4.4.13

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS

Mótorhjólasafn Íslands, að Krókeyri á Akureyri, var stofnað 20. desember árið 2007 til minningar um Heiðar Þ.Jóhannsson sem lést sunnudaginn 2. júlí 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. 

Slysið varð í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla sem haldið var að Hrífunesi. Heiðar, eða Heiddi eins og hann var ætíð kallaður, var af flestum bifhjólamönnum á Íslandi talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. Heiðar hafði í mörg ár safnað mótorhjólum og
hjólatengdum munum og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Heiðar lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Stofnum Mótorhjólasafns Íslands er til minningar um Heiðar og mun á safninu vera starfrækt sérstök minningardeild þar sem hjól og munir hans verða sýndir og varðveittir.

Safnið

 Á hjóladögum á Akureyri sumarið 2008 var tekin fyrsta skóflustungan að glæsilegri 800 fermetra byggingu á Akureyri undir safnið. Notaðar voru tíu samanhlekkjaðar skóflur við gjörninginn en þær voru mannaðar níu mönnum ásamt Heiðari sjálfum (í anda) á þeirri tíundu. Í dag á safnið tæplega fimmtíu mótorhjól og mikinn fjölda af hjólatengdum munum og ljósmyndum sem spanna alla sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Starfsemin

Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og þau áhrif sem hann hafði á hjólamenningu  landsmanna. Auk hefðbundinnar safnastarfsemi er hugmyndin að skapa athvarf fyrir hjólafólk hvort heldur sem það eru Akureyringar eða annað hjólafólk á ferð um landið. Meðal þess sem starfrækt  verður í tengslum við Mótorhjólasafn Íslands er minjagripasala, ráðstefnu- og veislusalur, vetrargeymsla á hjólum, sölusýningar og samstarf við umboð, þrifaðstaða fyrir hjól, kaffitería, umferðarfræðsla, námskeið og fundaraðstaða ásamt öðrum hugsanlegum jaðarrekstri.

Hollvinafélag safnsins – Tían 

Í janúar árið 2007 var Bifhjólaklúbburinn Tían stofnuð og er hún hollvinafélag  safnsins. Tían hefur í dag um 260 meðlimi sem tilbúnir eru til að leggja fram vinnu, aðstoð og að stuðla að uppbyggingu og hagsmunum safnsins. Margir félagsmenn Tíunnar og aðrir velunnarar safnsins hafa boðist til að lána safninu hjól og aðra gripi til varðveislu eða á einstakar sýningar. Mótorhjólasafn Íslands er sjálfseignarstofnun sem ætlað er að standa undir rekstri safnsins og annarri starfsemi.