31.3.19

Tíuspilið

Hafið þið ekki séð mótorhjólatöffara og mótorhjólapæjur þeysa um stræti borgarinnar og þjóðvegi landsins? Kjánalega spurt, auðvitað hafið þið séð þetta fólk, klætt í svarta leðurjakka, leðurbuxur og leðurstígvél með alls konar silfurlitar bólur, hnappa, hlekki og heilu keðjurnar þvers og kruss um gallana og stígvélin og auðvitað með hjálm á höfðinu. Ef þið haldið að þetta sé gert fyrir töffaraskapinn einan er það ekki rétt, leðurklæðnaðurinn er til þess að hlífa mótorhjólafólkinu ef það verður fyrir hnjaski hvers konar. Á hraðanum 50 km innanbæjar og 90 km úti á þjóðvegunum er ekki neitt grín að detta af mótorhjóli. Ef ekki væru leðurgallinn og hjálmurinn myndi húðin flettast af og meira en það. Mótorhjólafólk á íslandi hefur með sér félagsskap sem kallast Tían -  Bifhjólaklúbbur Norðuramts.

Margir félagar í Tíunni eru með merki samtaka sinna á gallanum sínum, Mótorhjólamann sem er að detta af mótorhjóli sem er teikning af listaverki sem heitir "Fallið" og er það staðsett í Varmahlíð og er til minningar um fallna Mótorhjólamenn.