29.4.10

Krefjandi keppni


Sniglarnir halda keppni í hjólafimi í fjórða sinn í ár. Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og í umferðarnefnd Sniglanna, segir keppnina vera bæði skemmtilega og krefjandi.
„Allir sem eru með mótorhjólapróf geta tekið þátt,“ segir Njáll. „En fyrstir koma, fyrstir fá.“ Pláss er fyrir um 25 manns í keppninni, en enn sem komið er hafa einungis konur skráð sig. „Karlarnir eru yfirleitt seinni til, en þeir tínast inn smám saman,“ segir hann. Keppnin í hjólafiminni snýst meðal annars um grein sem er kölluð snigl.
Hún snýst ekki um að keppa við klukkuna heldur færni
og tækni á mótorhjóli. „Þeim mun meiri tíma sem þú færð í sniglinu, þeim mun fleiri stig færðu,“ segir Njáll. „Þetta snýst um að keyra 10 metra vegalengd á sem lengstum tíma án þess að setja fæturna niður. Allt yfir hálfa mínútu er nokkuð gott.“ Íslandsmetið í Snigli er 1 mínúta og 15 sekúndur, en það er 16 metra vegalengd. Keppt verður í öðrum greinum þar sem úrslitin ráðast á tíma og tækni, en refsistig verða gefin fyrir villur í brautinni. Keppt verður á Suzuki 125 Vanvan-hjóli. „Það er létt og gott hjól til þess að tryggja jafnræði í keppninni,“ segir Njáll. „En það verða áhorfendur og kannski er aðalhindrunin fyrir keppendurna að láta ljós sitt skína fyrir framan annað fólk.“ 

Steypuhrærivél aftur að mótorhjóli



Í litlum bílskúr við Háaleitisbrautina hefur Grímur Jónsson vélsmiður unnið við að gera upp afar fágætt mótorhjól síðustu misserin.

Hjólið er af gerðinni Henderson, sem er amerískt hjól framleitt á árunum 1912-1931. Hendersonhjólin voru með 4ra strokka toppventlavél og þóttu fullkomin á sinni tíð. Þessi gerð hjólsins var smíðuð stuttu eftir að Ignaz Schwinn keypti Henderson-fyrirtækið 1917. Hjólin voru framleidd í Detroit til að byrja með en Schwinn flutti framleiðsluna til Chicago. Þar voru þau framleidd ásamt Excelsior-mótorhjólunum þar til Schwinn hætti framleiðslu mótorhjóla 1931. Hönnuður hjólsins, William Henderson, hélt reyndar áfram  framleiðslu 4ra strokka mótorhjóls
undir merkinu ACE sem var keypt af Indian.

UMBOÐIÐ Á AKUREYRI

Ingólfur Esphólín flutti hjólið til landsins en hann bjó á Akureyri. Hvort hjól Gríms sé árgerð 1918
eða 1919 er erfitt að segja með vissu. Hjólið er með bókstafinn Z í verksmiðjunúmeri sem segir að það sé 1919-árgerð en Espholin Co. byrjaði að auglýsa mótor-reiðhjól 11. október 1918 í blaðinu Íslendingi. Hið rauða „X“ er í merkinu á hjólinu, en það var á DeLuxe-útgáfunni árið 1918.
Líklegt má telja að aðeins eitt Henderson-hjól hafi ratað til landsins. Það bar fyrst númerið RE-408 þegar það var í eigu Sigurðar I. Hannessonar í Ánanaustum á árunum fyrir seinna stríð en fékk númerið R-1103 árið 1937. Hjólið er svo afskráð 12. september 1938 eftir tveggja áratuga notkun.

FANNST Á BROTAJÁRNSHAUG

Grímur frétti fyrst af hjólinu þegar honum var sagt frá mótor sem líklega væri af mótorhjóli og stóð í  vélsmiðju Héðins í Reykjavík. Þetta var árið 1963. Þannig komst hann á sporið og eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að grindin og fleira úr hjólinu var enn í gömlum brotajárnshaug í Ánanaustum. Vélin hafði verið tekin úr hjólinu á uppgangsárum seinni heimsstyrjaldarinnar til að nota í steypuhrærivél. Hún hafði svo brætt úr einum stimpli og aldrei farið í hjólið aftur. Grímur byrjaði  á uppgerðinni fyrir næstum tveimur áratugum og smíðaði þá stimpla í hjólið. Þá þurfti að steypa aftur þar sem þeir fyrri voru alsettir eitlum vegna of lítils kolefnis í steypunni. Endurgerð hjólsins hófst svo ekki fyrir alvöru fyrr en 2007. Grímur keypti annan Henderson-mótor nánast sömu gerðar úr flugvél og notaði meðal annars stimpilstangir úr honum. Grímur sá hins vegar sjálfur um að smíða ventlastýringar, stimpla, stimpilhringi, stimpilbolta, ventlagorma og ýmsar fóðringar í gömlum rennibekk í skúrnum hjá sér. Einnig rétti hann af grindina og smíðaði smáhluti í hjólið og ryðbætti bretti og fleira. Þurfti Grímur að leita víða áður en hann fékk rétt hnoð í brettin en þau fundust í gamalli skúffu í Blikksmiðju Reykjavíkur

Í GANG EFTIR 70 ÁR

Þótt Grímur hafi endursmíðað stóran hluta hjólsins sjálfur aðstoðaði Kristinn Sigurðsson hann við að finna hluti sem margir komu að utan. Gjarðir í hjólið komu frá Bandaríkjunum sem og rafkerfi en gúmmí í handföng og fótborð frá Kanada. Í Póllandi fannst sérfræðingur í gerð hnakka fyrir þessar gerðir mótorhjóla og olíuþykktarmælirinn kom alla leið frá Ástralíu. Grímur fékk aðstoð völundar að nafni Guðni Ingimundarson við að magna upp magnetuna í hjólinu og stilla hana ásamt blöndungi fyrir gangsetningu. Guðni er ekki óvanur endursmíði gamalla véla enda hefur hann gert upp margar bátavélar frá fyrri tíð. Loks var hjólið sprautað hjá Sigurði í Bílsetrinu í Mosfellsbæ. 
Fyrsta púst vélarinnar var á gólfinu í skúrnum við Háaleitisbrautina en fyrir rúmum þremur vikum var mótorinn prufukeyrður og stilltur fyrir suður í Garði og hafði þá ekki verið gangsettur í sjö áratugi. Henderson-hjólið er nánast fullgert þótt enn sé eftir að smíða og laga fáeina hluti. Það verður frumsýnt almenningi á Burnout-sýningunni í Kauptúni um komandi helgi.
NG.
Fréttablaðið 29.04.2010

4.4.10

Bandarískt sporthjól?

ÞEGAR flestir hugsa um mótorhjól og Bandaríkin þá kemur
Harley Davidson fyrst í hugann enda sennilega frægasta mótorhjólategund í heimi.

Og við Harley Davidson tengir maður yfirleitt ekkert annað en þung og stór mótorhjól sem ætluð
eru til rólegheitaaksturs á góðviðrisdögum. Það kemur því á óvart að sjá bandarískt sporthjól í ætt við Ducati-hjólin frægu en það er engu að síður raunin hjá Roehr-fyrirtækinu en þar hefur verið hannað sporthjól sem hefur fengið heitið V-roehr, með vél úr Harley Davidson V-rod, og