8.7.15

Landsmót bifhjólafólks haldið í Eyjum um síðustu helgi: (2015)

Framvarðasveitin: Tryggvi Sig, Hjalti Hávarðar,
Jenni, Óskar og Steini Tótu.

Hópakstur á 90 hjólum og nokkur hundruð hestöflum... 

Dansað og djammað í Herjólfsdal :: Allt fór vel fram, segja Drullusokkar sem stóðu að mótinu

Þau voru mörg hestöflin sem saman voru komin í Herjólfsdal þar sem bifhjólafólk á Íslandi hélt landsmót. Alls voru um 200 manns mótinu og um 90 hjól sem vöktu mikla athygli þegar þau fóru um Heimaey í einni röð á laugardaginn. „Það vorum við í Drullusokkunum, bifhjólasamtökum  Vestmannaeyja, sem héldum mótið að þessu sinni,“ sagði Gunnar Adólfsson, Darri í Bragganum, þegar Eyjafréttir ræddu við hann að mótinu loknu. Var hann mjög ánægður með hvernig til tókst. „Hér áður voru það Sniglarnir sem sáu um landsmótið en undanfarin ár eru það minni
klúbbarnir sem taka að sér að halda það. Nú var komið að okkur og tókst bara vel.“
 Gist var í Herjólfsdal og fengu þau þjóðhátíðartjald ÍBV til afnota.
Darri segir að dagskráin hafi byrjað á föstudaginn á þrautakeppnum á hjólunum. Um kvöldið var slegið í dýrindis fiskisúpu og Jarl kom og tók nokkur lög við mikla ánægju gesta. Á eftir var ball með Sniglabandinu í tjaldinu og var dansinn stiginn fram á nótt. „Á laugardaginn fórum við hópakstur um bæinn og suður á eyju og voru 90 hjól í hópnum. Á eftir var spyrnukeppni á skellinöðrum í kringum tjörnina sem vakti mikla athygli og ekki síður kátínu. Á eftir grilluðum við lambakjöt sem rann ljúflega niður. Þá var komið að þætti Bjartmars Guðlaugssonar sem skemmti í heilan klukkutíma. Fór hann á kostum og hefur sjaldan verið betri.  Sniglabandið lék svo á ballinu sem stóð til klukkan fjögur. Þar með lauk velheppnuðu landsmóti og ég heyrði ekki annað en að gestir væru ánægðir með hvernig til tókst,“ sagði Darri.

Ómar Garðarsson
omar@eyjafrettir.is

https://timarit.is

30.6.15

Harleyinn hans Brandos seldur fyrir 256.000 dali

 

Eitt hæsta verð sem fengist hefur.


Harley Davidson FLH Electra-Glide mótorhjól af árgerð 1970 var selt hjá uppboðshúsinu Julien’s Auctions í Kaliforníu. Það væri varla í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Julien’s sérhæfir sig í sölu á munum sem tengjast fræga fólkinu og mótorhjólið var í eigu kvikmyndagoðsagnarinnar Marlons Brandos.

   Hjólið var splunkunýtt þegar Brando eignaðist það og ökutæki sem var mjög við hæfi leikarans enda lék frammistaða hans í kvikmyndinni The Wild One (1953) stórt hlutverk í að móta hugmyndir bandarískra kvikmyndahúsagesta um menningu mótorhjólagengja.

   Að sögn Gizmag var Brando mikill mótorhjólaunnandi sem þótti fátt skemmtilegra en að fara í langa hjólatúra. Hann minntist þess með hlýhug að ferðast á hjólinu um New York árla morguns, áður en mannlífið vaknaði til lífs, í hlýju sumarnæturinnar, klæddur í gallabuxur og bol með föngulegt fljóð á aftursætinu.

   Mótorhjólið sem selt var á uppboðinu var enda með 13.859 mílur á mælinum. Var hjólið slegið á 256.000 dali, jafnvirði rösklega 34 milljóna króna, og er þar með í hópi þeirra fimmtíu mótorhjóla sem hæst verð hefur fengist fyrir á uppboði. 

ai@mbl.is