15.7.11

Hér er allt gert af ástríðu



Margir glæstir mótorfákar eru á götum Akureyrar um þessa helgi því þar standa yfir Hjóladagar 2011.

Jóhann Freyr Jónsson tekur þátt í þeim, bæði sem einstaklingur og safnstjóri Mótorhjólasafns Íslands.


Spyrnt verður á sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum og vespum á Akureyri síðdegis í dag að afloknum hópakstri í Samgönguminjasafnið að Ystafelli. Hvort tveggja er á dagskrá  Hjóladaga 2011 sem lýkur með veislu og dansleik í Sjallanum á morgun með Sniglabandinu og Myrká.

Mótorhjólaklúbburinn Tían heldur utan um Hjóladagana. Tían er líka hollvinafélag  Mótorhjólasafns Íslands sem var opnað á Akureyri í byrjun sumars og á mörg fágæt hjól og fjölda mynda. „Hér eru hjól sem erfitt er að finna í dag og eru í raun einstök,“ segir safnvörðurinn Jóhann Freyr og bendir á eitt sem innan við tíu eintök eru til af í heiminum og annað með  framleiðslunúmerið 9 af þeim 60 sem framleidd voru í sérútgáfu árið 1975. 

Mótorhjólasafnið var byggt í minningu Akureyringsins Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. Hann hafði dreymt um að opna safn enda átti hann mörg merkileg hjól og hluti tengda þeim og sérstök deild er helguð gripum hans.

„Bræður Heiðars hafa líka verið rausnarlegir við okkur og flutt inn mörg sjaldgæf hjól til að gefa safninu. Hér er allt gert af ástríðu,“ tekur Jóhann Freyr fram og segir sýningargripina til dæmis handpússaða með Mjallarbóni.

Sjá www. motorhjolasafn.is 

gun@frettabladid.is
Fréttablaðið 15.07.2011

11.7.11

Á Mótorfáki Fráum

 Fjöldi kvenna stundar enduro-hjólamennsku og motocross. Sumar hjóla nokkrum sinnum í viku á sumrin og nokkrar keppa erlendis. Útiveran, spennan og félagsskapurinn eru á meðal þess sem heillar Teddu og Bryndísi Einarsdóttur

Maðurinn minn, Haukur Þorsteinsson, fór í mótorhjólasportið árið 2000, dró síðan börnin okkar, sem þá voru 9 og 10 ára, í þetta líka og lét líka öllum illum látum í mér,“ segir Tedda sem heitir fullu nafni Theodóra Björk Heimisdóttir.
   „Ég var frekar treg en prófaði þetta skíthrædd árið 2004 en mér fannst þetta skemmtilegt. Ég hef gaman af að taka áhættu; ég er svolítið ýkt í því sem ég geri. Ég veit ekkert skemmtilegra en að fara í erfiðan enduro-túr þar sem er blóð, sviti og tár og ég fæ ógeðslega mikið út úr því.
    Ógeðslega mikið út úr því.“ Tedda segir að það sem heilli sig við þetta sport sé frjálsræðið, útiveran og einfaldlega það að hjóla. „Adrenalínið flæðir, þessu fylgir samvera með fjölskyldunni, maður tekur á og þetta er skemmtilegt sport.“ 
   Hún segist hjóla fjórum til fimm sinnum í viku á sumrin. „Þetta er svo mikil áskorun. Ég þarf að hafa fyrir öllum framförum og tek hænuskref. Ég hjóla allan veturinn á meðan vinkonur mínar í sportinu hjóla lítið á þeim tíma. Ég er fegin að stelpurnar eru ekki að æfa mikið á veturna því þá næ ég að hanga pínu í þeim, þær eru allar svo miklu yngri en ég og þurfa ekki að hafa eins mikið fyrir því.“
    Hvers vegna að hjóla á veturna þegar fæstir gera það? „Ætli ég sé ekki hjólafíkill.

Í keppnisskapi

    Tedda segist hafa hjólað um þrisvar sinnum fyrsta árið og tók hún þátt í keppni í motocross í fyrsta skipti ári síðar. „Ég var langsíðust en ég var svo ánægð með að komast hringinn. Það var svo mikið afrek að meika það. Ég held ég hafi ekki sleppt neinni motocross-keppni síðan þá en um er að ræða sex til sjö keppnir á ári.“
   Hún byrjaði í enduro þremur árum síðar. Hún segir að það sé erfiðara heldur en motocross. „Enduro er svo krefjandi. Í motocross felst meðal annars að þora að stökkva yfir palla en ekkert mál að keyra bara yfir þá en í enduro er maður að brölta upp brekkur og fara yfir risagrjót, læki, drullupytti og mýri og maður kemst ekkert hjá því. Þetta eru mikil líkamleg átök.“
   Tedda hefur keppt í enduro og motocross-keppnum bæði hér á landi og í útlöndum svo sem í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð.
   „Ég er fyrsta amman sem keppi í motocross og enduro á Íslandi. Ég var líka fyrsta fertuga konan sem keppti á Íslandi og ég stefni á að vera fyrsta fimmtuga konan; sjáum til hvort það takist.“
    Tedda segist halda utan um stelpuhópinn í enduro og motocross. „Félagsskapurinn er svo mikið atriði fyrir mig. Ég hef séð um námskeið fyrir stelpurnar, er með árlegar enduroferðir og hef skipulagt hitting bæði í bænum og heima hjá mér. Ég vil endilega að fleiri stelpur kynnist þessu sporti hvort sem það er motocross eða enduro. Ég er búin að leyfa fullt af stelpum að prófa en svo er auðvitað undir viðkomandi komið hvort tími og aðstæður henti í þetta sport.
    Það er allavega algjör misskilningur að þetta sé bara strákasport, þetta er fyrir alla. Þetta er svo skemmtilegt. Við stelpurnar reynum að hjóla saman því að það er ekki það sama að hjóla með strákunum eða stelpunum; við erum ekki alveg á sama hraða og þeir. Þetta er svo yndislegur hópur.“
    Vélhjólaíþróttaklúbbur Reykjavíkur er með aðstöðu í Bolöldu og segir Tedda að þar sé bæði flott motocross-braut og enduro-braut og þar hjóli þær mikið. Eins er klúbburinn með flotta motocrossbraut í Álfsnesi.

Tedda 64

Tedda hefur ekki bara farið í hjólaferðir til útlanda til að keppa heldur líka eingöngu til að hjóla. „Ég fór einu sinni með níu strákum til Kaliforníu í enduro-ferð; ég skil ekkert í því að þeir skyldu leyfa mér að koma með. Það var æðislegt. Það var hjólað allan daginn og ég þurfti að hafa mig mikið við til að reyna að hanga í þeim því að strákar hjóla yfirleitt hraðar en stelpur en þeir voru voða góðir við mig.“
   Hún segir að eftirminnilegasta ferð hér á landi sé um 12 tíma ferð úr Mývatnssveit suður í Kistufell og til baka um Dyngjufjalladal sem þau hjónin fóru með vinafólki sínu. Hún segir að þau hafi þurft að fara yfir á og fólk hafi verið upptekið við að fylgjast með einum hjólamanninum sem ákvað að fara yfir á öðrum stað.
   „Ég hjólaði út í ána, var frekar klaufsk, stoppaði og þá fór hjólið að halla. Ég kallaði á mann sem stóð á móti mér hinum megin við ána en það var ekki séns að hann tæki eftir mér af því að hann var svo upptekinn af að horfa á gæjann í ánni þannig að ég missti hjólið niður. Það þurfti síðan að setja hjólið mitt á hvolf og tæma það en sem betur fer voru góðir mekkar með í för. Þetta var bara ævintýri. Í mínum huga gerði þetta ferðina bara skemmtilegri.“
   Tedda hefur oftar lent í vatni ef svo má að orði komast. Hún var einhverju sinni að keppa í motocrosskeppni. Hún hjólaði út úr brautinni og var í vandræðum með að komast upp á hana aftur. Fyrir framan hana var pollur og sá hún fyrir sér að hún gæti hjólað þar yfir og komist aftur upp á brautina. 
   „Ég settist á hjólið, gaf allt í botn og hjólaði út í vatnið sem var örlítið dýpra en ég bjóst við. Það náði mér upp í mitti. Til að kóróna það var þetta drulludý þannig að ég sökk dýpra í hvert skipti sem ég hreyfði mig. Mér fannst þetta mjög fyndið. Stelpurnar, sem voru að keppa, sáu mig en þær voru uppteknar í keppninni enda hvatti ég þær til að halda áfram. Mér var svo hjálpað þegar henni var lokið en þá hafði maðurinn minn fengið tilkynningu um að Tedda væri að drukkna. Það þurfti mannskap til að draga mig og hjólið upp því ég var pikkföst og það sást nánast ekkert í hjólið þegar björgunin barst.“
    Númerið á hjólinu: Tedda 64. Hún er líka merkt Tedda 64 í keppnum en hún fæddist árið 1964. „Ég telst nú vera frekar gömul í þessu sporti, var 39 ára þegar ég byrjaði að hjóla og er nú 46. Ég keppi við stelpur frá 15 ára og upp úr og það er meðal annars það skemmtilega við þetta sport að það skiptir ekki máli á hvaða aldri maður er.“
    Tedda segist elska það að vera úti. „Það er tvennt ólíkt að fara á bíl út í náttúruna eða á hjóli því maður er bara úti og fær einvern veginn allt í æð. Maður fer á aðra staði en ella en því fylgir mikið frelsi. Maður skynjar umhverfið allt öðruvísi.“
    Hvað er Ísland í huga Teddu? Hvað er íslensk náttúra í huga hennar? „Hún er æðisleg. Ég er búin að hjóla víða um heim og mér finnst Ísland vera einstakt. Náttúran hérna er svo fjölbreytileg.“

„Þetta er svo svakalegt“

„Ég átti heima í Svíþjóð þegar ég var lítil og þar rétt hjá var skemmtigarður þar sem voru lítil mótorhjól. Ég prófaði fyrst að hjóla þegar ég var sex ára og fór nokkra hringi. Frá því langaði mig í mótorhjól,“ segir Bryndís Einarsdóttir. Faðir hennar eignaðist mótorhjól og fór hún oft með honum á keppnir. Það leið ekki á löngu þar til hún fékk líka hjól en hún var þá 12 ára.
   Ári síðar varð Bryndís Íslandsmeistari í 85 kúbikka kvennaflokki þar sem eru stelpur á aldrinum 12– 15 ára og sama ár hélt hún til Spánar þar sem hún fór í æfingabúðir hjá tíföldum heimsmeistara í motocross; hún segist hafa eytt öllum fermingarpeningunum í ferðina. Bryndís hefur farið fjórum sinnum í þessar æfingabúðir en þar eru meðal annars nokkrir atvinnumenn í motocross sem keppa í heimsmeistarakeppninni. Hún er einn fárra unglinga sem fara í þessar æfingabúðir. Skipt er í tvo hópa. Hún var í „hægari hópnum“ í fyrstu þrjú skiptin en síðast var hún komin í „hraðari hópinn“
   „Það er allt annað að hjóla í útlöndum en á Íslandi. Brautirnar eru allt öðruvísi og umgjörðin allt önnur. Það er rosalega mikið grjót í brautunum á Íslandi miðað við úti.“

Þarf virkilega að æfa

Bryndís er 17 ára. Hún hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í motocross og tekið þátt í fjölda keppna í útlöndum svo sem heimsmeistarakeppnum.
    „12 ára er frekar gamalt til að byrja. Allar stelpurnar sem keppa á móti mér í heimsmeistarakeppninni byrjuðu í motocross þegar þær voru fjögurra til fimm ára. Maður þarf að vera 12 ára á Íslandi til að fá að keppa en maður þarf að vera 15 ára til að fá að keppa í heimsmeistarakeppninni.“
   „Adrenalínið fer allt í gang; ég get ekki lýst tilfinningunni. Þetta er svo svakalegt. Þetta er svolítið hættulegt og erfitt. Þetta snýst ekki bara um að sitja á hjólinu og gefa í; það þarf að æfa tæknina og stílinn, maður þarf að vera agressívur, halda einbeitingu, fara í ræktina, hlaupa og synda og ég hjóla líka á reiðhjóli. Það þarf að gera þetta allt til þess að ná upp þoli til að halda út þann tíma sem maður er að keppa.
   Fólk áttar sig kannski ekki á því hvað það þarf virkilega að æfa til þess að keppa í motocross. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og ég vil verða betri; ég vil virkilega leggja mig fram um að verða best. Markmiðið er sett á heimsmeistaratitilinn.“
    og batni eftir því sem hún hjóli hraðar. „Það þarf að læra samhengið á milli kúplingarinnar, gírkassans, þegar bremsað er, gefið í og stöðuna á hjólinu. Þetta spilar allt saman.“
    Hún talar líka um stílinn. „Ég er mjög slök; ég er mjög afslöppuð þegar ég er á hjólinu. Það lítur ekki út eins og það sé mjög erfitt að hjóla þegar ég hjóla. Maður nær þessu ef maður er slakur. Það fer allt í rugl ef maður er stífur.“
   Bryndís segir brautirnar vera ólíkar. „Það er hægt að fara í harðar brautir, það er hægt að fara í mjúkar brautir eins og moldarbrautir og svo er hægt að fara í sandbrautir. Það verður að keyra á ólíkan hátt eftir því hvernig brautirnar eru. Það getur verið sleipt í hörðu brautunum; það myndast ekki margar línur í beygjunum sem hægt er að fylgja og maður þarf að hugsa eins og maður sé að keyra á götu.
    Í mjúku brautunum verður að setja í réttan gír á hverjum stað, vera í réttri stöðu á hverjum stað og það þarf að bremsa á réttum stað. Það er yfirleitt sagt að sandbrautirnar séu erfiðastar. Svo eru mismunandi pallar á brautunum og beygjurnar geta verið ólíkar. Sumum hentar betur að vera með fleiri beygjur og sumum hentar betur að vera með fleiri stökkpalla. Mér finnst langskemmtilegast í sandinum en þar get ég gefið meira í.“

Keppir við stráka

Bryndís er í motocross af svo mikilli alvöru að í hittifyrra var hún í útlöndum vegna þess frá apríl þangað til í september. Faðir hennar fer með henni í þessar ferðir og það árið voru þau aðallega í Svíþjóð þar sem Bryndís keppti á sænska meistaramótinu.
    „Svo prófaði ég heimsmeistarakeppnina, þrjár keppnir af sex sem voru haldnar í Þýskalandi, Svíþjóð og Hollandi. Ég vildi taka lítil skref í einu og athuga fyrst hvernig þetta myndi ganga. Besti árangurinn var í Hollandi en ég lenti í 16. sæti af 40 keppendum.
   ppendum. Bryndís var í fyrra í Belgíu frá byrjun mars og kom ekki heim fyrr en í lok september. Faðir hennar fór heim í einn mánuð og þá fór móðir hennar út. Í fyrra keppti Bryndís í Hollandi, Þýskalandi og í heimsmeistarakeppninni sem var haldin í Búlgaríu, Portúgal, Spáni, Frakklandi, Þýskalandi, Tékklandi og Ítalíu. Ákveðið var að Bryndís keppti mest á Íslandi í ár. Þess má geta að hún hefur verið í fjarnámi á framhaldsskólastigi undanfarin ár.
   „Ég vann Íslandsmeistaratitla 2007 og 2008. Ég hefði getað verið á Íslandi og keppt um Íslandsmeistaratitilinn 2009 og 2010 en mig langaði í meiri reynslu. Mig langaði að fá meiri æfingu út úr þessu. Ég keppi til dæmis núna með strákunum. Þeir eru ekkert rosalega sáttir að ég sé að keppa við þá; þeir vilja ekki tapa fyrir stelpu. Mér finnst skemmtilegra að keppa á móti strákum; maður verður aggressívari og í raun sterkari.“

Verður glöð

   Verður glöð Bryndís sagði að motocross væri svolítið hættulegt og hefur hún fengið að kenna nokkrum sinnum á því og hafa nokkur óhappanna haldið henni frá æfingum. „Ef læknirinn segir að það taki tvær vikur að jafna mig þá eru það tvær vikur og þá er það búið. Þá fer ég til sjúkraþjálfara og vinn í því að styrkja mig.“ Bryndísi finnst hjólamennskan þess virði þrátt fyrir óhöpp. „Þetta er skemmtilegt og áhugavert. Þetta er allt. Allt sem maður getur beðið um.“
    Hún segir nauðsynlegt að foreldrar styðji krakka sem eru í þessu sporti. „Það er ekki hægt að keyra krakka út á braut og skilja þá þar eftir með bensínbrúsa og fara svo. Maður þarf að hafa einhvern með sér sem styður mann og hjálpar eins og foreldrar mínir eru búnir að gera.“ 
    Bryndís er tilbúin til að fórna miklu til að geta stundað motocross. Þetta er tímafrek íþrótt og það getur tekið nokkra klukkutíma að fara að hjóla í hvert skipti; komast á staðinn, hjóla, fara heim og svo þarf að þrífa hjólið.
   „Ég verð glöð þegar ég fer að hjóla. Þetta er það sem ég elska.“

 Svava Jónsdóttir
DV 11.07.2011




8.7.11

Dagskrá Hjóladaga 2011

Fimmtudagur 14. júlí
Hittst á Ráðhústorgi kl 19:30. Hópakstur þaðan sem endar á Mótorhjólasafni Íslands. Hjóladagar 2011 settir. Vöfflur og lifandi tónlist.

Föstudagur 15. júlí
Hittst á Ráðhústorgi kl 12:30. Hópakstur í Ystafell þar sem samgönguminjasafnið verður skoðað.
Hjólaspyrna á svæði Bílaklúbbs Akureyrar þar sem keppt verður í mörgum flokkum, s.s. sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum, vespum, o.fl. Dagskráin hefst kl 18:00 á svæði Bílaklúbbsins. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á ba@ba.is, en skráningu líkur miðvikudaginn 13. Júlí kl 23:59. Það sem fram þarf að koma er nafn ökumanns, tegund hjóls, flokkur og upplýsingar um akstursíþróttafélag. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.ba.is

Laugardagur 16. júlí
Dagskrá hefst á Ráðhústorgi kl 13:00. Þar mun fara fram keppni í þrautabraut á hjólum, pylsuát, o.fl. Markaðstorg verður á staðnum þar sem fjöldi aðila verða með mótorhjólatengdar vörur til sölu og kynnis. Swap-meet verður einnig á staðnum og hvetjum við fólk til að taka til í skúrnum hjá sér og mæta með dót sem það þarf að losna við. Umsjónaraðili verður með swap-meet og fólk þarf því aðeins að mæta með vöruna og verðhugmynd og mun umsjónaraðilinn sjá um að selja vöruna 
Um kvöldið verður síðan slegið upp heljarinnar veislu í Sjallanum þar sem svangir gestir hjóladaga geta gætt sér á grilluðum kræsingum. Þar verður einnig verðlaun afhent fyrir hjólaspyrnuna og Hjóladögum 2011 síðan formlega slitið. Hljómsveitin Sniglabandið mun síðan halda uppi stemningu fram á rauða nótt. Verð í matinn með dansleik er 5000 kall. Húsið opnar fyrir matargesti kl 20:00 en fyrir dansþyrsta ballgesti opnar á miðnætti.

7.7.11

Hetja sem ríður um héruð 2011


Njáll ökukennari við nýju Triumph hjólin sem mótorhjólaleigan
hans Biking Viking var að fá.

Njáll Gunnlaugsson skrifar bækur og kennir á vélhjól

Upphaflega fór ég í ökukennsluna til að kenna á mótorhjól en í dag kenni ég líka á fólksbíla,“ segir Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og bifhjólamaður. Árið 1998 byrjaði Njáll að kenna á mótorhjól og hefur sinnt því í þrettán ár. Áhugi hans á mótorhjólum hófst snemma á unglingsárunum. „Mótorhjólaáhuginn byrjaði með skellinöðru og svo kaupi ég fyrsta götuhjólið mitt tvítugur og þá var ekki aftur snúið. Fyrst var ég að leika mér á Honda MB og MT sem ég fékk hjá vinum mínum á unglingsárunum og síðan þróaðist þetta út í götuhjólin.“ Njáll segir að frá því hann fékk sér sitt fyrsta
hjól hafi hann alltaf átt mótorhjól. „Ég keypti mér í vetur fyrsta hjólið sem ég átti og ætla að gera það upp á næstu mánuðum en það er kawasaki GPz 550 Þá fjárfesti ég líka í Honda MB svona til gamans og til að rifja upp gamla og góða tíma. Það hjól er nú komið til systursonar míns sem er að taka sínu fyrstu skref á mótorhjóli“

BMW í uppáhaldi

„Ætli það séu ekki að verða 30 til 40 hjól sem ég hef átt yfir ævina. Við hjónin eigum í dag 12 hjól og síðan rek ég mótorhjólaleigu og er með kennsluhjól þar að auki,“ segir Njáll og bætir við að BMW-hjól séu í miklu uppáhaldi hjá sér. „Ég er búinn að eiga og á nokkur BMW-hjól og hef gaman af þeim. Þeir kunna að smíða skemmtileg og flott mótorhjól og þau eru oft hátæknivædd með  skemmtilegum nýjungum.“ Gífurleg aukning á sölu mótorhjóla var um miðjan síðasta áratug í uppsveiflunni en eftir hrun hefur sala á hjólum dregist verulega saman. „Þegar mest var í  uppsveiflunni voru flutt inn nærri 1.500 hjól á ári en í fyrra voru flutt inn 150 hjól. Nýliðun er því minni í dag,“ segir Njáll sem bætir við að mikil sprenging hafi verið í sölu á rafmagnsvespum og augljóst að fólk sé að leita að ódýru farartæki til að komast á milli staða. „Rafmagnsvespurnar eru flokkaðar í sama flokk og reiðhjól ef þær komast ekki yfir 25 km á klukkustund. Menn hafa ekki gert ráð fyrir þessu og það vantar reglur um þetta og jafnvel stíga og annað, bæði fyrir hjól og vespur. Þetta er viðvarandi vandamál á Íslandi í dag. Sá fjöldi sem nú er kominn á rafmagnsvespu getur þó
seinna meir skilað sér á götuhjólin og þannig stækkað flóruna og aukið nýliðun í mótorhjólaheiminum.“


Með mótorhjólið í forgangi

Þó Njáll kenni hvoru tveggja á mótorhjól og fólksbíl er ekki hægt að segja annað en að hann hafi mótorhjólið í forgangi. Þau eiga hug hans allan. „Ég hef lengi safnað gömlum myndum af
mótorhjólum og svo vatt þetta upp á sig og endaði á því að ég gaf út bók um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi,“ segir Njáll sem seldi Mótorhjólasafni Íslands upplag af bókinni vel
undir kostnaðarverði til að styrkja byggingu safnsins á Akureyri. „Ég þekkti vel til Heidda, sem safnið er meðal annars reist til minningar um og Jóa, sem rekur safnið. Mér fannst því rétt að styrkja safnið með þessum hætti.“ Bókin, sem heitir Þá riðu hetjur um héruð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi, er til sölu hjá Mótorhjólasafni Íslands og er skemmtilegt ágrip um sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Ímyndin um hörkutólið 

Það loðir oft við mótorhjólin ímyndin af uppreisnarseggjum í leðurjökkum að þeysast um götur borgarinnar á ógnarhraða. „Það er svo mikil gróska í mótorhjólamenningunni í dag. Það eru allir á mótorhjóli, hvort sem það er ráðherra eða ruslakall. Þegar það eru svona margir á mótorhjólum þá eru alltaf til einhverjir sem vilja greina sig frá fjöldanum, hvort sem fólk gerir það með hjólunum eða klúbbnum sem það er í. Þannig er nú bara mannlífið,“ segir Njáll sem telur að hluti af  ýmyndarvandanum sé ekki síst umfjöllun í fjölmiðlum sem einblíni oftar á slæmu hlutina. Njáll segir vélhjólamenn almennt vera meðvitaða um umferðaröryggi, hvort sem það snýr að þeim sjálfum eða öðrum. „Við í Sniglunum förum á hverju vori út á göturnar til að minna fólk á mótorhjólin á vegunum
og auðvitað líka til að bæta ímyndina.Við keyrum umferðarátak á hverju ári og erum til að mynda í góðu samstarfi við vegagerðina um betra vegumhverfi fyrir mótorhjólafólk, en árangur þessa samstarfs má sjá með tilraunavegriðum á Hafnarfjarðarveginum og mun sjást enn frekar í framtíðinni.“
vilhjalmur@mbl.is
Morgunblaðið
7.7.2011

Eiga hátt í Hundrað Mótorhjól

Lesa greinina HQ PDF