyrirfram hvað myndi nákvæmlega gerast. Ég hafði hugmyndir um það, og maður hefur einhverja stjórn á því hvernig liturinn leggst og blandast, en samt ekki. Það tengist líka hugmyndum listamanna sem kenndir eru við abstrakt-expressjónisma. En ferlið er háð ákveðnum eðlisfræðilögmálum.“
 Erling sat sjálfur á hjólinu sem „málaði“ á strigann, með því að spóla upp mismunandi litum úr málningarbökkum sem settir voru undir afturdekkið og einnig var  spólað yfir gólf gallerísins, í gegnum nokkur lög af ýmsum litum.
„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur, þá lékum við vinirnir okkur að því að reykspóla á stéttum og malbiki, svona eiginlega teikna með hjólunum. Þegar ég var að læra í Frankfurt 1995 fór ég að skissa teikningu eins og við vorum að gera ungir á mótorhjólunum. En ég fékk ungan snilling til að aðstoða mig við teikninguna á gólfi gallerísins.“
Málunartækni abstraktexpressjónistanna, eins og Jacksons Pollocks, er iðulega kennd við frelsi
og öll höft voru afnumin þar sem þeir slettu á strigann og beittu líkamanum af krafti við að mála verkin. „Ein helsta hetjan mín þegar ég var í námi var þýski myndlistarmaðurinn Bernd Koberling, sem hefur mikið unnið hér á landi, en hans fyrstu verk voru ekkert svo ósvipuð því sem varð til þegar stóru verkin á sýningunni fæddust. Það sá ég eftir á og þótti það skemmtileg tilviljun,“ segir Erling.

Útlagar í samfélaginu 

Mótorhjól eru iðulega tengd ákveðinni karlmennskuímynd. Erling segir að hjólum hafi fjölgað mikið hér á landi síðasta áratuginn og sumir eigendur þeirra leggi mikið upp úr því að eiga réttu merkin. „Sumir nota hjólið til að skreyta egóið, sem stöðutákn, en ég trúi því samt að sannir mótorhjólamenn horfi fram hjá vörumerkjum og sjái þetta frelsi sem felst í mótorhjólinu,“ segir Erling. Hann hugsar sig um og bætir svo við: „Það sama má reyndar sjá í myndlistinni. Sumir sjá bara nafn þess sem er skrifaður fyrir verkinu en ekki um hvað verkið fjallar í raun og veru.
Svo er annað; er ekki algengt að litið sé á myndlistarmenn og mótorhjólamenn sem útlaga í samfélaginu? Það er mislangsótt hugmynd en þó sé ég ýmsar tengingar þar. Ég vil samt benda á að konum hefur fjölgað mikið í þessu sporti og þær eru margar helv. … góðir ökumenn,“ segir hann og hlær.
Það þarf varla að spyrja, en á Erling ekki mótorhjól sjálfur? „Jú, ég á götuhjól og langar mikið í
fjallahjól,“ svarar hann. Auk þess að beita hjóli við málunina hefur Erling einnig tekið fjölda ljósmynda af mótorhjólum og sýnir nokkur þeirra „portretta“.
 Sýning Erlings í Kling & bang stendur til sunnudags og er opin milli 14 og 18 alla dagana. Óhætt er að hvetja áhugamenn um myndlist, og vélhjól, að líta inn.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is
16.02.2012