9.4.13

Mótorhjól er Fíkn

Félagar í ferðalok þeir Gunnar Friðriksson, Kristófer Sæmundsson,
Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson og Sæmundur Guðmundsson.
Seinnipart vetrar tóku fjórir Íslendingar sig saman og pökkuðu ofan í töskur fyrir einn hjólatúr. Hjólatúrinn var reyndar lengra í burtu en hjá flestum því ferðinni var heitið til Indlands þar sem þeir höfðu leigt sér Royal Enfield 500- hjól í tvær vikur. Þrír þeirra eru ekki óvanir mótorhjólum því þeir keyra þau tugi þúsunda kílómetra árlega í starfi sínu sem mótorhjólalöggur.

   En hvað fær menn sem vinna við að keyra mótorhjól til að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að hjóla langar vegalengdir? Viðmælandi okkar, Kristófer Sæmundsson, var snöggur til svars: „Mótorhjól eru fíkn. Fyrir tveimur árum fórum við einnig saman til Bandaríkjanna og hjóluðum Route 66 á Harley Davidson-hjólum.“

Bilanir á fyrsta leggnum

   Kristófer var aldursforsetinn í hópnum en samstarfsmenn hans, Gunnar Friðriksson og Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson, eru einnig alvanir hjólum. Sæmundur „bílasali“ Guðmundsson var sá fjórði og var hann fenginn til að sjá um prúttið sem er alvanalegt á þessum slóðum. 

   „Við lögðum af stað frá Íslandi 1. febrúar, sem var í lok ferðamannatímans þarna úti. Flogið var beint til Mumbai þar sem við vorum fjórar nætur á meðan verið var að gera allt klárt. Umferðin þarna var alveg hræðileg og strax á leiðinni frá flugvellinum á hótelið hugsaði maður bara í hvað við værum eiginlega komnir.“ 

   GPS vísaði veginn

   Þegar þeir félagarnir fóru að sækja Royal Enfield-hjólin bilaði eitt þeirra strax, fór ekki í gang og tók smástund að koma því í gagnið aftur. Var þeim fylgt áleiðis út úr miðborginni en þótt GPS væri með í för náðu þeir að villast strax. 

    ast strax. „Við höfðum þó af fyrir rest að komast út úr borginni og við hjóluðum frá Mumbai í suður eftir þjóðvegi 76 til Goa, sem var mjög skemmtileg leið og góðir vegir. Við vorum fjóra daga niður til Goa og gistum á þeim hótelum sem við fundum á leiðinni. Sama hjólið bilaði reyndar aftur á miðri leiðinni en þá fór bensíndælan í því. Við fundum viðgerðarmann til að hjálpa okkur en hann sagði okkur að bensíndælan væri ekki til og næsti staður til að fá hana væri 150 km í burtu, í Goa. Við neyddumst því til að draga það með öðru mótorhjóli langleiðina niðureftir.“

Óútreiknanleg umferð

Í Goa voru þeir með fast aðsetur í fjóra daga og hjóluðu út frá borginni, mest í suður. „Því næst fórum við með vesturströndinni aftur til baka í norður, en það var langskemmtilegasti hluti leiðarinnar. Þar varstu bara kominn í alvörusveit. Við settum okkur það að leiðarljósi að hjóla ekki í myrkri en einn daginn gekk okkur þó illa að finna hótel svo að við hjóluðum fram í myrkur. Þann dag vorum við alls tólf tíma á ferðalagi en samt fórum við bara um 200 kílómetra sem segir manni mikið hvernig vegirnir og leiðirnar þarna voru,“ segir Kristófer og heldur áfram: 

   „Á köflum leið manni eins og við værum að keyra eftir árfarvegi, slík var upplifunin. Þótt við fengjum góða vegi inn á milli sem buðu upp á meiri hraða vissi maður aldrei hvað tók við eftir næstu beygju eða blindhæð. Það gat verið vörubíll sem var með sprungið dekk á miðjum veginum, eða rúta að taka fram úr öðrum bíl á móti, eða þess vegna fullt af beljum eins við rákumst á.“

Báru hjólin um borð

   Á norðurleiðinni meðfram ströndinni þurftu þeir félagar að taka fimm ferjur á leið sinni. 
   „Þrjár þeirra voru það sem við mundum telja eðlilegar, nokkurs konar prammar þar sem hægt var að keyra um borð. Síðustu tvær voru hins vegar þannig að bera þurfti hjólin um borð. Þarna var megnið af umferðinni á mótorhjólum og þess vegna var þetta eðlilegur flutningsmáti þótt ferjurnar væru ekki beint gerðar fyrir svona flutninga. Við sáum allt í fimm á einu mótorhjóli, en það var fjölskyldufaðir með fjögur börn á hjólinu. Þegar við komum fyrst héldum við að Royal Enfield hlyti að vera algengasta hjólið þarna en því var nú ekki að heilsa. Þarna voru bara forstjórar og fyrirmenn sem áttu Royal Enfield. Þessi hjól minntu mann á gamlan Deutz-traktor úr sveitinni, maður heyrði svona einn smell við og við þegar mótorinn snerist. En það var gott tog í þessum hjólum þótt tilfinningin væri eins og maður væri kominn 50 ár aftur í tímann.“

Fullt af ævintýrum

Kristófer mælir samt með því við hvern sem er að prófa svona ævintýri og ekki þurfti mikið fé til að hafa það gott á leiðinni. „Fátæktin var samt alveg gríðarleg þarna og þegar maður er kominn heim getur maður ekki skilið hvað fólk er að kvarta.“

   Þeir félagar eru strax farnir að skipuleggja næstu ferð en vilja þó ekki láta uppi hvert förinni er heitið. Eflaust verður hún þó full af ævintýrum eins og þessi.

njall@mbl.is 
Morgunblaðið 9.4.2013