21.3.05

Hvers vegna verða mótorhjól ósýnileg?

Þegar snjóa leysir og mótorhjólin fara að birtast á götunum þykir mótorhjólafólki oft ástæða til að minna á sig og ekki að óþörfu. Njáll Gunnlaugsson spyr hvers vegna sumir velviljaðir ökumenn keyra bíla í veg fyrir mótorhjól og stöðva svo þar skyndilega.


ÞETTA er spurning sem mótorhjólafólk hefur lengi velt fyrir sér og nú er komin fram kenning sem gæti varpað ljósi á málið. Samkvæmt nýlegum vísindalegum uppgötvunum verður mótorhjólið ökumönnum bíla því sem næst ósýnilegt þegar því er ekið beint í áttina að þeim. Þetta fyrirbæri kallast feluhreyfing og lætur hluti sem eru á hreyfingu beint í áttina að marki sínu, falla saman við bakgrunninn. Þegar mótorhjólið verður skyndilega sýnilegt aftur er fyrsta viðbragð ökumanns bílsins að frjósa og snarstoppa bílinn, oftar en ekki beint fyrir framan aðvífandi mótorhjólið. Þetta fyrirbrigði er vel þekkt úti í náttúrunni og drekaflugan notar þetta bragð til að koma bráð sinni á óvart.

Rekur í rogastans

Þessi feluhreyfing mótorhjólsins í áttina að bílnum gerist þegar mótorhjólinu er ekið í beina línu í átt að bílnum. Í huga ökumannsins virðist mótorhjólið ekki stækka og blandast það því saman við bakgrunninn og verður ósýnilegt. Heili ökumannsins er á þessu augnabliki stilltur til að nema hreyfingu og þess vegna verður hann ekki var við mótorhjólið. Þegar mótorhjólið nálgast svo að bílinn meira stækkar það og verður því ökumanninum skyndilega sýnilegt aftur svo að hann frýs í sporum sínum.
Feluhreyfingu þessari var fyrst lýst í kenningu Srinivasan og Davey árið 1995 um hvernig drekaflugur nota þessa tækni til að ráðast á bráð sína í loftinu. Það var svo breski mótorhjólakennarinn Duncan MacKillop sem kom auga á samhengið og staðfærði þetta yfir á það vel
þekkta fyrirbæri þegar svínað er fyrir mótorhjól.
„Feluhreyfing skordýrsins notfærir sér viðbragð  heilans við skyndilegri hreyfingu,“ útskýrir MacKillop. „Stafirnir sem eru til hliðar í sjónhimnunni eru næmari fyrir hreyfingu og vara okkur við henni.“

Mótorhjólið hluti af heildarmyndinni

Ökumaður bílsins lítur jafnvel til hliðar og sér sambland af húsum og bílum í fjarlægð, í mörgum litum og með mismunandi lögun, og mótorhjólamaðurinn verður hluti af þess ari heildarmynd. Allt lítur þetta út fyrir að vera ekki á hreyfingu og því á ökumaður bílsins sér einskis ills von, fyrr en við birtumst óvænt og hann rekur í rogastans. Í náttúrunni gerist þetta venjulega þegar drekaflugan er kominn mjög nálægt og hún notfærir sér hikið og grípur bráð sína.
   Vísindamenn hafa einnig sýnt fram á að hægt er að láta kanínu frjósa hreyfingarlausa með því einu að láta skugga nálægt henni stækka skyndilega. Samkvæmt slysatölum í Bretlandi er ákomustaður mótorhjóla í þessum slysum venjulega á milli framhjóls og A-bita bílsins, sem að gefur til kynna að mótorhjólið verður ökumanninum ekki sýnilegt fyrr en mjög nálægt gatnamótunum.
   Hvað er hægt að gera? Engar tilraunir hafa verið gerðar á þessu fyrirbrigði varðandi mótorhjól ennþá en MacKillop gerði sínar eigin tilraunir sem virðast styðja mál hans. Hann uppgötvaði að hægt er að gera sig sýnilegri. „Ef maður færir sig nær brúninni þegar maður nálgast gatnamót viðheldur það feluhreyfingunni en ef maður heldur sig í beinni línu fjærst vegarbrúninni verður maður sýnilegri fyrr,“ segir MacKillop.
   Þetta styður það sem haldið hefur verið fram um bestu stöðu mótorhjóls á akrein. MacKillop uppgötvaði líka að hægt er að vara bílstjórann við aðvífandi mótorhjóli þannig
að hann sjái það mun fyrr. „Ég komst að því að smávegis svig á akreininni varð þess valdandi að bílstjórinn leit snöggt í áttina að mér og stoppaði áður en að hann kom út á gatnamótin. Sem bifhjólakennari á ég þó erfitt með að ráðleggja fólki að stunda svig í umferð þar sem taka verður inn í dæmið hraðann. Hjólafólk verður að nota skynsemina og muna hversu ósýnileg við virðumst vera öðrum í umferðinni. Þess vegna er alltaf best að hægja á sér við varhugaverð gatnamót,“ segir Mackillop ennfremur.
Morgunblaðið 18 mars 2005

16.3.05

Fagurkeri á glansandi gæðingi (2005)

Guðbjörg Sigurðardóttir fann draumahjólið á Guggenheim-safninu í New York

 Þegar Guðbjörg Sigurðardóttir, verslunareigandi og óperuunnandi með meiru, sest upp á fákinn sinn og þeysist út í íslenska náttúru er það ekki til að slá hraðamet og finna adrenalínið streyma um æðar, jafnvel þótt farskjótinn gangi fyrir vélarafli og það af kröftugu gerðinni. Þvert á móti segist hún ekki hafa minnsta áhuga á  glannaskap eða fífldirfsku þegar hún ferðast um á Harley Davidson mótorhjólinu sínu. „Það er ekki til töffari í mér,“ segir hún með áherslu. Þrjú ár eru