28.8.09

Regn­hlíf­ar­sam­tök mótor­hjóla­fólks

Gríðarleg fjölg­un mótor­hjóla á Íslandi hef­ur orðið til þess að mótor­hjól, sem sport og tóm­stund­argam­an hef­ur aldrei notið eins mik­illa vin­sælda og nú.

Hingað til hafa verið starf­rækt­ir marg­ir sjálf­stæðir mótor­hjóla­klúbb­ar á land­inu en nú hafa verið stofnuð sér­stök regn­hlíf­ar­sam­tök fyr­ir mótor­hjóla­klúbb­ana sem fengið hafa hið viðeig­andi heiti LÍM. Skamm­stöf­un­in stend­ur fyr­ir Lands­sam­band ís­lenskra mótor­hjóla­klúbba og er sam­tök­un­um ætlað að vera sam­ráðsvett­vang­ur mótor­hjóla­klúbba á Íslandi og vinna að hags­muna­mál­um bif­hjóla­manna.

Sam­tök­in voru stofnuð sum­ar­dag­inn fyrsta og mun áhersl­an verða lögð á vett­vang fyr­ir skoðana­skipti mótor­hjóla­fólks al­mennt. Hall­grím­ur Ólafs­son (Halli) er talsmaður LÍM en hann seg­ir að mikið verði lagt upp úr að klúbb­arn­ir haldi ein­kenn­um sín­um enda séu sam­tök­in ekki eig­in­leg­ur klúbb­ur held­ur vett­vang­ur þar sem hjóla­fólk, sem mjög vax­andi hóp­ur, geta fengið stuðning við þau mál­efni sem þau berj­ast fyr­ir s.s. ör­yggi mótor­hjóla­manna. „Það má segja að um eins kon­ar hring­borð sé að ræða þar sem all­ir klúbb­ar lands­ins geta sent einn for­svars­mann með sitt at­kvæði," seg­ir Halli.

Í dag mun LÍM svo stefna mótor­hjóla­fólki niður í miðbæ Reykja­vík­ur, rétt­ara sagt á Ing­ólf­s­torg klukk­an 19, þar sem sam­tök­in og merki fé­lags­ins verða kynnt. Eft­ir stutta kynn­ingu munu verða haldn­ir tón­leik­ar þar sem hljóm­sveit­ir sem á ein­hvern hátt tengj­ast mótor­hjóla­dell­unni munu spila. Þar munu koma fram Storm­ur í aðsigi, Chernobil, Þrusk og Snigla­bandið. Heimasíðan er www.lim.is


28.8.2009 mbl

15.8.09

Mótorhjólabændur á kartöfluslóðum


Þá sem aka um friðsælar sveitir Þykkvabæjar grunar  væntanlega fæsta að innan um kartöflugrös og slegin tún leynist mótorhjólasafn framtíðarinnar

Mótorhjólabóndinn Dagrún Jónsdóttir á Oddsparti vinnur hörðum höndum að því að láta þann draum rætast og segir kartöflubændur jákvæða. „Þeir hafa komið mér verulega á óvart,“ segir hún. „Þeir eru ægilega hrifnir af þessu öllu saman.“
 Um þrjú ár eru liðin frá því að Dagrún keypti Oddspart í félagi við Einar Ragnarsson og bróður sinn Níels Jónsson, sem síðan hefur dregið sig út úr  framkvæmdunum. Dagrún segir drauminn um mótorhjólasafn hafa blundað með sér lengi. „Ég var búin að leita að rétta staðnum í tvö ár og var við það að gefast upp. Enda búin að fara langt norður í Skagafjörð og austur á Kirkjubæjarklaustur í leit að rétta húsnæðinu. Ég frétti síðan að þessi staður væri kominn í sölu kvöldið áður en ég var á leið til Bandaríkjanna um óákveðinn tíma. Ég lét því mömmu hafa umboð, treysti á þá Einar og Níels og keypti húsið óséð.“

 Múrar bæði og flísaleggur

Ófáar vinnustundir hafa síðan farið í að koma íbúðarhúsi og verkstæði í gott horf. Dagrún vílar sér heldur ekki við að gera hlutina sjálf. Þannig múraði hún t.d. og flísalagði verkstæðið sem var heldur hrörlegt. Þá hefur eitt af túnunum verið sléttað og gert að tjaldstæði fyrir mótorhjólamót, hlöðnu  eldstæði komið fyrir og útiklósetti. Mótorhjólamótin eru líka orðin nokkuð mörg og fjölmennust var
efalítið samkoma Harley Davidson Club Iceland-félagsins. Þá hittust um 200 manns á Oddsparti og var glatt á hjalla. 
Gamall braggi hefur sömuleiðis fengið nýtt hlutverk sem samkomusalur. „Ég nota hann sem gróðurhús á milli þess sem hér eru haldin mótorhjólamót,“ segir hún um braggann sem 
fengið hefur nafnið Odd Saloon. Nafnið er annars vegar vísun í nafn bæjarins, Oddspartur, „og svo  þess að hann er mjög „odd“ [e. skrýtinn] af því að það fæst ekkert á barnum.“ Eftir er svo að taka fjárhúsið og hlöðuna í gegn, en þar verður mótorhjólasafnið og kaffistofa til húsa.

 Stoltið fannst í Reykhólasveit

 Á verkstæðinu bíða nú 30 mótorhjól þess að safnið verði að veruleika. Hjólin, sem eru í misgóðu ásigkomulagi, eru öll í eigu þeirra Dagrúnar og Einars og sjá þau alfarið um að gera þau upp. 
Áhugi Einars beinist mikið að gömlum japönskum mótorhjólum og á hann nú nokkur fyrstu japönsku hjólin sem til Íslands komu. Dagrún beinir athyglinni meira að Harley Davidson-hjólum, þó hún aki hversdags um á bresku Triumph-hjóli með áföstum hliðarvagni.
 Stolt safnsins er hins vegar Harley Davidson-hjól frá 1931. „Þessi Harley er búinn að vera hér nánast frá upphafi,“ segir Dagrún. „Hilmar Lúthersson fann hjólið í Reykhólasveit snemma á tíunda áratugnum og þá var búið að saga grindina og átti að fara að búa til þríhjól úr henni. Mótorinn var síðan notaður sem vatnsdæla.“ Með aðstoð Íslendings í Danmörku hóf Hilmar að kaupa varahluti í hjólið. Það rataði síðan í hendur Þrastar Víðissonar sem gerði við mótorinn og blöndunginn. Dagrún fékk hjólið svo í kössum, tilbúið  til að setja saman. „Og þá hófst hausverkurinn við að koma því saman,“ segir Dagrún og bætir við:
„Það eru aðeins örfá stykki í hjólinu núna sem ekki eru upprunaleg fyrir hjól af þessari gerð.“ 
Mótorhjól hafa sett sterkan svip á líf Dagrúnar frá 1991.
 Fyrsta hjólið sem hún eignaðist var Suzuki Savage, en fyrsti Harleyinn rataði í hennar hendur 1995 og því fylgdu viðgerðir. „Þá byrjaði ég að skrúfa,“ segir Dagrún sem er sjálflærð í hjólaviðgerðum og þykir það lítið tiltökumál. „Þegar ég byrja að vinna í hjólunum þá veit ég alveg hvernig allt á að snúa, en svo er ég fljót að gleyma ef langt líður á milli.“ 
Hún hefur líka m.a. gert upp gömul Harley Davidson-hjól frá lögreglunni og selt. „Harleyinn er þannig að það er endalaust hægt að gera hann upp,“ segir Dagrún og bætir við að netið hafi bætt svo aðgengi að varahlutum að alls ekki eigi að henda gömlum móturhjólum. Þeir fá líka skömm í hattinn sem gera slíkt, enda hafa mörg hjólin ratað í hendur þeirra Dagrúnar og Einars í gegnum vini og kunningja. 
Þetta framtíðarsafn nýtur líka mikils stuðnings meðal mótorhjólafólks og ekki ólíklegt að það eigi eftir að fjölga ferðamönnum í Þykkvabænum er fram líða stundir.
Morgunblaðið 2009
15.8.2009