27.4.03

Mótorfákar sýndir

BIFHJÓLAFÉLAG Borgarfjarðar; Raftar, stóð fyrir mótorhjólasýningu á sumardaginn fyrsta í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi.
BIFHJÓLAFÉLAG Borgarfjarðar; Raftar, stóð fyrir mótorhjólasýningu á sumardaginn fyrsta í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Sýnd voru um 20 mótorhjól í eigu Raftanna auk um 30 mótorhjóla, fjórhjóla, vélsleða, fatnaðs og fylgibúnaðar frá ýmsum umboðum og seldust strax tvö hjól. Stöðugur straumur fólks var inn og út úr Íþróttamiðstöðinni allan daginn. Margir vélhjólamenn úr öðrum klúbbum komu á sýninguna, m.a. frá Selfossi og Keflavík og mátti um tíma líta um 80 hjól fyrir utan Íþróttamiðstöðina. Sýning með svipuðu sniði og í ár var haldin í fyrra og stefna Raftar að því að gera hana að árvissum atburði.
Bifhjólafélagið Raftar var stofnað 2001 og eru félagar 40 talsins bæði karlar og konur. Klúbburinn er opinn öllum frá 17 ára aldri sem áhuga hafa á hjólum og hjólaferðum, en ekki er skilyrði að eiga hjól.
MBL

11.4.03

Fullorðinshjól fyrir ferðaglaða

REYNSLUAKSTUR BMW R 1150 GS 

Í ÁR eru 80 ár síðan BMW-mótorhjól komu fyrst á markað. Og fyrir rúmum tveimur áratugum skópu BMWverksmiðjurnar í Bæjaralandi svo að segja nýja gerð mótorhjóls: stórt ferða-enduro-hjól. Það hét þá BMW R80 G/S. Þetta hjól, sem í raun opnaði yfirleitt möguleikann á því að halda í sannkölluð langferðalög á mótorhjóli, hefur verið þróað og betrumbætt í áföngum síðan. Nútímaútgáfan af þessu hjóli, BMW R 1150 GS, hefur um árabil verið mest selda mótorhjól á stærsta mótorhjólamarkaði Evrópu, þ.e. á heimamarkaði BMW í Þýzkalandi. Og unnið samanburðarreynsluakstra í virtustu mótorhjólatímaritum ár eftir ár eftir ár. Þeir eru ófáir, þýzku ferðamennirnir sem lagt hafa leið sína um vegi og hálendi Íslands á svona hjólum. Enda vart finnanlegt farartæki á tveimur hjólum sem er betur fallið til að skila ökumanni – og farþega og farangri – af öryggi og áreiðanleika í gegnum slík ferðalög. Það kann því að undra að enginn hefur sinnt því að selja Íslendingum þessi fjölhæfu hjól, sem svo vel hafa reynzt til ferðalaga hérlendis. Orðstír BMW-mótorhjóla er þó það mikill, að fullyrða má að flest íslenzkt mótorhjólaáhugafólk þekki til þessara hjóla, þrátt fyrir að enginn sé virkur innflytjandinn. Það var því kærkomið tækifæri sem blaðamanni bauðst nú á haustdögum, að prófa sem nýtt svona hjól, sem einkaaðili flutti til landsins.

Traustvekjandi „ranadýr“



Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar BMW R 1150 GS er skoðað í návígi er hversu mikill „karakter“- gripur er hér á ferð. Engar málamiðlanir. Traustvekjandi. Og það er stórt. Sumir myndu jafnvel segja klunnalegt. Það leynir sér ekki hvers vegna viðurnefnið „ranadýr“ hefur festst við þessi hjól í umfjöllun þýzkra mótorhjólablaðamanna um þau. Ranalegt efra frambrettið teygir sig fram frá stýrinu og yfir því tróna, mjög framarlega, misstór framljósin, mælaborðið og vindhlífarskyggnið. Deila má um hversu falleg þessi hönnun er, en eitt er víst að hún gefur hjólinu mikinn karaktersvip. Það sem þó sker þetta hjól frá öðrum „venjulegum“ hjólum er fyrst og fremst þrennt: útstæðir strokkar boxer-vélarinnar, lokað drifskaft og svonefnd telelever-fjöðrun að framan í stað hefðbundinna gaffalhöggdeyfa. Það er heldur ekki hefðbundið stell eða burðarrammi í hjólinu, heldur er vélarhúsið sjálft aðalburðarstykki hjólsins, og á það eru fram- og afturhluti hjólsins festir. GS-týpan af R-línu BMW er annars ótvírætt af ætt enduro-hjóla; fjöðrunin há, teinafelgur, breitt stýri og ökumaður situr uppréttur. Auk þess er tankurinn stór og minnir á keppnisútgáfu hjólsins, sem á síðustu tveimur áratugum hefur verið fádæma sigursæl í París-Dakar-eyðimerkurrallinu fræga. Sem þýðir að hjólið kemst langar vegalengdir án þess að þurfa að hafa viðkomu á benzínstöð. Allur frágangur er hinn vandaðasti og stemmir við gæðaorðstír BMW. Og þegar maður fer að kynnast hjólinu rennur upp fyrir manni hve margar smáatriðalausnir eru þaulhugsaðar. Þá lærir maður líka að meta allan útbúnaðinn, svo sem ABS-hemlakerfið, telelever-fjöðrunina og þægindi eins og hita í stýrishandföngunum og svo til viðhaldslaust drifskaftskerfið í stað opinnar drifkeðju. Þetta síðastnefnda atriði gerir líka að verkum að það er jafneinfalt að skipta um dekk að aftan og á bíl. Þegar sett er í gang finnst hvernig hreyfingar stimplanna í boxervélinni toga lítillega í hjólið til hliðanna. Hjólið er vissulega stórt og mikið og plássið gott. En þegar tekið er af stað kemur á óvart hve meðfærilegt hjólið er; hjálpast þar að merkilega þýðgeng boxervélin sem skilar miklu togi strax við lágan snúning og fjöðrunarkerfið, sem t.a.m. léttir öllum höggum af stýrinu og leiðir þau – með hjálp telelever-armsins – inn undir mitt hjólið, þar sem framdemparinn er. Hjólið er heldur alls ekki eins þungt og ætla mætti; með 22 l benzíntankinn fullan vegur það rétt um 250 kg. Það hjálpar manni líka að hafa ekki áhyggjur af þyngdinni þegar maður veit hve einfalt er að reisa hjólið við, fari það á hliðina. Þetta eintak er útbúið veltigrind, en jafnvel án hennar er hjólið hannað þannig að því á ekki að verða meint af því að fara á hliðina og með því að nýta sér vogarstangaraflið sem fæst með því að grípa um endann á stýrinu er lítið mál að lyfta því á réttan kjöl. Þannig að lendi ökumaður í því að festa hjólið í sandi eða drullu er lausnin sú að henda hjólinu á hliðina, fylla upp í holuna þar sem hjólið gróf sig niður, rétta það aftur við og aka áfram.

Klettstöðugt 


Þegar komið er út úr borgarumferðinni á krókóttan íslenzkan þjóðveg fara aksturseiginleikar hjólsins fyrst að skína fyrir alvöru. Hjólið er svo
klettstöðugt á ferð, hvort sem er á beinum vegarköflum eða í beygjum að það undrar ekki hvað keppinautarnir hafa átt erfitt með að skáka því sem þetta hjól hefur að bjóða. Boxervélin rífur hjólið áfram á liggur við hvaða snúningi sem er, en hún vill helzt ekki láta snúa sér yfir 7.000 snúninga; þá er titringur orðinn tilfinnanlegur. Þetta er „torkari“ sem hvetur ökumann til afslappaðs akstursstíls – hægt er að leyfa sér letilegar skiptingar, engin þörf á að halda vélinni á háum snúningi eins og margar (fjögurra strokka) mótorhjólavélar krefjast. En vegna þess hve fjöðrunin „getur“ mikið og miðlar ökumanni mikilli öryggistilfinningu, sama hvernig undirlagið er, getur þetta hjól sannarlega skilað manni áfram. Þar á bremsukerfið einnig mikinn hlut að máli. BMW var fyrsti mótorhjólaframleiðandinn til að bjóða upp á ABS-hemla, og þetta er kerfi sem sannarlega virkar. Það samtengir fram- og afturbremsurnar og ef þörf er á að nauðhemla nægir að taka duglega í frambremsuhandfangið og þá er eins og varpað sé út akkerum; hjólið staðnæmist áður en maður veit af, og gerir það eins og það hafi ekkert fyrir því. Til dæmis dýfist það svo til ekkert niður að framan, þar sem framfjöðrunararmurinn færir hemlunarátakið inn undir mitt hjólið. Hægt er að aftengja kerfið með einum takka, sem er ráðlegt í torfærum. Loks er vert að nefna töskukerfið sem fylgir hjólinu og gerir það klárt í langferðir. Mjög einfalt og fljótlegt er að smella töskunum á og af hjólinu, og þær trufla ekki jafnvægi þess á ferð. Burðarþol hjólsins er yfir 200 kg. Í stuttu máli er BMW R 1150 GS ferðahjól sem sannarlega stendur undir nafni, en er jafnframt meðfærilegra en mann grunar þegar það er fyrst barið augum. Þetta er vel smíðað og traust mótorhjól sem býr yfir mjög fjölbreyttum hæfileikum. Þetta er fullorðinshjól fyrir ferðaglaða. Það má geta þess að á næsta ári er væntanleg næsta uppfærsla af þessu metsöluhjóli BMW, sem mun heita R 1200 GS, þar sem rúmtak vélarinnar vex lítið eitt. Annars litlu breytt. Þar sem ekkert er virkt umboðið fyrir BMW-mótorhjól hérlendis er erfitt að fullyrða hvað svona hjól myndi kosta nýtt, hingað komið. Grunnlistaverð í Þýzkalandi er um 11.000 evrur, andvirði 980.000 kr., að meðtöldum 16% virðisaukaskatti. 

Auðunn Arnórsson
auar@mbl.is
29. OKTÓBER 2003