23.4.13

HONDA MÓTORHJÓL – GÆÐI OG GOTT VERÐ

Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard


Bernhard í Vatnagörðum 24-26 hefur flutt inn Honda-mótorhjól í hálfa öld. Honda er þekkt fyrir gæðiog góða endingu. Mótorhjólamenning Íslendinga hefur þroskast mikið undanfarin ár.

Í fyrra voru fimmtíu ár síðan Bernhard hóf innflutning á Honda-mótorhjólum og því óhætt að segja að innanhúss sé að finna mikla þekkingu á merkinu. „Við erum með afar breiða línu af Honda-mótorhjólum. Allt frá fimmtíu kúbika torfæruhjólum fyrir sex ára krakka og upp úr,“ segir Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard. Hann segir mótorhjólamenningu Íslendinga hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum. „Þetta hefur breyst úr því að vera helgaráhugamál hjá þröngum hópi í að hjól eru notuð sem alhliða ferðatæki í vinnu, leik og ferðamennsku.“
Hlynur segir vinsælustu hjólin í dag vera ferðahjól. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn eftir hjólum sem eru bæði fyrir malbik og malarvegi og sem komast út fyrir hefðbundna vegi,“ útskýrir hann og bendir á að Bernhard bjóði upp á breiða línu í ferðahjólum enda algengt að pör stundi  hjólaferðamennsku saman og jafnvel heilu fjölskyldurnar líka

Hjól við allra hæfi

Hlynur segir helstu kosti Honda-bifhjólanna vera gæði og gott verð. „Honda er einn stærsti vélaframleiðandi í heimi og gæðin eru því í góðu lagi. Þá leggjum við hjá Bernhard mikinn metnað í að bjóða gott verð og mikið úrval af hjólum,“ upplýsir Hlynur. Hann segir öryggið einnig í fyrirrúmi enda leggi Honda mikið upp úr öryggisbúnaði á mótorhjólin sín. „Þeir voru til dæmis fyrstir til að hanna loftpúða á mótorhjól. Þá eru flestar gerðirnar sem í boði eru fáanlegar með ABS-hemlakerfi,“ segir Hlynur og bætir við að Bernhard sé með hjól við allra hæfi. „Hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna, þá eigum við rétta hjólið.“ Starfsmenn Bernhard búa yfir mikilli reynslu  og aðstoða fólk eftir bestu getu. „Þegar fólk er að kaupa sér hjól reynum við að greina áhugasvið þess og þarfir. Það er misjafnt eftir hverju fólk er að leita og við reynum að benda því í rétta átt hvað varðar stærð og afl.“ Verðið á mótorhjólunum frá Honda þykir gott. „Ný fullvaxin götuhjól er hægt að fá hjá okkur frá 1.099.000 krónum. Svo erum við líka með eldri módel, svokölluð eftirársmótorhjól, á
tilboðsverði og því hægt að gera góð kaup.“

Vespur í stað bíla

Fólk er í meiri mæli farið að nota vespur til að komast á milli staða að sögn Hlyns. „Bæði er þetta skemmtilegur lífsstíll en auk þess er þetta afskaplega praktískur ferðamáti,“ segir hann og nefnir sem dæmi að hægt sé að kaupa hjól sem eyði ekki nema 2,1 lítra á hundraði. „Við erum að selja 125  kúbika vespur og fólk er margt hvert farið að kaupa slík hjól í staðinn fyrir aukabíl á heimilið,“ segir Hlynur en þeir sem kaupa slík hjól eru iðulega fólk sem komið er yfir tvítugt. „Fjölskyldufólk nýtir vespuna oft í staðinn fyrir bíl númer tvö og sparar þannig heilmikið í rekstrarkostnað.“ Bernhard býður upp á vesputilboð um þessar mundir sem hljóðar upp á 569
þúsund krónur. „Þetta hjól, Honda PCX 125, er búið skemmtilegri og umhverfisvænni tækni sem kallast stopp/start tækni  líkt og í tvinnbílum. Þegar þú stoppar hjólið á ljósum drepur það á vélinni  eftir þrjár sekúndur og ræsir sig sjálfkrafa þegar þú gefur í til að fara af stað.“

Aukahlutir, fjármögnun og viðgerðir

 Bernhard býður upp á mikið úrval aukahluta á hjólin sín. Þá hefur fyrirtækið yfir að ráða fullkomnu bifhjólaverkstæði í Vatnagörðunum. Fjármögnun á bifhjólum á ekki að vera vandamál að sögn Hlyns. „Við aðstoðum fólk við það en í dag er hægt að fá tiltölulega háa fjármögnun á hjól,“ útskýrir hann. Þá séu tryggingar á hjól einnig orðnar sanngjarnari í dag en áður. Inntur eftir vinsældum mótorhjóla svarar Hlynur að gríðarleg aukning hafi orðið í mótorhjólasölu fyrir hrun. „Árið 2007 vorum við að selja hátt í fimm hundruð hjól á ári. Eftir hrun dró mikið úr sölunni en við bindum vonir við að þetta sé að breytast og okkur finnst sem áhuginn sé að glæðast á ný.“ Bernhard ehf. frumsýnir 2013 árgerðirnar af Honda-hjólum á sýningunni „allt á hjólum“ í Fífunni 4.-5. maí næstkomandi.
Fréttablaðið
23.4.2013

9.4.13

Mótorhjól er Fíkn

Félagar í ferðalok þeir Gunnar Friðriksson, Kristófer Sæmundsson,
Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson og Sæmundur Guðmundsson.
Seinnipart vetrar tóku fjórir Íslendingar sig saman og pökkuðu ofan í töskur fyrir einn hjólatúr. Hjólatúrinn var reyndar lengra í burtu en hjá flestum því ferðinni var heitið til Indlands þar sem þeir höfðu leigt sér Royal Enfield 500- hjól í tvær vikur. Þrír þeirra eru ekki óvanir mótorhjólum því þeir keyra þau tugi þúsunda kílómetra árlega í starfi sínu sem mótorhjólalöggur.

   En hvað fær menn sem vinna við að keyra mótorhjól til að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að hjóla langar vegalengdir? Viðmælandi okkar, Kristófer Sæmundsson, var snöggur til svars: „Mótorhjól eru fíkn. Fyrir tveimur árum fórum við einnig saman til Bandaríkjanna og hjóluðum Route 66 á Harley Davidson-hjólum.“

Bilanir á fyrsta leggnum

   Kristófer var aldursforsetinn í hópnum en samstarfsmenn hans, Gunnar Friðriksson og Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson, eru einnig alvanir hjólum. Sæmundur „bílasali“ Guðmundsson var sá fjórði og var hann fenginn til að sjá um prúttið sem er alvanalegt á þessum slóðum. 

   „Við lögðum af stað frá Íslandi 1. febrúar, sem var í lok ferðamannatímans þarna úti. Flogið var beint til Mumbai þar sem við vorum fjórar nætur á meðan verið var að gera allt klárt. Umferðin þarna var alveg hræðileg og strax á leiðinni frá flugvellinum á hótelið hugsaði maður bara í hvað við værum eiginlega komnir.“ 

   GPS vísaði veginn

   Þegar þeir félagarnir fóru að sækja Royal Enfield-hjólin bilaði eitt þeirra strax, fór ekki í gang og tók smástund að koma því í gagnið aftur. Var þeim fylgt áleiðis út úr miðborginni en þótt GPS væri með í för náðu þeir að villast strax. 

    ast strax. „Við höfðum þó af fyrir rest að komast út úr borginni og við hjóluðum frá Mumbai í suður eftir þjóðvegi 76 til Goa, sem var mjög skemmtileg leið og góðir vegir. Við vorum fjóra daga niður til Goa og gistum á þeim hótelum sem við fundum á leiðinni. Sama hjólið bilaði reyndar aftur á miðri leiðinni en þá fór bensíndælan í því. Við fundum viðgerðarmann til að hjálpa okkur en hann sagði okkur að bensíndælan væri ekki til og næsti staður til að fá hana væri 150 km í burtu, í Goa. Við neyddumst því til að draga það með öðru mótorhjóli langleiðina niðureftir.“

Óútreiknanleg umferð

Í Goa voru þeir með fast aðsetur í fjóra daga og hjóluðu út frá borginni, mest í suður. „Því næst fórum við með vesturströndinni aftur til baka í norður, en það var langskemmtilegasti hluti leiðarinnar. Þar varstu bara kominn í alvörusveit. Við settum okkur það að leiðarljósi að hjóla ekki í myrkri en einn daginn gekk okkur þó illa að finna hótel svo að við hjóluðum fram í myrkur. Þann dag vorum við alls tólf tíma á ferðalagi en samt fórum við bara um 200 kílómetra sem segir manni mikið hvernig vegirnir og leiðirnar þarna voru,“ segir Kristófer og heldur áfram: 

   „Á köflum leið manni eins og við værum að keyra eftir árfarvegi, slík var upplifunin. Þótt við fengjum góða vegi inn á milli sem buðu upp á meiri hraða vissi maður aldrei hvað tók við eftir næstu beygju eða blindhæð. Það gat verið vörubíll sem var með sprungið dekk á miðjum veginum, eða rúta að taka fram úr öðrum bíl á móti, eða þess vegna fullt af beljum eins við rákumst á.“

Báru hjólin um borð

   Á norðurleiðinni meðfram ströndinni þurftu þeir félagar að taka fimm ferjur á leið sinni. 
   „Þrjár þeirra voru það sem við mundum telja eðlilegar, nokkurs konar prammar þar sem hægt var að keyra um borð. Síðustu tvær voru hins vegar þannig að bera þurfti hjólin um borð. Þarna var megnið af umferðinni á mótorhjólum og þess vegna var þetta eðlilegur flutningsmáti þótt ferjurnar væru ekki beint gerðar fyrir svona flutninga. Við sáum allt í fimm á einu mótorhjóli, en það var fjölskyldufaðir með fjögur börn á hjólinu. Þegar við komum fyrst héldum við að Royal Enfield hlyti að vera algengasta hjólið þarna en því var nú ekki að heilsa. Þarna voru bara forstjórar og fyrirmenn sem áttu Royal Enfield. Þessi hjól minntu mann á gamlan Deutz-traktor úr sveitinni, maður heyrði svona einn smell við og við þegar mótorinn snerist. En það var gott tog í þessum hjólum þótt tilfinningin væri eins og maður væri kominn 50 ár aftur í tímann.“

Fullt af ævintýrum

Kristófer mælir samt með því við hvern sem er að prófa svona ævintýri og ekki þurfti mikið fé til að hafa það gott á leiðinni. „Fátæktin var samt alveg gríðarleg þarna og þegar maður er kominn heim getur maður ekki skilið hvað fólk er að kvarta.“

   Þeir félagar eru strax farnir að skipuleggja næstu ferð en vilja þó ekki láta uppi hvert förinni er heitið. Eflaust verður hún þó full af ævintýrum eins og þessi.

njall@mbl.is 
Morgunblaðið 9.4.2013