21.6.05

Haldið upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Sauðárkróki

Birgir Örn Birgisson
í Brautinni

Á milli 1000-1500 manns í afmælinu

Afhjúpun minnismerkisins var tvímælalaust hápunkur hátíðarinnar," sagði Helga Eyjólfsdóttir, einn skipuleggjenda afmælishátíðarinnar.
Helga var jafnframt eini kvenkyns keppandinn í vélhjólakeppnunum helgarinnar.



Veðursins vegna voru þátttakendur eitthvað færri en vonir stóðu til, en þó er áætlað að á bilinu 1200-1500 manns hafi verið á svæðinu þegar mest var. 

Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið hliðhollir hjólafólkinu skemmti bæði það og aðrir áhugasamir áhorfendur sér vel við að fylgjast með hinum ýmsu vélhjóla keppnum sem fram fóru

víðsvegar um bæinn á laugardeginum. Að mati Helgu stóð afhjúpun minnismerkisins í Varmahlíð á sunnudeginum uppúr öllum dagskrárliðum á hátíðinni, enda tilfinningaþrungin stund fyrir marga,
sérstaklega þá sem hafa misst einhverja nákomna sér í bifhjólaslysum.

Að veðrinu undanskildu voru forsvarsmenn hátíðarinnar mjög ánægðir með hvernig til tókst og höfðu á orði hversu vel hafi verið tekið á móti þeim. Vildu þeir koma á framfæri þökkum til bæði

sveitarstjórnarinnar fyrir framúrskarandi góðar undirtektir og aðstoð við undirbúning hátíðarinnar, þeirra fyrirtækja sem styrktu þá með ýmsum hætti og þá ekki síður til íbúa Skagafjarðar fyrir að taka svo fordómalaust á móti þeim sem raun varð á.





_____________________________________________________________________

Skrúðkeyrsla mótorhjóla vaktitalsverða athygli.

Óhætt er að segja að hestöfl hafi settsvip sinn á þjóðhátíðardagskrá Norðvestlinga þetta árið.  Á Sauðaárkróki tóku vélhjólamenn allsstaðar af landinu virkan þátt í hátíðardagskránni en hún hófst á miklum skrúðakstri vélhjóla af öllum stærðumog gerðum í gegnum bæinn.


Á flæðunum var síðan hefðbundin hátíðardagskrá og skemmtiatriði. Var þar skátatívólí og teimt var undir börnum á eins hestafls ferfættum gæðingum.  Fór llt vel fram þrátt fyrir að veðurguðirnir hefðu mátt vera Skagfirðingum hliðhollari.





Helga Eyjólfsdóttir
og eini kvennkeppandinn

 Feykir 2005







18.6.05

Frábært fjölskyldusport

Inda Björk Alexandersdóttir

Inda Björk Alexandersdóttir var að fá sér nýtt mótorhjól. Hún fékk delluna fyrir þrettán árum og eftir það varð ekki aftur snúið.

„Fyrrverandi sambýlismaður minn átti hjól og ég smitaðist af bakteríunni,“ segir Inda. „Ég var ekki einu sinni með próf þegar áhuginn vaknaði, en ég dreif mig að taka prófið um leið og ég mátti. Þetta er þess eðlis að maður verður auðveldlega húkkaður.“
Fyrsta hjólið sem Inda eignaðist var 100 Kawasaki, árgerð ‘78. „Það var ágætis græja, en þetta sem ég var að fá núna er meiriháttar. Þetta er Triumph Speedmaster, rosalega hippo. Ekki hippalegt,“ útskýrir hún, „meira svona króm. Hippahjólin voru gömlu Goldwingarnir sem voru eins og hálfgerð sófasett.“
  Inda pantaði hjólið upp úr bæklingi og var jafnvel örlítið smeyk um að það væri ekki nógu stórt. „Félagi minn er kominn  með Triumph-umboðið á Íslandi sem er nú virkt á Íslandi í fyrsta skipti í 25 ár. Nú þegar ég er búin að fá það og prófa það er ég alsæl.“
  Inda segist ekki beint geta skilgreint hvað það er sem er svona skemmtilegt við mótorhjólasportið. „Það er bara allt. Maður kemst í beina snertingu við náttúruna þegar maður er á ferð um landið og það er svo gott að vera einn með sjálfum sér. Þetta er bara svo ólýsanlega gaman.“
  Inda á þrjú börn, ellefu ára , fimm ára og eins árs og þessi ellefu ára mjög áhugasamur. „Þetta er sport sem hentar fjölskyldufólki og nú erum við til dæmis á leið á fjölskylduhátíð á Siglufirði með Sniglunum.“
  Inda segir enn örla á fordómum gagnvart mótorhjólafólki og segir brýnt að það breytist. „Það er ekki auðvelt að vera á mótorhjóli í umferðinni, aðallega vegna tillitsleysis og frekju þerra sem eru á bíl. Þetta verður að laga og það gerist ekki nema með áróðri og meiri skilningi.“
Fréttablaðið 18.06.2005

10.6.05

Hliðarvagninn tekur í

Akureyri 

Kraftakarlinn Torfi Ólafsson er mikill áhugamaður um mótorhjól, enda einn af stofnendum Sniglanna og með félagsnúmer 54. Hann fjárfesti nýlega í mótorhjóli frá Bandaríkjunum en um er að ræða 40 ára afmælisútgáfu af Hondu Goldwing 1500, árgerð 1989. Hjólið er með hliðarvagni og vegur alls um 630 kg fyrir utan ökumann „en er mun þyngra með ökumanni,“ eins og Torfi orðaði það sjálfur. Hann sagði að mun erfiðara væri að aka þessu hjóli, þar sem hliðarvagninn tæki hraustlega í en hann hefur þó verið að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum á rúntinn. Hann stefnir svo í lengri ferðir þegar hann hefur náð betri tökum á ökutækinu. Torfi ætlaði upphaflega að kaupa stakan hliðarvagn, þar sem hann á annað mótorhjól, Hondu Goldwing 1200, sem einnig er afmælisútgáfa frá fyrirtækinu. Vagninn einn og sér var hins vegar það dýr að Torfa þótti hagkvæmara að kaupa hjól með vagni.
Morgunblaðið 10.06.2005

8.6.05

Íþrótt allra tómstundahópa


 Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi og forstjóri JHM sport, segir geysilega aukningu hafa verið í hópi þeirra er stunda torfæruakstur á bifhjólum á íslandi. „Ég hugsa að á síðustu þremur árum hafi  hópurinn þre- eða fjór-faldast," segir Jón, en hann telur fjöldann vera á bilinu 1500-2.000 manns.



„Þessi íþrótt höfðar til allra; forstjóra, lögfræðinga og verkamanna, í öllum aldurshópum og af báðum kynjum." JHM sport selur torfæruhjól fyrir börn og fullorðna. Þar fæst t.d. lítið hjól fyrir krakka á aldrinum 4-5 ára sem eru byrjaðir að geta hjólað án hjálpardekkja. Hjólið er eins gíra og getur að hámarki verið ekið á 25 km á klukkustund. Einnig fást mótorkross eða enduro- hjól fyrir krakka sem eru ögn stærri. Jón telur þó skynsamlegast að byrja í sportinu á klifurhjólum. Þeim er hægt að aka yfir nánast hvaða hindrun sem er en slíkur hindrunarakstur verður sífellt vinsælli keppnisíþrótt á meginlandi Evrópu og víða annars staðar.

Torfæruskellinöðrurnar fyrir yngri aldurshópinn eru mjög vel útbúnar. Þær hafa sama útlit og stóru hjólin, eins bretti, tankhlífar, hliðarhlífar, sæti og aukabúnað. Þannig lítur 50 kúbika hjól nánast eins út og 300 kúbika. Öll enduro-hjólin eru skráð götuhjól svo þeim má aka hvar sem er.
„Þetta leysir allan bílastæðavanda í Reykjavík," segir Jón, hreykinn yfir lítilli innanbæjarskellinöðru. „Segjum að fólk fái sér svona græju og aki niður í bæ til vinnu. Þá sparast gríðar legt bílastæðapláss. Fimm svona hjól komast hæglega í hvert bílastæði. Hjólið kostar 238.000, er 50 kúbik og eyðir um þremur lítrum á hundraðið. Það er blátt númer á þessu þannig að hver sem er, sem er með bílpróf, má aka því án sérstaks mótorhjólaprófs. Fólk upplifir hlutina svolítið á annan hátt með þessum ferðamáta.     

Blaðið 8.6.2005
TM125 Hjólið sem er í úrvalsflokki þeirra
torfæruhjóla sem fást á landinu.

3.6.05

Eins og sex malandi kettlingar

 
Sumir halda því fram að til séu tvær tegundir bifhjólamanna, þeir sem hafa unun af því að þenja tæki sín til hins ýtrasta og svo hinir sem leggja meira upp úr útlitinuog finnst mest um vert að vita af því að horft sé á þá öfundaraugum. Skúli Gautason hefur velt þessu fyrir sér en ætlar ekki að leggja dóm á það hér hvor greinin er æðri. Víst er um það að hjólið sem hér er fjallað um sameinar báðar fylkingarnar. 


Gullfallegt hjól sem varð fyrsta fjöldaframleidda hjólið til að fara kvartmíluna undir 12 sekúndum.
Honda var í tilvistarkreppu á seinni hluta áttunda áratugarins. Keppinautarnir voru komnir með ný og
kraftmeiri hjól. Honda CB750 hjólin höfðu verið framleidd nær óbreytt í heilan áratug og þó að þau
séu sjálfsagt einhver best heppnuðu hjól allra tíma þurfti Honda að koma með eitthvað nýtt og byltingarkennt. En – hvað og hvernig átti það að vera? Markaðsfræðingar fyrirtækisins beittu aðferð sem ekki hefur oft verið notuð í seinni tíð; að spyrja blaðamenn tímaritanna sem fjölluðu um mótorhjól. Blaðamennirnir voru sammála um það að glampinn í augum kyndilberans væri að slokkna.

Honda yrði að koma með mótorhjól sem væri yfirlýsing. Yfirlýsing um stórhug, glæsileika og
tæknilega getu.  Sex strokka línuvél í mótorhjóli hafði reyndar sést áður. Ítalski  bifhjólaframleiðandinn Benelli hafði framleitt slík hjól og Honda-verksmiðjurnar sjálfar höfðu framleitt kappaksturshjól á árunum upp úr 1960 sem voru með 6 strokka í línu. 250 rúmsentimetra hjól sem hétu RC-166 og unnu fjölda heimsmeistaratitla á árunum 1961-1967 m.a. með „Bike-Mike“, Mike Hailwood, við stýrið. Það var einmitt á þeirri hönnun sem Honda CBX var byggt. Það er þó mun meira að vöxtum: Vélin er 1047 rúmsentimetra, 24 ventla og skartar sex púströrum og hljómar eins og sex malandi kettlingar. Ýmsar útfærslur eru síðan til í hljóðkútum, flækjur, 6 í einn, hefðbundinn 6 í 2 og loks 6 í 6 þar sem hver strokkur hefur sinn hljóðkút. Eitt slíkt kerfi mun vera væntanlegt til landsins og verður gaman að heyra í því hjóli.
Það munu vera 15 CBX hjól á landinu og 11 til 12 af þeim gang fær. Þar af eru 8 á yjafjarðarsvæðinu.
CBX var aðeins framleitt í fjögur ár, frá 1979-82. Þau voru kraftmestu hjólin þegar þau komu fram
en voru milduð ögn strax árið eftir því stimpilstangirnar áttu til að slitna á mesta snúningi og  bókstaflega saga mótorinn í sundur.  1981 árgerðin var töluvert breytt. Þá voru CBX orðin ferðahjól með vindhlífum, töskum og mýkri fjöðrun. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg CBX-hjól voru framleidd en að líkindum hafa þau verið á bilinu 40-60.000. Langmest var framleitt af 1979 árgerðinni, vel á þriðja tug þúsunda. Framleiðslunni var hætt 1982, enda hjólin dýr í framleiðslu og önnur 4 strokka hjól orðin öflugri.
TENGLAR ..............................................
www.cbxclub.com
www.cbxworld-.com
 www.timscbx.com
www.cbx6.co.uk www.cbx.dk
_____________________________________________________Morgunblaðið 3.6.2005___________

Eins og Buick meðal hjóla

Akureyringarnir Baldvin Ringsted og Stefán Finnbogason hafa verið þungt haldnir af mótorhjóladellu frá unga aldri. Þeir aka báðir á CBX og hafa að auki nýlega flutt inn nokkur slík hjól til viðbótar.


Stefán: Þetta eru hvorki sneggstu hjólin né þau kraftmestu. Miðað við hjól sem eru framleidd í dag eru þau þung og svifasein en þau líða áfram stabíl og fín. Það er ekki hægt að henda þeim til – þú
ert ekki sneggstur fyrir horn en þau fara best með þig. Eins og Buick meðal hjóla.
Baldvin: Í fyrsta skipti sem ég sá mynd af CBX ákvað ég að ég yrði að eignast svona hjól. Það kom ekkert annað til greina. Það sem ég er ánægðastur með er að það er engin grind fyrir framan vélina, ekkert sem skemmir útsýnið á mótorinn.
 Stefán: Þetta voru rándýr hjól á sínum tíma. Ég var heppinn, hjólið mitt er eitt af svokölluðum skólahjólum. Honda-verksmiðjurnar létu framhaldsskólum í Bandaríkjunum í té nokkur hundruð svona hjól til notkunar í vélvirkja- og tækninámi. Í skólunum voru þau ýmist skrúfuð í frumeindir eða hreinlega gleymdust einhvers staðar úti í horni og ég var svo heppinn að rekast á eitt slíkt á spjallrásum CBX-manna. Það var ekki keyrt nema tæpar tvær mílur þegar ég fékk það.
Hvaða athugasemdir heyrast helst um þessi hjól?
 Baldvin: „Er þetta virkilega sex strokka?“ eða „Nei, nei, sex strokka línuvél!“
Stefán: „Er þetta framleitt svona?“ Stefán er vélstjóri og þekktur fyrir að fara ekki alltaf troðnar slóðir. Hann segir að nokkrir hafi skriðið undir hjólið, alveg vissir um að hann hefði búið þetta til úr tveimur vélum.
Baldvin: Hér áður fyrr voru flestir mótorhjólamenn áhugamenn um mótorhjól og vissu sitthvað um sögu þeirra og þekktu helstu hjólin, þar með CBX. Nú hin síðari ár vilja margir helst keyra á krómi slegnum loftpressum og spá ekki í neitt annað en það hvernig þeir taki sig út á hjólunum sínum.

Þýðgengi þessara véla er engu líkt.

Ef þú kemur að Harley-Davidson í hægagangi hendist stýrið til um tommu eða tvær en leggirðu tebollann þinn á tankinn á CBX rétt gárast yfirborðið. Stefán: Í hægagangi hljómar vélin eins og sex malandi kettlingar. Þegar þú gefur í heyrast engir skellir og læti heldur hvinur eða þytur. Mér heyrist menn vera ansi heittrúaðir.
Stefán: Það eru nú margir H/D menn ansi skemmdir.
Baldvin: Ég vil nú fremur kalla þetta ást en trú. Það er erfitt að skilgreina þessa ást. Það er kannski alltaf erfitt að skilgreina ást?
 Stefán: Þetta eru sjaldgæf hjól og menn sem eignast þau láta þau ógjarnan af hendi.
Baldvin: Það eru starfandi eigendaklúbbar í Evrópu, Ameríku, Japan og víðar. Það má greina töluverðan mun á afstöðu til hjólanna á þessum þremur stöðum; í Evrópu er mikið um sérsmíðuð
hjól, nýjustu gerðir af fjöðrun og oft er ekkert upprunalegt nema vélin. Í Bandaríkjunum er mikið
lagt upp úr því að hafa allt upprunalegt, helst eins og hjólið kom af færibandinu. Í Japan eru menn
mikið að mixa saman hlutum úr nýrri Hondum.
Má tala um íslensk sérkenni? 
Stefán: Ætli það sé ekki helst króm? Baldvin: Ég verð að viðurkenna að íhaldssemin minnkar ekki með árunum. Mér verður illt af því að sjá myndir af CBX-chopperum. Mér finnst þar illa farið með fallega mótora en mildar útlits-, fjöðrunar- og aflbreytingar eru í lagi.
Er starfandi íslenskur CBXklúbbur?
 Baldvin: Á sínum tíma var „Sexý-félagið“ félagsskapur allra sex strokka hjóla á landinu. Nú hefur CBX-hjólunum fjölgað það mikið að vert er að fara að stofna félag og verður það gert á Akureyri 17. júní. Ég hef tekið saman myndir og sögu allra CBX hjólanna á landinu. Ég ætla að taka samantektina með mér á næsta Evrópumót CBX-manna sem verður haldið á Falstri í Danmörku 19.–21. ágúst næstkomandi.
Morgunblaðið 3.6.2005