Gríðarleg fjölgun mótorhjóla á Íslandi hefur orðið til þess að mótorhjól, sem sport og tómstundargaman hefur aldrei notið eins mikilla vinsælda og nú.
Hingað til hafa verið starfræktir margir sjálfstæðir mótorhjólaklúbbar á landinu en nú hafa verið stofnuð sérstök regnhlífarsamtök fyrir mótorhjólaklúbbana sem fengið hafa hið viðeigandi heiti LÍM. Skammstöfunin stendur fyrir Landssamband íslenskra mótorhjólaklúbba og er samtökunum ætlað að vera samráðsvettvangur mótorhjólaklúbba á Íslandi og vinna að hagsmunamálum bifhjólamanna.Samtökin voru stofnuð sumardaginn fyrsta og mun áherslan verða lögð á vettvang fyrir skoðanaskipti mótorhjólafólks almennt. Hallgrímur Ólafsson (Halli) er talsmaður LÍM en hann segir að mikið verði lagt upp úr að klúbbarnir haldi einkennum sínum enda séu samtökin ekki eiginlegur klúbbur heldur vettvangur þar sem hjólafólk, sem mjög vaxandi hópur, geta fengið stuðning við þau málefni sem þau berjast fyrir s.s. öryggi mótorhjólamanna. „Það má segja að um eins konar hringborð sé að ræða þar sem allir klúbbar landsins geta sent einn forsvarsmann með sitt atkvæði," segir Halli.
Í dag mun LÍM svo stefna mótorhjólafólki niður í miðbæ Reykjavíkur, réttara sagt á Ingólfstorg klukkan 19, þar sem samtökin og merki félagsins verða kynnt. Eftir stutta kynningu munu verða haldnir tónleikar þar sem hljómsveitir sem á einhvern hátt tengjast mótorhjóladellunni munu spila. Þar munu koma fram Stormur í aðsigi, Chernobil, Þrusk og Sniglabandið. Heimasíðan er www.lim.is
28.8.2009 mbl